föstudagur, mars 30, 2001

Augun þín blá - Dagskrá úr verkum Jónasar og Jóns Múla Árnasona

Leiklistarhópur ungmennafélagsins Eflingar
Breiðumýri, Reykjadal 30. mars 2001

Leikstjórn og dagskrárgerð: Arnór Benónýsson
Tónlistarstjórn: Sigurður Illugason

Sígræna

SÖNGLEIKIR þeirra Múlabræðra, sumir reyndar samdir í slagtogi við aðra, eru náttúrulega sígild íslensk leikverk. Frábær tónlistin, hnyttnir textarnir, húmorinn og sú sérstaka hlýja sem einkennir efnistök öll gera þau að sjálfsögðum viðfangsefnum á öllum tímum.Smákrimmaóperettan Rjúkandi ráð, sjúkrahússöngleikurinn Allra meina bót, Jóla- og bílnúmerarevían Deleríum Búbónis, og síldar- og spírítismasöngleikurinn Járnhausinn eru hvert öðru skemmtilegra. Íslensk áhugaleikfélög munu alltaf standa í þakkarskuld við þá bræður og því er viðeigandi af Eflingu að senda Jóni Múla kveðju á áttræðisafmælinu með þessari bráðskemmtilegu sýningu
Arnór Benónýsson hefur týnt saman söngva og leikatriði úr verkunum fjórum, auk þess sem sungin eru tvö lög úr ófluttu verki, Forsetakosningar 2012, sem mun vera að uppistöðu skopleikurinn Halelúja, aukinn söngvum. Mörg laganna eru vitaskuld alþekkt og heyrast oft, en hér gat einnig að heyra söngdansa sem standa óverðskuldað í skugga þeirra frægari. Kavatína Kristínar úr Rjúkandi ráði, Sérlegur sendiherra úr Deleríum Búbónis, Hvað er að hvíta ský? úr Járnhausnum og Barbídúkka úr nýja verkinu eru frábær lög sem gaman var að rifja upp kynnin við með Eflingarfólki. Þá var líka gott að heyra gamalkunnug lög tekin ferskum tökum, sérstaklega óborganlega útgáfu af Ástardúettinum fallega úr Deleríum Búbónis, sem var sunginn þrisvar, af pörum á öllum aldri, og með ólíkum forsendum.
Þeir Reykdælir eru vel búnir tónlistarkröftum og því ekki að undra að sá þáttur sýningarinnar væri vel af hendi leystur. Hljómsveitin var vel spilandi og söngvarar upp til hópa fínir. Hraðaval var að jafnaði í frískari kantinum, sem kom stundum niður á textunum, einkum í hópsöngvum, en kunna ekki allir Fröken Reykjavík hvort eð er?
Leikatriðin voru flest ágæt, en ég gæti trúað því að erfitt sé fyrir þá sem lítt eru kunnugir verkunum að henda reiður á hvað er að gerast í sumum þeirra. Kannski hefði verið ráð að gera stutta grein fyrir efnisþræði verkanna í leikskrá. En leiktexti Jónasar stendur auðvitað fyrir sínu og skilaði sér alla jafnan til áhorfenda.
Umgjörð sýningarinnar er eins einföld og hugsast getur, leikmyndin fyrst og fremst leikhópurinn sjálfur, engir búningar, bara föt leikaranna sjálfra að mér sýndist. Þetta var ágæt lausn, hér voru skáldbræðurnir í forgrunni. Myrkvanir á sviðinu milli atriða voru eiginlega óþarfar í þessu óþvingaða andrúmslofti.
Augun þín blá eru skemmtileg og kraftmikil yfirlitssýning sem fær áhorfendur, allavega undirritaðan, til að bíða spennta eftir næsta tækifæri til að sjá söngleikina í heild sinni. Svoleiðis sýning myndi augljóslega ekki vefjast fyrir Ungmennafélaginu Eflingu.

sunnudagur, mars 25, 2001

Ávaxtakarfan

Leikfélag Seyðisfjarðar og Seyðisfjarðarskóli
Seyðisfirði sunnudaginn 25. mars 2001

Höfundur: Kristlaug María Sigurðardóttir
Tónlist: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Leikstjóri: Snorri Emilsson
Tónlistarstjóri: María Gaskell

Goggunarröðin hjá gróðri jarðar

ÁVAXTAKÖRFUNNI er ætlað að kenna umburðarlyndi, fordómaleysi og vináttu. Í því skyni sýnir höfundur okkur smáheim; samfélag ávaxta í körfu. Samfélag ávaxtanna lýtur að því er virðist sömu lögmálum og víðar gilda. Virðingarröðin er skýr, mun skýrari en rökin fyrir því að einn sé betri en annar. Þannig eru berin undirokuð af hinum stærri ávöxtum, en grænmetið “að sjálfsögðu” í enn minni metum. En með boðskap sínum um jafnrétti og gagnkvæma vináttu tekst hinum lægstu að koma á heilnæmara samfélagi. Í leikskrá segir að verkið fjalli um einelti, en eiginlega hefur það víðari skírskotun. Fordómar og ofbeldi af þeim leitt er viðfangsefnið og einelti er ein birtingarmynd þess.

Leikritið sver sig mjög í ætt boðskaparþrunginna barnaleikrita og líður nokkuð fyrir það. Það er orðmargt en tíðindalítið, sigur hins góða er nánast engum vandkvæðum bundinn og aldrei í hættu. Víða er þó komist vel að orði og persónueinkenni einstakra ávaxta vel teiknuð. Tónlist Þorvalds Bjarna er hreinræktað popp, falleg lög sem ljá verkinu skemmtigildi til mótvægis við siðalærdóminn sem leiktextinn flytur.

