föstudagur, mars 24, 2017

Núnó og Júnía

Eftir Sigrúnu Huld Skúladóttur og Söru Martí Guðmundsdóttur. Leikstjórn: Sara Martí Guðmundsdóttir. Ljósa- og myndbandshönnun: Ingi Bekk. Leikmynda- og leikmunahönnun: Brynja Björnsdóttir. Búninga- og gervahönnun: Íris Eggertsdóttir. Hreyfinga- og danshönnuður: Katrín Mist Haraldsdóttir. Tónlist: Stefán Örn Gunnlaugsson (Íkorni). Hljóðhönnun: Sigurvald Ívar Helgason. Myndband: Ragnar Hansson. Grafískur hönnuður: Sverrir Ásgeirsson. Leikarar: Alexander Dantes Erlendsson, Bjarni Snæbjörnsson, Dominique Gyða Sigrúnardóttir, Aldís Sveinsdóttir, Arndís Eva Erlingsdóttir, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Brynjólfur Skúlason, Egill Andrason, Elísa Ýrr Erlendsdóttir, Eyþór Daði Eyþórsson, Freysteinn Sverrisson, Iðunn Andradóttir, Mateusz Swierczewski, Sigríður Alma Ásmundsdóttir, Sindri Snær Jóhannesson, Rakel Róbertsdóttir, Urður Andradóttir og Valentína Björk Hauksdóttir. Frumsýning í Hamraborg í Hofi 18. febrúar 2017, en rýnt í 5. sýningu 19. mars 2017.

Börnin í Spörtu

Hin árangursdrifna Kaldónía er í krísu. Meðan íbúarnir hamast við að „verða besta útgáfan af sjálfum sér“ með þrotlausum æfingum og mælingum undir vökulu auga Ráðsins herjar „Þokan“ á íbúana, illvíg pest sem gerir þá sem verða fyrir henni ósýnilega að hluta eða öllu leyti. Í stað þess að leita orsakanna og ráða bót á vágestinum hefur Ráðið farið leið strútsins í baráttunni við Þokuna og einangrað þá sem byrja að sýna (eða sýna ekki) einkenni hennar. Reist múr, en handan við hann hírast hinir ósýnilegu við harðan kost meðan hinir íbúarnir hamast. Enginn þó eins ötullega og Núnó Fálkon, ungur afreksmaður og heimsmeistari í óskilgreindum íþróttum sem Ráðið gerir að sendiherra og sínum helsta talsmanni í upphafi verks. En enginn er óhultur fyrir Þokunni. Kynni Núnós af hinni ósýnilegu Júníu, strokustúlku úr Þokuútlegðinni, hrindir honum af stað í sjálfsskoðun og leit að orsökum pestarinnar og þá í leiðinni hvort Þokan sé endilega verra hlutskipti en hið sálarlausa markmiðsdrifna hversdagslíf í Kaldóníu.

Þó barnaleikrit séu einatt boðskapardrifin þá er óvenjulegt að sjá höfunda þeirra stíga jafn eindregin skref inn í dystópíuhefðina og hér er gert. Hinir rómuðu sjónvarpsþættir Black Mirror komu fljótlega upp í hugann, og þeir sem hafa fylgt höfundi þeirra, Charlie Brooker, eftir í myrka afkima nútímalífs og -tækni, myndu seint telja þá við barna hæfi. Þessi sýning er það hins vegar, og hef ég sannfrétt að hún haldi athygli barna frá upphafi til enda, þó í fullri lengd sé, lítið sem ekkert sungið og útlit að mestu grátónað og naumhyggjulegt. Aftur eitthvað sem við eigum ekki að venjast úr „stórsjóum“ fyrir börn.

Útlit og umgjörð er með miklum ágætum út frá þessari grunnforsendu. Grá, hálfgegnsæ tjöld eru dregin sundur og saman af stórum fumlausum leikhópnum og marka ólík leikrými. Notkun myndvarpa og ljósa vinnur glæsilega með hinu efnislega svo úr verður sannfærandi gerilsneyddur framtíðarheimur. Og svo bætast sjónhverfingarnar ofan á, að láta líkamshluta hverfa. Framúrskarandi samvinna hjá hönnuðum sýningarinnar, Birnu Björnsdóttur, Inga Bekk, Ragnars Hanssonar og vafalaust fleirum.

