fimmtudagur, mars 08, 2001

Karton af Camel

Thalía, leikfélag Menntaskólans við Sund
Spotlight fimmtudaginn 8. mars 2001

Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson
Útlitshönnun: Skjöldur Mio Eyfjörð

Leikendur;
Birgir Haraldsson, Brynja Björnsdóttir, Einar Baldvin Arason, Friðgeir Einarsson, Hannes Óli Ágústson, Harpa Hrund Pálsdóttir, Haukur Örn Hauksson, Helga Guðrún Friðriksdóttir, Helgi Skúli Friðriksson, Hildur Vala Einarsdóttir, Jón Gestur Björgvinsson, Jóna Ottesen, Lára Jósdóttir, Leifur Þór Þorvaldsson, María Elísabet Árnadóttir, Ólöf Anna Jóhannesdóttir, Sara Friðgeirsdóttir, Snævar Freyr Þórðarson, Sólmundur Hólm , Þorbjörg Helga Þorgeirsdóttir og Þórunn Karólína Pétursdóttir

Dansarar:
Bryndís Steina Friðgeirsdóttir, Flosi Jón Ófeigsson, Halla Guðný Erlendsdóttir ogSigrún Ámundadóttir

Hljómsveit:
Davíð Jensson, Helgi Skúli Friðriksson, Kjartan Hrafn Loftsson, Sölvi Kristjánsson og Viðar Friðriksson

Hvar er partíið?

GAMLÁRSKVÖLD i New York 1984. Allir á leið í partý, enginn ætlar að sofa einn á nýársnótt. En leiðin í gleðskapinn er krókótt, hvað þá brautin í bólið með heppilegan félaga. Þetta á persónurnar í Karton af Camel svo sannarlega að reyna og áhorfendur að fylgjast með. Ágæt skemmtun hjá Thalíu í viðeigandi umhverfi á skemmtistaðnum Spotlight.
því sem næst verður komist er Karton af Camel byggt á bandarísku kvikmyndinni 200 Cigarettes. Hversu nákvæmlega hún er stæld er erfitt að vita án þess að hafa séð myndina, en þýðingarbragðið sem er víða af textanum og skoðun á “trailer” myndarinnar bendir til að leikverkið fylgi henni nokkuð vel. Engra höfunda er getið í leikskrá, hvorki íslenskra höfunda “leikgerðar” né minnst á hinn ameríska uppruna. Þetta eru náttúrulega engin fyrirmyndarvinnubrögð. Hitt er verra að á stundum hefur hópnum ekki alveg tekist að “gera verkið að sínu” eins og sagt er. Áhorfandinn finnur fyrir því að það er ekki handrit sem liggur til grunvallar heldur önnur sýning, sköpun annarra leikara. Þetta eru lýti á annars skemmtilegri sýningu. Betra hefði ef til vill verið að slíta sig lengra frá fyrirmyndinni, stela söguþræði og persónugalleríi, en færa atburði til í tíma og rúmi, til Reykjavíkur í dag.
Augljóst er að Agnar Jón hefur verið sínu fólki góður leiðtogi og margar hugmyndir sem eiga heima í leikhúsinu frekar en á hvíta tjaldinu eru góðar og nýtast vel. Notkun tónlistar var skemmtileg, sérstaklega þau lög sem mest voru sviðsett og tengdust atburðarásinni skýrast, Kiss-slagarinn I was Made for Loving You og Total Eclipse of the Heart. Útlit allt er vel heppnað enda tíska tímabilsins alger gullnáma fyrir hugmyndaríka hönnuði.
Leikhópurinn stendur sig almennt nokkuð vel þrátt fyrir þá annmarka sem að ofan eru tíundaðir. Nokkrir fara á allnokkrum kostum. Brynja Björnsdóttir er makalaust skemmtileg sem kostuleg nýafmeyjuð ljóska. Haukur Örn Hauksson aldeilis bráðskemmtilegur sem Eric, bólfimiheft kvennagull með ótrúlegan hreim, líklega írskan og mjög skemmtilegan. Þá eru ungpíurnar Val og Stephanie bráðgóðar hjá Jónu Ottesen og Þorbjörgu Helgu Þorgeirsdóttur. Hannes Óli Ágústson er svo fínn leigubílstjóri.
Ágæt sýning hjá liðsmönnum Thalíu, en verkið fullhrá uppsuða. Hefði þurft að komast skrefinu lengra frá fyrirmyndinni og þá væri allt fínt.