laugardagur, desember 27, 2003

BLESS FRESS

3 Sagas Entertainment Höfundur Robert Dubac, þýðandi Hallgrímur Helgason, leikstjóri Sigurður Sigurjónsson, leikari Þröstur Leó Gunnarsson, leikmynd og búningar Úlfur Grönvold, lýsing Sverrir Kristjánsson, tónlist og hljóðhönnun Friðrik Sturluson, raddir Unnur Ösp Stefánsdóttir og Helga Helgadóttir. Loftkastalinn 27. desember.  2003.


Enn um árans kjóann 


RÁÐALEYSI karlmanna í samskiptum sínum við konur er klassískt viðfangsefni í listum og skemmtiefni af öllu tagi. Lítill undirflokkur slíkra verka hefur orðið til á undanförnum árum, þar sem gengið er út frá eðlismun kynjanna og skopast með andstæða og að því er virðist ósamrýmanlega eiginleika karla og kvenna. Hellisbúinn er vitaskuld frægasta dæmið hér um slóðir, en allir gamanþættirnir um feitu sófakartöflurnar með fallegu og greindu eiginkonurnar eru af sama meiði. Og Bless fress er meira af því sama, nokkurs konar varnarræða árans kjóans hans Jóhanns, sem Jónas Árnason orti um og Þrjú á palli sungu um um árið. Ekkert er nýtt undir sólinni, sérstaklega ekki þegar kemur að samskiptum kynjanna. 


Í Bless fress er það hann Þröstur, eða Dösti til aðgreiningar frá leikaranum, sem er í klípu. Hann hefur sumsé níutíu mínútur til að skilja af hverju kærastan hans yfirgaf hann fyrir hálfum mánuði og hvað það er sem hún vill fá út úr sambandinu og lífinu. Eftir níutíu mínútur mun hún hringja og þá verður hann að hafa svör á reiðum höndum. En hann hefur ekki hugmynd um hvert svarið getur verið, og þótt hann hafi afbragðs vísbendingu – nafnið á kettinum hennar er lykilorðið yfir hvað hún vill fá út úr sambandinu við hann – þá man hann því miður ekki hvað kötturinn heitir. Megnið af þessum níutíu mínútur nýtir Dösti illa, réttlætir og útskýrir það sem hann sér sem karlmennsku sína og fjargviðrast yfir óskiljanleika kvenkynsins. En með hjálp fimm vina sinna dragast samt saman vísbendingar um hvað konur vilja, og að lokum telur hann sig hafa svarið. Sumar vangaveltur Dösta eru vitaskuld hlægilegar, sumt meira að segja af þeirri ágætu gerð gríns sem er fyndið af því að það er satt. Enda var mikið hlegið á frumsýningunni. 


En á heildina litið er Bless fress afleitt leikverk, illa uppbyggt, sundurlaust, klisjuborið og flatneskjulegt. Samband Dösta og Helgu, forsendan fyrir sögunni, verður nánast algerlega útundan meðan Dösti og félagar hans buna út úr sér viðteknum „sannindum“ um eðli karla og kvenna. Í stað þess að kynnast aðalpersónunni og sérstökum aðstæðum hennar fáum við níutíu mínútna langan stefnulausan fyrirlestur um útjaskað efni. Karlar hugsa með vinstra heilahvelinu, elska hunda en þola ekki ketti, eru rökvísir og þurfa sitt „speis“, eru með kynlíf á heilanum og muna ekkert stundinni lengur. Konur eru órökrænar tilfinningaverur sem stjórnast af hægra heilahvelinu og stýra karlmönnum með dyntum sínum og með því að breyta sífellt óskráðum reglunum sem þær hafa sett um samskipti kynjanna. Allt er þetta sett fram sem algild og óbreytanleg sannindi, en vandinn er að bæði er þetta orðið nokkuð margtuggið og þreytt, og auk þess, eins og flest einföld svör við flóknum spurningum, rangt. Það sem bjargar Bless fress frá því að vera alveg ómögulegt er frammistaða leikarans. 


Þröstur Leó Gunnarsson er afburða gamanleikari og flutti verkið með miklum krafti, einlægni og ísköldu öryggi hins þjálfaða listamanns sem hvílir í hæfileikum sínum og hlutverkinu. Frábærlega unnar tímasetningar skiluðu hlátri þar sem efnið gaf ekkert endilega tilefni til þess og allt samspil við áhorfendur var frjálslegt og eðlilegt. Auk Dösta bregður Þröstur sér í hlutverk vinanna fimm og fór létt með þau umskipti. Félagarnir voru reyndar misskemmtilegir, allir jafn klisjulegar persónur og við var að búast: hranalegur skipstjóri, franskur menningarviti, sjálfsöruggur og montinn Vestmannaeyingur, gamalmenni og heimskur smákrimmi. Skemmtilegastur var sá síðastnefndi, kostuleg skrípamynd hjá Þresti og sagan sem hann segir nánast eini staðurinn í verkinu þar sem prédikunartónninn víkur fyrir raunverulegum aðstæðum og atburðum sem varpa ljósi á samskiptavandann. Enda var þetta atriði líka einna fyndnast í sýningunni. 


