sunnudagur, apríl 02, 2000

Dýrin í Hálsaskógi — Bannað börnum

Leikfélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði
Flensborgarskóla Sunnudagur 2. apríl (lokaæfing)

Eftir Thorbjörn Egner
Leikstjóri: Stefán Jónsson

Öll dýrin í skóginum eiga að vera eins

SUMIR segja að það sé partur af því að fullorðnast að gera uppreisn gegn gildum foreldra sinna, gegn því sem fólki hefur verið innrætt sem börnum og snúa hefðum og viðteknum skoðunum á haus. Sé þetta rétt, hvað er þá nærtækara og augljósara verkefni fyrir framhaldsskólaleikfélag en að grípa til eins af okkar "ástsælustu" barnaleikritum, hvolfa merkingu þess við og setja það í svo nýstárlegan búning að það verður nánast
óþekkjanlegt.

Dýrin í Hálsaskógi verða í meðförum Flensborgara að sögu um einelti. Mikki refur og Patti Broddgöltur hafa það eitt til saka unnið að vera ekki eins og dýr eru flest. Um hríð hafa dýrin gaman af að hrella þá, en þegar þeim fer að leiðast þófið setja þau reglur sem kveða á um "rétta hegðun" sem Mikki verður að hlýta, hversu mjög sem það stríðir gegn eðli hans. Það er satt að segja ótrúlegt hve vel þessi hugsun gengur upp og kemst til skila í sýningunni, án þess að því ég best fæ séð að miklu sé breytt af texta verksins. Í stað hins mjög svo vafasama boðskapar um að grasætur séu góðar og kjötætur vondar er komin saga um múgæsingu, skeytingarleysi um þarfir og eðli náungans. Endirinn á Dýrunum, þar sem allir bresta í söng til heiðurs Bangsapabba af því Marteinn Skógarmús man allt í einu að hann á afmæli um þessar mundir, hefur alltaf farið í taugarnar á mér (hverjum er ekki sama um Bangsapabba?!). Í þessari sýningu er hann hárréttur. Hér er Bangsapabbi æðsta dýrið í valdapíramídanum og eini vegurinn til virðingar að þóknast honum. Mikki er gleymdur, enda skipta örlög hans engu máli.
Stefán Jónsson hefur valið sýningunni leikstíl og umgjörð í anda töffaralegra amerískra glæpamynda síðari tíma. Kannski Tarantino ætti að kynna sér verk Egners næst þegar hann verður uppiskroppa með hugmyndir. Ískaldur leikstíllinn og ofbeldisþrungin stéttaskiptingin sem fylgir þessum heimi féll afbragðsvel að heildarhugsuninni. Þar að auki hafði leikhópurinn sem heild aðdáanlegt vald á aðferðinni.

Mikið mæðir á þeim Andra Ómarssyni og Finnboga Þorkatli Jónssyni sem eru þeir félagar Marteinn og Lilli og standa sig báðir með prýði. Andri er slepjuleg og eitursnjöll Skógarmús og Finnbogi hæfilega smákrimmalegur Lilli. Atriðið þar sem hann á tal við Mikka eftir að lögin eru sett var frábært og eitt besta dæmið um hvað grunnhugsun sýningarinnar gengur vel upp. Símon Örn Birgisson er hinn ógæfusami refur og er réttur maður á réttum stað, utanveltu frá upphafi, augljóst fórnarlamb. Daníel Ómar Viggósson er Bangsapabbi og hefur myndugleika til að skila þessu ofbeldisfulla “villidýri” svo sannfærandi er. Bangsamamma er hér kúguð brotin og barin eiginkona og Magnea Lára Gunnarsdóttir dró upp átakanlega og bráðfyndna mynd af henni.

Tónlistin er að sjálfsögðu sett í endurvinnslu eins og annað. Heiðurinn af því verki á Kristján Eldjárn og býr til hárréttann hljóðheim úr sakleysislegum melódíum Egners. Lokasöngurinn var hreint frábær, söngur Bangsamömmu óhugnanlegur og fyndinn í senn og grænmetissöngurinn á fundinum þar sem öll dýrin í skóginum afráða að verða eins var fullur af því hatri og fyrirlitningu á náunganum sem er ein undirrótin af því böli sem eineltið er.

Það er ljótt að skrökva að börnum. Dýrin í skóginum eru ekki og eiga ekki að vera vinir. Það er satt að segja það eina sem ég hef út á sýningu Flensborgara að setja – hvað á það að þýða að banna hana börnum?