laugardagur, október 26, 2002

Kardemommubærinn

Leikhópurinn Vera
Félagsheimilinu Skrúð 26. október 2002


Höfundur: Torbjörn Egner
Þýðendur: Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Björn Gunnlaugsson.

Ferskar Kardemommur á Fáskrúðsfirði

BJÖRN Gunnlaugsson stýrir nú í þriðja sinn leiksýningu hjá Leikhópnum Veru á Fáskrúðsfirði. Þetta hefur verið farsælt samstarf og skilað ágætum sýningum. Það sem er þó jafnvel meira um vert þá hafa tvær þessara sýninga, Dýrin í Hálsaskógi í mars í fyrra og nú Karedmommubærinn, verið að stórum hluta fluttar af grunnskólabörnum sem fá þannig tækifæri til að kynnast leikhúsvinnu þar sem greinilega er unnið af alúð og alvöru. Þetta er frábært framtak hjá leikhópnum Veru, og það er svo gleðilegur bónus þegar útkoman er bráðskemmtileg sýning, eins og raunin var með Dýrin og aftur nú í Kardemommubænum.

Varla þarf að fjölyrða um efnisþráð Kardemommubæjarins, sem fyrir utan það að draga upp skemmtilegar smámyndir af ótrúlega hamingjusömum og litríkum smábæ segir sögu af blíðlegri og átakalítilli betrun þriggja glæpamanna og endurkomu þeirra inn í samfélagið. Sem leikverk stendur það Dýrunum í Hálsaskógi nokkuð að baki, en er á hinn bóginn laust við predikunartóninn sem einkennir siðaboðskap þess verks. Kardemommubærinn er fyrirmyndarsamfélag undir blíðlegri stjórn Bastíans bæjarfógeta, ólíkt Hálsaskógi með sínum ónáttúrulegu og óframfylgjanlegu lögum.

Það er mikill barnaskari í sýningunni, enda þörf á mörgum leikurum þegar draga á upp mynd af heilum smábæ. Um þrjátíu leikarar standa á sviðinu og vissulega er greinilegt að fæstir hafa mikla leikreynslu að baki. Það breytir þó engu um það að sýningin er ágæt skemmtun, sem helgast bæði af frammistöðu leikara í burðarhlutverkum og ferskri sýn leikstjórans á efnið, en hann játar það í leikskránni að hafa aldrei séð Kardemommubæinn á sviði. Fyrir vikið er öllum hefðum í útliti, leiklausnum og túlkun persónanna kastað fyrir borð og staðinn koma óvæntir hlutir sem gleðja áhorfandann. Þetta birtist í ýmsum myndum, oft í allskyns snjöllum smáatriðum. Ætli eftirminnilegast þeirra verði ekki viðbrögð páfagauksins (í afburðaskemmtilegum meðförum Heimis Jóns Bergssonar) við því að hann sé falur fyrir aðeins fjögurhundruð krónur. Mýgrútur slíkra skemmtilegra hugmynda fylla sýninguna, gefa henni stærð og uppskera ófáar hláturrokur.

Af öðrum leikurum er rétt að nefna fyrsta ræningjana, þá Bergstein Ingólfsson, Sölva Rafn Sverrisson og Óskar Ingimar Gunnarsson og þeirra óvenju atkvæðamikla ljón, Margréti Andersdóttur. Þau standa sig öll með mikilli prýði. Þá er Bastían í öruggum höndum hjá Valdimar Mássyni, sem er bestur þegar honum tekst með herkjum að halda virðingu sinni við vandræðalegar aðstæður í ræningjabælinu þegar bjarga á ungfrú Soffíu. Skarexin sú er ágætlega leikin og sungin af Tinnu Hrönn Smáradóttur. Fleiri mætti nefna til sögunnar en einhversstaðar verður að láta staðar numið.

Tónlist er veigamikill hluti verksins, og áttu margir leikaranna í nokkrum erfiðleikum við að fylgja undirleiknum, sem var af bandi og því lítið svigrúm til að stilla saman strengi. Annað sem gerði leikurum erfitt fyrir var sú sviðslausn að láta ræningjana búa í gryfju fremst á sviðinu sem varð til þess að lítið sást af aftari bekkjum til heimilislífsins þar á bæ. Að öðru leyti var sviðið vel nýtt og góð hugmynd að stækka það með palli til hliðar við áhorfendur.