Leikmynd Úlfs Grönvold er ekki mikið augnayndi, en gegnir sínu hlutverki og tjáir grunnhugsun sýningarinnar um heilahvelin tvö ágætlega. Þýðing og staðfærsla Hallgríms Helgasonar er vel heppnuð, og víða voru auðþekkjanleg fingraför Hallgríms á bröndurunum. Sigurður Sigurjónsson, leikstjóri sýningarinnar, hefur í samvinnu við Þröst Leó náð öllu því út úr þessu þunnildi sem hægt er með nokkurri sanngirni að ætlast til. 


Bless fress er lítilfjörlegt verk með heimskulegan boðskap, skreytt stöku vel heppnuðum brandara og skilað betur en það á skilið af frábærum gamanleikara. Ef það er nóg þá ætti fólk endilega að drífa sig í Loftkastalann, en bíða ella eftir að Þröstur, Hallgrímur og Sigurður finni hæfileikum sínum verðugra viðfangsefni. 

sunnudagur, desember 21, 2003

JÓLASÖGUR JÚLLA

eftir Júlíus Júlíusson. Fjórar sögur í flutningi höfundar, Júlíusar Júlíussonar, upptökur: Magnús G. Ólafsson, útgefandi: Júlli og Maggi 2003. 21. desember 2003.

Jólalög án tónlistar

DALVÍKINGURINN Júlíus Júlíusson er maður með mörg járn í eldinum. Leiklistarfrömuður, leikskáld og leikstjóri, umsjónarmaður hins víðfræga Veðurklúbbs, allt í öllu á bæjarhátíðinni Fiskideginum mikla. Á aðventunni færist síðan árlega líf í Jólavef Júlla, sem er einn veglegasti vefur landsins sem tileinkaður er hátíðinni, og vitaskuld einungis einn af mörgum vefjum sem Júlíus heldur úti af miklum myndarskap. Og nú hefur hann sent frá sér geisladisk með fjórum frumsömdum jólasögum sem hann les sjálfur. 

Sögurnar eru greinilega og að sjálfsögðu ætlaðar yngri kynslóðinni. Sú fyrsta, Blíð og bangsi litli, er meira að segja full af innskotum þar sem hlustendum er hjálpað að draga lærdóma af hinu fallega hugarfari og lífi sem lifað er í jólaenglalandinu þar sem Blíð og bangsinn hennar eru að undirbúa fullkomin jól. Allar eru þær reyndar fullar af boðskap um umhyggju, gjafmildi og góða siði. Andrúmsloftið er eiginlega eins og á jólakorti eða í jólalagi án tónlistar. 

Þessum sögum er fyrst og fremst ætlað að skapa andrúmsloft, innleiða jólagleði og -frið. Minna fer fyrir öðrum mikilvægum atriðum í sagnagerð, svo sem fléttu, hvörfum, spennu, húmor eða tilþrifum í máli og stíl. Það er einna helst í síðustu sögunni, Jólatöfrum, sem framvindan skiptir einhverju máli, enda er hún trúlega best heppnuð þeirra. Miðsögurnar tvær, Jólatréð og Jól hjá bæjarstjóranum, eru afar áreynslulausar lýsingar á góðverkum sem fylla bæði gefanda og þiggjanda sönnum jólafrið. Flutningur höfundar er að sama skapi áreynslulaus en stundum helst til of tilþrifalítill – einkum í fyrstu sögunni sem sárlega þarf á meiri tilbreytingu að halda milli frásagnar, beinnar ræðu og fyrrnefndra athugasemda sem beint er til hlustendanna. 

Það er auðvitað góðra gjalda vert að skapa jólastemningu með kyrrlátum jólasögum fyrir börnin en trúlega er trúlega teflt á tæpasta vað með að halda athygli hlustendanna með því að hafa frásagnirnar jafn áreynslulausar og raun ber vitni. Meiri skuggar, erfiðari lausnir fyrir söguhetjurnar hefðu gert þær áhugaverðari – líka fyrir yngstu hlustendurna. Það er nefnilega allt í lagi að jólafriðurinn og -gleðin kosti eitthvað.

fimmtudagur, desember 04, 2003

Sveinsstykki

Hið lifandi leikhús
Loftkastalanum 4. desember 2003

Höfundur. Þorvaldur Þorsteinsson
Leikstjóri: Þorleifur Örn Arnarsson
Leikari: Arnar Jónsson
Leikmynd og búningar: Stígur Steinþórsson
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Aðstoðarleikstjóri: Arndís Þórarinsdóttir.

Dragðu ekki það að elska

EIGINLEGA ætlast maður alls ekki til að afmælissýningar séu frábærar. Það er vissulega betra að þær séu ekki algjör stórslys, en þær ná algerlega tilgangi sínum þó afmælisbarnið geri ekki annað en sýna að það er enn í fullu fjöri, gefi smá sýnishorn af því hversvegna er yfirhöfuð ástæða til að fagna tímamótunum. Síst af öllu gera áhorfendur ráð fyrir að í afmælissýningum sé tekin listræn áhætta. Að sumu leyti er það verra - hvað ef allt mislukkast? Hvaða gagnrýnanda langar til að segja afmælisbarni til syndanna?

