þriðjudagur, janúar 30, 2018

Lóaboratoríum

Eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Leikstjórn: Kolfinna Nikulásdóttir. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Lýsing: Valdimar Jóhannsson. Sviðshreyfingar: Ásrún Magnúsdóttir. Tónlist: Árni Rúnar Hlöðversson. Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Jóhanna Friðrikka Sæmundsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. Sokkabandið frumsýndi á Litla sviði Borgarleikhússins 26. janúar 2018.

Við lifandi komin


Hvað eigum við að kalla mannlífsvinkil Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur sem birtist í teikningum hennar í blöðum, vefjum og bókum, og er nú kominn á svið? Fyrir utan „fyndinn“ og „nauðsynlegan“ auðvitað. Mér dettur í hug orðin „martraðarraunsæi“ og „hvunndagsgróteska“ yfir þessar gráthlægilegu myndir af fólki – aðallega konum – að mistakast sú list að hafa betur gagnvart áreiti og kröfum umhverfisins. Að reyna án árangurs að skapa sér einhverskonar vettvang eða griðastað til að líða sæmilega í þessum tryllta sirkus sem samtíminn er. Langoftast hittir Lóa í mark, er morðfyndin og sannsögul um það ástand sem hún lýsir. Auðvitað er freistandi að gefa svona efnivið frekara líf á fjölum leikhússins.

Vandasamt er það samt. Það er bæði kostur og galli að í listheimi Lóu, rannsóknarstofunni Lóaboratoríum, er engin framvinda, engir fastagestir með nafn og kennitölu, hvað þá forsögu. Límið felst í afstöðu höfundar, persónueinkennum sem ganga manna – aðallega kvenna – á milli. Hendur leikskáldsins Lóu eru því óbundnar hvað þetta varðar, en um leið færra að halda sér í. Eins þarf að ákveða að hve miklu leyti handritið á að taka mark á kröfum og hefðum leikhússins. Leikhúsgestir nútímans eru orðnir öllu vanir hvað þetta snertir og að sumu leyti gengst Lóa meira inn á leikreglurnar en bráðnauðsynlegt getur talist.

Tvær íbúðir í Reykjavík. Eða eiginlega lítil einbýlishús, ef skemmtileg umgjörð Sigríðar Sunnu Reynisdóttur er tekin á raunsæisorðinu. Í öðru þeirra býr hinn rauðvínslegni bókaútgefandi Stella, og þegar verkið hefst er Anna, stillingarljósið dóttir hennar, að flytja inn eftir að hafa heykst á lokahnykknum í mastersnáminu sínu. Handan götunnar (girðingarinnar?) býr geðhvarfasjúka YouTube-stjarnan Inga í húsi foreldra þeirra Brynju, hvataferðafararstjórans sem leitar heim eftir ástarlífsskipbrot.

Þarna er komin hæfileg rannsóknarstofa fyrir Lóu og upphefst mikið, beitt og á köflum alveg óborganlegt grín þar sem útlit, hagsmunir, lífsviðhorf, matarsmekkur, stíll, farsæld og árangur í hamingjukapphlaupinu mynda einhverskonar sjöþraut sem konurnar fjórar keppa í af mismiklu harðfylgi og ójöfnum árangri, öllum þó frekar dapurlegum og eftir því hlægilegum. Orkan í handritinu tekur dálitlar dýfur þegar reynt er að búa til framvindu, tengja saman atriði, gangast undir formkröfur leikritunar. Reyndar er ruglingurinn með pizzusendingarnar fjári skemmtilegur, eins einfaldur og hann þó er, ekki síst vegna tilhugsunarinnar um að einhver panti sér Hawaii-pizzu með engum ananas. Stórkostlega sér-Lóu-leg hugmynd og synd að forseti lýðveldisins var ekki á þessari frumsýningu til að verða vitni að þessu. Önnur element sem eiga að skapa framvinduspennu, svo sem æskuminningar og áhugi Brynju á að koma húsi þeirra systra í verð, verður meira til trafala. Annars er best og skemmtilegast þegar replikkutennisinn fær að ganga ótruflaður og nokkurn veginn stefnulaust.

