þriðjudagur, desember 19, 2000

Sólarhringur

Leikfélag Hornafjarðar
19. desember 2000

Höfundur: Þorsteinn Grétar Sigurbergsson
Tónlist eftir Beethoven, Emerson, Lake & Palmer, Jóhann Morávek, Orff, Prokofiev og Tangerine Dream.

Ljósaballett

TILRAUNASTARFSEMI hefur ekki verið áberandi á viðfangsefnaskrá áhugaleikfélaganna, frekar að þeim hafi verið legið á hálsi fyrir einhæfni og ófrumleika í vali á verkefnum. Fjölbreytnin hefur þó aukist nokkuð undanfarinn ár og nú býður Leikfélag Hornafjarðar upp á sérdeilis óvenjulega sýningu, svo ekki sé meira sagt.

Þorsteinn Grétar Sigurbergsson er tvímælalaust einn listfengasti ljósameistari áhugaleikfélaganna og hér hefur hann sett saman sjónarspil úr ljósum og hljóðum eingöngu, engir leikarar koma við sögu, ekkert leikrit lagt til grundvallar.
Hægt væri að setja á langar tölur um hvort svona sýning er eiginleg leiklist. Flokkunarfræði listgreina er mikið völundarhús sem mikið hefur verið byggt við undanfarna áratugi. Skilgreiningum á hvað tilheyri einni listgrein og hvað ekki er ætlað að vísa veginn, en oftar en ekki loka þær einfaldlega leiðum sem gaman væri að kanna. Það er ljóst að sýning á borð við Sólarhring Þorsteins er jaðartilfelli, nokkurskonar myndlistarverk sprottið úr stuðningsgrein leiklistarinnar, ljósahönnuninni. Kannski ætti að kalla það “leikhúslistaverk” til aðgreiningar frá verkum þar sem eiginlegur leikur kemur við sögu, en best að láta hér staðar numið í flokkunarfræðum.

Eins og nafnið bendir til túlkar sýningin einn sólahring og beitir fjölbreyttum tæknibrögðum til að skila þeirri ætlun sinni. Að morgni fylgjumst við með hægfara breytingum á birtu yfir fjöllum, horfum á náttúruna vakna. Dagurinn einkennist af geómetrískum formum í hreinum litum sem berjast um yfirráð yfir fletinum, kannski er dagurinn ríki mannsins með öllum sínum árekstrum og þverúð, ólíkt harmónískri þróun og flæði náttúrunnar í upphafinu. Nóttin flytur okkur síðan út í geim, stjörnur og norðurljós setja bæði bægslagang dagsins og náttúru morgunsins í stærðarsamhengi og leiðir okkur aftur til dögunar, nýr hringur hefst.

Alla sýninguna hljómar tónlist og kemur nún úr ýmsum áttum, allt frá tunglskinssónötu Beetovens til Prokoffievs og tölvupopps Tangerine Dream. Þessi sundurgerð þótti mér nokkuð til lýta, og meiri alúð við val á tónlist og að stilla betur saman áhrif tóna og ljósa hefði gert sýninguna sterkari. Betur færi að mínu viti að velja í upphafi eitt tónverk og “lýsa” það, ellegar vinna sýningu í samvinnu við tónsmið. Heimamaðurinn Jóhann Morávek á sjálfur stuttan kafla í lok sýningarinnar og kannski ættu þeir félagar hann og Þorsteinn að efla samvinnuna og vinna saman næstu sýningu.

