föstudagur, mars 17, 2000

Rocky Horror Show

Leiklistarklúbbur NFFA
Fjölbrautaskólinn á Akranesi mars 2000

Höfundur: Richard O'Brien
Þýðandi: Veturliði Guðnason
Leikstjóri: Ari Matthíasson
Tónlistarstjóri Flosi Einarsson
Danshöfundur: Indíana Unnarsdóttir

Tíminn flýtur

ÞAÐ þarf svo sem ekki mikla rannskóknarblaðamennsku eða heilu sjónvarpsþáttaseríurnar til að sjá að viðhorf til þess hvað er ásættanleg bersögli um kynlífsbrölt mannskepnunnar hafa breyst á síðustu árum. Það nægir að bera saman í huganum frumuppfærslu Leikfélags MH á Rocky Horror á Íslandi fyrir tæpum áratug og sýningu Skagamanna sem frumsýnd var síðastliðið föstudagskvöld. Sýning Hamrahlíðamanna verður nánast tepruleg í samanburðinum, og þótti nógu krassandi þá. Það er hinsvegar fánýtt að deila um hvort breytingin sé til batnaðar eða dæmi um að heimur versnandi fari. Allavega nenni ég því ekki.

Verk á borð við Rocky Horror, sem eru óður til annara verka og stílbragða, í þessu tilfelli B-hryllingsmynda og gamaldags rokktónlistar, bjóða tæpast upp á nýstárlegar túlkunarleiðir eða frjálsræði í útliti. Stór hluti áhorfenda hefur mótaða skoðun á því hvernig persónurnar eiga að vera og sýningin stendur og fellur með því að brjóta ekki gróflega gegn þessum væntingum. Þetta próf stenst sýning Leiklistarklúbbi NFFA með glans. Allt útlit er vel útfært og söngur og tónlistarflutningur er með miklum ágætum. Greinilega nóg af söngvurum á Skaganum um þessar mundir. Þá kemst hópurinn sem heild vel frá leiknum. Sakleysingjarnir lánlausu, Brad og Janet, voru skemmtilegir í meðförum Vals Birgissonar og Aldísar Birnu Róbertsdóttur. Sindri Birgisson er Frank N'Further, geimveran og gleðipinninn á korselettinu, og kemst vel frá því. Sindri var ákaflega mikil "drottning", en á hinn bóginn stafaði kannski ekki alltaf nægilegri ógn af honum. Það er reyndar ekki síður á ábyrgð mótleikaranna að skapa þá stemningu, það eru þeir sem "leika kónginn" með afstöðu sinni til hans. Þarna hefði Ari Matthíasson mátt leggja skýrari línu. Hjálparkokkurinn Riff-Raff var kraftmikill og skuggalegur hjá Sveinbirni Hafsteinssyni og systir hans var hæfilega dræsuleg hjá Sylvíu Rún Ómarsdóttur. Þá var Columbia Andreu Katrínar Guðmundsdóttur prýðileg. Vöðvabúntið sérhannaða, Rocky var skorinn og smurður eins og vera ber hjá Símoni Óttari Vésteinssyni. Þá var Tryggvi Dór Gíslason þeir frændur báðir, Dr. Scott og Eddie, mótorhjólavillingurinn sem notaður er sem hráefni í vöðvatröllið. Atriðið þegar Frank gengur endanlega frá Eddie var fengið að láni úr uppfærslu Loftkastalans og því gefst undirrituðum nú síðbúið tækifæri til að lýsa opinberlega yfir ánægju með þá snjöllu og hrollvekjandi lausn.

Það er síðan enn til marks um breytta tíma að sögumaðurinn sem fyrrum var virðulegur eldri vísindamaður, fullur vandlætingar á framferði persónanna, var hér eins og ein af áhangendum Franks, minnti einna helst á Úlfhildi Dagsdóttur hryllingsfræðing og fór vel á því. Elsa J. Kiesel var sannfærandi sem þessi nýstárlegi sögumaður, en lenti stundum í framsagnarvanda sem leikstjórinn hefði ekki átt að leyfa henni að komast upp með.

Rocky Horror er skemmtilegt og síungt verk og höfðar að því er virðist enn til ungs fólks, þó það sé farið að grána í vöngum. Sýning Skagamanna gerir því góð skil, nútímaleg og hefðbundin í senn.