föstudagur, júní 23, 2000

Sviðsskrekkur

Leikfélagið Baldur, Bíldudal
Samkomuhúsið á Akureyri, Leiklistarhátíð Bandalags íslenskra leikfélaga 23. júní 2000

Höfundur: Alan Shearman
Þýðing: Sigurbjörn Aðalsteinsson
Leikstjóri: Þröstur Leó Gunnarsson


Innan sviðs og utan

LEIKHÚSLÍF er vinsælt viðfangsefni leikskálda nú á okkar sjálfmiðuðu tímum. Sérstaklega snúast margir gamanleikir um lífið baksviðs og jafnvel á sviðinu líka. Þá er einatt horft á það sem miður fer og gjarnan snúast slík leikrit um vinnubrögð og vandræði viðvaninga. Áhugaleikfélög hafa mörg hver dálæti á þessum leikritum, sem vonlegt er, áhugamálið er jú leiklist og allt sem að henni snýr. Hins vegar má deila um hversu heppileg viðfangsefni þessi verk eru fyrir óreynda leikara. Mörg þeirra standa og falla með skýrum greinarmun á þeim persónum sem leikararnir leika og hinum sem persónurnar reyna af veikum mætti að túlka. Þetta útheimtir töluverða færni, því leikhópurinn verður að sýna fullkomlega eðlilegan leik og þar að auki ýktan og vísvitandi slæman leik samtímis og til skiptis.
Sviðsskrekkur er farsi af þessari ætt. Hópur viðvaninga tekur sig saman og sviðsetur leikrit til fjáröflunar fyrir skóla sem á í fjárhagserfiðleikum. Stjórnandinn hefur skrifað leikrit sem við sjáum búta úr milli þess sem fólkið reynir að greiða úr þeim flækjum sem vanhæfni þess og tilfinningaflækjur koma þeim í meðan sýningin höktir áfram.
Sviðsskrekkur er ákaflega groddalegur farsi. Klaufagangur leikhópsins í leikritinu er með þvílíkum ólíkindum að á köflum víkur verkið út fyrir mörk hins skoplega. Leikstjóri Baldurs hefur fylgt þessum einkennum eftir, ýkt og eflt þennan þátt verksins. Lengi framan af vekur það mikla kátínu en þegar sígur á seinni hlutann er ekki laust við að áhorfendur fái sig metta af vandræðaganginum. Það er líka þá sem veikleikar verksins verða hvað augljósastir.
Leikritið er eftir því sem mér skilst af enskum uppruna en virðist gerast í Bandaríkjunnum, einn þráðurinn snýst um drauminn um að slá í gegn á Broadway, svo ólíkindalega sem það nú hljómar. Þetta og önnur séramerísk einkenni hljóma nokkuð ankannalega í munni Vestfirðinganna og spurning hvort það hefði ekki verið ómaksins vert að leggja vinnu í að staðfæra verkið inn í raunveruleika íslenskra áhugaleikfélaga, eða jafnvel heimfæra það algerlega upp á heimabyggðina. Ekki það að verkið skiljist ekki, svo mjög er hinn ameríski reynsluheimur kvikmynda og leiklistar orðinn inngróinn í okkur og aðra íbúa heimsþorpsins.
Eins og áður er sagt er óvíst hversu heppileg verk af þessum toga eru fyrir lítt skólaða leikara og það verður að segjast að leikhópur Baldurs var þeim vanda ekki fyllilega vaxinn að greina skýrt milli hinna tveggja heima verksins, farsans og harmleiksins sem persónur farsans voru að reyna að túlka. Sýningin er keyrð áfram af miklum krafti og hraða eins og nauðsynlegt er og gekk ágætlega að halda dampi. Margar drephlægilegar hugmyndir birtast okkur og meðan við greinum enn manneskjurnar sem glíma við lesti sína: græðgi, losta, heimsku, ofdramb og hatur, virkar farsinn fínt. Það er ekki fyrr en skopstælingin er búin að fela fyrir okkur fólkið að hláturinn dofnar.
Leikfélagið Baldur býr að efnilegum leikhóp, satt að segja óvenjulega öflugum sé horft á íbúatölur staðarins. Kemur þar vafalaust margt til, það er til að mynda ekki ónýtt að hafa aðgang að kröftum manns á borð við Þröst Leó. Þá er hundrað ára leikhefð ekki slæmt veganesti. Það er því tilhlökkunarefni að sjá fólkið glíma við verðugri verkefni, liprari farsa eða hvað annað sem hugurinn stendur til.