Að lokum er rétt að hvetja Fáskrúðsfirðinga og nágranna þeirra til að bregða sér í bæjarferð í Kardemommu. Þar er ósvikin og smitandi kátína á boðstólum fyrir börn á öllum aldri.

miðvikudagur, október 23, 2002

Blái hnötturinn

Leikfélag Sauðárkróks
Bifröst 23 október 2002

Höfundur: Andri Snær Magnason
Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson

Leikendur: Agnes Skúladóttir, Árni Jónsson, Elva Hlín Harðardóttir, Eva Karlotta Einarsdóttir, Guðbrandur J. Guðbrandsson, Guðdís María Jóhannsdóttir, Guðný Katla Guðmundsdóttir, Gunnar Egill Sævarsson, Inga Margrét Benediktsdóttir, Ragna Dís Einarsdóttir, Sigurður Halldórsson og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir.

Dýrmætt ævintýri

VITASKULD er það að bera í bakkafullan lækinn að hrósa Bláa hnettinum hans Andra Snæs, en það er bara ekki hægt annað. Ótrúlega efnisríkt ævintýri um gott og illt, æsku og elli, réttlæti og rangindi, stjórnmál, einstaklingshyggju og samhygð, siðleysi, þroska og fórnarlund. Eins og öll góð ævintýri er sagan margræð mjög, og mig grunar jafnvel að hún sé eigi sér fleiri hliðar en höfundur ætlaði sér.

Sagan er sem sagt góð, en leikgerð höfundar er hins vegar ekki sérlega metnaðargjarnt verk. Hún fylgir söguþræðinum afar nákvæmlega og einhvernvegin næst ekki að nýta meðul leikhússins sem skyldi til að skila galdri sögunnar. Ef efnið væri ekki svona magnað er ég hræddur um að athyglin færi fljótt á flakk.

Sýning Leikfélags Sauðárkróks er sú fyrsta sem áhugaleikfélag ræðst í eftir að verkið var frumflutt í Þjóðleikhúsinu, og örugglega ekki sú síðasta. Leikgerðin ber þess samt nokkur merki að vera skrifuð með tæknimöguleika Stóra sviðsins í huga, og í ljósi þess og annarra annmarka hennar í huga hvet ég snjalla leikhúsmenn til að skoða möguleikann á að gera nýja leikgerð sem hentaði betur þeim aðstæðum og möguleikum sem minni svið, minni tækni og meiri nálægð bjóða upp á.

Tæknilausnir Þrastar Guðbjartssonar í sýningunni á Sauðárkróki er einfaldar en nokkuð snjallar; sól og tungl, úlfar og lömb og síðast en ekki síst börn, fljúga á einfaldan hátt og trúverðugan í samhengi sýningarinnar. Örlítið meira nostur við fyrsta flugtak barnanna og innkomu úlfsins hefði þó gert þau andartök að meiri spennupunktum, og á það reyndar við víðar í sýningunni. Stundum eru lykilandartök ekki undirstrikuð nægilega með hlustun og fókus, meira lagt upp úr stuði og fjöri í hópsenunum. Ómarkviss notkun áhrifatónlistar hjálpar síðan ekki.

Þar sem sýningin hins vegar vinnur sigur er í þéttum samleik hópsins og ágætri frammistöðu þeirra þriggja leikara sem mest mæðir á. Sigurður Halldórsson er sannfærandi Gleði-Glaumur, andstyggilegt mannkerti sem engir nema sakleysingjar gætu látið blekkjast af. Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Árni Jónsson ná vel að túlka þau Huldu og Brimi, bæði ungæðislegt stjórnleysið og sársaukann sem kviknar þegar afleiðingar gerða þeirra mæta þeim. Í heild nær hópurinn vel að skapa trúverðug börn, og eins að sýna okkur ellimörkin á þeim þegar Gleði-Glaumur hefur klófest æsku þeirra. Framsögn er þó upp og ofan og ekki hjálpar þegar tónlist er spiluð undir samtalsatriðum án sýnilegs tilgangs.