Tónlist Stefáns Arnar Gunnlaugssonar (Íkorna) er flott og rétt, undurfallegur valsinn sem Núnó og Júnía stíga. Það er alveg skiljanleg ákvörðun að magna upp allt tal sýningarinnar og það er smekklega gert hjá Sigurvald Ívari Helgasyni, en óhjákvæmilega er þessi listræna ákvörðun á kostnað nándarinnar við persónurnar og gefur öllu sem fram fer á sviðinu dálítið fráhrindandi gerviblæ. Viðeigandi hér, en engu að síður glatast leikhústöfrar.

Búningar í heimi Kaldóníu eru stílhreinir hjá Írisi Eggertsdóttur, með skýra vísun í heim tölvuleikja og teiknimynda. Hinir litríku íbúar Vestursvæðisins, sem hafa hafnað markhyggju Austursins og lifa í sátt við takmarkanir sínar og hina ósýnilegu voru hins vegar óþarflega klisjulega hippa-austrænir í útliti. Sú sena kom líka einkennilega inn í gang mála og hefði annað hvort þurft mun meira vægi í vegferð Núnós eða hreinlega að láta í minni pokann undir vægðarlausu strokleðri höfundar eða dramatúrgs.

Aðalvandi sýningarinnar liggur nefnilega í handriti Sigrúnar Huldar Skúladóttur og Söru Martíar Guðmundsdóttur. Þó hugmyndin um Kaldóníu sé skýr og snjöll og í henni búi möguleikar á spennandi atburðarás og þroskakostir fyrir persónurnar þá vantar talsvert upp á að úrvinnsla þeirra möguleika sé sannfærandi. Of mikil lausatök eru á vegferð Núnós frá sjálfumglaðri sporthetju til örvæntingarfulls flóttamanns og að lokum bjargvættar. Eins eru samskipti hans og Júníu of yfirborðskennd og fyrirsjáanleg.

Það háir líka Dominique Gyðu Sigrúnardóttur allnokkuð að vera ýmist ólíkamleg rödd í hljóðkerfi, eða alhulin fötum svo ósýnileikinn sjáist ekki. Leikhústæknilegt vandamál sem ekki tekst að leysa þannig að við komumst í samband við aðalkvenhetju leiksins. Dominique er hins vegar bráðskemmtileg sem sjónvarpsstjarnan Sópran í einu af betri atriðum verksins. Alexander Dantes Erlendsson heldur sýningunni uppi í aðalhlutverkinu, en kemst ekki mjög langt með rýran efnivið sem hleypir Núnó aldrei almennilega að hjarta áhorfenda. Bjarni Snæbjörnsson er kröftugur sem Þjálfi, lærimeistari Núnós en jafn heftur af handritinu. Kannski hefði verið betra fyrir orku sýningarinnar, spennustig og skemmtunina að gera Þjálfa að meira eindregnu illmenni. Það vantar svolítið andlitið á andstæðinga Núnós og Júníu.

Það er fallegt og virðingarvert að Leikfélag Akureyrar ráðist í viðamikla frumsköpun af þessu tagi. Sigrún Huld og Sara Martí stytta sér ekki leið með því að nota tilbúinn efnivið ævintýra eða vinsæls barnaefnis heldur vinna úr vitsmunalega krefjandi efnivið frumlega og um margt snjalla sögu. Öllu er tjaldað til í leikhúsinu. Þó útkoman sé ekki afdráttarlaus sigur þá er hér unnið af sönnum metnaði og ástríðu sem er svo sannarlega vel sýnileg og til eftirbreytni.



þriðjudagur, mars 14, 2017

Húsið

Eftir Guðmund Steinsson. Leikstjórn: Benedikt Erlingsson. Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlistarumsjón: Davíð Þór Jónsson. Hljóðmynd: Davíð Þór Jónsson og Kristján Sigmundur Einarsson. Leikgervi: Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir og Ingibjörg G. Huldarsdóttir. Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Arnmundur Ernst Backman, Þröstur Leó Gunnarsson, Stefán Hallur Stefánsson, Birgitta Birgisdóttir, Aldís Amah Hamilton, Baldur Trausti Hreinsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Snorri Engilbertsson, Emil Adrian Devaney, Kolbeinn Daði Stefánsson, Emil Björn Kárason, Þorsteinn Stefánsson, Jón Stefán Sigurðsson, Juan Camilo Roman Estrada, Muhammad Alzurqan, Luis Lucas, Juan Carlos Peregrina Guarneros, Sheba Wanjiku, Marwa Abuzaid, Charlie Jose Falagan Gibbon, Olivia Andrea Barrios Schrader, Maya Moubarak, Javier Fernandez Valiño, Monika Kiburyte, Jozef Pali, Maria Beatriz Garcia og Cheick Ahmed Tidiane Bangoura. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 10. mars 2017.

