fimmtudagur, apríl 18, 2002

Abba - thank you for the music

Nemendafélag Fjölbrautaskólans í Breiðholti
Loftkastalanum 18. apríl 2002

Höfundur og leikstjóri: Guðmundur Rúnar Kristjánsson
Tónlistarstjóri: Matthías Matthíasson
Dansstjóri: Bjartmar Þórðarson

Á fornri frægð

ÞAÐ hlaut að koma að því að einhver tæki eyrnaorma Abba til endurvinnslu þeirrar sem stunduð er í “sjómennsku” framhaldsskólanna þessi árin. Frábær lög sem allir þekkja, margir elska og sumir elska að hata, grípandi og hæfilega hallærisleg til að þola bæði einlægni og háð.

Ramminn sem Guðmundur Rúnar Kristjánsson hefur smíðað sem afsökun fyrir hópinn til að syngja lögin er nokkuð vel til fundinn. Tvær fallnar söngstjörnur hyggjast bjarga fjárhagnum með því að dubba dætur annarar upp sem eftirlíkingar af sér og hafa fé af tónlistarmógúl einum. Vitaskuld verða ýmis ljón á veginum en allt fer að sjálfsögðu vel, meira að segja betur en bjartsýnustu áhorfendur þorfðu að vona, dæturnar brillera og þær eldri fá feitan samning við ástralskan umboðsmann -skemmtileg vísun í Abbadelluna sem ku landlæg þar ef marka má myndir um drottingar á borð við þær Muriel og Priscillu.

Sýning sver sig í ættina; kraftmikil, tónlistin fagmannlega flutt, dansarnir góðir. En hér eins og fyrri daginn skemmir mjög fyrir tvískinnungurinn sem ég hef áður minnst á í sambandi við sýningar af þessu sauðahúsi. Annars vegar er hinn leikræni hluti, galgopalegur, ærslafullur og alvörulaus, en um leið og forspil byrjar að glymja í hátölurunum færist fagmannleg alvara yfir þátttakendurna, öll afstaða til persónanna og aðstæðna þeirra er gleymd og einbeitingin við að vanda sig yfirskyggir allt.

Hér verður þetta þeim mun bagalegra við það að drifkrafturinn í sögunni eiga að vera vandræðin við að gera ungu stúlkurnar að boðlegum skemmtikröftum, og koma í veg fyrir að hinn allsráðandi umboðsmaður sjái þær áður en það tekst. Það dregur óneitanlega úr spennunni þegar ungfrúrnar hafa frá því þær birtast fyrst sýnt og sannað sig sem færar í flestan sjó. Guðmundur skrifar skemmtileg samtöl og, að svo miklu leyti sem orðaskil urðu greind, hnyttna söngtexta. En spennan í sögunni fór fyrir lítið, bæði vegna ofangreindrar togstreitu og bláþráða í framvindunni.

Leikhópurinn er um margt skemmtilegur, og allir sem sungu skiluðu því með sóma. Skarpasta persónusköpunin var líklega hjá Eðvarð Atla Birgissyni, sem var sannfærandi nagli með mjúkan kjarna sem tónlistarmógúllinn. Þá var Ólafur Helgi Ólafsson kostulegur mjög sem geðstirður þjónn hjá dívunum. Gunnella Hólmarsdóttir og Ásta S. Sveinsdóttir virtust mér vera tilkomumestu söngkonurnar.

Abba - Thank You For The Music er trúlega síðasta framhaldsskólasjó vetrarins. Öll hafa þau heppnast ágætlega, en nú held ég að forsprakkar nemendafélaganna ættu að staldra við og endurmeta svolítið hugmyndir sínar um hvernig svona sýningar eiga að vera. Fyrir mína parta tel ég kominn tími til að beina öllum þessum krafti og metnaði í örlítið frumlegri farveg.

miðvikudagur, apríl 17, 2002

Öskubuska og Brutelli-beyglurnar

Sauðkindin, leikfélag Menntaskólans í Kópavogi
Félagsheimili Kópavogs 17. apríl 2002

Leikstjórn og handrit: Agnar Jón Egilsson.

Leikendur: Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Margrét Sigurðardóttir, Anný Rós Ævarsdóttir, Ásta Guðmundsdóttir, Guðlaug Björk Eiríksdóttir, Hans Aðalsteinn Gunnarsson, Jóhann V. Gíslason, Jórunn Edda Helgadóttir, Karl Snorrason, María Rut Beck, Ólöf Jakobsdóttir, Rebecca Hennermark, Sóley Ómarsdóttir, Unnur Einarsdóttir Blandon, Þorlákur Þór Guðmundsson og Þórdís Þorvarðardóttir.

