fimmtudagur, nóvember 07, 2019

Atómstöðin

Eftir Halldór Laxness Halldórsson, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur, byggt á skáldsögu Halldórs Laxness. Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd og búningar: Mirek Kaczmarek. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson, Kristinn Gauti Einarsson og Gísli Galdur Þorgeirsson. Leikarar: Ebba Katrín Finnsdóttir, Björn Thors, Birgitta Birgisdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Snæfríður Ingvarsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Stefán Jónsson, Snorri Engilbertsson, Hildur Vala Baldursdóttir, Oddur Júlíusson, Edda Arnljótsdóttir og Eggert Þorleifsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins föstudaginn 1. nóvember 2019.

Upprunagoðsögn 

ógeðslegs þjóðfélags

Það blasir ekki við fyrir fram að Atómstöðin eigi sérstakt tilkall til þess að verða tekin til viðamikils endurmats á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Svo mjög er hún bundin ritunartíma sínum, skrifuð sem beint innlegg í hitamál samtíma síns, svo full af vísunum og tímabundnum skotum og skopmyndum sem löngu eru orðnar óskiljanlegar öðrum en elstu mönnum og æstustu og fróðustu aðdáendum. Fyrir utan að hér setur Halldór Laxness listræn viðmið í annað sæti á eftir pólitísku erindi á afgerandi hátt, og það sést. Atómstöðin er ekki meðal hans bestu bóka. Suma ágallana tekst ekki að leysa á sviði Þjóðleikhússins. Tilvísunin í freistingar Krists í eyðimörkinni verður til dæmis alltaf eitt vandræðalegasta uppátæki Nóbelsskáldsins, svo einn smávægilegur sé nefndur. Aðrir reynast vera óvæntir styrkleikar. Stærsti sigur „endurlits“ Dóra DNA leikgeranda og Unu Þorleifsdóttur leikstjóra og meðleikgeranda er að sýna fram á með sinni meðferð efnisins og eigin viðbótum að enn er ómaksins vert að rifja þetta allt saman upp.

Lykilatriðið er þar að setja ákvarðanir borgarastéttarinnar um sölu landsins og túlkun Halldórs á þeim í forgrunn á kostnað þroska- og ástarsögu Uglu og skrautlegs bóhemlífsins í húsi organistans. Hvort tveggja er þarna, en allra augu beinast að landsölufólkinu. Framlag Dóra og Unu er síðan sú augljósa spurning sem árin frá ritunartíma sögunnar hafa svarað: hvað fengu þau greitt fyrir góssið? Hér er afhjúpað hið ógeðslega þjóðfélag sem trússbinding Íslands við vestræna gróðahyggju gat af sér. Skálkaskjól valdastéttarinnar í þeirri heimagerðu, gerspilltu útgáfu af kapítalisma sem hér varð til, sölumönnunum og afkomendum þeirra til dýrðar og auðsöfnunar. Kjarni sýningarinnar eru enda uppbrot hennar: þegar hinum róttæka Pilti og hans fólki ofbýður framferði yfirstéttarinnar og kalla fram viðbrögð. Hápunkti nær Atómstöðin – endurlit rétt fyrir hlé þegar Búi Árland fær orðið og flytur magnaða en þó fyrst og fremst afhjúpandi ræðu um hvað blessað stríðið og Marshallaðstoðin gaf þjóðinni, en þó fyrst og fremst hans fólki. Og þótt tilvísanir Halldórs til þjóðþekktra fyrirmynda í bókinni séu horfnar í rykið fer væntanlega ekki framhjá neinum leikhúsgesti hvaðan Björn Thors sækir innblásturinn í meðferð sína á varnarræðu hægrisins.