Sólarhringur er falleg sýning, skemmtileg áminning um möguleika ljóssins til að skapa sjálfstæðar myndir. Þorsteinn hefur vald á sínum tækjum og hugmyndaflug til að ausa af. Leikfélag Hornafjarðar er lánsamt félag að hafa slíkan mann í sínum röðum.

sunnudagur, desember 10, 2000

Rommí

Skagaleikflokkurinn
Rein á Akranesi sunnudagur 10. desember 2000

Höfundur: D. L. Coburn
Þýðandi: Tómas Zoëga
Leikstjóri: Hermann Guðmundsson
Leikendur: Anton Ottesen og Guðbjörg Árnadóttir

Tveir gallagripir

ROMMÍ er leikrit af gamla skólanum, haganlega smíðuð flétta og raunsæisleg persónusköpun. Við fylgjumst með tveimur einstæðingum á elliheimili kynnast, stytta sér stundir í félagsskap hvors annars og fletta smátt og smátt ofan af skapgerðarbrestum og óþægilegum staðreyndum úr fortíðinni. Allt meðfram eða kannski vegna þess að þau geta ekki hætt að spila Rommí, allavega ekki meðan nýgræðingurinn Fonsía heldur áfram að vinna hinn sjálfumglaða og þaulreynda Weller í hverju einasta spili, að því er virðist án þess að reyna það. Ef til vill er eitthvað til í þeirri hellisbúaspeki að konur hafi það fram yfir karla að geta gert tvennt í einu, og ef Weller hefði vit á að þegja myndi hann vinna. En það getur hann ekki, og því fer sem fer. Rommí er kannski ekki dýpsta eða frumlegasta leikrit sem skrifað hefur verið, en haganlega saman sett og allnokkuð skemmtilegt.

Skagaleikflokkurinn hefur enga fasta sýningaraðstöðu en er greinilega laginn að finna sýningarstaði sem hæfa hverju verkefni. Í fyrra sýndu þau eftirminnilega sýningu í sundlaug og nú hafa þau komið sér fyrir í litlu félagsheimili sem gæti hæglega verið matsalur elliheimilisins sem verkið á að gerast í. Umgjörð er smekkleg og greinilega íslensk, engin tilraun gerð til að staðsetja okkur í Bandaríkjunum, þó textinn vísi iðulega þangað. Þetta kemur ekki að sök, enda eru persónur þær sem þau Anton og Guðbjörg skapa hreinræktuð íslensk gamalmenni.Báðir ná leikararnir á stundum að vera ísmeygilega fyndnir, sérstaklega framan af meðan samskiptin eru á léttu nótunum. Texti Wellers er ríkulegar búinn af möguleikum til skemmtilegheita og nýtti Anton sér það ágætlega.

Á hinn bóginn virtist mér sem hvorugt þeirra hefði enn náð fullkomnu valdi á textanum. Óþarflega oft var hikað, eða svo virtist sem verið væri að umorða setningar. Væntanlega eykst þeim þó öryggi eftir því sem sýningum fjölgar. Nokkuð skortir einnig á að sýningin haldi til skila blæbrigðum þeim og stigmögnun sem leikritið býr yfir. Hraða- og styrkleikabreytingar eru ekki nægilega vel útfærðar, jafnvel ekki þar sem augljóst er af textanum að eitthvað hafi gengið á, bræðisköst og öskur. Hér hefði leikstjóri þurft að leggja skýrari línur. Fyrir vikið er sýningin óþarflega eintóna, þróunin í samspili gallagripanna tveggja verður ekki nægilega skýr og dramatískari þræðir verksins komast lítt til skila.

Allt um það þá er léttari þáttum verksins prýðilega skilað og með auknu öryggi leikaranna getur ýmislegt gerst.

sunnudagur, desember 03, 2000

Ef væri ég gullfiskur

Leikfélag Ólafsfjarðar
Sunnudaginn 3. desember 2000

Höfundur: Árni Ibsen
Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson
Leikendur: Guðni Harðarson, Helgi Reynir Árnason, Fjóla Bláfeld Stefánsdóttir, Sigríður Ingimundardóttir, Birkir Guðnason, Hafdís Kristjánsdóttir, Kolbeinn Arnbjörnsson, Auður Ósk Rögnvaldsdóttir, Halla Jóhannesdóttir og Valgerður Stefánsdóttir.