Flottasta villan í Feigðarósi

Hvað skyldi hafa valdið því að Húsið fékkst ekki sýnt um 1970, þegar það var ferskt úr penna Guðmundar Steinssonar og talaði beint inn í samtíð sína? Samband Guðmundar og Þjóðleikhússins var þá vissulega ekki orðið jafn þétt og það varð fljótlega upp úr þessu, og ljóst er að umfang verksins kallar á tækni og mannafla sem fáir aðrir höfðu á valdi sínu. Kannski hefur Þrándurinn í götunni verið mannfjöldinn sem verkið kallar á undir lokin. Slíkar senur eru eitur í beinum hagsýnna atvinnuleikhússtjóra og kalla á hug- og hagkvæmar lausnir.

Alla vega er ekki hægt að koma auga á neina þannig listræna eða tæknilega ágalla að hefðu átt að kalla á neitun verkefnavalsnefnda af þeim sökum. Þetta er snjallt verk, stílað í anda samtíma síns, skáldlegt í sviðshugsun og stórt í sniðum. Erindi þess hefur auðvitað verið skýrara á ritunartímanum. Margt í afhjúpandi samtölum hinna nýríku hjóna, innbyrðis, við fjölskyldu, vini og óboðna gesti, hefur þá haft yfirbragð hversdagslífs leikhúsgestanna, í stað þess að uppskera aðhlátur fyrir gamaldags fávisku.

Engu að síður er Húsið kærkomið á svið, þó að seint sé. Því margt sem það hefur að segja hittir illu heilli enn í mark hjá börnum og barnabörnum Páls og Ingu.

Virðing Þjóðleikhússins og listamanna fyrir þessu gamla hússkáldi sínu er falleg. Það er vægast sagt óvenjulegt að sjá svona gömul ósýnd verk sótt í handritasafnið og látið á þau reyna. Reyndar eru jafnvel vinsælustu og frægustu leikrit íslenskrar fortíðar fáséð á sviðinu, enda í mörg horn að líta og fáir mánuðir í leikárinu. Tíminn flýgur hratt.

Í Húsinu segir af ungum hjónum á uppleið, þeim Páli og Ingu. Þau búa þröngt með drengjunum sínum þremur og móður Páls. En það stendur til bóta, verið er að leggja lokahönd á stórhýsi fyrir fjölskylduna. Ekki alla reyndar, amman er á leið á elliheimili, ekki er gert ráð fyrir henni í hinni fögru og nýtískulegu höll sem Páll er að reisa sínu fólki. Fljótlega eftir að þau flytja inn fara að birtast þar óboðnir gestir, meðfram þeim sem boðið er til að dást að hinni fögru byggingu og mannlífinu þar. Aðsóknin ágerist þar til öllu er lokið.

Páll og Inga eru gott fólk. Þeim er í mun að innprenta sonum sínum hin kristnu gildi sem Vesturlönd byggja líf sitt og siðferði á. Bjarni, sá elsti, er samt kominn í uppreisnarham, enda er ekki erfitt að sjá að lífshættir hússins eru dauðanum merktir. Þess er vandlega gætt að gildin raski ekki velsældinni, trufli ekki veisluna en gjaldþrot er óumflýjanlegt. Það er ekki síst sú tilfinning sem gerir Húsið tímabært og áhrifaríkt í dag.

Leikhúsfólki verður tíðrætt um „dýptina“ í verkum Guðmundar. Hvað mikið búi að baki orðum og æði persónanna. Ég er ekki sannfærður um að það sé heppilegt orð, jafnvel einfaldlega ekki rétt lýsing. Ég myndi frekar tala um „svigrúm“ sem afhjúpandi innihaldsleysið í samræðunum gefur. Þessu svigrúmi deila túlkendur (leikstjóri, hönnuðir og leikarar) með áhorfendum. Því meira afgerandi sem sýn leikhúsfólksins er, því þrengra verður um ímyndunarafl leikhúsgesta, skilningsleiðum fækkar.