Þessi eitraða vísun á síðan sinn þátt í að torvelda meðferð annars helsta efnisþráðar verksins. Það verður satt að segja með öllu ómögulegt að skilja, eða finna fyrir, nokkru einasta sambandi milli Búa og Uglu, sérstaklega hvað hana varðar. Hvernig getur hún fengið í hnén út af þessu gerpi? Ekkert í túlkun persónanna eða áherslum sýningarinnar hjálpar okkur að skilja það. Fyrir vikið nær seinni hlutinn, þar sem prívatlíf Uglu og persónulegt uppgjör hennar við ástmenn og samfélag er í forgrunni, ekki þeirri dramatísku dýpt sem hann þarf. Saga Uglu er útúrdúr frá markmiðum og áherslum sýningarinnar, eins og Pilturinn bendir reyndar á í frábærri ræðu að saga Uglu er ekki um framtíð landsins og svik borgarastéttarinnar, sem er aðalmálið, heldur „bara krúttleg ástarsaga um sveitastelpu sem flyst í bæinn og verður ástfangin af myndarlegum ráðherra á besta aldri …“ Ástarsaga Uglu er hér séð sem enn ein „afvegaleiðingin“, sem er lykilorð í uppfærslunni og oft notað á sláandi hátt.

En sú afvegaleiðing fær að taka yfir stóran bút síðari hluta verksins. Sem auk þess líður fyrir að Búi er eins og hann er í túlkun Unu, Dóra og Björns, feimna löggan dálítið litlaus (en stundum sniðug samt) hjá Oddi Júlíussyni og síðast en ekki síst: hin óleysanlega þraut sem Ugla Falsdóttir er sjálf frá hendi höfundar. Þessi saklausa en djúpvitra, heimóttarlega en sjálfsörugga, luralega en ómótstæðilega yngismær sem allir falla fyrir er smíð sem virkar í bók en varla á sviði. Ebba Katrín Finnsdóttir skilar textanum og afstöðu persónunnar fallega og eins skilmerkilega og ætlast verður til, ekki síst eintölum síðari hlutans. En henni er um megn að sætta mótsagnirnar. Það er óvinnandi vegur að vera heilsteypt Ugla í sviðsetningu túlkunar sem vill hana helst ekki. Undarlegur búningurinn hjálpar okkur ekki neitt, þessi pokalegi hvíti kjóll sem mér tókst ekki að skilja hvert vísaði. Annars eru búningar Mireks Kaczmareks smartir.

Leikmynd Mireks er síðan stórglæsileg. Ber hvítleitur kassi með bekkjum sem í upphafi mynda kirkjuskip með orgelharmóníum til hliðar. „Musteri íslenskrar tungu“ var fyrsta hugsunin sem kviknaði, en fljótlega er allt komið úr tilbeiðslugírnum sem betur fer. Una Þorleifsdóttir er á góðum degi alveg sérlega flinkur sviðsetjari og hér rekur hver sláandi fagra og sterka myndin aðra. Gangurinn er hægur en alltaf gerist eitthvað áhugavert í flæðinu. Ég renni grun í að leikmyndin hafi samt sett ljósahönnuði grimmar skorður, allavega er útkoman þannig hjá Ólafi Ágústi Stefánssyni að erfitt var að greina svipbrigði í birtunni sem í boði er, sem torveldar okkur leiðina að persónunum. Tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar er töff.

Fyrir utan þá leikendur sem þegar hafa verið nefndir er rétt að nefna Birgittu Birgisdóttur sem skapaði sannfærandi yfirstéttarkonu og fann í henni léttleika sem ég hef ekki séð í fyrri holdgervingum hennar. Landaljómi Arnmundar Ernsts Backmans hafði greinilega gengið í sama stjórnmálaskóla og faðir hans. Það gustaði af Piltinum, einbeittum kommúnista Snorra Engilbertssonar og túlkun Stefáns Jónssonar á organistanum var ánægjulega víðsfjarri ullarvestismildingum hefðarinnar. Þar hitti búningur og gervi líka beint í mark. Allur leikhópurinn stendur sína plikt, en heilt yfir er persónusköpun ekki í forgrunni nálgunarinnar.