Afmælissýning Arnars Jónssonar var því fyrirfram talsvert áhyggjuefni. Nýtt leikrit, lítt reyndur leikstjóri og persóna sem hljómaði ekki í kynningum eins og hún væri á heimavelli Arnars. En þeim mun meiri sigur, því Sveinsstykki er feikilega áhrifamikil sýning - magnaður flutningur á frábæru leikriti.

Fyrstu kynni mín af Arnari Jónssyni sem leikara voru andvökunæturnar sem ég upplifði eftir að hafa séð hann sem Þorleif Kortsson í Skollaleik. Á sviði sá ég hann ekki fyrr en löngu síðar og í millitíðinni í Útlaganum, frammistaða sem mig grunar að sé vanmetin vegna þess hve látlaus kvikmyndin er í samanburði við skrautlegri túlkanir annarra leikstjóra á söguöldinni. Af ljósmyndum og lýsingum að dæma hefur hann verið aldeilis magnaður ungur leikari, orkuþrunginn, fimur svo af bar og áreiðanlega þá þegar með þá sterku nærveru sem allir leikhúsgestir skynja. Þegar Arnar er á sviðinu þá horfir þú á hann.

Samt sem áður er eitthvað við Arnar sem vekur fremur aðdáun en hrífur mann. Upphafin og álítið hátíðleg raddbeitingin, hlutverkin sem hann velst í. Þegar ég las útlistanir Þorvaldar Þorsteinssonar á efni og persónu Sveinsstykkis þá óttaðist ég að þarna hefði hann lagt einn illyrmislegan Snóker fyrir stórleikarann - skrifað persónu fyrir utan svið Arnars Jónssonar. Kannski er það tilfellið. Og kannski sækir sýningin hluta af áhrifum sínum í að það er einmitt Arnar, meistari bundna málsins, klassíkurinnar, hins upphafna og fjarlæga, sem þarna leggur hjartað á lagergólfið.

Sveinn Kristinsson hefur unnið í fjörutíu ár á lager í varahlutaverslun. Frá blautu barnsbeini hefur hann fetað veg hinna réttvísu og nákvæmu, skilað sínu, skaffað, hvergi brugðist. Nema sjálfum sér - og fyrir vikið öllum sínum nánustu; systur, konu, börnum sjálfum sér. Sveini hefur láðst að lifa.

Viðfangsefni Þorvaldar hér er giska kunnuglegt. Lífslygi meðaljónsins hefur verið vinsælt viðfangsefni í leikhúsinu frá því Arthur Miller skapaði sölumanninn Willy Loman úr minningum um frænda sinn. Og vafalaust má kvarta yfir að linnulaus ógæfan sem hellist yfir Svein verði nánast sápuóperuleg á köflum. En það skiptir engu máli við hliðina á því að Þorvaldur skrifar hér frá hjartanu, en jafnframt með þeirri tækni sem hann hefur yfir að ráða, og með þeim stílbrögðum sem hafa gert hann að merkilegasta leikskáldi landsins. Hárnákvæmu valdi á fyndni, íróníu og tilfinningasemi, sjálfsaga til að láta aðalatriðin liggja milli hluta. Þorvaldur fellur aldrei í þá gryfju að mjólka hápunktana. Að sjálfsögðu dvelur Sveinn aldrei við það sem mestu varðar, en það fer aldrei milli mála gagnvart áhorfandanum. Sveinsstykki er við fyrstu kynni besta verk Þorvaldar fram að þessu.

Og að þessu sinni er Arnar algerlega hrífandi. Þó svo tæknin og færnin fari aldrei á milli mála er það einlægnin, samúðin og hlýjan sem leikarinn hefur lagt til persónunnar sem gerir þennan fráhrindandi mann að vini okkar þessa tvo tíma. Arnar leikur sér að því að sýna okkur Svein á öllum æviskeiðum, við ýmsar aðstæður, og brunar af óskeikulum krafti hins þrautþjálfaða listamanns inn í ólíkustu tilfinningar og aðstæður. Ég minnist þess ekki að hafa verið jafn snortinn af leik Arnars Jónssonar og í þessari afmælissýningu.

Þessi sýning er sú fyrsta sem ég sé af leikstjórnarverkefnum Þorleifs Arnar Arnarssonar, og má það furðu gegna, svo afkastamikill sem hann hefur verið frá því hann útskrifaðist úr Leiklistarskólanum sl. vor. Mig grunar að Þorleifur eigi stóran þátt í áhrifamætti sýningarinnar, þó hann hafi stillt sig um að setja augljós leikstjórnarleg fingraför út um allt. Það er er fágun og öryggi yfir bæði staðsetningum, uppbyggingu og tempói sýningarinnar sem vitnar um vinnubrögð leikstjóra sem á framtíðina fyrir sér.

Reyndar eiga þeir það allir þrír. Þorvaldur nær sífellt sterkari tökum á formi og máli, Þorleifur eflist og eflist. Og af Sveinsstykki að dæma getur Arnar Jónsson allt.