föstudagur, apríl 30, 2004

Kringlunni rústað

Vesturport
Klink og Bank föstudaginn 30. apríl 2004

Höfundur: Víkingur Kristjánsson
Leikstjóri: Björn Hlynur Haraldsson
Leikmynd: Hlynur Kristjánsson
Leikskrá: Ólafur Egill Egilsson

Leikendur: Árni Pétur Guðjónsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Darri Ólafsson og Ólafur Egill Egilsson.

Í losti

VERK sem sýna hvernig kringumstæður og fyrirbæri sem einkum eru þekkt í erlendu samhengi taka sig út við íslenskar aðstæður eru gjarnan kostulegar háðsádeilur. Íslenska mafían í Sódómu Óskars Jónassonar og sérsveitin hjá Svörtu og Sykurlausu í samnefndri mynd koma upp í hugann. Einnig voru íslenskar sakamálasögur þessu marki brenndar lengi vel, hvort sem höfundar þeirra ætluðust til þess eða ekki. Nú býður Vesturport upp á frumraun Víkings Kristjánssonar í leikritun og þar gengur hann út frá því að hryðjuverk séu orðin partur af íslenskum veruleika.

En Víkingi er svo sannarlega ekki hlátur í huga. Eða kannski var honum það þegar hann skrifaði textann, en í meðferð efnisins er lögð höfuðáhersla á hryllinginn sem slík árás skilar aðalpersónunum og lostið sem þær upplifa í kjölfarið. Kannski táknrænt fyrir það lost sem þjóðfélagið allt yrði fyrir ef skelfingar sem hingað til hafa verið í hæfilegri fjarlægð bak við þykkt sjónvarpsglerið gerðu sig heimakomnar í daglegu lífi okkar.

Kringlunni rústað sýnir okkur fimmtíu mínútur í lífi fimm manneskja sem lokast hafa af einhversstaðar í rústum Kringlunnar, sem orðið hefur fyrir einhvers konar hryðjuverkaárás og lögð í rúst. Persónurnar eru allar meira og minna særðar á líkama, og þó á einum stað sé minnst á mögulega björgun er tilfinningin sú að þau telji sig nánast glötuð. Þau reyna að bregðast við aðstæðum sínum á ýmsan hátt. Áhrifaríkt er þegar einhver stingur upp á að þau syngi og ein persónan gerir heiðarlega tilraun til að leiða þau í gegnum þjóðsönginn, en kann hann illa og hinir nánast ekki. Tilraun til að biðja til Guðs rennur einnig út í sandinn, lífsviðhorf og menning nútíma Íslendingsins býr hann ekki undir aðstæður eins og þær sem Víkingur skapar persónum sínum. Það er kannski helsta sögn verksins.

Það er vel skiljanlegt að Víkingur kjósi að forðast ýmsar þær klisjur sem einkenna verk af þessu tagi, þar sem ókunnugt fólk lokast inni á sama stað við öfgakenndar aðstæður. Hér fer lítið fyrir því að teflt sé saman ólíkum lífsviðhorfum eða persónueinkennum. Einnig er áberandi hvað hann forðast að láta persónurnar gera tilraun til að bregðast meðvitað við aðstæðum sínum. Lítið fer fyrir valdatafli eða flokkadráttum. Í staðinn sækir verkið einkum áhrif sín í andstæður hinna hroðalegu og öfgakenndu aðstæðna við flatneskjulegar samræður persónanna um lítilsverða hluti. Þetta er sterkt svo langt sem það nær, en dugar þó ekki til að gera sýninguna áhugaverða út í gegn. Það litla sem við fáum að kynnast viðhorfum og persónugerð þessa fólks dugar ekki til að láta þau lifna við, svo buguð eru þau öll af hinni fjarlægu ógn, sem reyndar ber ekki á góma í verkinu nema í glundroðakenndu upphafinu og þá á algerlega (og greinilega vísvitandi) banalan hátt. Víkingur getur greinilega skrifað leiktexta og gaman verður að sjá hvað gerist þegar hann glímir við efni þar sem forsendurnar bera persónur og atburði ekki jafn algerlega ofurliði og gerist hér.

Hlynur Björn kýs að keyra verkið áfram af miklum krafti í uppfærslu sinni. Leikhópurinn er ataður blóði og allir greinilega illa sárir í upphafi og örvænting og sprengjulost ráða för. Rýmið hjálpar svo sannarlega til við áhrif sýningarinnar, sviðið er hráslagalegt lyftuop og áhorfendur skyggnast inn um lyftudyrnar á leikhópinn kútveltast um í þrengslunum. Hlynur og hópurinn vinnur vel með rýmið, nýta kosti þess og yfirstíga næstum því gallana, en stundum er þó pirrandi að sjá ekki hvað er um að vera.