Það eru börn í öllum hlutverkum hjá leikfélagi Seyðisfjarðar að þessu sinni. Ávaxtakarfan er kannski ekki sérlega heppilegt viðfangsefni fyrir óreynda leikara, enda líklega ekki skrifuð með það fyrir augum. Það er hins vegar greinilegt að börnin á Seyðisfirði geta leikið og gerðu það svikalaust. Á stundum hefði leikstjóri sýningarinnar samt mátt vinna staðsetningar og umferð um sviðið betur, það hefði skerpt á sögunni og innbyrðis afstöðu persónanna. Búningar og umgjörð eru einföld en rétt. Ávextirnir hafa á sér meiri mannsbrag en í frumuppfærslunni í Íslensku Óperunni, og gera tengslin við einelti á skólalóðinni enn skýrari.

Tónlistarflutningurinn er kapítuli út af fyrir sig. Tónlistin er eins og leiktextinn, ekki sérlega barnvæn, en hinir ungu Seyðfirðingar flytja hana af fádæma öryggi og krafti. Hrein unun á að hlíða, hvort heldur í hópsöngvum eða einsöngslögum. María Gaskell hefur greinilega unnið frábært starf og hljómsveitin var stórfín undir stjórn hennar, þar voru heldur ekki allir tiltakanlega háir í loftinu.

Seyðisfjörður á hér greinilega fjársjóð hæfileika og kunnáttu sem vafalaust verður ausið af í framtíðinni ef rétt verður að hlúð.

Ávaxtakarfan

Leikfélag Seyðisfjarðar og Seyðisfjarðarskóli
Seyðisfirði sunnudaginn 25. mars 2001

Höfundur: Kristlaug María Sigurðardóttir
Tónlist: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Leikstjóri: Snorri Emilsson
Tónlistarstjóri: María Gaskell

Goggunarröðin hjá gróðri jarðar

ÁVAXTAKÖRFUNNI er ætlað að kenna umburðarlyndi, fordómaleysi og vináttu. Í því skyni sýnir höfundur okkur smáheim; samfélag ávaxta í körfu. Samfélag ávaxtanna lýtur að því er virðist sömu lögmálum og víðar gilda. Virðingarröðin er skýr, mun skýrari en rökin fyrir því að einn sé betri en annar. Þannig eru berin undirokuð af hinum stærri ávöxtum, en grænmetið “að sjálfsögðu” í enn minni metum. En með boðskap sínum um jafnrétti og gagnkvæma vináttu tekst hinum lægstu að koma á heilnæmara samfélagi. Í leikskrá segir að verkið fjalli um einelti, en eiginlega hefur það víðari skírskotun. Fordómar og ofbeldi af þeim leitt er viðfangsefnið og einelti er ein birtingarmynd þess.

Leikritið sver sig mjög í ætt boðskaparþrunginna barnaleikrita og líður nokkuð fyrir það. Það er orðmargt en tíðindalítið, sigur hins góða er nánast engum vandkvæðum bundinn og aldrei í hættu. Víða er þó komist vel að orði og persónueinkenni einstakra ávaxta vel teiknuð. Tónlist Þorvalds Bjarna er hreinræktað popp, falleg lög sem ljá verkinu skemmtigildi til mótvægis við siðalærdóminn sem leiktextinn flytur.

Það eru börn í öllum hlutverkum hjá leikfélagi Seyðisfjarðar að þessu sinni. Ávaxtakarfan er kannski ekki sérlega heppilegt viðfangsefni fyrir óreynda leikara, enda líklega ekki skrifuð með það fyrir augum. Það er hins vegar greinilegt að börnin á Seyðisfirði geta leikið og gerðu það svikalaust. Á stundum hefði leikstjóri sýningarinnar samt mátt vinna staðsetningar og umferð um sviðið betur, það hefði skerpt á sögunni og innbyrðis afstöðu persónanna. Búningar og umgjörð eru einföld en rétt. Ávextirnir hafa á sér meiri mannsbrag en í frumuppfærslunni í Íslensku Óperunni, og gera tengslin við einelti á skólalóðinni enn skýrari.

Tónlistarflutningurinn er kapítuli út af fyrir sig. Tónlistin er eins og leiktextinn, ekki sérlega barnvæn, en hinir ungu Seyðfirðingar flytja hana af fádæma öryggi og krafti. Hrein unun á að hlíða, hvort heldur í hópsöngvum eða einsöngslögum. María Gaskell hefur greinilega unnið frábært starf og hljómsveitin var stórfín undir stjórn hennar, þar voru heldur ekki allir tiltakanlega háir í loftinu.

Seyðisfjörður á hér greinilega fjársjóð hæfileika og kunnáttu sem vafalaust verður ausið af í framtíðinni ef rétt verður að hlúð.

laugardagur, mars 24, 2001

Allt sem þér viljið ...

Leikfélag Dalvíkur
24. mars 2001

Höfundar: Arnar Símonarson, Dana Jóna Sveinsdóttir, Friðrik Ómar Hjörleifsson og Sólveig Rögnvaldsdóttir.
Leikstjóri: Arnar Símonarson.


Efnilegt, en...

ÞAÐ er ætíð gleðiefni þegar leikfélög hafa burði og metnað til að sýna ný verk, hvað þá þegar félagsmenn ráðast í að skrifa þau sjálfir. Þannig er nú málum háttað hjá Leikfélagi Dalvíkur, sem löngum hefur notið virðingar fyrir metnaðarfullt starf og góða leiklist. Fjórir félagsmenn skrifa saman leikrit sem einn þeirra fylgir síðan alla leið sem leikstjóri en hinir þrír leika. Að auki setur einn höfundanna saman hljóðmynd af stakri fagmennsku. Mannauður Leikfélags Dalvíkur er svo sannarlega í hróplegu ósamræmi við höfðatölu staðarins.

Allt sem þér viljið... er að forminu til sakamálaleikrit af sígildri gerð. Stórfjölskylda er veðurteppt á heimili ættmóðurinnar nýlátinnar og í erfðaskrá hennar eru óvæntar ráðstafanir. Síðan reynist auðvitað maðkur í mysu. Að sjálfsögðu verður ekkert greint hér frá ætterni maðksins né efnainnihaldi mysunnar. Það eru forréttindi áhorfenda að fræðast um slíkt. Allt sem þér viljið... er skemmtileg sýning, borin uppi af kraftmiklum leik og fyndni í texta.

