sunnudagur, febrúar 27, 2000

Tartuffe

Stúdentaleikhúsið og Torfhildur, félag bókmenntafræðinema
Kaffileikhúsinu febrúar 2000

Höfundur: Moliére
Þýðandi: Pétur Gunnarsson
Leikstjóri og gerð sýningarhandrits: Ólafur Egill Egilsson

Í frumlitum

Mig brestur minni til að átta mig á hvað Ólafur Egill hefur gert miklar breytingar á verki Moliéres, fyrir utan vænar flísar sem hann hefur sneytt framan og aftan af verkinu. Líklega eru þó fleiri bitar foknir, fyrir nú utan nauðsynlega fitubrennslu til að taka tillit til minnkandi einbeitingarhæfileika tónlistarmyndbandakynslóðarinnar, sem við reyndar bætum upp með þjálfun í að skilja fyrr en skellur í tönnum. Hvað svo sem gert hefur verið þá gengur það upp.
Einhver fordómadurgurinn hefði sjálfsagt ekki átt von á miklum tilþrifum af bókmenntafræðinemum að fást við klassískan texta, í mesta lagi "lærðum" skírskotunum í kenningar og túlkanir. En sá hinn sami hefði verið fljótur að éta þann hatt. Sýningin byrjar af fítonskrafti og heldur honum allt til enda. Fókus, einbeiting og fjör einkenna hana alla ásamt ríflega meðalskammti af góðum hugmyndum. Góðum, vegna þess að þær beinast í sömu átt og verkið, sem er því miður alls ekki alltaf rauninn í glímunni við klassíkina. Þeim mun skemmtilegra er þá þegar allt leggst á eitt eins og hér. Leikendurnir sækja orkuna í textann og aðstæðurnar, miðla áhorfendum af örlæti og uppskera ríkulega.
Leikhópurinn er myndaður í kringum þessa sýningu og sjálfsagt hefur hann einhverntíman verið sundurleitur en þess sáust ekki merki á frumsýningu. Satt að segja var sýningin ótrúlega jöfn, og þó sumir næðu að "fara á kostum" svona umfram það sem við var að búast, þá var það bara svona eins og bónus fyrir áhorfendur. Tvíeykið Orgon og Tartuffe, þeir Hlynur P. Pálsson og Bjartmar Þórðarson voru algerlega óborganlegir og ég get ekki stillt mig um að nefna sérstaklega Svein Ólaf Gunnarsson sem bjó til ótrúlega fyndinn rúðustrikaðan karakter úr Cléante, En eins og ég segi, þessi skúta var vel mönnuð í hverju rúmi. Það er bara von mín að hópurinn haldi áfram á þessari braut og lífgi hið aðframkomna Stúdentaleikhús við, enn á ný.
Umgjörð er, líkt og leikgerð og leikstjórn, verk Ólafs Egils. Leikrýmið er vel nýtt, enda varla annað hægt í Kaffileikhúsinu þar sem er nánast ekkert rými. Hugmyndin að baki búningunum er skýr og skemmtileg og aðeins einu sinni fannst mér hún skjóta yfir markið, í tilfelli Valere. Ég gat ekki betur séð en Halldóri Vésteini Sveinssyni væri fyllilega treystandi til að vera skoplegur bjargvættur þótt búningurinn segði ekki brandarann fyrir hann. Hljóðmynd þeirra Karls Óttars Geissonar og Sigurðar Guðmundssonar var falleg, en stakk eilítið í stúf við það sem fram fór á sviðinu, sérstaklega framan af. Hugleiðslukennd gítartónlist setur áhorfendur tæpast í réttar stellingar fyrir þennan djöfladans.
Shakespeare er skáld ljóss og skugga, dýptar og tvíræðni. Moliére er meistari frumlitanna. Það sem augað sér er það sem er. Allt er skýrt og tært, jafnt persónur og aðstæður. Hvatirnar etja kappi við skyldur og venjur og vinna ævinlega sigur. Persónurnar glíma síðan við afleiðingarnar. Sýning Torfhildar og Stúdentaleikhússins dregur fram þetta einkenni á skýran, kraftmikinn og frumlegan hátt. Ólafur Egill er ekkert feiminn við litakassann sinn og hefur skapað með sínu fólki alveg makalaust skemmtilega kvöldstund sem okkur stendur nú til boða um skamma stund. Endilega drífið ykkur, það er greinilega nóg til.