föstudagur, apríl 14, 2000

Ég bera menn sá

Leikdeild Umf. Skallagríms
Félagsmiðstöðin Óðal, Borgarnesi. Föstudagurinn 14. apríl 2000

Höfundar: Anna Kristín Kristjánsdóttir og Unnur Guttormsdóttir
Tónlist: Árni Hjartarson
Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson

Í hlekkjum hugarfarsans

KLIKKAÐ er kannski fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar lýsa á Ég bera menn sá eftir Hugleikskonurnar Unni og Önnu Stínu. Þær stöllur sækja gjarnan efnivið sinn í þjóðsögurnar, og svo er einnig hér. Saga um álfamey í álögum og sauðamenn sem finnast dauðir á jólanótt eftir gandreið mikla myndar rauða þráðinn í verkinu en einnig koma tvær skessur við sögu, ættaðar úr tröllasögum öllum og engri. Svo er vitaskuld draugur. En þó rauður þráður sé þarna einhversstaðar hafa höfundar sleppt öllum beislum af hugarflugi sínu og “stefna í allar áttir og enga þó” eins og meistarinn sagði. Engu tækifæri er sleppt til að skapa skringilegar uppákomur eða skjóta að orðaleik. Stundum heppnast þetta, stundum ekki eins og gengur, og ekki eru það alltaf hnittnustu orðaleikirnir sem uppskera hláturinn, það getur allt eins verið aulalegasta fyndnin sem virkar. Svo er verkið fullt af skírskotunum til samtímamálefna sem voru efst á baugi á ritunartíma þess, má þar nefna aðför Baldurs Hermannssonar að íslenskri bændastétt og íslenskri sauðkindastétt, innflutningur á kalkúnalærum og fleira fyrnt. Sönglög Árna Hjartarsonar og hnittnir textar bæta síðan einum lit enn við þetta skrautlega sjónarspil.
Ekki get ég neitað því að verkið er full-bláþráðótt fyrir minn smekk. Lítil tilraun hefur verið gerð til að láta hinar ólíku persónur eiga þátt í örlögum hverrar annarrar, þjóðsagan siglir sinn lygna sjó til endalokanna gleðilegu meðan hugarfarshlekkjaðir bændasynir, bældur bóndi og meðvirk eiginkona hans, orðheppnar skessur, ruglaður munkur og rappandi sauðir fara sínu fram allt í kring. Ég bera menn sá er köflótt verk, sumir kaflarnir eru skemmtilegri en aðrir en samhengisleysið dregur nokkuð úr heildaráhrifamætti þess.
Umgjörð og útlit er ágætlega unnið, baktjald er til að mynda fallegt og svipmikið, og það verður að teljast vel af sér vikið að koma þessu flókna verki fyrir á þröngu sviðinu.
Þröstur Guðbjartsson sækir í uppfærslu sinni allnokkuð í frumuppfærslu Hugleiks, bæði hvað varðar útlit og “lögn” einstakra persóna. Þetta sætir nokkurri furðu, þar sem verk af þessu tagi eru galopin fyrir nýjum skemmtilegheitum og hugmyndum. Kannski á þetta líka sína sök á því að sýningin er óþarflega dauf og kraftlaus á köflum. Stundum virðist sem leikararnir hafi ekki “gert þetta að sínu” svo gripið sé til gamallar klisju. Á þessu eru vissulega undantekningar. Þannig voru þeir bræður Bölvar og Ragnar bráðgóðir og fyndnir í meðförum Axels Vatnsdal og Jónasar Þorkelssonar. Guðrún Kristjánsdóttir og Ragnheiður M. Jóhannesdóttir voru einnig fordæðulegar og kostulegar sem hinar trúðslegu tröllskessur Auðlegð og Ástríður. Ólafur Gunnarsson náði að gera munkinn furðulega, Meyvant, allskemmtilegan og vel fór hann með sönginn um síðustu kvöldmáltíðina, sem að mínu viti er besta lag sýningarinnar.
Ekki er annað hægt en að geta gestaleikarans, en brottfluttur Borgnesingur, Ingvar E. Sigurðsson, átti óvænta og fyndna innkomu í upphafi sýningar. Ekki er vert að ljóstra upp um eðli hennar, en þess verður þó að geta að ekki hafði hann erindi sem erfiði, enda trúir enginn leikurum, sérstaklega ekki í leikhúsi.
Að lokum vil ég benda Skallagrímsmönnum á að taka fyrir þann leiða ósið að áhorfendur taki ljósmyndir meðan á sýningu stendur. Af þessu er truflun og óvirðing jafnt við leikara sem áhorfendur. Vonandi verða myndatökur aflagðar þegar næsti hópur sest í sæti sín í Óðali til að henda reiður á þessum brjálaða hugar-farsa.