Sokkabandskonur njóta sín vel í þessum efnivið og Kolfinna Nikulásdóttir stýrir þeim af skilningi og smekkvísi. Stella, þessi drafandi og uppgerðarsjálfsörugga subba, varð ljóslifandi og morðfyndin hjá Arndísi Hrönn Egilsdóttur. Brynja er mögulega sú „venjulegasta“ í galleríinu, en þá kemur sér vel hvað Maríu Hebu Þorkelsdóttur lætur vel að lýsa óöryggi. Það er vandasamt að halda uppi orkunni í senum þar sem persóna mótleikarans er nánast óstarfhæf af þunglyndi, en það tekst Maríu Hebu og þegar Elma Lísa Gunnarsdóttir skríður loksins undan sænginni eins og pallíettufiðrildi og svífur á djammið á vængjum maníunnar er það líka listavel gert og fjári vel skrifað.

Þær þrjár hafa lengi verið nokkuð áberandi í sýningum í leikhópageiranum og það nýtist þeim í týpuleikhúsi eins og hér er á ferð. Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir er nær því að vera óskrifað blað og það er kannski meðal annars þess vegna sem það er í persónu Önnu sem mér fannst ég fá hreinustu myndina af hinum teiknaða heimi Lóu. Mér þótti Jóhanna Friðrika til dæmis hreyfa sig eins og ég ímynda mér að þessar persónur myndu gera. Svona myndu þær ganga, einmitt svona myndu þær spritta á sér hendurnar, svona væri að sjá þær hekla. Og auðvitað myndu þær hekla. Fínlega unnin persóna og viss furða að hún skili sér til áhorfenda í gegnum brussuganginn allt í kring. Ekki fylgir sögunni í leikskrá hvað drengurinn heitir sem færir þeim pizzurnar en hann skilaði sínu óaðfinnanlega. Nema pizzunum reyndar.

Þó umbúnaður sé hvorki ríkulegur né fágaður þá er hann áhrifaríkur. Leikmyndin þénug og sannfærandi og mikil prýði, ef það er rétta orðið, að draslinu hjá þeim systrum Ingu og Brynju. Búningar Sigríðar Sunnu meira og minna nákvæmlega jafn ósmekklegir og þörf er á. Vídeóin sniðug og „rétt“ og tónlistin vel valin og unnin hjá Árna Rúnari Hlöðverssyni. Gaman að dansútgáfunni af hringitóninum og dansuppbrotin öll skemmtileg, en Ásrún Magnúsdóttir á heiðurinn af sviðshreyfingum.

Litla svið Borgarleikhússins hefur verið mikilvægur vettvangur fyrir rannsóknir á þjóðarsálarástandinu í vetur. Kartöfluætur Tyrfings Tyrfingssonar og nú Lóaboratoríum Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur eru tvær vel heppnaðar atlögur að því að skoða persónur á jaðrinum takast á við samtímann. Í báðum er boðið upp á frumlega nálgun og húmor af súrara og svartara taginu. Lóaboratóríum hefði grætt á meira sjálfsöryggi gagnvart forminu, að efniviðnum sjálfum hefði verið treyst betur. Eða þá ef stigin hefðu verið fleiri og markvissari skref í átt að rétt formuðu leikriti. Eða jafnvel söngleik, ég heyri hann alveg fyrir mér. Engu að síður stendur það sem Sokkabandið ber á borð algerlega fyrir sínu og mun vekja hlátur og skapa hroll hjá öllum þeim sem voga sér inn á tilraunastofuna.

x

fimmtudagur, janúar 18, 2018

Efi

Eftir John Patrick Shanley. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn: Stefán Baldursson. Leikmynd og búningar: Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson og Jóhann Friðrik Ágústsson. Tónlist: Veigar Margeirsson. Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson. Leikarar: Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 13. janúar 2018, en rýnt í 2. sýningu 14. janúar 2018.


