laugardagur, janúar 21, 2023

Ég lifi enn – sönn saga

Eftir Rebekku A. Ingimundardóttur, Þóreyju Sigþórsdóttur, Ásdísi Skúladóttur og leikhópinn. Leikstjórn: Rebekka A. Ingimundardóttir og Ásdís Skúladóttir. Listræn stjórnun og leikmynd: Rebekka A. Ingimundardóttir. Dramatúrg: Hlín Agnarsdóttir. Dans- og hreyfihönnun og lýsing: Juliette Louste. Búningar: Hulda Dröfn Atladóttir. Tón- og hljóðsmíðar: Steindór Grétar Kristinsson. Lagasmíðar og kórstjórn: Gísli Magna Sigríðarson. Myndbandshönnun: Stefanía Thors. Leikarar: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Ásdís Skúladóttir, Halldóra Rósa Björnsdóttir, Helga E. Jónsdóttir, Ingibjörg Gréta Gísladóttir, Jón Hjartarson, Sæmi Rokk Pálsson, Þórey Sigþórsdóttir og Breiðfirðingakórinn. Sviðslistahópurinn Blik Productions frumsýndi í Tjarnarbíói laugardaginn 7. janúar 2023.

Undarlegt ferðalag

Sennilega halda fá því fram að allt sé eins og best verði á kosið í lífskjörum aldraðra hér í þeirri álmu Hótel Jarðar sem heitir Ísland. Allsstaðar virðist skóinn kreppa, hvort sem það snýr að félagslegum möguleikum, fjárhagslegri velferð, húsnæði við hæfi eða viðeigandi umönnun. Umræðan um málefni aldraðra er stöðug og endurtekningarsöm, nánast kyrrstæð. Við vitum öll að flestra okkar bíður að finna á eigin skinni vanmátt kerfisins til að uppfylla þörfina fyrir áhyggjulaust æfikvöld, hvað þá gera sitt til að mæta óskum um innihaldsríkt líf á síðasta aldursskeiðinu. Engu að síður mistekst okkur kynslóð eftir kynslóð að búa í haginn. 
Drifkrafturinn að baki samsköpunarsýningarinnar Ég lifi enn – sönn saga er þessi vandræðalega staðreynd. Hún er byggð á reynslu þátttakenda og höfunda, auk vinnu með eldri borgurum í vinnusmiðjum og viðtölum. Þær Halldóra Rósa Björnsdóttir, Ingibjörg Gréta Gísladóttir og Þórey Sigþórsdóttir bera sýninguna uppi, í spítalalituðum einkennisbúningum og ýmist í hlutverki fulltrúa kerfisins eða aðstandenda aldraðs og veiks fólks í glímu við þetta sama kerfi. 
Þaulagaður samleikur þríeykisins er mikið augnayndi, einfalt og vélrænt hreyfimunstrið einkar glæsilega útfært. Juliette Louste hreyfihönnuður sýningarinnar hefur unnið frábært starf með leikstjórunum Ásdísi Skúladóttur og Rebekki A. Ingimundardóttur við að móta þetta gangverk. Það sama á við um umgjarðarhönnuðina Rebekku A. Ingimundardóttur (Leikmynd), Huldu Dröfn Atladóttur (Búningar), Steindór Grétar Kristinsson og Gísla Magna Sigríðarson (tónlist og hljóðmynd), Juliette Louste (lýsing) og Stefaníu Thors (myndband). Allt vel gert.
Auk leikkvennanna þriggja eiga stuttar innkomur fulltrúar eldri kynslóðarinnar, þau Anna Kristín Arngrímsdóttir, Jón Hjartarson, Sæmi rokk og Helga Elínborg Jónsdóttir. Flytja eintöl, ávörp og brot úr ellitengdum textum. Að ógleymdum Árna Pétri Guðjónssyni sem birtist hvað eftir annað og segir frá lífi eldri borgara „í fullu fjöri“. Þá er ótalinn Breiðfirðingakórinn sem myndar talkór og hreyfihóp og ljær erindi sýningarinnar þunga með fjölmennri svartklæddri nærveru sinni. Það kitlar að sjálfsögðu þáþrána í hverjum leiklistarunnanda að sjá og heyra stjörnur gærdagsins. Eintölin voru tilfinningaþrungin og Árni Pétur launfyndinn og sér nánast einn um þá hlið mála þessa kvöldstund. 
Í lokin stígur síðan Ásdís Skúladóttir á stokk og orðar erindi sýningarinnar í snaggaralegri ræðu. Kallar eftir breytingum í aðstæðum og viðhorfum. Segir nei við ríkjandi ástandi. Við getum öll, og viljum flest, taka undir það.
Styður það sem á undan fer þessa brýningu Ásdísar? Ekki mjög vel, verður að segjast. Til þess hefur efniviðurinn verið eimaður of rækilega. Aðferð sýningarinnar byggir á óvenju róttækri og gegnumhugsaðri stílfærslu, sem frá fagurfræðilegum sjónarhóli tekst stórvel og hnökralítið,  þó það sjáist nokkrum sinnum að kórinn er ekki jafn sviðsvanur og fagfólkið. 
En aðferðin kostar. Hún felur hið mannlega, hið sértæka, sem hlýtur að hafa komið upp í rannsóknarvinnunni og býr örugglega í reynslu höfundanna sem þau sækja í. Þetta persónulega sem leikhús er best í að miðla.  Hvernig nákvæmlega ýtir samfélagið öldruðum til hliðar í hverju persónulegu tilfelli? Hvernig virkar ofurálagið á heilbrigðis- og ummönnunarkerfið á fólk af holdi og blóði, með eigin persónuleika, sögu, væntingar og einstakar aðstæður? Hverju geta úrbætur breytt, og hvað eru óhjákvæmilegir fylgifiskar ellinnar, eins og lífsins alls?  
Sýningin þreifar á þessum spurningum, en hún gerir það með hönskum líkum þeim sem þrenningin sem ber hana uppi skartar. Það vantar mannlega snertingu til að við séum tilbúin að taka undir eldræðu Ásdísar og ganga til verka, þó við vitum að þess sé þörf. Og höfum reyndar vitað það áður en við fengum okkur sæti í Tjarnarbíói.
Það fer ekki á milli mála að aðstandendum Ég lifi enn – sönn saga liggur mikið á hjarta. Það er heldur enginn vafi að fagurfræði sýningarinnar og listræn aðferð er gjörhugsuð og byggð á meðvituðum ákvörðunum. Hún mun kannski ekki breyta heiminum til hins betra á þann hátt sem stefnt var að, en er hinsvegar forvitnilegt dæmi um tilraun með óvenjulega aðferð til að gera leikhúsið að vettvangi og hvata til umræðu um brýnt þjóðfélagsmálefni. Sem eðli málsins samkvæmt má eiginlega engan tíma missa.