föstudagur, maí 10, 2002

Einþáttungahátíð Bandalags íslenskra leikfélaga

Hallormsstað 9. og 10. maí 2002

Gúmmídúkkur og náttúrubörn

UNDANFARIN ár hefur skapast sú hefð hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga að halda leiklistarhátíðir helgaðar einþáttungum og örverkum í tengslum við aðalfund sinn á nokkurra ára fresti. Fjórða reglulega hátíðin af þessu tagi var haldin dagana 9. og 10. maí síðastliðna á Hallormsstað, þar sem áhugaleikfélög landsins komu saman til aðalfundar þann 11. og 12 að hátíðinni aflokinni.

Einþáttungahátíðir eru kjörið tækifæri fyrir félögin til að sýna hvert öðru afrakstur vinnu sinnar án þess að miklu sé kostað til, enda smáverk eins og þau sem einkenna hátíðirnar einatt auðveld í flutningi úr einu rými í annað. Það er líka gott fyrir félögin að fá tækifæri til að gera tilraunir og spreyta sig á annarskonar viðfangsefnum en “fullgildum” leikritum. Þeim hefur farið fjölgandi sem spreyta sig á að skrifa slík verk, og langoftast er leikstjórn í höndum heimamanna. Hátíðin var að þessu sinni engin undantekning, alls voru sýnd 12 verk, þar af sjö heimasmíðuð og flest þeirra frumflutt við þetta tækifæri. Leikstjórar voru í öllum tilvikum heimamenn, og athygli vekur að flestir þeirra hafa sótt námskeið í leikstjórn í Leiklistarskóla þeim sem Bandalagið starfrækir að Húsabakka í Svarfaðardal við góðan orðstýr.

Hér á eftir mun ég reyna að gera hverjum þætti lítilleg skil.

Hátíðin byrjaði á fimmtudagskvöldi á tveimur óvenjulegum sýningum. Nemendur 7.-10. bekkjar Hallormsstaðaskóla sýndu Nú skal mála, nokkurskonar revíu um fermingu og fermingarundirbúning eftir Jón Guðmundsson og í leikstjórn höfundar auk Jóns G. Axelssonar og Sigurlaugar Gunnarsdóttur. Þetta var ágætlega gerð árshátíðarsýning, en athyglisverðast við hana var þó að heyra að í þessum skóla er þátttaka í slíkum sýningum skylda eins og hver önnur námsgrein, sem verður að teljast til mikillar fyrirmyndar.

Að fermingunni afstaðinni sýndi Þorsteinn Sigurbergsson frá Hornafirði listljósasýningu sína, Sólarhing. Þeirri sýningu hefur áður verið gerð skil á þessum vettvangi, og endurnýjuð kynni við hana staðfestu fyrri skoðanir: skemmtileg tilraun sem líður nokkuð fyrir ómarkvissa notkun á tónlist og ef til vill full mikla sundurgerð í stílbrögðum.

Af sýningum föstudagsins ber fyrst að geta uppfærslu leikfélagsins Grímnis í Stykkishólmi á gamanþættinum Meindýr eftir Bjarna Guðmarsson. Þátturinn segir frá meindýraeyði sem á í nokkrum erfiðleikum með að sinna starfsskyldum sínum vegna væntumþykju gagnvart viðfangsefnum sínum. Grímnismenn völdu ákaflega groddalegan leikstíl sem kaffærði að mestu skop þáttarins, og náði eiginlega hvorugt að njóta sín, fínlegt spaug höfundar eða hamagangur leikenda. Þátturinn leið fyrir skort á leikstjórn, en þátttakendurnir tveir hefðu svo sannarlega grætt á þriðja auganu sér til leiðbeiningar.

Sama má í raun segja um annað tveggja framlaga Leikfélags Fljótsdalshéraðs, þáttinn Ástin í viðjum efnafræðinnar eftir Jón Gunnar Axelsson. Tveir ungir leikarar í félaginu ákváðu að sviðsetja þáttinn upp á eigin spýtur en náðu lítt að blása lífi í textann, sem var aukinheldur næsta óleikræn heimspekileg samræða um eðli ástarinnar, krydduð með bókmenntatilvitnunum og neðanþindargríni til helminga.