Sálarháski alstaðar 

„Það sem raunverulega á sér stað í lífinu er ekki þannig að það sé hægt að leggja út af því. Sannleikurinn er ekki efni í góða predikun. Hann er svo oft ruglingslegur og niðurstaðan óskýr.“

Þannig kemst séra Flynn að orði þegar systir James spyr hann út í sannleiksgildi aldeilis prýðilegrar dæmisögu sem hann notaði í predikun um slúður. Þetta er alveg rétt hjá prestinum. Kannski þess vegna sem leikskáld grípa gjarnan til þess að staðsetja siðklemmuleikrit innan veggja klausturs og kirkju. Þar eru línurnar einfaldari, færra sem hefur áhrif á gjörðir fólks. Og auðvitað meira í húfi en hjá hinum vantrúaða leikmanni nútímans.

En jafnvel í þessu einfaldaða umhverfi er manneskjan söm við sig og stjórnast af ótalmörgu öðru en siðviti og trú. Persónuleiki, lífsreynsla, samfélagsstaða, hvatir; allt hefur þetta áhrif til góðs og ills. Þetta veit John Patrick Shanley mætavel og þess vegna er Efi alls ekki réttnefnd „dæmisaga“, heldur verk skrifað innan leikritunarhefðar þar sem aðstæður og atburðir líkja einmitt eftir hinum ruglingslega og óskýra raunveruleika, innan kirkju og utan. Sem því nemur verra efni í dæmisögu.

Við kirkju Heilags Nikulásar í New York er starfræktur barnaskóli. Þar ræður ríkjum systir Aloysius, framúrskarandi fær í sínu starfi, með óbilandi undirstöðu í kennisetningunum og einstrengingsleg og hrokafull eftir því. Hinn léttúðugi nútími hefur hafið innreið sína í gervum ungnunnunnar systur James og séra Flynn. Skólastýran hefur vald til að móta stúlkuna að vild, en öðru máli gegnir um prestinn. Þegar atvik varðandi einn altarisdrengjanna vekur grunsemdir um misnotkun gengur systir Aloysius í málið af röggsemi sem fer jafnvel á skjön við skýran valdastrúktúr kirkjunnar. Velferð barns er í húfi, en undir og saman við kraumar persónuleg andúð og hugmyndaleg togstreita. Hvaða syndir er réttlætanlegt að drýgja til að leiða slíkt mál til lykta, og er drifkrafturinn kristilegt siðgæði, umhyggja og réttlætiskennd eða eitthvað lægra? Þarna er efinn.

Þetta Pulitzer-verðlaunaleikrit er haganlega smíðað í hinni rótgrónu raunsæishefð sem nær amerískum hápunkti sínum í sumum verka Arthurs Miller. Upplýsingum er miðlað áreynslulaust og á tæknilega hárréttum stöðum til að viðhalda spennu, áhuga og óvissu áhorfenda. Persónurnar bæði fulltrúar hugmynda, stétta og lífsafstöðu en nægilega búnar persónueinkennum til að verða fyllri og nær því að líkjast fólki af holdi og blóði. Það sem á vantar til að það sé framúrskarandi er einna helst það að sálarangist systur Aloysius í lokin er ekki nægilega vel undirbyggð, eða okkur leitt nógu snemma í ljós að hún sé hið raunverulega efni leikritsins. Það er of seint að segja áhorfandanum í síðustu setningunum að það sem á undan er gengið sé í raun harmleikur og draga þá loksins fram hver sé hin tragíska hetja.