Farsinn á tímum blygðunarleysisins

EF væri ég gullfiskur er ákaflega metnaðarfull tilraun til að skoða íslenska þjóðarsál í spéspegli farsaformsins. Að mörgu leyti ættum við að vera nokkuð gott viðfang fyrir slíka athugun. Græðgin og yfirborðsmennskan, þörfin fyrir að sýnast annað en við erum, taumleysið í leitinni að skyndisvölun hvatanna. Og öllu þessu gerir verkið ágæt skil. Hins vegar virðast vera brotalamir í því hvernig farsinn er smíðaður sem valda því að til að viðhalda spennunni í fléttunni þarf fyrirgang og læti sem tæpast er innistæða fyrir hjá persónunum. Í minningunni var frumflutningur Leikfélags Reykjavíkur á verkinu þessu marki brenndur og svo er líka með sýningu Leikfélags Ólafsfjarðar nú. Báðar ná þær að skemmta áhorfendum sínum, þó áreynslan sé oftast óþarflega sýnileg.
Í farsa þarf einhver, og helst fleiri en einn, að hafa eitthvað að fela sem er svo þýðingarmikið að ekki komist upp að blekkingarnar taka á sig æ fráleitari myndir sem á endanum eru talsvert verri en það sem þær upprunalega áttu að dylja. Einn höfuðvandinn í Gullfiskunum er að sú persóna sem geymir stærsta leyndarmálið, ættfaðirinn Pétur sem er á leið úr landi með illa fengið fé, er nánast stikkfrí í hamaganginum, meðan sonur hans, hinn seinheppni Brynjólfur, fer hamförum við að fela og leyna hlutum sem tæpast er trúverðugt að skipti hann stóru máli. Vandræðagangur Brynjólfs verður tæpast hlægilegur, þar sem hann er lítt trúverðugur.
Ef marka má leikskrá þá er leikhópur Leikfélags Ólafsfjarðar að mestu skipaður lítt reyndu fólki að þessu sinni. Þeim er því nokkur vandi á höndum að halda sýningunni og skemmtanagildinu á floti. Það tekst þó bærilega, enda leikið af miklum krafti og á þeim hraða sem hæfir verkinu, auk þess sem ýmsir leikaranna eiga dágóða spretti. Mikið mæðir á Helga Reyni Árnasyni í hlutverki Brynjólfs, hins taugaveiklaða og kúgaða kennara sem hættir sér út í fyrstu framhjáhaldstilraun sína með fyrirsjáanlegum farsaafleiðingum. Helgi gerir persónuna á köflum nánast viti sínu fjær og er iðulega kostulegur þegar mest gengur á. Hann nær þó ekki að yfirvinna fyrrgreinda brotalöm í persónunni, enda varla hægt að ætlast til þess. Fjóla Bláfeld Stefánsdóttir var innlifuð og óhamin sem kynlífsfíkillinn og tálkvendið Alda, Halla Jóhannesdóttir var hæfileg blanda af gribbu og klisjulegum nýaldarkuklara og Valgerður Stefánsdóttir var algerlega sannfærandi sem einfeldningurinn Halldóra, full af innistæðulausu sjálfsöryggi.
Þröstur Guðbjarsson hefur að mestu leyti náð að halda dampi í sýningunni. Stundum verður samt hamagagangurinn til þess að athygli áhorfenda beinist annað en þangað sem hún á erindi. Of oft er of margt að gerast í einu, svo mikilvæg augnablik fara forgörðum.
Ef væri ég gullfiskur er kraftmikil sýning og skemmtigildið er til staðar. Það verður gaman að fylgjast með hvernig Leikfélagi Ólafsfjarðar spilast úr þeim kröftum sem óslípaðir stíga á svið núna. Næsta ár fagnar félagið fjörutíu ára afmæli en við slík tækifæri er gjarnan ráðist í stórvirki. Það verður spennandi að sjá.