Leikararnir ná allir þeirri einbeitingu að sýna okkur fólk á ystu nöf, en gengur að sama skapi fremur erfiðlega að gera eftirminnilegar persónur, til þess er svigrúmið of þröngt og efnið fullrýrt. Öll eiga þau þó augnablik þar sem við sjáum hvað býr að baki blóði drifnu yfirborðinu. Árni Pétur þegar hann tekur til við að kveða rímur, Ólafur Egill þar sem hann minnist eitt augnablik á tónlistina sem hann býr til, Nína Dögg þegar hún talar um kærastann sinn, Nanna Kristín undir lokin þegar trúin virðist gefa henni styrk sem hina skortir og Ólafur Darri í blálokin. Þar á milli er krafturinn og gervin í fyrirrúmi á kostnað blæbrigða.

Hér er djarft teflt eins og Vesturports er von og vísa. Hópurinn er svo sannarlega pönkarinn í íslensku leikhúslífi þessa stundina og lifir eftir hinu fræga mottói Purrks Pilnikks: Málið er ekki hvað þú getur heldur hvað þú gerir. Kringlunni rústað er nokkuð gallað verk, en skrifað og framreitt á mettíma, af algerri sannfæringu og á útopnu af öllum sem að málinu koma. Það dugar til að gera það að eftirminnilegu og óvenjulegu innleggi í leikhúslífið.

sunnudagur, apríl 18, 2004

Yndislegt kvöld

Höfundaleikhús Dramasmiðjunnar
Iðnó sunnudaginn 18. apríl. 2004

Höfundur: Páll Hersteinsson
Leikstjóri: Sigrún Sól Ólafsdóttir
Leikmynd og búningar: Rebekka A. Ingimundardóttir.

Leikendur: Hjalti Rögnvaldsson, Margrét Ákadóttir, Rósa Guðný Þórsdóttir og Árni Pétur Guðjónsson.

Heimboð

FRUMRAUN Páls Hersteinssonar í leikritun, Yndislegt kvöld, vekur þá hugsun að gamanleiksformið virðist ekki höfða sérstaklega til höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref. Vafalaust eru á þessu margar skýringar, og ein af þeim er áreiðanlega sú að oft liggur slíkum höfundum svo mikið á hjarta að þeir telja erindi sínu betur borgið í öðru formi. Einnig gæti ég trúað að margir vegir sér við að velja form sem gefur jafn afdráttarlaust til kynna hvort það heppnast eður ei, gamanleikur sem uppsker ekki hlátur er í einhverjum skilningi misheppnaður og allir vita það, þar á meðal höfundurinn. En Páll hefur hér skrifað næsta hefðbundinn gamanleik og sækir óhikað í sígild farsaminni til að sýna okkur siðferðislegt gjaldþrot nútímamannsins og skemmta um leið. Og það var mikið hlegið í Iðnó á frumsýningardaginn.

Yndislegt kvöld segir frá matarboði hjá lýtalækni og konu hans, sem bjóða til sín æskuvini læknisins og konu hans, sem nýlega hafa lent í fjárhagsörðugleikum. Smám saman dregur Páll upp mynd af þessu fólki og sýnir okkur á ísmeygilegan hátt galla þess og siðferðisbresti. Fyrri hluti verksins er ákaflega vel skrifaður í tíðindaleysi sínu og mikið um hnitmiðuð afhjúpandi tilsvör sem uppskáru hlátur um leið og þau komu innnihaldinu til skila. Í síðari hlutanum upphefst síðan atburðarás, pínlegar játningar þegar vínið tekur völdin af einni persónunni, ákaflega fyrirsjáanlegt og opinskátt framhjáhald og í framhaldi af því fjárkúgun og mögulega morð. Páll teflir hér á tæpasta vað með ólíkindalega atburðina og sækir kannski dálítið djúpt í klisjubankann og síðari hlutinn jafnast ekki á við kynningu persónanna í uppbyggingu og fyndni. Og mögulega skýrðist að einhverju leyti fyrir mér af hverju gamanleikjaformið er ekki meira nýtt af höfundum með erindi. Stærsta driffjöðrin í farsavélinni, skömmin, er á þessum síðustu og verstu tímum orðin næsta slök í okkur. Og því verða uppátæki persónanna í Yndislegu kvöldi næsta ótrúverðug eftir þá mynd sem Páll hefur dregið upp af þessu fólki.

Allt um það er þetta býsna kraftmikil og skemmtileg frumraun hjá Páli, og ástæða til að óska eftir frekari glímu við formið frá hans hendi.

Uppsetning Sigrúnar Sólar er látlaus og hófstillt, sem er aðdáunarvert í ljósi efnisins, en hennar hlutverk er vitaskuld fyrst og fremst að koma hinu nýja verki óbrjáluðu til skila, slíkt er eðli höfundaleikhússins. Reyndar gera hún og Hjalti Rögnvaldsson sem læknirinn smávægilegar tilraunir með stílfærð og óraunsæisleg leikbrögð í fyrri hluta verksins sem takast vel og eru í fullu samræmi við stíl textans í fyrri hlutanum. Staðsetningar og notkun rýmisins er áreynslulaus og skýr, leikmynd vel heppnuð. Tónlistarnotkun þótti mér á hinn bóginn illþolandi. Algerlega misráðið að setja samkvæmistónlistarmottu undir samtöl persónanna sem gerði ekki annað en draga mátt úr mikilvægum augnablikum og trufla hlustun og einbeitingu áhorfenda.