Lengst af tekur uppfærsla Benedikts Erlingssonar verkið „á orðinu“ ef svo mætti segja. Nálgast það bókstaflega, leyfir því að tala fyrir sig. Sú ákvörðun að gera ritunartíma verksins áberandi í útliti sýningarinnar skiptir hér miklu máli og er hreint frábærlega útfærð af hönnuðum búninga (Filippíu I. Elísdóttur), leikmyndar (Snorra Frey Hilmarssyni), lýsingar (Halldóri Erni Óskarssyni) og tónlistar (Davíð Þór Jónssyni). Án þess að hafa rannsakað það sérstaklega grunar mig að ekki hafi verið hnikað til orði í textanum. Sem hefði svo sem alveg borgað sig, ankannalegar eru „útvarpslegar“ staðhæfingar persónanna um það sem fyrir augu ber („þú sest í stólinn!“).

Ein róttæk nýtúlkunarhugmynd er þó útfærð í sýningunni. Undir lokin leggur hópur ókunnugs ungs fólks undir sig hús fjölskyldunnar. Nærtækast er að sjá þau sem hippa/anarkista/róttæklinga sem hafna þeim gildum sem hjónin boða og játa á yfirborðinu, þó að ekki séu nákvæm fyrirmæli um slíkt í handriti Guðmundar. Í sýningu Þjóðleikhússins er kosið að láta þennan lokakafla verksins tala beint við eitt brýnasta viðfangsefni samtímans: fólksflutninga frá stríðsþjáðum og efnahagslega aðþrengdum heimshlutum. Í hlutverkum unga fólksins eru leikarar af erlendum uppruna, úr leikhópi nýrra Íslendinga, og búnaður þeirra gefur sterklega til kynna stöðu nýbúans, flóttamannsins, hælisleitandans. Þessi túlkunarleið þrengir áðurnefnt svigrúm en skapar um leið sitt eigið, kallar beinlínis á meðvitaða úrvinnslu áhorfenda. Því hvað er það sem gerist? Hópur fólks leggur undir sig heimili, að mestu umyrðalaust. Borðar matinn, drekkur vínið, elskast í sérhönnuðum húsgögnunum. Brennir listaverkin. Merking þessa er öll önnur ef æskuhreyfingum sjöunda áratugarins er skipt út fyrir neyðarástand nútímans og má vart á milli sjá hvort hér sé á ferðinni listræn dirfska eða hreinlega einfeldningslegt og óábyrgt innlegg í umræðu sem er svo sannarlega nógu eldfim fyrir.

Strípaður texti og útlínukennd persónusköpun Guðmundar Steinssonar virðist mér ættuð úr absúrdleikhúsinu og gerir miklar kröfur til leikendanna, en jafnframt spennandi tækifæri. Það var gaman að sjá nýja hlið á Guðjóni Davíð Karlssyni sem er hér ekki hláturvekjandi æringi eins og svo oft, heldur hið mynduga og sjálfumglaða höfuð fjölskyldunnar. Hláturrokurnar sem oft fóru um salinn voru ekki sóttar þangað með brögðum gamanleikarans heldur kviknuðu af afhjúpandi orðaskiptum persónanna. Guðjón er sannfærandi í hlutverki Páls en betur hefði þurft að vinna gegn vissri einhæfni í raddbeitingu og mótun tilsvara. Það sama á við um Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur sem einnig var að öðru leyti sannfærandi sem hin ófullnægða en yfirborðssæla húsmóðir. Kristbjörg Kjeld var svo ekki í neinum vandræðum með að ljá línum sínum áreynslulausa og náttúrulega fjölbreytni og ömmunni fullkomlega eðlilegt líf. Frábærlega gert.

Túlkun Bjarna, elsta sonarins, líður nokkuð fyrir tvísæi sýningarinnar, inn í ritunartímann og núið. Ekki má gefa of mikið upp um drifkrafta Bjarna svo Arnmundi varð ekki mikið úr hlutverkinu. Yngri drengirnir voru á frumsýningu leiknir af Emil Adrian Devaney og Þorsteini Stefánssyni sem fóru vel með þau. Þröstur Leó Gunnarsson var kannski óþarflega látlaus útigangsmaður, en þeim mun spaugilegri sem dularfullur mælingamaður seinna í verkinu.

Smáhlutverk veislugesta voru í öruggum höndum og allt það partí bráðskemmtilegt. Leikhópur Juan Camilo Roman Estrada átti sterka innkomu og þó óvani við að standa á sviði og fara með íslenskan leiktexta væri sýnilegur þá bætti hann í raun einu merkingarlagi ofan á þessa lykilsenu sýningarinnar, frekar en að vera til vansa.

