fimmtudagur, september 22, 2016

Maður sem heitir Ove

Eftir Fredrik Backman í leikgerð Emmu Bucht, Johans Rheborg og Marie Persson Hedenius. Íslensk þýðing: Jón Daníelsson. Leikstjórn: Bjarni Haukur Þórsson. Leikmynd og búningar: Finnur Arnar Arnarson. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson. Tónlist: Frank Hall. Hljóðmynd: Frank Hall og Kristján Sigmundur Einarsson. Leikari: Sigurður Sigurjónsson. Frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 17. september 2016, en rýnt í aðra sýningu sunnudaginn 18. september.

Lestir og kostir

Helsti veikleiki metsölubókarinnar um þverhausinn Ove er hve formúlukennd og fyrirsjáanleg hún er. En kannski samt helst hversu áreynslulaus fléttan reynist. Hversu auðveldlega þessi lífsdagasaddi leiðindapúki snýst á sveif með lífi í sátt og samlyndi við skrautlegt mannlífið í kring. Hann fær ekki einu sinni að vera sannfærandi rasisti eða hommahatari þegar á reynir, sem óneitanlega hefði sett sterkara krydd í kássuna. Þegar sagan af Ove er sögð á innan við einum og hálfum tíma af einum leikara hætta þessir annmarkar að skipta máli, verða jafnvel að gagni við að gleðja áhorfandann. Ekki síst þegar haldið er á spilum af jafn miklu öryggi og hér er gert. Af þessu má örugglega draga einhverjar ályktanir um eðlismun prentgripa og leiksviða. Það er líka hægt að láta það eiga sig.

Allt veltur þetta á titilpersónunni. Reyndar gerir einleiksformið verkefnið bæði auðveldara og erfiðara fyrir leikarann. Einn helsti styrkur bókarinnar er hin háðska en hlýja afstaða sögumanns til Ove. Þegar snjallyrði sögumanns eru lögð persónunni sjálfri í munn verður hún aðeins meðvitaðri um „ástand“ sitt en Ove bókarinnar virðist vera. En á móti fær hann úr ýmsu góðu að moða af skemmtilegheitum.

Þetta er kostulegur karakter. Drifkraftur sögunnar er auðvitað hversu illa Ove er í húsum hæfur, en ef við skrúfum hann í sundur og skoðum partana (eins og Ove myndi gera sjálfur) koma eiginlega eintómar gamaldags dyggðir í ljós. Sumar mætti kalla „borgaralegar“: reglusemi, stundvísi, sparsemi. Aðrar: orðheldni, æðruleysi, þrautseigja, handlagni, hefðu einhvern tímann verið kallaðar „karlmannlegar“.

Það er svo til marks um hvert heimurinn er kominn að þegar allir þessir kostir eru saman komnir virka þeir eins og lestir. Eða jafnvel einhvers konar röskun. En allt verður þetta mjög hratt og örugglega sjarmerandi þegar hrúðurkarlinn gengur í lið með nágrönnum sínum, ýmist vegna eigin undirliggjandi gæsku eða fyrir áhrif frá hinni látnu en heittelskuðu eiginkonu. Sonja gegnir hálfgerðu Kristshlutverki í siðfræði verksins. Ove reynir að breyta eins og hún, eða í það minnsta eins og hann ímyndar sér að vekti velþóknun hennar. Og svo þráir hann ekkert heitar en að hverfa til hennar yfir í sælli veröld.

Aðallega er það svo frammistaða leikarans sem gerir þetta sjarmerandi. Sigurður Sigurjónsson fer listilega með sitt helsta verkefni, að verða Ove lifandi kominn. Líkt og persónan, sem býr að ævilangri þjálfun sem er orðin að inngróinni færni í að bakka með kerru og fást við dyntótta ofna, mætir Sigurður til leiks með starfsævilanga reynslu af kallasmíði. Við vonum bara að hann hnussi ekki jafn áberandi að yngri kollegum sínum þegar þeir svitna af áreynslunni við að ná sömu áhrifum við að vekja hlátur og framkalla tár, sem hvorttveggja lék í höndum leikarans.
Sigurður kann öll tímasetningartrikkin og veit að undir öllu þarf að krauma alvöru samlíðan með persónunni til að hlátrarsköllin verði hlý og tárakirtlarnir fái líka sína örvun. Þetta gengur allt upp.

