sunnudagur, desember 10, 2000

Rommí

Skagaleikflokkurinn
Rein á Akranesi sunnudagur 10. desember 2000

Höfundur: D. L. Coburn
Þýðandi: Tómas Zoëga
Leikstjóri: Hermann Guðmundsson
Leikendur: Anton Ottesen og Guðbjörg Árnadóttir

Tveir gallagripir

ROMMÍ er leikrit af gamla skólanum, haganlega smíðuð flétta og raunsæisleg persónusköpun. Við fylgjumst með tveimur einstæðingum á elliheimili kynnast, stytta sér stundir í félagsskap hvors annars og fletta smátt og smátt ofan af skapgerðarbrestum og óþægilegum staðreyndum úr fortíðinni. Allt meðfram eða kannski vegna þess að þau geta ekki hætt að spila Rommí, allavega ekki meðan nýgræðingurinn Fonsía heldur áfram að vinna hinn sjálfumglaða og þaulreynda Weller í hverju einasta spili, að því er virðist án þess að reyna það. Ef til vill er eitthvað til í þeirri hellisbúaspeki að konur hafi það fram yfir karla að geta gert tvennt í einu, og ef Weller hefði vit á að þegja myndi hann vinna. En það getur hann ekki, og því fer sem fer. Rommí er kannski ekki dýpsta eða frumlegasta leikrit sem skrifað hefur verið, en haganlega saman sett og allnokkuð skemmtilegt.

Skagaleikflokkurinn hefur enga fasta sýningaraðstöðu en er greinilega laginn að finna sýningarstaði sem hæfa hverju verkefni. Í fyrra sýndu þau eftirminnilega sýningu í sundlaug og nú hafa þau komið sér fyrir í litlu félagsheimili sem gæti hæglega verið matsalur elliheimilisins sem verkið á að gerast í. Umgjörð er smekkleg og greinilega íslensk, engin tilraun gerð til að staðsetja okkur í Bandaríkjunum, þó textinn vísi iðulega þangað. Þetta kemur ekki að sök, enda eru persónur þær sem þau Anton og Guðbjörg skapa hreinræktuð íslensk gamalmenni.Báðir ná leikararnir á stundum að vera ísmeygilega fyndnir, sérstaklega framan af meðan samskiptin eru á léttu nótunum. Texti Wellers er ríkulegar búinn af möguleikum til skemmtilegheita og nýtti Anton sér það ágætlega.

Á hinn bóginn virtist mér sem hvorugt þeirra hefði enn náð fullkomnu valdi á textanum. Óþarflega oft var hikað, eða svo virtist sem verið væri að umorða setningar. Væntanlega eykst þeim þó öryggi eftir því sem sýningum fjölgar. Nokkuð skortir einnig á að sýningin haldi til skila blæbrigðum þeim og stigmögnun sem leikritið býr yfir. Hraða- og styrkleikabreytingar eru ekki nægilega vel útfærðar, jafnvel ekki þar sem augljóst er af textanum að eitthvað hafi gengið á, bræðisköst og öskur. Hér hefði leikstjóri þurft að leggja skýrari línur. Fyrir vikið er sýningin óþarflega eintóna, þróunin í samspili gallagripanna tveggja verður ekki nægilega skýr og dramatískari þræðir verksins komast lítt til skila.

Allt um það þá er léttari þáttum verksins prýðilega skilað og með auknu öryggi leikaranna getur ýmislegt gerst.