Höfundakvartettinn hefur lagt upp með flókna fléttu eins og formið krefst, en það verður að segjast að þeim tekst hvorki nógu vel að nýta hana til að byggja upp spennu né að leiða alla þræði hennar til farsælla lykta. Verkið er fullt af skemmtilegum persónum og uppákomum og höfundum lætur vel að skifa lipur samtöl. Með færri persónum og einfaldari og skýrari grunnsögu sem allar persónurnar tengdust hefði Allt sem þér viljið... að mínu viti orðið bráðgott og lífvænlegt verk. Og þó svo höfundar verksins hafi hér að mínu viti ætlað sér um of þá er fyllsta ástæða til að hvetja á þá til dáða og frekari skrifa.

Það er ljóst af sýningunni að leikstjórinn Arnar Símonarson kann ágætlega til verka. Ef til vill hefði þó verið klókt af Dalvíkingum að fá utanaðkomandi leikstjóra að verkinu. Á stundum hefði ég kosið að betur væri hnykkt á mikilvægum atriðum og afstaða persónanna til atburða og hverrar annarar væri skýrari. Kannski hafa þessir hlutir legið einum of ljósir fyrir höfundinum til að leikstjórinn sæi ástæðu til að leggja áherslu á.

Það er löngu vitað mál að Dalvíkingar eiga leikara góða og þar sem hefðin og reynslan safnast fyrir hafa nýliðar eitthvað að byggja á og þekkja þær kröfur sem gerðar eru. Í þessari sýningu stíga nokkrir leikaranna sín fyrstu spor og standa sig allir með prýði. Hópurinn er agaður þannig að mannfjöldinn á sviðinu virkar aldrei óeðlilegur, allt gengur eins og smurt. Og þegar tækifæri gefast ná margir leikaranna að blómstra. Það gustaði til að mynda af Olgu Guðlaugu Albertsdóttur í hlutverki Pálínu, drepfyndin mynd af kjarnorkukonu. Önnur slík er skörungurinnn Sesselja frá Skuld, sem Dana Jóna Sveinsdóttir gerði kostuleg skil. Lárus Heiðar Sveinsson var hlægilegur útlendur kúarektor og hinn heimóttarlegi Rafn var snyrtilega teiknaður af Júlíusi G. Júlíussyni.

Þessar kostulegu persónur, og allar hinar, gefa til kynna þá möguleika til góðra verka sem höfundahópur Dalvíkinga er rétt að byrja að miðla af. Við bíðum því spennt eftir hvar þau drepa næst niður penna.

föstudagur, mars 23, 2001

Djöflaeyjan

Leikfélag Siglufjarðar
Nýja bíó, Siglufirði föstudaginn 23. mars 2001

Höfundur: Einar Kárason
Leikgerð Kjartans Ragnarssonar
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason

Braggabörn

LEIKFÉLAG Siglufjarðar fagnar með þessari sýningu fimmtíu ára afmæli sínu. Félagið er nýendurvakið, síðasta leikár var það fyrsta eftir nokkurra ára hlé á leikstarfsemi á Siglufirði. Því er ekki að undra að stærstur hluti þátttakenda í Djöflaeyjunni hefur litla sem enga reynslu eða þjálfun í leikstarfsemi. Hitt vekur því frekar furðu hvað hópnum tekst að skila skemmtilegri og góðri sýningu á þessu stóra og mannmarga verki.

Það þarf líklega ekki að hafa mörg orð um Djöflaeyjunna, svo vel sem hún er kynnt, lesin í skólum að mér skilst og nú síðast kvikmynduð. Auk þess er söguefnið eiginlega þjóðarsálin sjálf, við þekkjum okkur öll í þessum gölluðu hetjum og fórnarlömbum íslenskrar menningarbyltingar eftirstríðsáranna.

Guðjón Sigvaldason er leikstjóri með persónulegan stíl sem að mörgu leyti hentar óreyndum leikurum vel. Mig minnir að stílnum hafi verði líst sem “glannalegum” af dómnefnd þeirri sem tilnefndi sýningu Guðjóns og Leikfélags Hornafjarðar á Djöflaeyjunni Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins1994 og mun það ekki fjarri sanni. Síðan hefur stíllinn, glannaskapurinn ef menn vilja, skerpst ef eitthvað er. Hann birtist m.a. í frumlegri notkun á ýmiskonar kórum, tal- og jafnvel búkhljóðakórum. Hér nýtast slíkir kórar vel, atriði með næturgögn sem umbreytist í rómantíska jólastemmningu er gott dæmi.Þá hefur Guðjón einstakt dálæti á konum á vissum aldri með skuplur, veski og hornspangagleraugu. Það kemur sér vel hér þar sem leikgerðin byggir á notkun sögumanna, og hverjir eru betri sögumenn en erkitýpískar sögusmettur?

Guðjón leggur greinilega mikla rækt við þessi kóratriði, en virðist stundum ekki eins sýnt um að nostra við hin fínni blæbrigði leiksins, sem stundum verður til þess að mikilvæg augnablik og atriði verða ekki eins áhrifamikil og efni standa til. Um þetta eru líka dæmi í þessari sýningu, svo sem eins og sú umbreyting sem verður á valdahlutföllum í Gamla Húsinu þegar kolbíturinn Danni breytist í flugkappa á einni nóttu og veltir augasteininum og ömmubarninu Badda úr sessi sem framtíðarvon fjölskyldunnar. Stíll Guðjóns er hinsvegar á heimavelli þegar þarf að skapa tilfinningu fyrir horfnum heimi og er því að mestu leyti kjörin til að endurreisa Thulekampinn með öllum þeim einkennilegu mönnum sem þar draga fram lífið. Leikmyndin, sem einnig er verk Guðjóns, er bæði falleg og hugvitsamleg og nýtist vel.