Meira var spunnið í hitt framlag Egilsstaðamanna. Vígþór Sjafnar Zophoníasson fór af krafti og öryggi með hástemmt eintal unnið upp úr upphafskafla Barns Náttúrunnar. Sýningin fór fram utandyra og var vel af hendi leyst hjá leikaranum og leikstjóra hans, Halldóru Malen Pétursdóttur.

Annað austfjarðafélag, Leikhópurinn Vera á Fáskrúðsfirði, sýndi upphafsatriði leikritsins Gegnsætt fólk eftir Benóný Ægisson. Leikstjórinn Valdimar Másson og hans ungi leikhópur skilaði af fágun og nákvæmni þessu dálítið banala atriði af ætt fáránleikaleikhússins og sýndu enn og aftur hvað gott starf er unnið með börnum og unglingum í þessu litla félagi.

Öllu umsvifameira er Freyvangsleikhúsið í Eyjafirði og þaðan komu tveir þættir. Annar þeirra, Niðurtalningin eftir Alan Ayckborn, er frábær smámynd af kulnuðu hjónabandi, túlkuðu af fjórum leikurum, þar sem tveir túlka hjónin og aðrir tveir hugsanir þeirra sem einatt eru á skjön við atferlið. Guðrún Halla Jónsdóttir, leikstjóri, og hennar fólk skiluðu þessu samspili firnavel. Sérstaklega voru Stefán Guðlaugsson og Hjördís Pálmadóttir dásamlega hlægileg og sönn í hlutverkum hjónanna.

Húð og hár kölluðu Freyvangsmenn hitt framlag sitt, frumsamið skop um samskipti leikfélags og leikstjóra, nokkurskonar áramótaskaup áhugaleikfélags. Vitaskuld gerði þátturinn stormandi lukku í þessu samhengi, þó ekki stæðist hann margar listrænar kröfur, varla þær lágmarkskröfur að texti og lög væru að fullu lærð, hvað þá að sviðsferð væri áhrifarík eða nákvæm. En persónusköpun var skýr og þátturinn náði tilætluðum árangri svo það þýðir ekki að kvarta, allavega ekki hástöfum.

Leikfélag Mosfellssveitar flutti einleikinn Samtal fyrir ein eftir Dario Fo. Þátturinn túlkar kynferðislega sjálfstæðisbaráttu ungrar konu. Leikstjórinn, Bjarney Lúðvíksdóttir, kýs að víkja að tvennu leyti frá ætlun höfundar og verður annað til góðs en hitt ekki. Að láta þáttinn fjalla um karlmann gengur algerlega upp, en að ljá honum gúmmídúkku sem mótleikara eyðileggur áhrifin af að sjá leikara skapa persónu mótleikarans með látbragi sínu. Með því að raungera elskhugann á þennan hátt verður hann óraunverulegur og söguhetjan fyrir vikið ótrúverðug. Leikarinn, Hjalti Kristjánsson, stóð sig hins vegar með ágætum og væri gaman að sjá hann glíma við þáttinn án hjálpartækja ástarlífsins.

Sá þáttur sem mestum tíðindum sætti og áhrifamestur reyndist var spunaverkefni Leikfélagsins Sýna sem kallaðist Hann. Verkefnið var hugarfóstur Júlíusar Júlíussonar og byggðist á nokkuð ströngum ramma og nákvæmum persónulýsingum sem hann sendi völdum leikurum, án þess þeir vissu hver af öðrum. Síðan leiðir hann þá saman og sýningin fer af stað, með skipulögðum upphafi og endi, skýrt mótuðum persónum en að öðru leyti á ábyrgð leikhópsins. Skemmst er frá því að segja að útkoman var mögnuð leiksýning, algerlega sönn hvert einasta augnablik, bráðhlægileg og átakanleg í senn. Vakti bæði upp hugrenningatengsl við verk Mike Leigh og Dogmaskólans, þar sem frelsun leikarans er líka lykillinn að skáldlegu raunsæi. Stórsigur fyrir Júlíus og hans fólk, og ánægjulegt dæmi um tilraun sem heppnast.