En sem sagt: fram að því afbragðsgott, og mikið fóður fyrir leikara sem hafa þessa hefð á valdi sínu. Það er óhætt að segja að það eigi við um leikhóp Stefáns Baldurssonar, sem og kunnáttu hans í meðferð efnis af þessu tagi, enda er sýningin einstaklega lipurlega sviðsett og nákvæmlega unnin svo allt komist til skila. Ég hef reyndar smá efasemdir um lögnina á frú Miller, móður altarisdrengsins sem á eina senu þar sem hún mætir til viðtals við skólastýruna sem leitar sannana fyrir illvirkjum prestsins. Mig vantaði meira óöryggi, jafnvel undirgefni, í túlkun Sólveigar Guðmundsdóttur frammi fyrir hinni valdamiklu, jafnvel ógnvekjandi systur Aloysius. Það er varla hægt að vera á jafn augljósum útivelli og frú Miller. Sonur hennar er eini þeldökki nemandinn í skólanum í írsk-ítalska verkamannahverfinu og öll hans framtíð veltur á að hann útskrifist þaðan. Ég held líka að þegar frú Miller setur fram sína sýn á málið og hryllilegar aðstæður fjölskyldunnar væri samanbitin harka rökréttari og áhrifaríkari en sýnileg örvænting. Sólveig vann vel úr þeirri leið sem valin hafði verið, verðugur mótherji skólastýrunnar.

Það lendir á ungum herðum Láru Jóhönnu Jónsdóttur að gefa sýningunni léttleika i hlutverki hæfileikaríku hugsjónakonunnar systur James, sem við sjáum að er – eðlilega – undir hælnum á systur Aloysius en getur þegar mikið liggur við staðið uppi í hárinu á henni og er glöggskyggn á bæði kosti hennar og galla. Skýr og vel unnin persóna þar sem mikið var sagt með líkamsmáli og augnaráði.

Hilmir Snær Guðnason er framúrskarandi sem séra Flynn. Geislandi af persónutöfrum og brothættum myndugleika. Reynsla, færni og hæfileikar Hilmis Snæs nýtast til fullnustu í þessum stíl, við sjáum áreynsluleysi meðan tæknin vinnur vinnuna. Þeir Stefán og Hilmir stilla sig algerlega um að gera Flynn grunsamlegan eða ljá honum einhver einkenni sem falla að staðalímyndum um níðinga. Sem eykur spennustigið fremur en hitt.

En auðvitað er endurkoma Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur stóru fréttirnar. Það er óhætt að segja að það sé umtalsverður stæll yfir henni. Stjörnubragur. Systir Aloysius verður bæði ómótstæðileg og ógnvekjandi í túlkun Steinunnar Ólínu, hún drottnar yfir sviðinu og allar setningar sem eiga að vekja hlátur gera það. Og aftur: áreynsluleysi. Vald á viðfangsefninu. Það fer einkar vel saman með því valdi sem persónan hefur lengst af á aðstæðum og öllum í kringum sig, að henni sjálfri meðtalinni.

Leikmynd og búningar eru verk Þórunnar Sigríðar Þorgrímsdóttur. Búningarnir stýrast eðlilega af raunsæisnálgun sýningarinnar, nunnur og prestur skrýdd eins og vera ber, þó háir hælar skólastýrunnar hafi fengið mig til að velta vöngum. Og kannski hefði frú Miller mátt mæta örlítið settlegri með siðprúðari pilssídd á fundinn í klausturskólanum.

Umgjörð Þórunnar um verkið er eins einföld og verða má. Hvítur bogadreginn veggur sem lita mátti með ljósum og varpað var á fallegum trúarlegum teikningum milli þátta. Einnig er gefið til kynna með texta hvar senurnar eiga sér stað, sem vinnur með dæmisagnahugmyndinni en á móti raunsæiseðli verksins en truflaði hvorki né gerði gagn þegar upp var staðið. Íþróttavallarmerkingar á sviðsgólfinu þóttu mér meira truflandi en gefandi. Tónlist Veigars Margeirssonar er þénug og hógvær. Þýðing Kristjáns Þórðar Hrafnssonar stingur hvergi í eyru. Húsgögn og annar sviðsbúnaður naumhyggjulegur mjög, hér er öll áhersla á list leikara og nákvæma meðferð texta.

