sunnudagur, febrúar 25, 2001

Hótelbarinn

Leikfélagið Grímnir
Sunnudagurinn 25. febrúar 2001

Höfundur: Sigríður Gísladóttir
Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson
Leikendur: Árni Valgeirsson, Vilborg Jónsdóttir, Jens Ingólfsson, Þorgrímur Vilbergsson, Jóhann Ingi Hinriksson, Margrét Ásgeirsdóttir, Erna Björg Guðmundsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Herdís Teitsdóttir, Ólafur Ingi Bergsteinsson, Guðmundur Bragi Kjartansson og Kristín Björg Jónsdóttir.

Út á lífið

HÖFUNDUR Hótelbarsins segir svo frá í leikskrá að hugmyndin að verkinu hafi kviknað þegar hún rakst á mynd, innrammaða auglýsingu fyrir þýska bjórtegund, í tiltekt í geymslum leikfélagsins. Og þessi sama mynd skipar heiðurssess í leikrýminu sem Grímnir hefur skapað í gömlu bíóhúsi í miðjum Stykkishólmsbæ. Rými sem hentar sýningunni ágætlega, en gæti reynst þröngur kostur fyrir önnur verk.

Persónur Hótelbarsins eru starfsfólk og gestir lítils bars, væntanlega á hóteli staðarins. Við fylgjumst með gleðskapnum eina kvöldstund og svo eftirköstum morguninn eftir. Verkið byggir frekar á svipmynum af ástandi en framvindu. Það er varla fyrr en í seinni hlutanum sem örlar á fléttu, lítilli sögu um víxl á ferðatöskum í gamalkunnum farsastíl. Þangað til erum við einfaldlega áhorfendur að fólki að hamast við að skemmta sér, drekka, daðra og klæmast. Kunnuglegt að sjálfsögðu, og hið nýbakaða leikskáld Grímis kann svo sannarlega að skrifa liðug og eðlileg samtöl. Og það þýðir ekkert að fitja upp á trýnið yfir linnulitlu neðanþindargríninu, til þess er það alltof kunnuglegt. Hins vegar er ekki laust við að mig gruni að Sigríður eigi eftir að skrifa betra leikrit þegar hún nær aðeins betra valdi á formi og framvindu, því hún hefur greinilega eyra fyrir talsmáta og getu til að skila honum ómenguðum á blað.

Þröstur Guðbjartsson hefur skilað ágætu verki við að koma Hótelbarnum á svið. Leikstíllinn er ýkjukenndur og óheflaður, sem á ágætlega við, en dansatriðin voru bæði heldur stirð, og dálítið utanveltu við verkið, ekki sýst undarleg uppákoman með trúðanefin í lokin. Nær hefði verið að hjálpa höfundinum að leiða verkið til lykta á hefðbundnari átt, sýnist mér. Staðsetningar og gangur leiksins er fumlaus og krafturinn helst frá upphafi til enda.

Af einstökum leikurum má nefna Jóhann Inga Hinriksson, sem var hinn sígildi sviðshommi í hlutverki bareigandans og drottningarinnar Bóbós. Stöðluð sviðsmanngerð eins og Mikki refur og Grasagudda. Sigrún Jónsdóttir var trúverðug sem partýdýrið Lára og Margrét Ásgeirsdóttir gerði margt verulega vel í hlutverki Gróu stallsystur hennar. Hjá sumum leikendum mátti sjá nokkurn byrjendabrag, sem á sér áreiðanlega náttúrulegar skýringar og verður horfinn að ári.

Ég vona að Grímni auðnist að rækta þetta nýja leikskáld. Það er ekki ónýtur liðsstyrkur og mikilvægt að halda henni við efnið, hvetja til dáða og framfara. Það eru ýmsir glampar í Hótelbarnum sem segja mér að Sigríður Gísladóttir hafi hvorki sagt sitt síðasta né besta orð á leiksviði. Áfram, stelpa!