Leikarahópurinn stendur sig með prýði. Hjalti er sannfærandi sem lýtalæknisskrímslið og Margrét Ákadóttir nýtti sína næmu kómísku tæmingu vel sem hin hrjáða eiginkona. Árni Pétur Guðjónsson dró upp hlýja mynd af hinum ráðalausa fóstbróður og Rósa Guðný Þórsdóttir er sem fyrr á heimavelli í að lýsa ráðríkum eiginkonum slíkra manna.

Yndislegt kvöld er skemmtilegt verk sem þrátt fyrir annmarka sína er vel þess virði að sjá, tímabær tilraun til að skrifa gamanleik um ástandið á okkur.

sunnudagur, apríl 04, 2004

101 Reykjavík

Stúdentaleikhúsið
Sunnudaginn 4. apríl 2004

Höfundur: Hallgrímur Helgason
Leikgerð: Harpa Hlín Haraldsdóttir, Hinrik Þór Svavarsson, Friðgeir Einarsson, Hjálmar Hjálmarsson og leikhópurinn. Leikstjóri: Hjálmar Hjálmarsson.

Hinn íslenski amlóði

STÚDENTALEIKHÚSIÐ er á mikilli siglingu þessi árin, og virðist ætla að verða langlífara en oft hefur orðið raunin á fyrri blómaskeiðum. Ekki sá ég rómaða sýningu þeirra í haust á 1984 Orwells, en nú er ný bók komin upp á svið, nefnilega hinn séríslenski Amlóði Hlynur Björn úr lofsunginni skáldsögu Hallgríms Helgasonar, 101 Reykjavík. Ekki er getið hvers leikgerðin er en trúlega er hún einhvers konar samvinnuverkefni hópsins og leikstjórans, Hjálmars Hjálmarssonar. Hún er ágætlega heppnuð en hefði að ósekju mátt vera örlítið styttri, einkenni sem eiga reyndar líka við um bókina sem hún er byggð á.

Sýningin sjálf er líka býsna laglega saman sett, gengur hratt og fumlítið fyrir sig og áhöfnin skemmtir sér greinilega vel við að teikna hið gróteska umhverfi Hlyns Björns, djamm- og bólfélaga jafnt sem fjölskyldumeðlimi. Allt rúllar þetta gallerí fyrir augum okkar í snjallri og hráslagalegri leikmynd sem nýtir vel aðstæður á sýningarstaðnum í yfirgefnu atvinnuhúsnæði á Keilgrandanum (107 Reykjavík). Hjálmar hefur mér vitanlega ekki leikstýrt sýningum á leiksviði áður en meðferð hans á rými og vinna með leikurum sem standa sig í öllum aðalatriðum prýðilega bendir til að þar eigi hann heima ekki síður en í útvarpinu.

Mikilvægasta ákvörðun Hjálmars og hópsins við mótun efniviðarins er að láta tvo leikara fara með hlutverk Hlyns Björns. Annar lifir hinu holdlega lífi hans meðan hinn er hans innri rödd sem flytur okkur hugrenningar hans og útleggingar af viðburðunum, nokkuð sem einkennir mjög bókina og geymir megnið af einstakri fyndni Hallgríms. Það er því mjög skiljanlegt að leita leiða til að halda því efni til haga og koma því fram. Tvískiptingin skilar þessu líka ágætlega. Það sem hún hins vegar hefur í för með sér er að gera okkur erfitt fyrir að komast í samband við Hlyn sjálfan, þ.e. þann Hlyn sem gengur í gegnum atburðina, sefur hjá kærustu móður sinnar og glímir við að vera ekki í ástarsambandi við aðra hjásvæfu. Þetta sambandsleysi okkar stafar líka af því að sýningunni tekst ekki að gefa okkur nógu skýra tilfinningu fyrir því að Hlynirnir tveir séu sami maðurinn. Sjálfsagt liggur einhver hugsun á bak við búning hins innri manns, gamaldags spariföt og hattur, en ég náði henni ekki og þetta fornfálega útlit gerði innri rödd Hlyns enn fjarlægari.

Að þessum takmörkunum gefnum stóðu þeir Friðgeir Einarsson og Hinrik Þór Svavarsson sig með stakri prýði í hlutverkunum. Sömu sögu má segja um aðra í stærri rullum, Söru Friðgeirsdóttur, Vigdísi Másdóttur sem móðurina og unnustu hennar, og Láru Jónsdóttur í hlutverki hinnar smáðu Hófíar. Jafnframt var ánægjulegt að sjá hvað nostrað hafði verið við smærri hlutverkin og þau gerð ýkt og skýr á skemmtilegan hátt.

101 er skemmtileg sýning, fulllöng en lifir það af, sem og skiljanlega en erfiða hugmynd um tvískiptingu aðalpersónunnar. Stúdentaleikhúsið er á góðu róli og greinilega fullt af listrænu sjálfstrausti þar á bæ.