Endurlit Dóra DNA og Unu Þorleifsdóttur á Atómstöð Halldórs Laxness er að mörgu leyti sterk sýning. Afburðavel sviðsett í glæsilegri umgjörð og setur sitt pólitíska ljós aldrei undir mæliker. Hér er fylgt fordæmi skáldsins og málað með breiðum pensli og barið með þungri sleggju. Leikgerðin leysir ekki alla snókera bókarinnar, er stundum í hægari takti en ég hefði kosið, heldur til haga meiru af efni bókarinnar en beinlínis var nauðsynlegt og hefði ekki þurft að vera jafn löng og tilfellið er. En það er bit og flug í viðbótartextum Dóra. Dirfskan og sannfæringin er þarna, gleður, ergir og vekur.


föstudagur, nóvember 01, 2019

Mamma klikk!

Eftir Gunnar Helgason í leikgerð Bjarkar Jakobsdóttur. Leikstjórn: Björk Jakobsdóttir. Leikmynd: Stígur Steinþórsson. Búningar: Björk Jakobsdóttir. Lýsing: Freyr Vilhjálmsson. Sviðshreyfingar: Björk Jakobsdóttir. Frumsamin tónlist og tónlistarhönnun: Hallur Ingólfsson. Lagatextar: Hallur Ingólfsson, Þorsteinn Valdimarsson og Hjörleifur Hjartarson. Hljóðblöndun: Kristinn Gauti Einarsson. Leikgervi: Björk Jakobsdóttir. Klipping og hönnun á vídeóefni: Björk Jakobsdóttir og Vignir Daði Valtýsson. Leikarar: Gríma Valsdóttir, Valgerður Guðnadóttir, Auðunn Sölvi Hugason, Ásgrímur Gunnarsson, Gunnar Helgason, Þórunn Lárusdóttir, Felix Bergsson, Matthías Davíð Matthíasson, Agla Bríet Einarsdóttir, Vera Stefánsdóttir og Thea Snæfríður Kristjánsdóttir. Frumsýning í Gaflaraleikhúsinu laugardaginn 19. október 2019, sá þriðju sýningu sunnudaginn 27. október 2019.

En samt spes


Árið 1984 gaf Guðrún Helgadóttir okkur orðið „unglingaveiki“. Rúmum þrjátíu árum síðar ákvað annar hafnfirskur höfundur að skoða málið frá hlið unglingsins. Bæði Jón Oddur og Jón Bjarni og Mamma klikk! teljast til ástsælustu barnabóka okkar, sem bendir til að það séu að minnsta kosti tvær hliðar á málunum.

Í bókinni leikur Gunnar Helgason sér með tvær frásagnarbrellur sem forvitnilegt er að skoða hvernig reiðir af í sviðssetningu. Annarri þeirra er reyndar nánast vonlaust að koma til skila: að draga lesandann á því hvað „amar að“ Stellu. Þó að lesandann sem hér skrifar hafi snemma rennt í grun hvernig í pottinn var búið er því ekki slegið föstu fyrr en undir lokin. Það er mjög smekklega unnið með þetta atriði í sýningunni, þó að auðvitað sé engin leið fær önnur en að sýna okkur Stellu í sínum eðlilegu aðstæðum frá fyrstu stund. Það er líka umhugsunarvert að átta sig á því hvað það kemur lítið að sök. Brellan í bókinni var bara það: brella. Það eru persónurnar og sagan sem skiptir máli.

Hin brellan er svolítið annað mál, að sumu leyti kjarni bókarinnar og helsta viðfangsefni: upplifun Stellu, sem er að byrja að hætta að vera barn, af hinni klikkuðu, ofvirku skalasyngjandi óperumömmu. Hvernig það er hin þrettán ára Stella sem hefur breyst, og er að breytast, en ekki mamman. Á sviði, allavega í túlkun þessarar uppfærslu, er alveg morgunljóst að Stella er síst að mikla fyrir sér „ágalla“ mömmu sinnar. En hitt fer heldur ekki á milli mála að hún hefur alltaf verið svona og má alls ekki öðruvísi vera. Og aftur: þetta kemur síður en svo að sök. Leikgerðin er ágætlega unnin, mögulega samt full-upptekin af að halda sem mestu til haga úr bókinni. Eitt sem ekki er vel leyst er hvernig spennan í vinkvennasambandinu vegna svika vinanna við Stellu snemma í verkinu er byggð upp. Það er pínu óreiða á því hvenær allt er fallið í ljúfa löð. Hinu skilar leikgerðin, og sviðsetningin svikalaust: hvað þetta er ógurlega skemmtilegt lið. Og eins og Stella óskar sér í fallega laginu sínu: afskaplega venjulegt – en samt spes.