Fjórmenningarnir standa vel undir þeirri ábyrgð. Sýning Þjóðleikhússins á Efa er prýðistækifæri til að sjá framúrskarandi leikhóp flytja af öruggu listfengi vel uppbyggt og alvörugefið verk sem ætlar sér þegar upp er staðið aðeins um of sem drama en rígheldur leikhúsgestum, skemmtir og hreyfir við.


þriðjudagur, janúar 16, 2018

Himnaríki og helvíti

Eftir Jón Kalman Stefánsson í leikgerð Bjarna Jónssonar. Leikstjórn: Egill Heiðar Anton Pálsson. Leikmynd og kvikmynd: Egill Ingibergsson. Teikningar og kvikun: Þórarinn Blöndal. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Tónlist og hljóðmynd: Hjálmar H. Ragnarsson. Hljóð: Baldvin Þór Magnússon. Leikgervi: Helga I. Stefánsdóttir og Árdís Bjarnþórsdóttir. Hljóðfæraleikarar: Pétur Eggertsson og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir. Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Birna Rún Eiríksdóttir, Björn Stefánsson, Hannes Óli Ágústsson, Haraldur Ari Stefánsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Frumsýning á stóra sviði Borgarleikhússins 11. janúar 2018.

Listin að lifa af

,,Þetta var tími þegar fólk var bæði óskaplega opið og dramatískt í samskiptum en einnig lokað og sýndi mikla hörku hvað við annað,“ segir Bjarni Jónsson, leikgerðarsmiður Himnaríkis og helvítis, í viðtali í leikskrá sýningarinnar. Þetta er skörp athugasemd og gefur kannski innsýn í hvers vegna þríleikur Jóns Kalmans Stefánssonar og þó sérstaklega fyrsta bók hans, samnefnd sýningunni, hefur eignast sess sinn í hjarta lesþjóðarinnar. Hér eignast einstakur tónn og nálgun Jóns á skáldskapinn (ég vil síður kalla það „stíl“) heimili þar sem eiginleikar hans og tjáningarmáttur njóta sín í fullkomnu samræmi við umfjöllunarefnið. Persónur Jóns njóta þess einmitt hvernig hann gefur þeim færi á að vera opnar og dramatískar á áhrifaríkan hátt, fyrir utan hversu skáldlega og upphafið sögumaðurinn lýsir einatt þeirra innra lífi. Og harkan, hrjóstrugt yfirborð persóna sem neita eða geta ekki lifað opnar, heilla einatt þennan höfund og kalla fram margt það magnaðasta sem hann skrifar.

Þrátt fyrir að þríleikurinn – einkum fyrsta bindið – hafi hitt þjóðina í hjartastað hefur hann líklega ekki búið þar nógu lengi til að þola, eða verðskulda, galgopalega póst-dramatíska þeytivindu í anda Þorleifs Arnar Arnarssonar eða Yönu Ross. Það gæti að minnsta kosti verið ein skýring þess hve hlutlaus afstaða er tekin til efnisins í sýningu Borgarleikhússins. Mögulega er ósanngjarnt að kalla verk þeirra Bjarna og Egils Heiðars Antons Pálssonar leikstjóra „gamaldags“, en það er sannleikskjarni í því líka. Örlítið meira afstöðupúður hefði ekki sakað, sýnist mér úr sæti eftiráskýrandans. Þetta bitnar ekki síst á þorpsbúunum, þar sem hin skýri dilkadráttur höfundar í góða og slæma fólkið er ýktur og engum gráum flötum hleypt að. Fyrir vikið afhjúpast viss klisjutilhneiging í persónugalleríinu. Í þriðja hluta kviknar sú hugsun að það sé engu líkara en Charles Dickens hafi ákveðið að leggja frá sér Nickolas Nickleby og skrifa frekar Heimsljós eftir sínu höfði.