Nýr ævintýraheimur

ÆVINTÝRIN úr safni Grimmsbræðra eru vinsælt viðfangsefni á leiksviðum höfuðborgarsvæðisins þessa dagana. Í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Kópavogi er verið að endurvekja þessar sögur á ótrúlega fjölbreyttan hátt. Sauðkindin hefur hér unnið sína eigin leikgerð á Öskubusku, að því er virðist í náinni samvinnu leikhóps og leikstjóra sem einnig er höfundur handrits.

Hvað þarf til að að öðlast hamingjuna? Þetta er stór spurning en vonda stjúpan og dætur hennar hafa þegar svarað henni: Prinsinn. Og spurningunni hvað þarf til að öðlast prinsinn er líka auðsvarað: Fegurð. Í nútímanum er fegurð smíðisgripur, eitthvað sem hægt er að kaupa á sig. Ef brjóstin eru of lítil má fylla þau silikoni - ef skórinn er of þröngur, því ekki að skera af sér nokkrar tær. Hver er munurinn? Spyr Agnar Jón og Sauðkindur hans en auðvitað svara þau ekki, en senda áhorfendur út með spurninguna.

Það hefur svo sannarlega ekki skort hugmyndaflugið þegar verið var að sjóða saman þessa sýningu, og greinilegt að fólki er mikið niðri fyrir. Brjálaðar hugdettur blasa allstaðar við: í umgjörðinni, búningunum, leikstílnum og framvindunni. Þetta er styrkur sýningarinnar en einnig veikleiki. Óreiðan er á tíðum svo mikil að góðar hugmyndir og augnablik, sem mögulega hefðu orðið sterk, hverfa í brjálæðinu. Og innan um góðu hugmyndirnar eru aðrar verri sem taka þó sömu athygli og hinar, sem dæmi má nefna hljóðmyndina og slides-myndirnar sem varpað var á bakvegginn og höfðu í besta falli bláþráðótta tengingu við efnið. Staðsetningar og textameðferð hefur að því er virðist varla komist á dagskrá við uppfærsluna.

Margir leikenda sýna vissulega góða takta, hinar illu mæðgur njóta sín í fólsku sinni í meðförum þeirra Línu Rutar Beck, Guðlaugar Bjarkar Eiríksdóttur og Andreu Aspar Karlsdóttur. Anný Rós Ævarsdóttir var hæfilega umkomulaus Öskubuska og Ólöf Jakobsdóttir er ein sú trylltastaálfkona sem ég hef séð, Mýsnar voru bæði sætar og skemmtilegar.

Þrátt fyrir alla fyrrgreinda vankanta er Öskubuska og Brutelli-beyglurnar forvitnileg sýning. Innan um óreiðuna má greina ákaflega frumleg efnistök, unggæðislega leikorku og falleg augnablik. Með því að stýra þessum öflum meira hefði Agnar náð að miðla sínu máli betur til áhorfenda, sem er jú tilgangurinn, eða hvað?

þriðjudagur, apríl 16, 2002

Hárið

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri
Samkomuhúsinu á Akureyri 16. apríl 2002.

Höfundar: Gerome Ragni, James Rado og Michael Weller
Tónlist: Galt MacDermot
Leikstjórn: Hrafnhildur Hafberg.
Tónlistarstjórn: Björn Þórarinsson
Ljósahönnun: Róbert Lee Evensen
Hljóðhönnun: Gunnar Sigurbjörnsson.

Ástin að eilífu

HRÆDDUR er ég um að Hárið verði seint minn uppáhaldssöngleikur. Engin saga svo heitið geti, óáhugaverðar persónur sem mann varðar lítt eða ekki um, bláþráðótt tengsl texta og tónlistar, sem aukinheldur er ansi hreint misskemmtileg. Þó sumum þyki fínt að tala hæðnislega um sextíu og átta kynslóðina þá verðskuldar hún áreiðanlega burðugri eftirmæli, og ungdómurinn í dag betra tæki til að öðlast innsýn í hugarheim foreldranna.

Allt um það, þá hafa dæmin sannað að hægt er að gera úr þessum efnivið ágætis sjónarspil og það tekst svo sannarlega hjá Hrafnhildi Hafberg og hennar fólki hér. Sýningin er verulega vel heppnuð, gott flæði, pottþéttur tónlistarflutningur og leikræn frammistaða jafnbetri en í öðrum stórsjóum sem ég hef séð í vetur. Eitthvað verður vitaskuld undan að láta og Hrafnhildur hefur greinilega ekki lagt jafn ríka áherslu á óaðfinnanlega dansmennt og tíðkast á öðrum bæjum, en græðir í staðinn innlifun og leikrænan neista. Ekki amaleg bítti. Þá verður að geta þess að ólíkt öðrum sýningum af líku tagi sem finna má í öðrum hverjum framhaldsskóla þessi árin þá er hér ekki stuðst við undirleik af segulbandi heldur stendur sexmanna hljómsveit á sviðinu allan tíman, væntanlega skipuð menntskælingum.