Kannski aðeins meira spes en venjulegt. Hús-stíll Gaflaraleikhússins einkennist af krafti, gleði, litum og uppstyttulausu fjöri og ættarsvipur Mömmu klikk! er alveg skýr hvað það varðar. Þetta birtist bæði í því hvernig sýningin brunar frá einni stemmingunni í aðra, nostursamlegri vinnu við litla brandara sem síðan er miðlað af algerri sannfæringu af öllum í leikhópnum. Einnig í útlitinu, þar sem litagleði í búningum Bjarkar Jakobsdóttur og hárkollur á mörkum smekkvísinnar gefa tóninn og leikmynd Stígs Steinþórssonar sem býr til feikilegt athafnarými en lumar líka á vel útfærðum leyndarmálum, gott ef ekki heilu tréhúsi. Enginn kvartmílubíll samt. Lýsing Freys Vilhjálmssonar skilar sínu stóra hlutverki með sóma og þó að titillag Halls Ingólfssonar sé ekki ýkja áheyrilegt er hitt frumsamda lagið flott og útfærslan á tónlistinni úr Carmen stórskemmtileg.

Björk hefur úr leikstjórastólnum tekist einstaklega vel að stilla saman leikhópinn, sem er eðli máls samkvæmt á ólíkum aldurs- og listþroskaskeiðum. Hér eru allir að spila í sama liði, frá reynsluboltanum Gunnari Helgasyni sem nýtur sín í hlutverki pabbans og ýmsum smárullum, niður í sjarmatröllið og senuþjófinn Auðun Sölva Hugason sem þreytir með glæsibrag frumraun sína í atvinnuleikhúsi sem Siggi sítróna, hinn tunguhefti bróðir Stellu.

Gríma Valsdóttir skilar aðalhlutverkinu ákaflega vel. Fyrir utan líkamlegar áskoranir hlutverksins er það vandasamt fyrir það hvað Stella þarf að dvelja lengi og oft í hneykslunar- og sjálfsvorkunnarstemmingunni sem öll sagan gengur út á, en Grímu tókst engu að síður að gera Stellu okkur nákomna. Það er síðan engu líkara en titilhlutverkið hafi verið skrifað með Valgerði Guðnadóttur í huga, sem er eins og syngjandi stormsveipur með bros, kraft og trúðsglampa í auga. Ásgrímur Gunnarsson var sannfærandi og fyndinn, bæði í sínu aðalhlutverki sem Palli bróðir, og öðrum. Það sama má segja um bæði Þórunni Lárusdóttur sem ömmu snobb og Felix Bergsson í hlutverki Hanna granna, en bæði taka þau á sig ýmis gervi.

Eitt af því sem leikgerðin nær ekki að skila fyllilega er persónur vinahópsins hennar Stellu. Mögulega vegna þess að í bókinni kynnumst við þeim aðallega í lýsingu hennar á þeim, frekar en þær eigi sér fyllilega sjálfstætt líf í sögunni og það hefur einfaldlega ekki gefist pláss til að dýpka myndina. Engu að síður er ekkert við frammistöðu þeirra Öglu Bríetar Einarsdóttur, Veru Stefánsdóttur, Theu Snæfríðar Kristjánsdóttur og Matthíasar Davíðs Matthíassonar að athuga og sá síðastnefndi náði að fara á kostum í smáhlutverki fermingardrengs í heiftarlegum mútum. Mamma klikk! flytur mikilvægan boðskap um umburðarlyndi og samheldni, um virðingu og vináttu.

Mamma klikk! flytur mikilvægan boðskap um umburðarlyndi og samheldni, um virðingu og vináttu. Það slær heitt hjarta í bókinni og það slær hratt og taktfast í þessari stórskemmtilegu og brosmildu sýningu.