Leikhópurinn er eins og áður sagði mikið til skipaður nýgræðingum, þó innanum séu reynsluboltar. Í heild skilar hópurinn góðu verki og bráðskemmtilegri sýningu. Af þeim sem mest mæðir á má nefna Sigrúnu Ingólfsdóttur sem smellpassaði í hlutverk Karólínu spákonu og V. Inga Hauksson sem náði góðum tökum á fótaþurrkunni Tomma. Páll Þorvaldsson er Baddi og sýndi ágætlega hvernig töffaraskapur hans er af öðru tagi en drykkjufélaganna, byggður á draumum og frösum en ekki raunveruleikanum. Brynjar Sindri Sigurðarson fór sérstaklega eðlilega og fallega með eintöl Danna. Maríanna Kr. Leósdóttir og Guðmundur Guðlaugsson voru og prýðileg sem hjónin Dollý og Grettir.

Það væri svo sem hægt að halda áfram að telja upp, Drykkjukonan Þórgunnur, nískupúkarnir Fía og Tóti og fleiri eiga sinn þátt í að gera þetta að kostulegri sýningu. Hitt er mikilvægara að vita að nú er greinilega að renna upp blómaskeið í leiklist á Siglufirði. Það er því rétt að óska til hamingju með afmælið og hlakka svo til næstu heimsóknar.

föstudagur, mars 16, 2001

Blessað barnalán

Leikfélag Rangæinga
Hvoli á Hvolsvelli föstudagurinn 16. mars 2001

Höfundur: Kjartan Ragnarsson
Leikstjóri: Margrét Tryggvadóttir

Leikendur: Anna Ólafsdóttir, Arndís Fannberg, Arndís Pétursdóttir, Bergsveinn Theodórsson, Brynja Rúnarsdóttir, Gunnhildur Þ. Jónsdóttir, Gústav Stolzenwald, Halldór Óskarsson, Hannes Birgir Hannesson, Jón Sigurðsson, Sigríður Halldórsdóttir og Þorbjörg Atladóttir

Íslenski farsinn

MÆÐGUR í þorpi á Austfjörðum eru orðnar langþreyttar á ræktarleysi hinna systkinanna. Loks grípur heimasætan til örþrifaráða til að draga systkini sín í heimahagana og tilkynnir ótímabært andlát móður sinnar. Þau þyrpast að, en bæði reynast þau misjafnlega ánægjulegir gestir og svo er vandséð hvernig á að snúa ofan af skröksögunni og reisa mömmu gömlu upp á ný. Þetta er í stuttu máli kveikjan að atburðum þeim er sagt er frá Blessuðu barnaláni, sem ætlar að verða lífseigt á verkefnaskrám áhugaleikfélaganna, eins og reyndar fleiri verk Kjartans, en eftir því sem næst verður komist er um þessar mundir verið að sýna fjögur verka hans um landið þvert og endilangt.
Vinsældir Blessaðs barnaláns eru hreint ekki illskiljanlegar. Spaugilegar uppákomur án þess að um geirneglda farsafléttu sé að ræða, ísmeygilegt háð en samt hjarta á réttum stað. Blessað barnalán er skopleikur í rammíslenskri tóntegund og hefur bærilega staðist tönn tímans.
Margrét Tryggvadóttir stýrir félögum sínum í leikfélagi Rangæinga og hefur augljóslega góða tilfinningu fyrir viðfangsefninu og þátttakendum, enda verður sýningin býsna jafngóð. Á stundum hefði kannski mátt byggja betur upp hraðann, spaugileg atvik verða sum enn hlægilegri ef áhorfendur eru ekki alveg búnir að jafna sig eftir síðustu roku. Eins hefði hjálpað til við að halda léttri stemmningu að nota tónlist í skiptingum milli þátta. En þetta eru í sjálfu sér smáatriði, skemmtunin er aðalatriðið og af henni er nóg í sýningu Rangæinga.
Af leikendum mæðir einna mest á Ingu, systurinni sem heima situr, sinnir móður sinni og hefur greinilega haft sama hlutverk á hendi gagnvart systkinum sínum. Þorbjörg Atladóttir hafði ágætt vald á hlutverkinu, átti bæði verðskuldaða samúð áhorfenda og varð þeim að athlægi eins og til er ætlast. Bergsveinn Theodórsson var eins hlægilegur sr. Benedikt og hægt er að ætlast til, persóna sem verður saklaust fórnarlamb farsans, sú sem við vildum helst vera en þökkum guði að við erum ekki. Einnig verður að nefna Önnu Ólafsdóttur sem var yndislega tilætlunarsöm og kærulaus sem hin vesturheimska systir Addý.
Fullur salur á Hvolsvelli skemmti sér konunglega yfir þeirri skopmynd sem dregin er þar upp af okkur öllum. Við hlægjum innilegast þegar við þekkjum það sem dregið er dár að. Við þekkjum okkur sjálf og okkar heimafólk í Blessuðu barnaláni. Þess vegna lifir það og skemmtir okkur enn.

sunnudagur, mars 11, 2001

Platonov

Herranótt
Tjarnarbíói sunnudaginn 11. mars 2001

Höfundur: Anton Tsjekhov.
Leikgerð: Ólafur Darri Ólafsson, byggt á þýðingum Árna Bergmann og Péturs Einarssonar.
Lýsing og útlitshönnun: Sigurður Kaiser.

Leikendur: Ástrós Elísdóttir, Bragi Páll Sigurðarson, Friðrik Thor Sigurbjörnsson, Grétar Már Amazeen, Grímur Hjörleifsson, Hildur Knútsdóttir, Kristín Una Friðjónsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Margrét Erla Maack, Margrét Jóna Einarsdóttir, Saga Sigurðardórri, Sunna María Schram, Svanlaug Jóhannsdóttir, Sverrir Ingi Gunnarsson, Tanja Marín Friðjónsdóttir, Valgerður B. Eggertsdóttir og Þorgeir Arason.

