þriðjudagur, desember 19, 2000

Sólarhringur

Leikfélag Hornafjarðar
19. desember 2000

Höfundur: Þorsteinn Grétar Sigurbergsson
Tónlist eftir Beethoven, Emerson, Lake & Palmer, Jóhann Morávek, Orff, Prokofiev og Tangerine Dream.

Ljósaballett

TILRAUNASTARFSEMI hefur ekki verið áberandi á viðfangsefnaskrá áhugaleikfélaganna, frekar að þeim hafi verið legið á hálsi fyrir einhæfni og ófrumleika í vali á verkefnum. Fjölbreytnin hefur þó aukist nokkuð undanfarinn ár og nú býður Leikfélag Hornafjarðar upp á sérdeilis óvenjulega sýningu, svo ekki sé meira sagt.

Þorsteinn Grétar Sigurbergsson er tvímælalaust einn listfengasti ljósameistari áhugaleikfélaganna og hér hefur hann sett saman sjónarspil úr ljósum og hljóðum eingöngu, engir leikarar koma við sögu, ekkert leikrit lagt til grundvallar.
Hægt væri að setja á langar tölur um hvort svona sýning er eiginleg leiklist. Flokkunarfræði listgreina er mikið völundarhús sem mikið hefur verið byggt við undanfarna áratugi. Skilgreiningum á hvað tilheyri einni listgrein og hvað ekki er ætlað að vísa veginn, en oftar en ekki loka þær einfaldlega leiðum sem gaman væri að kanna. Það er ljóst að sýning á borð við Sólarhring Þorsteins er jaðartilfelli, nokkurskonar myndlistarverk sprottið úr stuðningsgrein leiklistarinnar, ljósahönnuninni. Kannski ætti að kalla það “leikhúslistaverk” til aðgreiningar frá verkum þar sem eiginlegur leikur kemur við sögu, en best að láta hér staðar numið í flokkunarfræðum.

Eins og nafnið bendir til túlkar sýningin einn sólahring og beitir fjölbreyttum tæknibrögðum til að skila þeirri ætlun sinni. Að morgni fylgjumst við með hægfara breytingum á birtu yfir fjöllum, horfum á náttúruna vakna. Dagurinn einkennist af geómetrískum formum í hreinum litum sem berjast um yfirráð yfir fletinum, kannski er dagurinn ríki mannsins með öllum sínum árekstrum og þverúð, ólíkt harmónískri þróun og flæði náttúrunnar í upphafinu. Nóttin flytur okkur síðan út í geim, stjörnur og norðurljós setja bæði bægslagang dagsins og náttúru morgunsins í stærðarsamhengi og leiðir okkur aftur til dögunar, nýr hringur hefst.

Alla sýninguna hljómar tónlist og kemur nún úr ýmsum áttum, allt frá tunglskinssónötu Beetovens til Prokoffievs og tölvupopps Tangerine Dream. Þessi sundurgerð þótti mér nokkuð til lýta, og meiri alúð við val á tónlist og að stilla betur saman áhrif tóna og ljósa hefði gert sýninguna sterkari. Betur færi að mínu viti að velja í upphafi eitt tónverk og “lýsa” það, ellegar vinna sýningu í samvinnu við tónsmið. Heimamaðurinn Jóhann Morávek á sjálfur stuttan kafla í lok sýningarinnar og kannski ættu þeir félagar hann og Þorsteinn að efla samvinnuna og vinna saman næstu sýningu.

Sólarhringur er falleg sýning, skemmtileg áminning um möguleika ljóssins til að skapa sjálfstæðar myndir. Þorsteinn hefur vald á sínum tækjum og hugmyndaflug til að ausa af. Leikfélag Hornafjarðar er lánsamt félag að hafa slíkan mann í sínum röðum.