Fyrir utan orðspor bókanna og fegurð textans er erfitt að koma auga á kosti þríleiksins sem efnis í leiksýningu, og það verður að viðurkennast að sýning Borgarleikhússins nær ekki fyllilega að gera þá augljósa. Dramað, átökin í Himnaríki og helvíti og Harmi englanna eru fyrst og fremst við náttúruöflin; veðurofsa, sjó og snjó, nokkuð sem leikhúsið er ekki á heimavelli við að lýsa, og þegar togstreitur innan mannlegs samfélags taka við í Hjarta mannsins þá siglir Jón hættulega nálægt melódramanu, nokkuð sem getur verið leikhúsinu skeinuhætt, nú á öld kaldhæðni og efasemda.

Hitt er líka erfiðleikum bundið hvað vitundarmiðja bálksins, strákurinn sem lifir af sjóferðina örlagaríku, kemst undir verndarvæng sterkra og sjálfstæðra kvenna og tekur að lokum örlög sín í eigin hendur, er kyrrstæð persóna. Hann birtist nánast fullþroskaður í upphafi sýningar, nývaknaður í verbúðinni. Opinn, greindur, skapheitur, listelskur, leitandi, hugrakkur og ástríkur. Síðan fylgjumst við með honum takast á við heiminn með þessum vopnum sem honum eru fengin á fyrstu síðu. Sem gengur mun betur upp á pappír en sviði. En þá kemur til kasta Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur. Sköpun hennar á stráknum er ekki hægt að kalla neitt annað en leikhústöfra. Algerlega sannfærandi túlkun og þrungin útgeislun sem staðsetur strákinn ævinlega í miðri athygli áhorfandans.

Það er auðveldara að sætta sig við það hvað aðrar persónur eru kyrrstæðar og eintóna, þetta er jú saga stráksins. Allar þessar myndir eru skýrar og skarpar, vel studdar af fallegum, viðeigandi en óneitanlega ansi ófrumlegum búningum Helgu I. Stefánsdóttur. Valur Freyr Einarsson hreppir gjarnan, og brillerar í, hlutverkum illgjarnra ríkisbubba og fór áreynslulaust með Friðrik, en skapar líka eina af áhugaverðari og dýpri týpum sýningarinnar úr hrúðurkarlinum Pétri. Katla Margrét Þorgeirsdóttir er Andrea kona hans, sem strákurinn „bjargar“ úr ömurlegum aðstæðum, fallega teiknuð persóna en sérkennilegt að hafa þessa brotnu konu svona fagra og beina í baki – hefði ekki verið áhugaverðara að láta strákinn einan um að sjá í henni fegurðina? Það geislar líka af tálkvendinu Ragnheiði og hinni elskuðu Álfheiði í meðförum Birnu Rúnar Eiríksdóttur, eins og maklegt er.

Stoltar og fagrar eru þær líka stöllurnar Helga og Geirþrúður og Sigrún Edda Björnsdóttir og Margrét Vilhjálmsdóttir fara létt með að sýna á þeim þessa einu hlið. Kolbeinn blindi, bitastæðasta hlutverk Haraldar Ara Stefánssonar, er frekar þreytandi í sínum hrópum. Var virkilega ekki pláss fyrir senu með stráknum að lesa fyrir hann? Það hefði stækkað mynd þeirra beggja í sýningunni, dýpkað skilning okkar á aðalpersónunni. Bárður var skemmtilega lífsglaður hjá Birni Stefánssyni og dauði hans hálfu átakanlegri fyrir vikið.

Það kom mér svolítið í opna skjöldu að það er hin sérkennilega og sviðsetningarlega vandasama miðbók, Harmur englanna, sem rís hæst í sýningunni. Þar blómstrar umgjörð Egils Ingbergssonar, dúkurinn stóri sem leikhópurinn magnar með illviðrið, skápallurinn, kröftugar teikningar Þórarins Blöndal og lýsing Þórðar Orra Péturssonar auk hljóðvinnslu Baldvins Þórs Magnússonar. Þarna gengur leikhúsið af einurð og heiðarleika á hólm við verkefni sem ekki er sjálfgefið að takist, og sigrar.