Hljómsveit: Árni Egill Örnólfsson, Brynja Guðmundsdóttir, Eiríkur Gauti Kristjánsson, Kristmundur Guðmundsson og Sigurður Þór Rögnvaldsson.

Skortur á lífsleikni

ÞÓ Platanov jafnist ekki á við meistarastykkin fjögur sem frægð Tsjekhovs hvílir á er í þessum sex klukkutíma óskapnaði að finna nánast öll viðfangsefni og flestar persónugerðir sem hann síðar fágaði og mótaði af fullþroska snilld. Auralaus yfirstétt, yfirvofandi gjaldþrot, menntamenn þrúgaðir af eigin getuleysi í lífinu, hlægilegir eldri menn, drykkfelldir læknar, fjálglegar og innihaldslausar ræður um göfgi vinnunnar, vonlaus ást. Lífsleikni er lítt gefin fólkinu hans Tsjekhovs.

Fólkið sem safnast í kringum hina töfrandi en illa skuldsettu Önnu Petrovnu á sveitasetri hennar á hverju sumri er af þessu Tsjekhovska sauðahúsi, og Platanov er bæði fíflið og riddarinn við hirðina. Frekar óheppileg blanda því þegar hann þarf að velja milli kvennanna sem elska riddarann velur fíflið þær allar með tilheyrandi fyrirgangi. Tsjekhov reyndi aldrei síðar að skrifa farsa, en sum atriði Platonovs sýna að það hefði ekki vafist fyrir honum frekar en annað. Leikgerð Ólafs Darra er fjórða útgáfa verksins sem ég hef séð og þær eru ótrúlega ólíkar innbyrðis. Villihunang, leikgerð Michael Frayn, leggur mest upp úr farsanum, en hin ómótstæðilega kvikmyndagerð, Sjálfspilandi píanó, nær best inn að kvikunni.

Að óreyndu mætti ætla að óheflað æskuverk á borð við þetta sé heppilegra viðfangsefni fyrir unga og óreynda leikendur sem ættu erfitt með að sýna og fela í senn þann undirtexta sem spennan í síðari verkum Tsjekhovs byggir á. Galgopaskapurinn og fjörug atburðarásin í Platonov ætti að henta betur. Leikstjóri þessarar sýningar hefur hins vegar valið leið hófstillingar og fágunar og verður það óneitanlega á kostnað krafts og leikgleði. Eins hefði Ólafur Darri þurft að leggja meiri rækt við að móta persónur og gera afstöðu þeirra skýrari. Of mörg lykilandartök fara forgörðum vegna þess að á þetta skortir.

Ekkert skortir hins vegar upp á fágun og umgjörð. Glæsileg leikmynd og búningar ásamt bráðskemmtilegri tónlist setja sterkan svip á sýninguna. Og á þeim augnablikum sem sýningin sleppir fram af sér beislinu sést hvaða möguleikar eru fyrir hendi í verkinu og hópnum. Framsögn er með örfáum undantekningum prýðileg. Það er samt eiginlega ekki sanngjarnt að leggja dóm á frammistöðu einstakra leikara á grundvelli þessarar sýningar. Hæfileikana vantar ekki, hér eru þeir einfaldega vannýttir. Við býðum spennt framhaldsins.

laugardagur, mars 10, 2001

Bófaleikur á Broadway

Freyvangsleikhúsið
Freyvangi laugardaginn 10. mars 2001

Höfundur: Woody Allen
Þýðendur: Ármann Guðmundsson og Hannes Örn Blandon
Leikstjóri: Hákon Waage
Danshöfundur: Jóhann Arnarsson
Leikmynd: Þórarinn Blöndal

Líf, dauði og list

HIN sífellda leit áhugaleikfélaga að heppilegum viðfangsefnum hefur að undanförnu leitt nokkur þeirra á vit kvikmyndanna. Þegar svo er komið var auðvitað bara tímaspursmál hvenær við fengjum að sjá sviðsuppfærslu á þeirri ágætu ræmu Allens, Bullets over Broadway.

Sögusviðið er leikhúsheimurinn, nánar tiltekið leikhúsgatan fræga í New York, og tíminn er um 1920. Ungur og metnaðargjarn höfundur fær hátimbraðan harmleik sinn ekki fjármagnaðan nema af mafíunni og með þeim afarkostum að hæfileikasnauð fylgismey mafíuforingjans fái hlutverk. Helsta viðfangsefni verksins er hins vegar hæfileikar og verðleikar, og hvað getur gerst þegar þetta tvennt fer ekki saman. Þar teflir Allen saman leikskáldinu David Shayne sem hefur meiri metnað en hæfileika, og morðingjanum Checch sem reynist búa yfir snilligáfu sem fær útrás við að lagfæra leikritið, milli þess sem hann sinnir skyldustörfum sínum fyrir mafíuna. Bullets over Broadway er að mínu viti ein albesta mynd Allens. Djúp, aðgengileg og alveg morðfyndin.

Freyvangsleikhúsið er eitt öflugasta og vandvirkasta áhugaleikfélag á Íslandi og bera vinnubrögð þeirra við þessa sýningu þess merki, allt frá þeirri natni sem hefur verið lögð í glæsilega búninga og umgjörð yfir í nokkuð jafngóðan leik. Burðarhlutverkum er öllum vel skilað, Stefán Guðlaugsson er flinkur gamanleikari, kannski full vörpulegur maður til að verða trúverðulega rolulegt leikskáld, en gerir vel. Ragnar E. Ólafsson virkaði full unglegur sem górillan Cheech, en stóð sig samt með prýði. Helga Ágústsdóttir var hárrétt í hlutverki prímadonnunnar Helen Sinclair og Halldóra Magnúsdóttir réttilega óþolandi sem hin ástmærin með leikkonudraumana.

