sunnudagur, maí 04, 2003

Píla Pína

Pýramus og Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík
Samkomuhúsinu á Húsavík 4. maí 2003.

Höfundar: Kristján frá Djúpalæk og Heiðdís Norðfjörð
Tónlist: Heiðdís Norðfjörð
Leikstjóri: Sigurður Illugason
Aðstoðarleikstjóri: Regína Sigurðardóttir.

Hverra músa ert þú?

ÉG er af vitlausri kynslóð til að hafa vitað nokkuð um músaævintýri Kristjáns og Heiðdísar, fyrir utan þessi tvö lög sem allir þekkja. Píla Pína reyndist vera hugljúf en dálítið tíðindalítil saga um hamingjusama músafjölskyldu sem er að því eina leyti frábrugðin nágrönnum sínum að músamamma er aðkomumús og veit ekkert um upprunna sinn. Hin söngelska og skapandi dótir, Píla Pína, afræður að leita upprunans og lendir í lítilsháttar ævintýrum og hættum, en finnur það sem hún leitar að, snýr heim og allir eru glaðir. Aðal verksins er hin hugljúfa stemmning, skemmtilegar hlið- og andstæður mannheima og sérlega áheyrileg og fjölbreytt lög Heiðdísar.

Uppsetning Sigurðar Illugasonar tekur mið af stemmningunni í verkinu og verður sýningin fyrir vikið nokkuð átakalítil, þó ég sé viss um að það sé svigrúm fyrir meiri tilþrif. Lítt vanir leikararnir höfðu úr heldur litlu að moða og það voru helst þeir sem höfðu tækifæri til að búa til afgerandi persónur sem glönsuðu. Þetta á ekki síst við um þær Sigurlaugu Dagsdóttur og Hólmfríði Önnu Aðalsteinsdóttur sem léku gamlar mýs með tilþrifum. Sandra Kristinsdóttir hafði sig lítt í frammi í titilhlutverkinu í fyrri hlutanum , en eftir að ferðalag Pílu Pínu hefst náði hún sterkum tökum á því, og hélt athygli salarins ágætlega. Tónlist var smekklega flutt, en einnig þar saknaði ég meiri tilþrifa þó þau væru á kostnað fágunar.

Það er ekki algengt að framhaldsskólaleikfélög setji upp barnaleikrit, enda segir þjóðsagan að unglingar séu allt of sjálfsuppteknir til að fást um það hvort einhver sé að sinna ungviðinu. Píramus og Þispa hefur að ég held nokkrum sinnum afsannað þetta og sviðsett barnaleikrit. Ég er ekki í vafa að börnin á Húsavík hafi gaman af að fylgjast með músunum í Samkomuhúsinu leita uppruna síns.