Búningar og gerfi eru ágætlega af hendi leyst, sérstaklega búningar sólskinsbarnanna. Ég er ekki eins sannfærður um að börnin í myrkrinu eigi að vera svartklædd, og eins voru þau meira skítug en föl. Það hefði verið gaman að sjá þau verulega óhugnanleg og augljóst að félagið hefur á að skipa öflugri förðunar- og gerfadeild sem hefði áreiðanlega komist vel frá því verkefni .

Sýning Leikfélags Sauðárkróks á Bláa hnettinum er býsna vel heppnuð sýning, þrátt fyrir fyrrnefnda annmarka. Hún hittir í mark þar sem máli skiptir; í samsömun áhorfenda við hetjurnar tvær og í efniviðnum sjálfum sem er magnaður, tímalaus og á erindi við alla.

laugardagur, október 12, 2002

Kardemommubærinn

Leikfélag Hveragerðis
Völundi, Hveragerði 12. október 2002

Höfundur: Torbjörn Egner
Þýðendur: Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Sigurður Blöndal

Blíður á manninn

ÞAÐ verður að telja eðlilegt framhald af velgengni Leikfélags Hveragerðis með Dýrin í Hálsaskógi í fyrra að ráðast næst í uppfærslu á Kardemommubænum. Fyrir utan hinn elskulega tón sem gegnsýrir verk Egners eru þetta reyndar ekki sérlega lík leikrit. Í Kardemommubænum er meira lagt upp úr kostulegri samfélagslýsingu meðan Dýrin eru meira afgerandi í boðskap sínum, jafnvel um of. En sagan sem þar er sögð er skýrari, framvindan meira afgerandi og heldur trúlega betur athygli yngri barnanna, sem mörg voru orðin ansi óþreyjufull á frumsýningunni í Völundi á laugardaginn.

Vissulega er boðskapur Kardemommubæjarins samt skýr. Tvær tilraunir eru gerðar til að betrumbæta ræningjana, sem eru það eina sem skyggir á hinn óviðjafnanlega samhljóm sem einkennir mannlífið í bænum. Soffía frænka reynir fyrst með offorsi og “fussumsveii”og hefur ekki erindi sem erfiði. En Bastían og frú, með sínu blíða fasi og hlýlegu leiðbeiningum, ná umsvifalaust að gera góða og gegna borgara úr þessum stjórnlausu og síbernsku bræðrum. Bastían telur hverjum manni skylt að vera “blíður á manninn” og með fordæmi sínu hefur hann áhrif sem skipanir og frenjugangur Soffíu frænku megna ekki.

Það er með miklum ólíkindum hvernig Sigurði Blöndal og liðsmönnum hans hefur tekist að koma þessum fjölskrúðuga bæ fyrir á sviðinu í Völundi. Það var greinilega nokkuð þröngt á þingi en allt gekk þó snurðulítið fyrir sig, enda eindrægni eitt helsta einkenni bæjarbragsins. Það var helst í söngatriðum sem sviðsetningin riðlaðist, þar hefði einbeittari umferðarstjórn skilað betri árangri. Eins fannst mér leikstjóri og leikendur óþarflega feimnir við að syngja beint til áhorfenda, jafnvel þó textarnir gefi tilefni til. Alltof oft stóðu söngvarar með bakið í salinn og sungu til hinna persónanna. Fyrir vikið misstu söngvarnir margir áhrifamátt sinn og texti fór forgörðum.

Að þessum hnökrum frátöldum er sýningin hreint afbragð, og helgast það helst af frábærri frammistöðu helstu leikara. Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson nýtur sín vel í hlutverki Bastíans, og það sama má segja um Ylfu Lind Gylfadóttur, sem er Soffía eins og Soffíur eiga að v era og syngur aukinheldur afar vel. Jóhann Tr. Sigurðsson gaf Tóbíasi sannfærandi hlýlegt gamalmennisyfirbragð. En stærsta hrósið fellur samt ræningjunum í skaut. Þeir Hjörtur Már Benediktsson, Magnús Stefánsson og Steindór Gestson eru óborganlegir Kasper, Jesper og Jónatan, krafturinn, leikgleðin og samleikurinn óaðfinnanlegur, tónninn hárréttur.

Það má óska Leikfélagi Hveragerðis til hamingju með þennan Kardemommubæ. Þar ríkir gleði, og með fordæmi sínu gefur ungum sem gömlum forskrift af því hvernig hægt sé að haga mannlífi þannig að allir uni glaðir við sitt og njóti samvistanna við náungann.