Mér hefur lengi þótt verk af sauðahúsi Hússins vera úrelt börn síns tíma. Absúrdisminn og afleggjarar hans hafa að mínu viti reynst blindgata og þeir fáu höfundar og verk sem hafa staðist tímans tönn úr þeim „skóla“ þrífist þrátt fyrir en ekki vegna efnistakanna og viðfangsefnanna. En tímarnir breytast. Þær ógnir og óvissa sem samtíminn er gegnsýrður af hefur gert óræða upplausn og skáldlegar ógnir slíkra verka gilda aðferð á ný. Húsið reynist verðugt viðfangsefni og sýning Benedikts Erlingssonar þjónar því að mestu af trúmennsku og alltaf af dirfsku.

mánudagur, mars 06, 2017

Þórbergur

Eftir Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, Sveinn Ólaf Gunnarsson og leikhópinn með aðstoð frá Pétri Gunnarssyni. Leikstjórn: Edda Björg Eyjólfsdóttir. Leikmynd: Stígur Steinþórsson og Bjarni Þór Sigurbjörnsson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Kjartan Darri Kristjánsson. Kóreógrafía: Birna Björnsdóttir. Tónlistarval og hljóðmynd: Stefán Már Magnússon. Leikarar: Birna Rún Eiríksdóttir, Friðrik Friðriksson, María Heba Þorkelsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Leikhópurinn Edda Productions frumsýndi í Tjarnarbíói 23. febrúar 2017, en rýnt í þriðju sýningu miðvikudaginn 1. mars 2017.

Spekingur spjallar

„Við opnum inn í sal eftir eina mínútu eða kannski þrjár,“ kallaði starfsmaður Tjarnarbíós yfir óþreyjufulla gesti meðan við biðum eftir að sýningin Þórbergur hæfist síðastliðið miðvikudagskvöld. Óneitanlega varð mér hugsað til viðfangsefnisins og hans frægu áráttukenndu nákvæmni, sá hann fyrir mér öskureiðan, þyljandi bölbænir á astralplaninu. Kannski var þetta hluti sýningarinnar, svona eftir á að hyggja. Ef svo var: frábært!
Ekki gerði Þórbergur þó vart við sig í salnum eftir að sýningin hófst, að öðru leyti en því að hér er nánast einvörðungu unnið úr orðum hans eins og þau birtast í hans eigin ritum og því sem penni Matthíasar Johannessen og myndavélar Sjónvarpsins fönguðu í frægum viðtölum.
Fyrir utan að Þórbergi brá sjálfum fyrir í öllu sínu kviknakta veldi á baktjaldi í frægu myndskeiði Vilhjálms Knudsen af meistaranum í algleymi Müllersæfinga við fjöruborðið.

Notkun myndefnis og samleikur við það er einn af mörgum þáttum sem bera vitni athyglisverðum tökum Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur á möguleikum leiksviðsins í þessu fyrsta stóra leikstjórnarverkefni sínu. Það sama má segja um hvernig Edda Björg bæði nýtir grunnhugmynd sýningarinnar – viðtal við titilpersónuna – og brýst út úr þeim ramma áreynslulaust þegar á þarf að halda.

Þórbergur gerði ekki vart við sig í salnum, sem leiðir hugann að annarri grundvallarákvörðun sýningarinnar. Friðrik Friðriksson gerir litla sem enga tilraun til að „ná“ Þórbergi. Líkir ekki eftir rödd hans, kækjum eða hreyfingum á neinn heildstæðan hátt. Þetta undirstrikast enn með því að láta Jón Hjartarson í sínu frægasta hlutverki hljóma sem rödd Þórbergs „sjálfs“ á nokkrum stöðum þegar nauðsyn krefur.

Óneitanlega dregur þessi ákvörðun bæði úr áhættu sýningarinnar og skemmtigildi fyrir þá sem enn muna hvernig þessi kynjakvistur var í hátt, eða að minnsta kosti hvernig Jón túlkaði hann í sögufrægri sýningu Leikfélags Reykjavíkur, sem einnig var sjónvarpað. Á móti kemur að kjarni þess Þórbergs sem er okkur aðgengilegur, það sem skapar forvitni um hann og aðdáun á honum: orð hans, rituð og sögð, er einmitt það sem Eddu Björgu og meðhöfundum hennar að sýningunni er svo umhugað um að deila með okkur.