Þó það sé skiljanleg freisting að sækja sér viðfangsefni í kvikmyndir þá fylgja því ýmis vandkvæði. Hætt er við að leikarar og leikstjóri sæki um of fyrirmynd í myndina í stað þess að einbeita sér að handritinu; textanum og sögunni sem segja á. Sýning Freyvangsleikhússins ber þessa nokkur merki og fyrir vikið náðu sum atriði ekki að lifa til fulls.

Annað vandamál er að atriði í kvikmyndum eru oft örstutt og hægt að flytja persónur milli staða á sekúndubroti. Klippitækni leikhússins er ekki jafn langt komin. Leikstjóra Bófaleiksins tekst satt að segja lygilega að halda snerpu í sýningunni, með hjálp hugvitsamlegrar og smekklegrar leikmyndar. Þó eru skiptingar of margar og flæðið stöðvast of oft. Gaman hefði verið að sjá meiri aðlögun handritsins að hinum nýja miðli. Einnig er möguleiki að minni tryggð við raunsæi hefði hjálpað.

Þrátt fyrir þessi tæknilegu vandamál er það að vanda persónurnar og saga þeirra sem fangar hugann í leikhúsinu, og það gerir þetta makalaust skemmtilega ævintýri Allens í Eyjafjarðarsveit svikalaust. Skemmtileg og fáguð sýning sem með smávegis sjálfstæðisbaráttu gagnvart kvikmyndinni hefði orðið enn betri, til þess hafa aðstandendur hennar augljóslega alla burði.

fimmtudagur, mars 08, 2001

Karton af Camel

Thalía, leikfélag Menntaskólans við Sund
Spotlight fimmtudaginn 8. mars 2001

Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson
Útlitshönnun: Skjöldur Mio Eyfjörð

Leikendur;
Birgir Haraldsson, Brynja Björnsdóttir, Einar Baldvin Arason, Friðgeir Einarsson, Hannes Óli Ágústson, Harpa Hrund Pálsdóttir, Haukur Örn Hauksson, Helga Guðrún Friðriksdóttir, Helgi Skúli Friðriksson, Hildur Vala Einarsdóttir, Jón Gestur Björgvinsson, Jóna Ottesen, Lára Jósdóttir, Leifur Þór Þorvaldsson, María Elísabet Árnadóttir, Ólöf Anna Jóhannesdóttir, Sara Friðgeirsdóttir, Snævar Freyr Þórðarson, Sólmundur Hólm , Þorbjörg Helga Þorgeirsdóttir og Þórunn Karólína Pétursdóttir

Dansarar:
Bryndís Steina Friðgeirsdóttir, Flosi Jón Ófeigsson, Halla Guðný Erlendsdóttir ogSigrún Ámundadóttir

Hljómsveit:
Davíð Jensson, Helgi Skúli Friðriksson, Kjartan Hrafn Loftsson, Sölvi Kristjánsson og Viðar Friðriksson

Hvar er partíið?

GAMLÁRSKVÖLD i New York 1984. Allir á leið í partý, enginn ætlar að sofa einn á nýársnótt. En leiðin í gleðskapinn er krókótt, hvað þá brautin í bólið með heppilegan félaga. Þetta á persónurnar í Karton af Camel svo sannarlega að reyna og áhorfendur að fylgjast með. Ágæt skemmtun hjá Thalíu í viðeigandi umhverfi á skemmtistaðnum Spotlight.
því sem næst verður komist er Karton af Camel byggt á bandarísku kvikmyndinni 200 Cigarettes. Hversu nákvæmlega hún er stæld er erfitt að vita án þess að hafa séð myndina, en þýðingarbragðið sem er víða af textanum og skoðun á “trailer” myndarinnar bendir til að leikverkið fylgi henni nokkuð vel. Engra höfunda er getið í leikskrá, hvorki íslenskra höfunda “leikgerðar” né minnst á hinn ameríska uppruna. Þetta eru náttúrulega engin fyrirmyndarvinnubrögð. Hitt er verra að á stundum hefur hópnum ekki alveg tekist að “gera verkið að sínu” eins og sagt er. Áhorfandinn finnur fyrir því að það er ekki handrit sem liggur til grunvallar heldur önnur sýning, sköpun annarra leikara. Þetta eru lýti á annars skemmtilegri sýningu. Betra hefði ef til vill verið að slíta sig lengra frá fyrirmyndinni, stela söguþræði og persónugalleríi, en færa atburði til í tíma og rúmi, til Reykjavíkur í dag.
Augljóst er að Agnar Jón hefur verið sínu fólki góður leiðtogi og margar hugmyndir sem eiga heima í leikhúsinu frekar en á hvíta tjaldinu eru góðar og nýtast vel. Notkun tónlistar var skemmtileg, sérstaklega þau lög sem mest voru sviðsett og tengdust atburðarásinni skýrast, Kiss-slagarinn I was Made for Loving You og Total Eclipse of the Heart. Útlit allt er vel heppnað enda tíska tímabilsins alger gullnáma fyrir hugmyndaríka hönnuði.
Leikhópurinn stendur sig almennt nokkuð vel þrátt fyrir þá annmarka sem að ofan eru tíundaðir. Nokkrir fara á allnokkrum kostum. Brynja Björnsdóttir er makalaust skemmtileg sem kostuleg nýafmeyjuð ljóska. Haukur Örn Hauksson aldeilis bráðskemmtilegur sem Eric, bólfimiheft kvennagull með ótrúlegan hreim, líklega írskan og mjög skemmtilegan. Þá eru ungpíurnar Val og Stephanie bráðgóðar hjá Jónu Ottesen og Þorbjörgu Helgu Þorgeirsdóttur. Hannes Óli Ágústson er svo fínn leigubílstjóri.
Ágæt sýning hjá liðsmönnum Thalíu, en verkið fullhrá uppsuða. Hefði þurft að komast skrefinu lengra frá fyrirmyndinni og þá væri allt fínt.

sunnudagur, mars 04, 2001

Skilaboðaskjóðan

Leikfélag Fljótsdalshéraðs og Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum
Valaskjálf 4. mars 2001

