þriðjudagur, nóvember 21, 2000

Frk. Nitouche

Leikfélag Húsavíkur
Samkomuhúsinu, nóvember 2000

Höfundur: Florimond Hervé
Þýðandi: Jakob Jóhannesson Smári
Tónlistarstjóri: Aladár Rácz
Leikstjóri: Sigurður Hallmarsson

Aftur um öld eða svo

ÓPERETTUR eru ekki algeng sjón á íslenskum leiksviðum. Það er frekar að ameríska frændanum, söngleiknum, sé sómi sýndur hér. Og kannski ekki að undra, óperetturnar eru börn síns tíma og tíðaranda og eru orðnar ansi framandi okkur íslendingum á þúsaldarmótum.

Þó getur verið gaman að blása ryki af svoleiðis verkum, kanna hvort lífsmark reynist með þeim og hvort þau tala enn við okkur. Þetta gerir Sigurður Hallmarsson nú með Leikfélagi Húsavíkur og fröken Nitouche og tekst ágætlega.
Hálf er nú verkið samt þunnt í roði. Sérstaklega er tónlistin lítið spennandi, og nýtist sjaldan til að skapa andrúmsloft eða styðja við persónusköpun og framvindu. Hún var líka heldur varfærnislega flutt, sjaldnast náðu leikararnir að gera hana þannig að sinni að lögin lifnuðu við þó vel væri sungið og leikið. Fléttan er gamalkunnug, stúlka í klausturskóla á að giftast liðsforingja án þess þau hafi hist. Hún laumast með tónlistarkennaranum sínum á frumsýningu á óperettu sem hann hefur samið á laun. Þar hleypur hún í skarðið fyrir dyntótta prímadonnu og liðsforinginn, sem staddur er í leikhúsinu, heillast af henni. Það besta við verkið eru ágætir farsasprettir og hnyttin samtöl sem hvoru tveggja er skilað frábærlega í sýningunni og gerir hana á prýðilegri skemmtun.

Þar mæðir mest á Sigurði Illugasyni í hlutverki tónlistarkennarans og óperettusmiðsins Celestin. Sigurður hefur fyrir löngu sýnt að hann er í flokki betri leikara þjóðarinnar og hér bætir hann nýjum tóni við sitt stóra svið, leikur með hlýlegri og fíngerðri kímni sem skilar honum samúð áhorfenda og uppsker hlátur í hvert einasta sinn sem innistæða er fyrir honum. Reyndar er allur leikur í sýningunni á ótrúlega hófstilltum nótum og sýnir best innsæi og listrænt auga leikstjórans. Það þarf nefnilega ekki hamagang til að farsinn virki ef úrverkið er rétt stillt.

Það sakar auðvitað ekki að hafa nóg af snjöllum gamanleikurum í liðinu og á þeim er enginn skortur á Húsavík. Þeir verða ekki taldir allir upp hér, en þó verður að geta þess að Gunnar Jóhannsson sem leikhússtjórinn og Jóhann Kristinn sonur hans sem sviðsstjóri, Þór Gíslason sem harðneskjulegur major ásamt Berglindi Dagnýju Steinadóttur í hlutverki prímadonnunnar Corinnu voru óhemju skemmtileg og áttu sinn þátt í að gera annan þátt að kómískum hápunkti sýningarinnar.
Anna Karin Jónsdóttir þreytir frumraun sína með Leikfélagi Húsavíkur í titilhlutverkinu. Hún býr að ákaflega fallegri söngrödd og eftir því sem leið á sýninguna og frumsýningarskjálftinn gleymdist varð henni meira úr gríninu sem hlýst af því þegar sakleysinginn lendir í slagtogi við stressað leikhúsfólk og slarksama liðsforingja. Ari Páll Pálson leikur vonbiðilinn og fór létt með það, bestur þegar hann þarf að þykjast vera aldurhniginn fræðslustjóri til að fá að ræða við heitmeyna sem falin er bak við skerm af abbadísinni sem Guðrún Kristín Jóhannsdóttir gerði góð skil.

Sigurður er auðvitað þaulvanur umferðarstjórn á þröngu sviðinu í Samkomuhúsinu á Húsavík enda gengur allt snurðulaust og lipurlega fyrir sig, þrátt fyrir mannfjöldann. Leikmyndin er stílhrein og falleg og búningar sömuleiðis. Allt yfirbragð er vísvitandi í gömlum stíl og engin tilraun gerð til að skopast með verkið eða snúa út úr. Sýning Húsvíkinga á Nitouche er einlæg og heiðarleg skoðun á gömlu verki og skilar öllu sem í því býr. Og það reynist þegar upp er staðið vera nákvæmlega það sem höfundurinn stefndi að í upphafi; ánægjuleg kvöldstund og ágæt skemmtun.