Friðrik vinnur vel út frá þessum forsendum og skapar trúverðugan mann. Fór alveg að þolmörkum með hófstillingu sem aftur gerir dramatíska hápunkta (örvæntingu yfir námsefni Kennaraháskólans og fæðingu dótturinnar) áhrifaríkari. Og aldeilis frábær sem roskinn rithöfundur að setja sig í spor ungbarns. Svo vel gert reyndar að það leiddi hugann að því hve oft slík hamskipti mistakast.

Mótleikarar hans hjálpa mjög við að skerpa og staðsetja persónuna. Þau Sveinn Ólafur Gunnarsson og María Heba Þorkelsdóttir vinna í nokkuð öðrum stíl en Friðrik, greinilega vísvitandi. Teikna með breiðari strikum, vinna með skopfærslu og skýrar kómískar tímasetningar sem uppskáru hlátur ekkert síður en textabundin fyndni aðalpersónunnar.

Þannig hjálpar óöryggi þáttastjórnandans í meðförum Sveins Ólafs við að gefa tilfinningu fyrir sérvisku og uppátækjasemi Þórbergs, og aðdáun og virðing sem braust gegnum stressað viðmótið auðveldar okkur að trúa á snilligáfu skáldsins. María Heba býr til kostulega týpu sem undirstrikar frægð og vinsældir Þórbergs með því að vilja í senn baða sig í henni og eigna sér hluta heiðursins af henni, en draga líka stöðugt athygli að eigin verðleikum eins og þeir speglast í aðdáun annarra. Hvort þetta er fyllilega sanngjarnt gagnvart fyrirmyndinni er ég ekki sannfærður um, en þjónar sýningunni og gladdi gesti. Samleikur þeirra Friðriks er verulega vel útfærður og spennandi og nær að brúa leikstílsbilið á sannfærandi hátt.

Birna Rún Eiríksdóttir er svo Sóla; ástkona, barnsmóðir og dramatísk miðja. Birna Rún hefur úr litlu að moða öðru en nærveru sinni en nýtur sín ágætlega á sviðinu. Þó má segja að sá þráður – Þórbergur og ástin sem ekki varð hlutskipti hans – sé helsta lím sýningarinnar. Hann verður hins vegar ekki nógu skýr eða þéttur til að gefa henni sannfærandi dramatísk form, sem virðist hafa verið ætlunin.

Efnistökin, að sækja textann svona einarðlega í birtan texta Þórbergs, setja höfundunum skýrar skorður. Sennilega óhjákvæmilegt en óneitanlega takmarkandi. Úr verður svipmynd af hugarheimi en framvindan víkur.

Hugmyndaheimurinn og orðsnilldin er svo vitaskuld nóg til að hafa ofan af fyrir áhorfendum eina kvöldstund, jafnvel þótt pólitíkinni sé vandlega haldið utan við, andatrúnni og sönnunarsögum um líf eftir dauðann stillt í ýtrasta hóf og látið nægja að nota esperantó sem eldsneyti í einn ágætan brandara. Fyrir þetta allt er ég reyndar þakklátur. Ýmsir eftirminnilegir hápunktar úr skrifum Þórbergs eru hér: óléttusagan, draumarnir um frönsku skúturnar, hörmungarnar í landafræðistaglinu í Kennaraháskólanum, náttúrustemningin úr Bréfi til Láru sem endar með búksorgum svo varð hneyksli. Og svo skemmtilegheit úr viðtölum Matthíasar Johannessen: fyrirlitningin á íþróttum og áhugaleysi um tónlist. Það undirstrikar svo hinar kitlandi mótsagnir í persónuleika Þórbergs að einn hápunkta sýningarinnar er þegar Magnús spjallstjórandi lokkar höfundinn til að syngja með sér það dásamlega kvæði „Það sem enginn veit“, þar sem fínlegur samleikur Friðriks og Sveins Ólafs blómstrar. Umfram allt hlustum við á Þórberg boða mikilvægi þess að rækta líkamann, leita sannleikans og þroska andann. Fallegar hugsanir, óaðfinnanlega orðaðar og vel fluttar.

Það er ekki vel gott að átta sig á hverjum sýningin Þórbergur er ætluð. Hvort hún standi nógu nærri fyrirmyndinni til að fullnægja heitum aðdáendum og hvort hún sé nægilega föst í sér til að virka sem kynning á meistaranum og ólíkindatólinu. Sýningin líður nokkuð fyrir óskýra stefnu handritsins. En textinn er kostulegur, samleikurinn nákvæmur, lögnin úthugsuð og vel haldið utan um sviðsvinnuna. Fyrir vikið verður Þórbergur aldrei minna en skemmtilegur.