þriðjudagur, febrúar 22, 2000

Skuggasveinn

Sauðkindin, Leikfélag nemendafélags MK
Félagsheimili Kópavogs þriðjudaginn 22. febrúar, 2000

Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson

Ekkert er ókeypis

ÞAÐ er greinilegt að Sauðkindin hefur ekki setið auðum höndum síðustu vikurnar. Fyrir utan alla fyrirhöfnina við að setja saman leiksýningu hafa þau lagt í það að umbreyta stóra salnum í Félagsheimili Kópavogs og skapa þar mikla furðuveröld úr svampi og svörtu plasti. Enda erum við stödd í mikilli furðuveröld, einhvers konar blöndu af heimi Grimms-ævintýranna og nútímalegu eiturlyfjahelvíti.

Efniviður sýningarinnar er ekki samnefnt leikrit Matthíasar Jochumssonar heldur þjóðsagan um unga manninn sem þiggur silfurkúlur Skrattans til að vera verðugur eiginmaður unnustu sinnar. Vitaskuld kemur að skuldadögunum og kúlurnar dýrari en ráð var fyrir gert. "Ekkert er ókeypis" er boðskapur sögunnar, þótt Kindurnar og leikstjóri þeirra kjósi að þrengja sjónarhornið á eiturlyf og afleiðingar þeirra.

Í leikskrá kemur fram að sýningin hafi verið unnin í spuna, og losaraleg framvindan hefur vissulega á sér spunaeinkenni. Textinn er hins vegar áreiðanlega ekki runninn áreynslulaust upp úr menntskælingum, upphafinn, sumstaðar í bundnu máli og ekki laus við að renna á köflum út í fremur innantóma mælgi. Leikhópurinn átti í nokkrum brösum við að gera sér mat úr torfinu, best gekk Skrattanum, sem Sverrir Árnason málaði í sterkum "Rocky-Horror" litum. Elskendurnir voru líka skemmtilegir í meðförum Vignis Rafns Valþórssonar og Írisar Stefánsdóttur. Í heild var sýningin óþarflega óöguð sem stakk í stúf við formfestuna í textanum og dró dálítið slagkraftinn úr mögnuðu efninu.

Saga þessi hefur áður höfðað til skálda. Frægasta dæmið er óperan Der Freischütz eftir Carl Maria von Weber, en löngu síðar gerði þríeykið William S. Burroughs, Robert Wilson og Tom Waits sína útgáfu, The Black Rider. Lauslegur samanburður á lögum og textum í Skuggasveini við tónlist Waits úr verki þeirra leiðir í ljós að tónlist Skuggasveins er að mestu leyti úr smiðju hans og textarnir þýddir, nokkuð haganlega meira að segja en þýðanda að engu getið. Ekki kemur neitt fram um þetta í leikskrá, né heldur hvort sýningin í heild er byggð að einhverju eða öllu leyti á verki þremenninganna. Ef sú er raunin er slíkt auðvitað algerlega ótækt, og allavega er stórlega ámælisvert að grípa á þennan hátt til tónlistar, sem ég geri ráð fyrir að hafi verið gert í leyfisleysi.

Því miður eru nokkur dæmi þess að leikfélög framhaldsskólanna sinni ekki skyldum sínum við höfunda. Vitaskuld er reynsluleysi um að kenna, en þá er ábyrgð leikstjóranna og forráðamanna skólanna því meiri. Eitt af því sem læra má af Skuggasveini er nefnilega að á endanum borgar sig ekki að stytta sér leið í lífinu.