föstudagur, mars 16, 2001

Blessað barnalán

Leikfélag Rangæinga
Hvoli á Hvolsvelli föstudagurinn 16. mars 2001

Höfundur: Kjartan Ragnarsson
Leikstjóri: Margrét Tryggvadóttir

Leikendur: Anna Ólafsdóttir, Arndís Fannberg, Arndís Pétursdóttir, Bergsveinn Theodórsson, Brynja Rúnarsdóttir, Gunnhildur Þ. Jónsdóttir, Gústav Stolzenwald, Halldór Óskarsson, Hannes Birgir Hannesson, Jón Sigurðsson, Sigríður Halldórsdóttir og Þorbjörg Atladóttir

Íslenski farsinn

MÆÐGUR í þorpi á Austfjörðum eru orðnar langþreyttar á ræktarleysi hinna systkinanna. Loks grípur heimasætan til örþrifaráða til að draga systkini sín í heimahagana og tilkynnir ótímabært andlát móður sinnar. Þau þyrpast að, en bæði reynast þau misjafnlega ánægjulegir gestir og svo er vandséð hvernig á að snúa ofan af skröksögunni og reisa mömmu gömlu upp á ný. Þetta er í stuttu máli kveikjan að atburðum þeim er sagt er frá Blessuðu barnaláni, sem ætlar að verða lífseigt á verkefnaskrám áhugaleikfélaganna, eins og reyndar fleiri verk Kjartans, en eftir því sem næst verður komist er um þessar mundir verið að sýna fjögur verka hans um landið þvert og endilangt.
Vinsældir Blessaðs barnaláns eru hreint ekki illskiljanlegar. Spaugilegar uppákomur án þess að um geirneglda farsafléttu sé að ræða, ísmeygilegt háð en samt hjarta á réttum stað. Blessað barnalán er skopleikur í rammíslenskri tóntegund og hefur bærilega staðist tönn tímans.
Margrét Tryggvadóttir stýrir félögum sínum í leikfélagi Rangæinga og hefur augljóslega góða tilfinningu fyrir viðfangsefninu og þátttakendum, enda verður sýningin býsna jafngóð. Á stundum hefði kannski mátt byggja betur upp hraðann, spaugileg atvik verða sum enn hlægilegri ef áhorfendur eru ekki alveg búnir að jafna sig eftir síðustu roku. Eins hefði hjálpað til við að halda léttri stemmningu að nota tónlist í skiptingum milli þátta. En þetta eru í sjálfu sér smáatriði, skemmtunin er aðalatriðið og af henni er nóg í sýningu Rangæinga.
Af leikendum mæðir einna mest á Ingu, systurinni sem heima situr, sinnir móður sinni og hefur greinilega haft sama hlutverk á hendi gagnvart systkinum sínum. Þorbjörg Atladóttir hafði ágætt vald á hlutverkinu, átti bæði verðskuldaða samúð áhorfenda og varð þeim að athlægi eins og til er ætlast. Bergsveinn Theodórsson var eins hlægilegur sr. Benedikt og hægt er að ætlast til, persóna sem verður saklaust fórnarlamb farsans, sú sem við vildum helst vera en þökkum guði að við erum ekki. Einnig verður að nefna Önnu Ólafsdóttur sem var yndislega tilætlunarsöm og kærulaus sem hin vesturheimska systir Addý.
Fullur salur á Hvolsvelli skemmti sér konunglega yfir þeirri skopmynd sem dregin er þar upp af okkur öllum. Við hlægjum innilegast þegar við þekkjum það sem dregið er dár að. Við þekkjum okkur sjálf og okkar heimafólk í Blessuðu barnaláni. Þess vegna lifir það og skemmtir okkur enn.