Vel mætti hugsa sér að þeir Bjarni Haukur Þórsson, leikstjóri og samverkamaður leikarans til margra ára, hefðu mátt nostra aðeins meira við aðrar persónur sem Sigurður þarf að bregða upp til að fleyta sögunni áfram. Það er reyndar líka veikleiki frá höfundarins hendi hvað allt þetta skrítna fólk umhverfis Ove er þolinmótt og uppbyggilegt í samskiptum við hann frá fyrstu stund. Ekki síst, en ekki bara, hin goðumlíka en merkilega sviplitla persneska nágrannakona Parvaneh, sem svo sannarlega hefði átt skilið að fá litríkari mynd af sér í stúdíói Sigurðar og Bjarna.

Leikmynd Finns Arnar Arnarsonar þykir mér sérkennileg smíð. Finnst eiginlega að hinn stolti handverksmaður og þúsundþjalasmiður Ove, sem býr í hálfgerðu safni – musteri – til heiðurs hinni dáðu eiginkonu eigi skilið meira en einn bakvegg, tilbúinn undir tréverk. Einhver lausn sem hefði skapað fjölbreyttari sviðsetningarmöguleika hefði líka unnið með sýningunni. Og hið sjálfspilandi píanó fannst mér ekki réttlæta nærveru sína á nokkurn hátt.

En þetta er fyrst og síðast sýning leikarans, eins og viðeigandi er þegar þjóðargersemi á borð við Sigurð Sigurjónsson fagnar fjörutíu árum á sviðinu. Viðfangsefnið hentar Sigurði ákaflega vel og hann skilar þessum einkennilega, og einkennilega ástsæla Svía frábærlega. Drepfyndinn þegar þess er kostur, ekki síst í því hvernig hann smjattar á bíltegundanöfnum, nokkuð sem verður fljótt þreytandi leiðarstef í bókinni en fær vængi hér. Og sannfærði mann líka um hjartað sem slær innra með Ove, en þó kannski aðallega undir vel hirtu leiði Sonju heitinnar.

Um það vitnuðu snöktin í salnum milli hlátranna.





miðvikudagur, september 07, 2016

Djöflaeyjan

Eftir Einar Kárason í leikgerð Atla Rafns Sigurðarsonar, Melkorku Teklu Ólafsdóttur og leikhópsins. Leikstjórn: Atli Rafn Sigurðarson. Dramatúrg: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Söngtextar: Bragi Valdimar Skúlason og fleiri. Tónlist: Memfismafían. Tónlistarstjórn: Guðmundur Óskar Guðmundsson. Sviðshreyfingar: Margrét Bjarnadóttir. Leikmynd: Vytautas Narbutas. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson. Hljómsveit: Aron Steinn Ásbjarnarson, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Hjörtur Ingvi Jóhannsson, Þorvaldur Þór Þorvaldsson og Örn Eldjárn. Leikarar: Arnmundur Ernst Backman, Baltasar Breki Samper, Birgitta Birgisdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Eggert Þorleifsson, Guðjón Davíð Karlsson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Gunnar Jónsson, Hallgrímur Ólafsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Snæfríður Ingvarsdóttir og Þórir Sæmundsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 3. september 2016.