Þarna í hríðinni kemst sýningin líka næst því að gefa persónu áhugavert dramatískt líf í Jens pósti, þökk sé tveimur atriðum. Annarsvegar þar sem hann opnar sig fyrir stráknum í svaðilförinni miklu um ástæður þess að hann verði, og muni, halda lífi, og síðan þar sem ferðafélagarnir liggja í vari við líkkistu Ástu heitinnar og hann útlistar ástarmál sín. Allt eru þetta þó frásagnir af dramatík utan sviðs, líkt og í frönskum sautjándu aldar harmleik. Bergur Þór Ingólfsson er firnagóður Jens, sérstaklega í eintalinu magnaða um systur sína. Hannes Óli Ágústson kröftugur Hjalti vinnumaður, en á sitt stærsta og besta hlutverk í hinum ógæfusama Gísla skólastjóra sem nær mögulega einhverskonar landi í leikslok. Ekki endilega frábær hugmynd samt að láta Hannes Óla syngja einsöng. Grunnhugmynd að baki tónlistabeitingu, með hljóðfæraskipan og lagaval er snjöll, þau Pétur Eggertsson og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir spiluðu hnökralaust og allir sungu hreint. Nýju lögin hans Hjálmars H. Ragnarssonar voru falleg og í réttum anda um leið og þau báru skýr höfundareinkenni.

Leikgerðarhöfundur og leikstjóri vinna með viðteknar aðferðir skáldsagnaleikgerða í þessari sýningu. Framvindunni er ágætlega skýrt til skila haldið frá upphafi til enda, og aðdáendur orðlistar Jóns Kalmans fá fylli sína. Fyrir utan að skila sínum leikhlutverkum, flestir fleiri en einu, með þeim takmörkunum sem aðferðin setur djúpri og innlifaðri persónusköpun, gegnir leikhópurinn hlutverki sviðsmanna og sögumanns. Umbreytingar og sviðsetning er meira og minna fumlaus en ég hef efasemdir um þá ákvörðun að leggja drjúgan hluta sögumannstexta í munn talkórs leikaranna. Það þarf í það minnsta að útfæra betur. Hópurinn hljómaði oftast meira eins og illa samstilltur söfnuður að fara með trúarjátninguna í sunnudagsmessu en fagmenn að beita úthugsuðu listrænu stílbragði. Kannski var það meiningin. Vera má að kórinn slípist, en er þetta ekki óþörf upphafning textans?

Almennt þykir mér hér stigið fullvarlega til jarðar. Ljóst er að þríleikur Jóns er efniviður sem nýtur sín ekki sjálfkrafa til fullnustu í leikrænum búningi. Engu að síður er honum mikið til hlíft við þeirri róttæku rannsókn sem kröftugar leikgerðasýningar undanfarinna ára hafa byggst á. Útkoman er ekki nægilega sjálfstætt listaverk. Það er augljóslega meðvituð listræn ákvörðun og skilar bæði styrkleika og ágöllum sýningarinnar.

Leikgerðin afhjúpar veikleika þessa metnaðarfulla þríleiks. Melódramað, grunnskreiða samfélagsgreiningu og skort á þróun persóna. Sýningin nær engu að síður þegar best lætur að skila og gera sér mat úr umtalsverðum styrkleikum skáldskapar Jóns Kalmans og þeim innblæstri sem í hann má sækja. Þarna munar mikið um eftirtektarverða frammistöðu Þuríðar Blævar. Áhorfendur verða líka vitni að áhrifaríkri beitingu meðala og tækni sviðsins til að skapa aðstæður og virkja ímyndunarafl áhorfandans til að horfast í augu við náttúruöflin og kraftana innra með okkur.