Höfundur: Þorvaldur Þorsteinsson
Tónlist: Jóhann G. Jóhannsson
Leikstjóri: Sjöfn Evertsdóttir
Leikmyndarhönnuður: Unnur Sveinsdóttir
Tónlistarstjóri: Keith Reed

Í Ævintýraskóginum

SÝNING Leikfélags Fljótsdalshéraðs á Skilaboðaskjóðunni eru fyrstu kynni mín af þessu vinsæla verki sem byggt er á enn vinsælli bók. Það eru því líklega lítil tíðindi fyrir flesta að þetta er hið ágætasta verk. Fyndin og umhugsunarvekjandi leiðsögn um ævintýraskóginn, íbúa hans og ævintýrareglurnar sem þar gilda. Putti litli, sem vill svo gjarnan forða Mjallhvíti, Rauðhettu og sætindabelgjunum Hans og Grétu frá ógæfunni, kynnist illskunni af eigin raun. Maddamamma lærir að illvirkjarnir eru í alvörunni illvirkjar, án þeirra væru engin ævintýri, og glíman við þau stælir með okkur samkennd, hugrekki og útsjónarsemi.

Leikfélag Fljótsdalshéraðs hefur löngum verið ófeimið við að glíma við stórsýningar og nú, með fulltingi Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum, er miklu til tjaldað. Viðamikil leikmynd og samsvarandi búningar, krefjandi tónlist og fjölmennur leikhópur. Kröfur verksins eru miklar. En Egilsstaðamenn standast þær og skila frábærlega skemmtilegri sýningu.

Leikstjóri sýningarinnar hefur greinilega lagt sig eftir skarpri persónusköpun, sem skilar sér í óvenju jafn-góðum leik. Allar persónur verksins verða algerlega skýrar. Textameðferð var undantekningarlítið góð. Á stundum fannst mér sem staðsetningar og umferð um leikrýmið væri ekki nógu markviss, sem dró úr áhrifamætti sumra atriða, sérstaklega kaflans þar sem Putti villist um skóginn og leitar árangurslaust liðsinnis hjá illþýðinu. Þá þótti mér verkið víðar kalla á að talað væri beint til áhorfenda en gert var. Bæði eintöl og nokkur laganna virðast mér klárlega vera ávarp til áhorfenda, til að mynda fyrsti söngur Möddumömmu og hið víðfræga dvergalag.

Leikmynd Unnar Sveinsdóttur er ævintýraleg, í öllum skilningi. Hún og hennar fólk hafa skapað sannfærandi ævintýraheim fyrir leikritið að gerast í. Eins eru búningar vel útfærðir. Margt var fallega gert í tónlistinni, stundum komu upp sambandsleysisvandamál milli söngvara og hljómsveitar sem vafalaust verða úr sögunni að fáeinum sýningum liðnum.

Í svo svo jafnri sýningu er erfitt að týna til einstaka leikara, en margir verðskulda sérstakt hrós. Sigurlaug Gunnarsdóttir var geislandi sem Putti, og var hreint ekki feimin við að beina orðum sínum að áhorfendum. Kristrún Jónsdóttir var góð Maddamamma og Vígþór Sjafnar Zophoníasson var frábærlega skemmtilegur sem hinn gleymni sendiboði Dreitill. Dvergarnir allir áttu fínan samleik og eins var illþýðið firnagott, Bjartmar Bergmann sem hinn gráðugi úlfur, Erla Dóra Vogler sem nornin ljóta, og Oddný Dóra Sævarsdóttir, sannkallað flagð undir fögru skinni.

Skilaboðaskjóðan á Egilsstöðum er sigur fyrir aðstandendur alla. Leikritið er eitt af þessum gullvægu verkum sem gerir greinarmun á barna- og fullorðinsverkum hlægilegan, hér fá allir eitthvað til að gleðjast yfir og hugsa um. En til þess þarf að drífa sig í leikhúsið, það er vel þess virði.
Þorgeir Tryggvason

laugardagur, mars 03, 2001

Ærsladraugurinn

Leikfélag Reyðarfjarðar
Félagsheimilinu Félagslundi, laugardaginn 3. mars 2001

Höfundur: Noel Coward
Þýðandi: Torfey Steinsdóttir
Leikstjóri og höfundur leikgerðar: Þorsteinn Bachmann
Leikendur: Aðalheiður Kristjánsdóttir, Elías Geir Eymundsson, Gíslunn Jóhannsdóttir, Guðmundur Már Beck, Hafdís Sjöfn Harðardóttir, Helena Rós Rúnarsdóttir og Ingunn Indriðadóttir.

Konan mín heitin

VÁLYND veður á Austfjörðum um helgina urðu til þess að undirritaður sá sér þann kost vænstan að keyra á Egilsstaði þegar kom að hléi á sýningu Reyðfirðinga á Ærsladraugnum. Sat svo þar veðurtepptur í þrjá daga, en það er önnur saga. Allavega er það sem hér er ritað byggt á því sem fyrir augu bar fyrir hlé og verður að skoðast í því ljósi.

Ærsladraugurinn hans Cowards ætlar að vera þaulsætinn gestur í íslenskum leikhúsum. Segir ekki þjóðtrúin að draugar magnist í hundrað ár, haldi sér í aðra öld og lognist svo út af á hundrað árum? Ærsladraugurinn barst hingað 1946 og á því langt eftir enn, ef við trúum kerlingarbókunum. En frekar er nú af honum dregið þykir mér, svo rótfastur sem hann er í menningu og leikhústísku ritunartímans. Og þó Coward þyki hnyttinn höfundur í sínu ættlandi þá skilar sú mælska sér heldur takmarkað í þýðingu Torfeyjar Steinsdóttur. Leikstjórinn íslenskar nöfn persóna og flytur atburði til í tíma og rúmi (sýningin virðist gerast í litlum bæ austur á fjörðum í nútímanum) sem gengur upp að ýmsu leyti, en annað verður óhjákvæmilega annkannalegt.