Mest mæðir á sexmenningunum sem mynda klíku Bergers og svo sveitalubbanum Claude sem vígist inn í hippamenninguna í stað þess að bruna til Víetnam. Öll gerðu þau hlutverkum sínum ágæt skil en eftirminnilegust verða líklega Ævar Þór Benediktsson sem var eins og fiskur í vatni í hlutverki trúðsins Berger, Sindri Gunnar Ólafsson sem Voffi og hin ólétta og útúrreykta Jeanie í meðförum Hildar Halldórsdóttur. Kórinn var pottþéttur og hópatriði lipurlega sviðsett. Einföld umgjörðin gerði sitt gagn og búningar voru sérlega vel heppnaðir, svo og stemmningsrík lýsingin.

Fyrir utan nöldrið um verkið sjálft hef ég eiginlega aðeins tvennt við sýninguna að athuga, annað smávægilegt og hitt öllu viðameira. Smáatriðið varðar hina mjög svo vel spilandi hljómsveit. Úr því þeir voru látnir vera sýnilegir og meira að segja nokkuð áberandi, hefði ekki átt að dubba þá upp í hippaföt og láta þá á einhvern hátt samlagast sýningunni betur? Hitt atriðið er eilífðarvandamálið með söngtextana. Þeir voru með öllu ógreinanlegir, með örfáum undantekningum sem sanna að það er vel hægt að láta þá skiljast. Og í verki með þungamiðjuna í tónlistinni er það alger nauðsyn. Stúlkan sem söng smáauglýsinguna um Frank Mills og pilturinn sem átti fyrsta vers í lokasöngnum fá framsagnarverðlaunin að þessu sinni, hin taki sér tak.

Allt um það þá er hér á ferðinni firnagóð sýning sem ber metnaði, krafti og fagmennsku aðtandenda sinna vitni. Sýning sem fyllir Samkomuhúsið á Akureyri á þriðjudagskvöldi á greinilega erindi við sitt fólk.

sunnudagur, apríl 07, 2002

Hattur og Fattur

Litli leikklúbburinn á Ísafirði
Edinborgarhúsinu sunnudaginn 7. apríl 2002

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Elfar Logi Hannesson
Leikendur: Helgi Þór Arason og Páll Gunnar Loftsson.

Tveir menn og hundur

HATTUR og Fattur eru skrítnir kallar, greinilega af trúðakyni, sem lenda á vagni sínum á Íslandi, slappa af, hrekkja hvor annan, syngja nokkur lög, skreppa í sund og hypja sig síðan á brott. Þessari stund þeirra á skerinu er ætlað að hafa ofan af fyrir börnum, upphaflega skilst mér í sjónvarpinu, en nú í leikhúsinu. Yfirfærsla þessi er verk leikstjórans Elfars Loga en ekki fylgir sögunni hversu miklar breytingar hún hefur kostað á upprunalegu þáttunum.

Heldur er nú efnið rýrt í þessu stykki. Samtöl þeirra félaganna eru til lítils annars en að leiða þá og áhorfendur milli laga, sem standa vissulega fyrir sínu, sígildar perlur eins og “Ryksugan á fullu”, “Eniga Meniga” og “Það vantar spýtur”. Gaman má hafa af vandræðum Hatts við að finna orðin sem hann leitar að, og börnin á sýningunni glöddust við hrekkjabrögð þeirra félaganna, feluleik Fatts og vatnsaustur Hatts í tilraunum til að koma andanum yfir tónskáldið Hatt. Best lukkaða atriðið var samt að mínu mati þegar Hattur lét hundinn sinn leika listir sínar fyrir bita af vínarpylsu. Hundur þessi átti stórleik, en hafði tilhneygingu til að stela senunni með spangóli þegar betur hefði farið á að hann hefði sig lítt í frami.

Þeir Páll Gunnar Loftsson og Helgi Þór Arason komast ágætlega frá hlutverkum sínum, skýrmæltir og kraftmiklir, en hefðu að mínu viti þurft að fá strangari leikstjórn til að skila trúðslegu gamninu fyllilega. Sýningin er óþarflega laus í reipunum varðandi staðsetningar, tímasetningar og fókus sem kemur niður á áhrifamætti hennar. Enda hélst athygli barnanna ekki óskipt á sviðinu þennan tæpa klukkutíma sem sýningin tekur. Meiri stílfærsla og nákvæmni hefði hér gagnast vel, og ekki að efa að leikararnir hefðu ráðið við þá leið.