Tvær sýningar, Hverjir voru hvar eftir Guðmund L. Þorvaldsson hjá Leikfélaginu Sýnum og Dagurinn eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur frá Hugleik, voru einnig á hátíðinni, en þar sem undirritaður tók þátt í þeim báðum verður ekkert um þær sagt að þessu sinni.

Í heild má segja að einþáttungahátíð Bandalags íslenskra leikfélaga hafi svarið sig í ætt við þær sem á undan hafa farið. Sýningarnar ólíkar að stíl og efnistökum, misjafnlega til þeirra vandað og listrænn árangur spannar allan skalann. Það sem lifir í minningunni verða sigrarnir, eitthvað til að bera sig saman við, áskorun um að gera betur næst. Því þessi hefð er komin til að vera.

mánudagur, maí 06, 2002

And Björk, Of Course...

Maí 2002

Eftir Þorvald Þorsteinsson
Leikstjóri: Benedikt Erlingsson
Á nýja sviði Borgarleikhússins

Leikarar: Gunnar Hansson, Halldór Gylfason, Halldóra Geirharðsdóttir, Harpa Arnardóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Sóley Elíasdóttir og Þór Tulinius.

“Hans:
Mig langar að keyra á ofsahraða inn í stóran hóp af fólki. Og mig langar til að stofna útvarpsstöð. Mig langar til að vita hvað aðrir sjá þegar þeir sjá mig.”

Alveg frá því ég sá Maríusögur í Nemendaleikhúsinu 1995 hefur mér fundist Þorvaldur Þorsteinsson vera athyglisverðasti leikritahöfundur Íslendinga. Nú er ég viss. Þetta er snilld.

Mislitur hópur af íslendingum í hamingjuleit og misalvarlegum krísum sækja sjálfsskoðunarnámskeið. Og þó þau virðist litlu nær því að skilja sjálf sig í lokin hafa þau afhjúpað sig fyrir áhorfendum, okkur til skemmtunar og hryllings.

And Björk, of course... virkar á mörgum plönum. Það er andstyggilega fyndin úttekt á naflaskoðunar- og sjálfshjálparkúltúrnum, smásmyglisleg skýrsla um getuleysi í mannlegum samskiptum, drephlægileg háðsglósa um mikilmennskuminnimáttarkennd Íslendinga, hroðalegur vitnisburður um siðferðilega tómhyggju. Stíll Þorvalds, sem hefur verið að mótast allt síðan Vasaleikhúsið ruglaði útvarpshlustendur í rýminu 1991, er einhverskonar skáldleg flatneskja sem enginn hefur á valdi sínu nema hann og er algerlega óborganleg. Leikritið sveiflast milli allt að því óbærilegra afhjúpana yfir í drephlægileg augnablik og tekst að draga áhorfendur með sér í þessa furðuferð. Endirinn er einn sá óvæntasti sem ég hef lengi séð.

Það gengi auðvitað ekki nema af því hvernig vinna leikaranna og leikstjórans hefur heppnast. Satt best að segja get ég séð fyrir mér alveg ótrúlega pínlega vonda sýningu byggða á þessu sama handriti. Nýjasviðshópurinn hans Benedikts Erlingssonar, sem hóf samstarf sitt í “Fyrst er að fæðast” nær hinsvegar ótrúlega öruggum tökum á þessu sápustykki sem Þorvaldur hefur rétt þeim. Þau eru hvert öðru betra, og samleikurinn þó allra flottastur. Ef ég yrði að nefna einhverja öðrum fremur myndi ég staldra við Þór Tulinius, sem nær að vera unaðslega creepy, jafnvel áður en við fréttum hverskonar kríp hann er. Já og Halldóru Geirharðsdóttur sem besservisserinn ógurlegi.

Umgjörð, lýsing, hljóðmynd, búningar; allt er þetta hárrétt og snjallt og notkun á myndavélum er beinskeytt og skilar sínu án þess að þvælast fyrir.

Ég er ekki búinn að sjá allar sýningar bæjarins, en það má mikið vera ef frumlegri, beinskeyttari, fyndnari og flottari sýning leynist einhversstaðar. A Must See.