Rithöfundur nokkur vill sækja sér fróðleik um starfsemi miðla og fær einn slíkan til að halda fund á heimili sínu. Ekki tekst betur til en svo að látin eiginkona hans vaknar upp og neitar að yfirgefa hann aftur. Heldur setur þetta háttarlag hennar spennu í seinna hjónaband höfundarins og var það þó hvergi nærri gott fyrir. Skemmtilegur útgangspunktur sem verður á stundum nokkuð lopateygður í meðförum höfundar, og því miður enn frekar í sýningu Reyðfirðinga. Eftir góða byrjun þar sem margir leikarar áttu fína spretti datt snerpan nokkuð niður, þegar nær hefði verið að herða á.

Mest var gaman að Gíslunni Jóhannsdóttur sem gerði kostulega undirlægju úr Vilborgu læknisfrú og það gustaði af Ingunni Indriðadóttur í hlutverki miðilsins. Samleikur Elíasar Geirs Eymundssonar og Hafdísar Sjafnar Harðardóttur var og sannfærandi, rithöfundurinn og frúin áttu greinilega í nógu miklum erfiðleikum í samlífinu þó draugurinn Elva bættist ekki þar við. Aðalheiður Kristjánsdóttir var ágætlega draugaleg í því hlutverki, en misráðin þótti mér tæknibrellan sem notuð var til að sýna drauginn lengi vel og ég vil ekki ljóstra upp hver er. Hún gerði “mótleikurum” draugsins heldur erfitt að athafna sig. Gaman hefði verið að sjá hvort brellan var endurnýtt eftir hlé þegar fjölgar í flokki framliðinna í verkinu, en það lukkaðist því miður ekki. Eftir stendur að Reyðfirðingar eiga greinilega öflugan flokk leikenda sem hefði gert enn skemmtilegri sýningu ef gerðar hefðu verið ákveðnari kröfur um snerpu og kraft. Kröfur sem ég er ekki í vafa um að þau hefðu staðið undir.

föstudagur, mars 02, 2001

Dýrin í Hálsaskógi

Leikhópurinn Vera, Fáskrúðsfirði
Félagsheimilinu Skrúð föstudaginn 2. mars 2001

Höfundur : Thorbjörn Egner
Þýðandi: Hulda Valtýsdóttir
Leikstjóri: Björn Gunnlaugsson

Svona á að fara að

Það hlýtur að teljast allmikill viðburður þegar um fimmtíu manns í ekki stærri bæ en Fáskrúðsfjörður er bindast samtökum að skapa saman leiksýningu. Og kannski er það ekkert minna en meiri háttar afrek þegar svo vel tekst til og með Dýrin í Hálsaskógi, sérstaklega þegar litið til þess að allflestir leikenda í sýningunni eru grunnskólabörn, og búa tæplega yfir þeirri reynslu sem er helsta vopn áhugaleikarans í glímunni við list leiksviðsins. Hér leggjast allir á eitt og útkoman sérdeilis ánægjuleg, auðvitað ekki hnökralaus, en alltaf skemmtileg.

Stærstan heiður af útkomunni á að mínu viti leikstjórinn, Björn Gunnlaugsson. Hann stýrir liði sínu af miklu öryggi og tekst að láta allar senur skila sínu til að skapa heildarmyndina og segja söguna. Sú eðlilega ákvörðun hefur verið tekin að leyfa sem flestum að vera með, og því er skógurinn fullur af smádýrum sem settu skemmtilegan svip á sýninguna og yngsta kynslóðin stóð sig með prýði í þeim atriðum. Sýningin er að flestu öðru leyti “hefðbundin”, en er þó víða krydduð með skemmtilegum smáatriðum, oft dálítíð hæðnislegum, að hætti samtímans.

Leikmynd er vel unnin og hönnuð, einföld umgjörð sem með litlum breytingum skapar þær fjölbreyttu aðstæður sem leikurinn krefst. Þó hefði ég kosið að reynt hefði verið að gera skiptingarnar að lifandi hluta af sýningunni, myrkvanir eru heldur hvimleið lausn á þessu vandamáli, og síðasti hluti “dýranna” má varla við þeim tíðu skiptingum sem hann kallar á. Búningar voru í anda Egners og vel útfærðir, hinn kostulegi rangeygi elgur mitt persónulega uppáhald. Förðun sömuleiðis verulega góð, en alls eru sautján konur skrifaðar fyrir förðun og búningum, enda ekkert áhlaupaverk að sauma þrjátíu búninga og farða síðan allan skarann viðamikilli málningu.

Það er erfitt að að fara að telja upp leikara í sýningu sem þessari, en þó get ég ekki stillt mig um að geta tveggja sérstaklega, Kjartan Svanur Hjartarson var hinn ágætasti Mikki refur, óttalegt grey sem erfitt var að ímynda sér að hefði nokkurn tíman veitt svo mikið sem músarunga. Kjartan hefur greinilega góða tilfinningu fyrir tímasetningum og var iðulega bráðfyndinn. Svo söng hann sérlega skemmtilega. Helgi Snævar Ólafsson var Marteinn skógarmús, sem stundum verður hálf utangátta persóna og ekki endilega skemmtileg. Helga tókst hins vegar að gera hann að kostulegum lúða sem fær skyndilega upphefð þegar lögin um vináttu dýranna er sett. Frábærlega unnin persóna hjá Helga og Birni leikstjóra, sem gerir Martein að miðju sögunnar, og meinfyndinn í þokkabót.

Allir leikarar sýningarinnar eiga reyndar hrós skilið. Og það er auðvitað stærsti lærdómurinn sem börnin á Fáskrúðsfirði mega draga af vinnu sinni í Hálsaskógi að leiksýning, eins og svo margt, byggir á samstarfi og sameiginlegu átaki. Það er ómetanlegt að leikflokkurinn Vera skuli standa svo myndarlega að uppfærslu með börnunum í bænum. Bónusinn er svo hvað vel tekst til um afraksturinn, hvað sýningin er skemmtileg og vönduð. Svona á að fara að.