miðvikudagur, febrúar 09, 2000

Rauða klemman

Snúður og Snælda
Ásgarði, félagsheimili eldri borgara í Reykjavík febrúar 2000

Höfundur: Hafsteinn Hansson
Leikstjóri: Bjarni Ingvarsson


Í klemmu

Skortur á heppilegum verkefnum hefur löngum verið höfuðverkur hjá Snúði og Snældu, hinu öfluga leikfélagi eldri borgara í Reykjavík. Bæði eru það "aldurstakmörkin" sem þvælst hafa fyrir, og svo þessi einkennilega árátta leikskálda að skrifa aðallega fyrir karla þegar það eru helst konurnar sem vilja leika. Einföld lausn á þessum vanda er vitaskuld ef hópurinn kemur sér upp höfundi sem klæðskerasaumar verk fyrir hópinn, eins og Hafsteinn Hansson hefur nú gert með Rauðu klemmunni.
Leikritið gerist í sjoppu og fjallar um hjón sem reka hana, vini þeirra og viðskiptamenn. Þetta eru allt sjálfbjarga einstaklingar, sumir seilast raunar lengra en löglegt má teljast, sjoppueigandinn bruggar og leigir út "náttúrulífsmyndir", félagi hans safnar fé í eigin þágu á vegum heimatilbúinna góðgerðafélaga, vinkona þeirra selur af heimaslátruðu og svikamiðill einn féflettir viðskiptavini sjoppunnar. Það er ekki fyrr en sú síðastnefnda fer að ganga nærri hagsmunum hinna að þeim þykir tímabært að stöðva prettina. Það reynist hins vegar þrautin þyngri, enda alþekkt í bransanum að ómögulegt er að pretta svikahrapp.
Hafsteini lætur greinilega vel að skrifa samtöl, þau eru eðlileg og víða fyndinn. Persónurnar eru lifandi og skýrar. Höfundur leikur sjálfur í sýningunni og tókst manna best að laða fram húmorinn í texta sínum. Þegar líða fer á leikritið er ekki laust við að slakni á fléttunni, síðari hlutinn hefði haft gott af meiri yfirlegu. Ekki er samt annað að sjá en Snúður og Snælda geti horft fram á bjartari tíma í leit sinni að viðfangsefnum.

Leikhópurinn er vel skipaður og allir standa vel fyrir sínu. Félagar í Snúði og Snældu hafa löngum getað bætt sér það upp með lífsreynslu það sem á hefur skort í leikreynslu og skilað sannfærandi mannlýsingum í krafti hennar. Það er því gaman að sjá hvað aukin leikreynsla er farin að skila sér í tilþrifum og öryggi hjá þeim reyndari í hópnum. Síðan má ekki gleyma að reglulega virðist Snúði og Snældu bætast skemmtilegur liðsauki. Nefna má Aðalheiði Sigurjónsdóttur sem lék kjötkaupmanninn Maríu með krafti og öryggi, Þorstein Ólafsson sem var skemmtilega ráðvilltur sem sjoppueigandinn þegar allt stefndi í óefni með klámið og spírann, og Sigurborgu Hjaltadóttur sem var óborganleg sem gamalt skar sem er þó alls ekki nógu dauð úr öllum æðum fyrir sínar penu dætur. Þá var Helga Guðbrandsdóttir litríkur miðill.

Bjarni Ingvarsson hefur unnið nokkru sinnum áður með félaginu og virðist samstarfið vera með ágætum. Snjöll var hugmynd hans að byrja verkið á nokkurs konar forleik, þar sem ljósamaður og hvíslari koma inn sem almennir áhorfendur og eiga orðaskipti sem leiða okkur inn í verkið.

Snúður og Snælda fagna tíu ára afmæli sínu á þessu ári. Félagið hefur starfað af miklum krafti, sett upp leiksýningu á hverju ári, að ég held, staðið fyrir bókmenntakynningum og leiklistarnámskeiðum og lagst í víking bæði til Þýskalands og Kanada. Leikhópurinn eflist við hverja raun og nú hefur þeim áskotnast höfundur í afmælisgjöf. Til hamingju.