sunnudagur, nóvember 12, 2000

Krummaskuð

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsið, sunnudagur 12. nóvember 2000

Höfundur og leikstjóri: Guðjón Sigvaldason

Sonur skólastjórans og dóttir bílapartasalans

EF hugmyndaríkur teiknimyndasmiður afréði að gera Íslenska Sjávarþorpinu svipuð skil og Matt Groening hefur gert Bandarísku Smáborginni í sjónvarpsþáttunum um Simpson-fjölskylduna yrði útkoman hugsanlega ekki svo sérstaklega ólík leikriti og sýningu Guðjóns Sigvaldasonar, Krummaskuði. Hæfilegar (stundum reyndar óhæfilegar) ýkjur, væntumþykja og háð til helminga og grallaralegur húmor einkenna þetta sjónarspil á öllum sviðum, búningar, leikstíll, tónlist, texti og efnisþráður. Meira að segja nöfn persónanna (Desibel Rósamunda og Dósóþeus Víglundur). Gamlar klisjur eru viðraðar og snúið upp á þær, fúlir brandarar ganga í endurnýjun lífdaganna. Og allt er þetta svo ljómandi skemmtilegt að alvörugefnum gagnrýnanda fallast hálfpartinn hendur.
Því vissulega mætti að ýmsu finna. Stundum virðist mér hefði mátt staldra meira við lykilaugnablik, oft hefði sýningin grætt á strangari umferðarstjórn, og óþarflega oft skildist ekki textinn. Leikhópurinn er greinilega ekki allur með langa reynslu og þjálfun að baki.
Ekkert af þessu skiptir hins vegar endanlega máli. Það er Guðjón Sigvaldason sem setur leikreglurnar í Krummaskuði, hann teiknar bæinn svona og það er áhorfandanum bæði skylt, og ljúft, að gangast inn á þær forsendur. Það er líka vel þess virði, eins og aðkomudrengirnir sem leikritið hverfist um komast að um síðir.
Persónugalleríið er eins fjölskrúðugt og hægt er að óska sér, litríkt eins og nöfnin og allt málað með breiða penslinum. Geðillur póstmeistari, heyrnardaufar og eftir því háværar bílapartasölumæðgur, vergjarnar unglingsstúlkur og kjaftakerlingar eins og hver vill. Leikstjórinn nær að láta hvern einasta leikara „virka“, standa fyrir sínu. Hvort sem hlutverkin eru stór eða smá og án tillits til reynslu og getu. Og þetta er enginn smá skari, þrjátíu og sex persónur. Sum hópatriðin voru hreinlega óborganleg, testósterónþrunginn mansöngur unglingspiltanna gleymist seint, og hvað þá þegar allur skarinn stígur dans íklæddur skíðaklossum.
Búningarnir væru kapítuli útaf fyrir sig ef þeir væru ekki svona ómissandi hluti af heildaráhrifum sýningarinnar. Búningasafn hvers einasta áhugaleikfélags er fullt af tískufötunum frá í fyrradag, eins ósmekklegum og hugsast getur og sem alla jafnan eru fullkomlega ónothæf sem leikbúningar. Íbúar Krummaskuðs hafa hins vegar ekki frétt af nýjustu tískustraumum og líður greinilega ákaflega vel í sínum búningageymsluklæðum. Og þegar þrjátíu manns mæta kát í tísku gærdagsins, er þá ekki komin ástæða til að taka hana í sátt?
Það er eiginlega út í bláinn að tala um frammistöðu einstakra leikara. Þó verð ég að þakka Ingibjörgu Ósk Erlendsdóttur og Marinó Gunnarssyni sérstaklega fyrir skemmtunina. Tilhugsunin um samdrátt ofvitans Erps Snæs og hinnar upprennandi ofurljósku Melkorku Raf er einmitt svona hrollblandin sæla sem einkennir endurminninguna um dvölina í Krummaskuði. Ég hvet Keflvíkinga til að kíkja í heimsókn þangað, en reyna að spilla ekki hinu harmóníska samfélagi um of. Það er nefnilega fágætt, líklega hvergi til, frekar en Springfield Groenings.