Niður til heljar hérumbil


Að mörgu leyti er hægt að taka undir með frumhreyfli sýningarinnar, Baltasar Kormáki: Braggabækur Einars Kárasonar eru freistandi hráefni í söngleik. Afmarkaður heimur með afgerandi svip sem tíminn hefur litað rómantískum blæ, krydduðum grimmd, trega og illum örlögum. Stórar og litríkar persónur. Rokk og ról. Auðvitað spillir ekkert fyrir hve vel þekkt sagan er í öllum sínum birtingarmyndum. Sem metsölubók, nútímaklassík mætti segja, sem kennsluefni í skólum, leikrit og kvikmynd. Söngleikir hafa löngum verið byggðir á slíkum grunni, enda þurfa þeir eðli máls samkvæmt að vera ágripskenndir.

Það eru líka vankantar. Sagan er breið og kallar á styrka hönd við handritaskrif til að búa til í hana dramatíska spennu sem rúmast á einni kvöldstund, þar sem ferðalög persónanna og áhrif hver á aðra mynda sannfærandi heild.

Þess sjást merki að handritshöfundar og verkstjórar Djöflaeyjunnar hafi viljað stefna í þessa átt. Ræður þar mestu sú ákvörðun að búa til nokkurskonar ástarþríhyrning þar sem bræðurnir Baddi og Danni sækjast báðir eftir ástum Gerðar, sem jafnframt er gerð að braggabarni og bernskuleikfélaga þeirra, dóttur Hreggviðs kúluvarpara.

Ekki hefur samt verið gengið svo langt að gera þetta drama að þungamiðju sýningarinnar, sem er að mestu byggð upp í kringum afmörkuð, svipmikil atriði úr bókunum. Amerísku jólin í Gamla húsinu (sem hér er reyndar bara braggi meðal bragga), samdráttur Dollýjar og Dóra smiðs, heimkoma og partístand Badda, koma sjónvarpsins, frami og dauði Danna. Þetta er svipuð leið og aðrir handritshöfundar hafa farið, og ef til vill hefði verið gaman að fara sjálfstæðari leið við úrvinnslu bókarinnar, prófa að ýta öðrum hlutum í forgrunninn.

Ekki það að margt sé ekki skemmtilegt. Stórt og mikið partí- og fyllerísatriði var líflegt og kraftmikið, og þar naut sín sérlega vel falleg, snjöll og fjölnýtanleg leikmynd Vytautas Narbutas. Skemmtilegar voru innkomur Gógóar frá Ameríku og gaman að sjá Eddu Björgu Eyjólfsdóttur rifja upp gamanleikkonutaktana eftir sitt dramatíska síðasta leikár. Ekkert kætti þó áhorfendur á frumsýningu til jafns við ástarævintýri Dóra og Dollýjar, enda var þar miskunnarlaust skopast með söngleikhúshefðina og tveir frábærir gamanleikarar, Guðjón Davíð Karlsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir, nutu þess greinilega til hins ýtrasta. Almennt þótti mér sýningin fljúga hærra í skopi en alvöru, sem þó var líka leikið á. Eðlilega. Hér deyja börn, bræður berjast.

En dramað nær því miður ekki nægilega háu flugi. Það skrifast fyrst og fremst á handritið og leikstjórnarúrvinnslu þess. Söngleikjaformið með öllum sínum tæknikröfum og takmörkunum er ekki heppilegur vettvangur fyrir lausatök hópvinnunnar. Leikin atriði þurfa að vera tálguð og þjóna skýrum tilgangi við að framfleyta sögunni, teikna persónur, kortleggja samskipti, greina frá þróun. Hratt og örugglega.

Þetta lánast ekki nógu vel hér og kemur verst niður á risi og falli Badda. Þórir Sæmundsson lýsir honum í sjálfu sér vel í samhengi sýningarinnar. Gaman hvað hann var hljóðlátur og heimóttarlegur í upphafi, sannfærandi róni í blálokin og hin eindregna skopfærsla eftir heimkomuna var gleðivaki sem slík. En fyrir vikið var erfitt að trúa á að þessi ýkti rokkari hefði það náðarvald sem honum er ætlað. Verra þó hvað mótleikarar hans gerðu lítið til að styðja þá mynd. Enginn virtist óttast hann, enginn bera virðingu fyrir honum. Enginn elska hann nema amman. Sama má segja um hina ágætlega skýru en kannski ögn fyrirsjáanlegu túlkun Guðrúnar Snæfríðar Gísladóttur á Karólínu: hún fær engan þann mótleik frá öðrum sem gerir stöðu hennar sem göldróttur heimilisharðstjóri, og skjól fyrir Badda til að rækta lesti sína, trúverðuga. Hér hefði Atli Rafn Sigurðarson þurft að leggja skýrari línur úr leikstjórastólnum.