Helgi Þór ber hitan og þungan af söngnum og stendur sig með prýði með bjartri rödd og músíkölskum flutningi. Ágætlega spilandi hljómsveit yfirgnæfði þó óþarflega oft söngvarann, og eins virtist staðsetning hennar gera samhæfingu leikaranna við hana erfiða.

Sýningin er flutt hinu hálfkaraða menningarhúsi Ísfirðinga, Edinborgarhúsinu. Hráslagalegur salurinn var hin hæfilegasta umgjörð um sýninguna og vel má hugsa sér fleiri sýningar við þessar kringumstæður, þó sjálfsagt verði menn því fegnir þegar tekst að koma salnum í endanlegt horf.

föstudagur, apríl 05, 2002

Það er spurning

Leikfélag Fjölbrautaskólans við Ármúla
Tjarnarbíó föstudaginn 5. apríl 2002

Byggt á kvikmyndinni “Clue”
Þýðendur: Unnar Þór Reynisson og Ævar Guðmundsson
Leikstjóri: Kristjana Pálsdóttir

Leikendur: Arnar Magnússon, Baldvin Albertsson, Bernharð Aðalsteinsson, Einar Már Björnsson, Eyþór Theodórsson, Friðjón B. Gunnarsson, Guðrún H. Sigfússdóttir, Hrönn Sveinsdóttir, Júlíana Sigtryggsdóttir, Kristín Edda Sigurðardóttir, Ragnar Jóhannsson, Rebekka Atladóttir, Sigrún Kristín Skúladóttir og Vilhjálmur Gunnar Pétursson.

Var það yfirþjónninn?

ÞAÐ er búið að skopstæla hefðbundin sakamálaleikrit svo oft og rækilega að trúlega eru þau farin að skopstæla sig sjálf. Það væri tilraunarinnar virði að sviðsetja “alvöru” sakamálaleikrit í fúlustu alvöru og athuga hvort ekki verður hlegið jafn mikið að þeim og á öllum þeim aragrúa skopstælinga sem nú um stundir eru mun vinsælli viðfangsefni en þau verk sem höfð eru að skotspæni.

Það verk sem hér um ræðir er byggt á kvikmyndinni “Clue” sem er ágætt dæmi um þessar skopstælingar. Og þar sem kvikmyndin virkar eins og klaufaleg yfirfærsla sviðsverks á tjald þolir hún ferðina upp á sviðið betur en margar þær kvikmynda sem hafa fengið þessa meðferð undanfarið (önnur tíska). Grínið á ágætlega heima á sviði og efnisþráðurinn er kunnuglegur. Hópi fólks er stefnt til kvöldverðarboðs og í ljós kemur að öll eiga þau gestgjafanum grátt að gjalda. Fljótlega fellur fyrsta fórnarlambið í valinn og smám saman hrannast líkin upp. Allt er þetta með hinum ánægjulegustu ólíkindum, en að lokum er yfirþjóninum ómissandi nóg boðið og hann gerir grein fyrir hvernig í pottinn er búið. Og jafnvel þá er ekki allt búið og verður ekki ljóstrað upp hér hvað gerist næst, hvað þá hver morðinginn er.

Skopstæling sem þessi er vandmeðfarin, leikstjóri og leikhópur þurfa að hafa klisjurnar allar á hreinu og velta sér upp úr þeim svo allt virki. Þetta tekst á köflum nokkuð vel í sýningu Ármúlafólksins. Umgjörð og búningar eru stórfínir og hárréttir og margir leikaranna ná stílnum fullkomlega, einkanlega þeir sem glíma við skrítilegustu persónurnar. Vil ég sérstaklega nefna Friðjón B. Gunnarsson sem er óborganlegur sem hinn viðurstyggilegi prófessor Plóma. Rebekka Atladóttir, Júlíana Sigtryggsdóttir og Guðrún H. Sigfúsdóttir voru líka bísna skemmtilegar.

Það sem stendur sýningunni hins vegar dálítið fyrir þrifum er að henni er dálítið stirðlega fyrir komið á sviðinu, sem kemur niður á snerpu og fókus. Hún fór dauflega af stað en náði sér allvel á strik um miðbikið. Síðan dalar hún á ný og óöryggi gerði vart við sig með tilheyrandi skorti á krafti. Vonandi eru þetta tanntökuvandamál sem verða úr sögunni á næstu sýningum. Eins mætti messa betur yfir fólkinu um skýra framsögn, fléttan er nógu flókin þó heilu og hálfu setningarnar fari ekki forgörðum sakir óskýrmælgi.

Þegar á heildina er litið er “það er spurning” allskemmtileg sýning, góðir sprettir í leik og hnittið handrit sjá til þess. Með meiri krafti og skýrari texta væri lítið út á hana að setja.