föstudagur, febrúar 09, 2001

Drekinn

Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð
Tjarnarbíó föstudaginn 9. febrúar 2001

Höfundur: Jevgení Shwarts
Þýðandi: Örnólfur Árnason
Leikstjóri: Friðrik Friðriksson
Leikmynd og búningar: María Pétursdóttir
Tónlist: Guðmundur Steinn Gunnarsson

Hvenær drepur maður dreka?

EINU sinni var þjóð í fjarlægu landi sem bjó við duttlungarfulla ógnarstjórn dreka nokkurs. Fólkið hafði að mestu sætt sig við og vanist ofbeldi og kúgun, svo mjög að þegar ung hetja gerir sig líklega til að drepa drekann og frelsa fólkið mætir hún andspyrnu og spotti íbúanna. Enginn trúir því heldur að tilræðið takist. En hvað gerist ef það tekst þrátt fyrir allt? Rennur öld Vatnsberans tafarlaust upp, eða þarf meira til að uppræta kúgun en dauða kúgarans?

Drekinn eftir Jevegní Swarts er snilldarleg táknsaga sem á heima við hliðina á Dýrabæ Orwells og Brennuvörgum Frisch. Meinfyndin og hárnákvæm lýsing á hérahjörtum mannskepnunnar andspænis valdinu og, af sýningu LMH að dæma, lífseigari en heimsveldið hrunda sem verkið lýsti upphaflega og var auðvitað bannfært fyrir vikið.
Að því ég best veit hefur Drekinn verið nokkru sinnum fluttur á íslandi, frá því Hamrahlíðarfólk flutti verkið í fyrsta sinn árið 1976. Allar þessar sýningar hafa að því ég tel verið á vegum framhaldsskólaleikfélaganna. Er það að vonum, enda verkið hentugt verkefni fyrir slíka hópa. Hlutverkin hæfilega mörg og bjóða upp á tilþrif og skapandi vinnu, en standa ekki og falla með óaðfinnanlegri frammistöðu. Leikritið er bæði vitrænt, tilfinningalegt og fyndið. Vekur til umhugsunar og skemmtir í senn.

María Pétursdóttir hefur búið sýningunni stílhreina og listræna umgjörð sem nýtist jafnt til að skapa andrúmsloft og uppfylla þarfir leiksins. Hljóðmynd Guðmundar Steins Gunnarssonar er sannfærandi og hæfilega „leikhúsleg“ fyrir utan smekklaust og óþarft innskot á söngleikjanúmeri, yfirborðskennd amerísk teiknimyndavegsömun vináttunnar algerlega óviðeigandi á þessum stað.

Drekinn er samkvæmt leikskrá frumraun Friðriks Friðrikssonar í leikstjórastóli, og ekki annað að sjá en hann passi vel í þann sess. Afbragðsvel hugsuð og útfærð sýning í alla staði, og búin þeim eiginleikum góðrar skólasýningar að standa fyrir sínu þó einstaka persóna nái ekki fullu flugi. Ætlunin alltaf skýr, þó á köflum væri framsögnin það því miður ekki. Friðrik og hans fólk ná að feta það einstigi milli einlægni og sjálfsháðs sem verkið kallar á, svo öllum verður ljós alvara málsins, líka í miðri hláturroku. Sýningin er full af meinfyndnum smáatriðum sem verða stór í minningunni, notkunin á brunninum í bardagaatriði Drekans og Lancelots óborganlegt dæmi.

Af leikurum og frammistöðu þeirra er vert að geta Daníels Arnar Hinrikssonar sem skemmti sér og áhorfendum ágætlega með geðsveiflum hins fjölgeðfatlaða borgarstjóra. Arnar Sigurðsson sem Lancelot er holdtekja hins rómantíska riddara sem er af allt öðru sauðahúsi en Shwarzeneggar og Willisar nútímans. Yrsa Þöll Gylfadóttir er eins kattalegur köttur og hægt er að fara fram á og Kristín Þóra Haraldsdóttir tilþrifamikið fyrsta drekahöfuð. Kannski nær samt Rut Guðmundsdóttir mestri dýpt í mynd sinni af móður stúlkunnar sem skal fórnað drekanum. Lengri upptalningu læt ég eiga sig en allur leikhópurinn leggur sitt að mörkum til heildaráhrifa sýningarinnar og skapa saman sterkt og eftirminnilegt verk. Drekann ættu sem flestir að sjá og horfast um leið í augu við sinn eigin. Og fá afbragðs skemmtun í kaupbæti.