Eggert Þorleifsson skilar Tomma líka nokkurnveginn nákvæmlega eins og reikna mátti með, og það virkar ágætlega. Arnmundur Ernst Backman er prýðilega hófstilltur í hlutverki Danna, kannski samt daufur um of, og ég er ekki viss um að breytingin yfir í sjálfsöruggan flugkappa eigi að vera svona ýkt og meðvituð. Þriðja hjólið í ástardramanu, Gerður Hreggviðsdóttir, fær alltof lítið efni fyrir Snæfríði Ingvarsdóttur til að vinna úr annað en að vera þögul og fögur, og syngja. Sem hún gerir fallega, eins og reyndar allir sem fá slík númer.

Almennt þykir mér tónlistin og möguleikar söngleiksins ekki nýtast nægilega vel til að reka erindi sýningarinnar. Lög Badda eru í stíl tíðarandans, önnur ekki, sem er sérkennileg ákvörðun. Textarnir eru að mestu mjög almenn lífsspeki, nánast aldrei með beina eða skýra vísun í líf eða aðstæður þess sem syngur, hvað þá til að fleyta sögunni áfram. Söngvarnir gætu auðveldlega staðið sjálfstæðir og verið settir saman af einhverju allt öðru tilefni. Best heppnað þótti mér „Ameríka“, sem Katrín Halldóra fór frábærlega með. Ballsöngur Gerðar er líka fallegt lag og textinn flottur, en er þessi lífs- og drykkjuþreyta nokkuð tímabær á þessum stað í lífi persónanna? Eitt dæmi um hvað áhrifamáttur söngleikjaformsins er vannýttur, mér liggur við að segja vantreyst. Lögin og textarnir eru ágætlega heppnuð sem slík, skemmta og gleðja áhorfendur, en vinna ekki vinnuna sína í þágu verksins.

Fyrir utan ástarbrall þeirra bræðra er alkóhólið hið dramatíska eldsneyti. Þórgunnur, Dóri smiður og Hreggviður mynda einskonar rónakór sem sveimar í kringum fjölskylduna, sem aftur býr til skjól fyrir Badda til að ganga þessa sömu leið til heljar. Það er skiljanlegt að gefa þessu grundvallaratriði ekki algeran forgang í framvindunni, þetta á jú að vera skemmtilegt. En þó þau Birgitta Birgisdóttir og Gunnar Jónsson vinni vel úr sínu verða þau hálf-utanveltu í gangverki sýningarinnar. Kannski sérstaklega Birgitta, þar sem harmsaga Þórgunnar virðist eiga að vera einhverskonar þungamiðja ef marka má hvernig dauða Didda sonar hennar eru gerð skil í upphafi. Annað dæmi um hvað agaðri handritsvinna hefði getað bætt. Svo heyri ég reyndar alveg fyrir mér rónasönginn sem þau hefðu getað kyrjað, lofsungið sitt frjálsa líf en afhjúpað um leið helsi sitt. Hann er ekki hér.

Djöflaeyjan í Þjóðleikhúsinu kveður ekki upp einhlítan úrskurð um ágæti hugmyndar Baltasars. Til þess er úrvinnslan of ómarkviss. Það má vel vera að í stóra sagnapollinum í Thulekampi Einars Kárasonar leynist enn efni í söngleik þar sem máttur þess merkilega forms nýttist til fullnustu til að gleðja og hrífa okkur enn á ný. Þetta er ekki hann, þó hér sé á köflum stuð.