laugardagur, apríl 01, 2000

Lifðu – yfir dauðans haf

Skagaleikflokkurinn
Bjarnalaug 1. apríl 2000

Höfundur og leikstjóri: Kristján Kristjánsson
Tónlist: Orri Harðarson

Leikendur: Garðar Geir Sigurgeirsson, Gunnar Sturla Hervarsson og Hermann Guðmundsson

Enginn bjargast

ÞAÐ er ævintýralegt að koma inn í Bjarnalaug og bíða eftir að sýning Skagaleikflokksins hefjist. Laugin er algerlega kyrr, klædd að innan með svörtum dúk og bátur á hvolfi marar í hálfu kafi. Mild ljós auka á dulúðina. Þessi stemning heldur áfram út sýninguna og verður örugglega eftirminnileg þeim sem njóta.
Þrír menn berjast fyrir lífi sínu á bátkili, ferjumaður og feðgar sem hann flutti. Fortíð mannanna afhjúpast samhliða því að þeir glíma við náttúruöflin, og ef til vill önnur af öðrum heimi. Hvernig sú glíma endar er á milli leikenda og áhorfenda og á ekki erindi í blöðin.

Leikstjórinn Kristján Kristjánsson er mikill raunsæismaður. Í fyrra verki sínu með Skagaleikflokknum, Alltaf má fá annað skip, munaði hann ekki um að sýna okkur inn í lúkar á bát, láta fara þar fram eldamennsku og tilheyrandi og náði þannig í skottið á stemmningu sem sést ekki oft á leiksviði. Þess má geta í framhjáhlaupi að sú fullyrðing sem sést hefur á prenti, að Landkrabbar Þjóðleikhússins séu fyrsta íslenska leikritið sem gerist alfarið til sjós, er ekki á rökum reist. Skipinu hans Kristjáns var hleypt af stokkunum fyrr.

Kristján hefur á valdi sínu að skrifa ansi hreint mögnuð samtöl og hefur hér tileinkað sér stíl sem fáir reyna við núorðið. Öðrum þræði jarðbundið og munntamt málfar frá fyrri tíð, ef til vill um aldamótin eða þar um bil, hins vegar upphafið táknþrungið skáldamál. Ósjaldan varð mér hugsað til Vesturíslenska leikskáldsins Guttorms Guttormssonar meðan ég fylgdist með lífsbaráttu kjalbúanna, en í verkum hans er að finna ómenguðustu dæminn um táknsæi í leikritun á íslensku svo mér sé kunnugt. Því miður er verk Kristjáns er sama marki brennt og verk Guttorms, orðin ná ekki fyllilega að öðlast leikræna merkingu. Þó svo örlög mannanna þriggja hafi tvinnast saman gegnum lífið hefur það engin áhrif á framvindu verksins, ákvarðanir þeirra eða afstöðu, svo greint verði. Þetta er galli sem er þeim mun leiðari sem hæfileikar höfundar til að skrifa safaríkan samtalstexta er augljósari. Sviðsetningin öll ber líka frumlegri leikhúshugsun vitni, en herslumuninn vantar.
Þrír stólpaleikarar bera hitann og þungann af sýningunni. Eða réttara sagt kuldann, því þess er gætt að vatnið sem þeir leika í verði ekki hlýrra en nauðsyn krefur. Eflaust hjálpa aðstæður allar upp á innlifun leikenda, og þeir bregðast heldur ekki, en eru allir afbragðsgóðir. Textinn leikur þeim á tungu og vel miðluðu þeir háskanum, hvort sem það var með hryssingslegum mannalátum ferjumanns, fautahætti hreppstjórans eða skelfingu sonarins. Og aðdáanlega virðist brölt þeirra og brambolt við bátinn vera þjálfað og þaulæft, því aldrei virtust stöður þeirra standa í vegi fyrir framvindunni. Það hefur ekki verið einfalt að koma þessari sýningu á flot, og áreiðanlega þurft að finna upp mörg hjól á þeirri leið. það er til marks um einarða listræna sýn höfundar og leikstjóra, og svo náttúrulega kraftinn sem Skagaleikflokkurinn getur greinilega virkjað þegar á þarf að halda.