þriðjudagur, janúar 23, 2001

Nakinn maður og annar í kjólfötum

Halaleikhópurinn
Halanum 23. janúar 2001
Höfundur: Dario Fo
Þýðandi: Sveinn Einarsson
Leikstjóri: Björn Gunnlaugsson

Fötin skapa manninn

Í heimi Dario Fo er öllu einatt snúið á haus, viðteknum gildum hafnað, reglurnar í valdatafli mannanna teknar til endurmats og falsmyndir þjóðfélagasins skoðaðar aftanfrá svo skín í beran strigann. Í Nöktum manni og öðrum í kjólfötum eru lögmál gamanleiksins líka endurskoðuð. Í hefðbundnum farsa væri maðurinn sem slapp með naumindum undan eiginmanni ástkonu sinnar og húkir nú nakinn í ruslatunnu aðalpersónan. Fo beinir hins vegar athyglinni að götusóparanum sem ber ábyrgð á nefndri tunnu, og því hvernig tilveru hans er kollsteypt við að verða á vegi farsans. Leikslokin, þegar kjólfataklæddur götusóparinn hefur öðlast lífsgleðina meðan strípaður ríkisbubbinn forðar sér undan lögreglunni, segja okkur hvorttveggja í senn að fötin skapi manninn og að í þjóðfélagi byggðu á stéttskiptu ofbeldi sé einblínt á yfirborðið og ekkert tillit tekið til mannkosta og innri eiginleika. Boðskapur sem kannski stendur félögum í Halaleikhópnum nærri, en hópurinn samanstendur að mestu leyti af líkamlega fötluðu fólki.
Sú fallega hugsun sem birtist í leikskrá sýningarinnar, að enginn sé fatlaðri en hann vill vera, leiðir hugann að því hvað felst í að vera þeim vanda vaxinn að skila listrænu verki á borð við leiksýningu til viðtakenda. Allir búa við takmörk á getu sinni til allra hluta og fánýtt að gera kröfur um að slík takmörk verði yfirstigin. Fötlun er einfaldlega ein tegund slíkra takmarka, ekkert eðlisólík öðrum tegundum. Kröfurnar sem gerðar verða eru einfaldlega tilfinningin fyrir að allir beiti sér til ítrustu marka sinnar getu.
Líkamleg fötlun leikara setur sviðsetningu auðvitað ýmsar skorður, aðrar skorður en önnur einkenni myndu setja. Og vissulega njóta ýmsir eiginleikar verksins sín ekki af þessum sökum, snerpa þess og farsakenndustu atriðin. Á hinn bóginn stendur fötlun auðvitað ekki í vegi fyrir því að hægt sé að skila hlýrri skopathugun Fos á mannskepnunni og þar tekst leikhópnum iðulega ágætlega upp. Allir leikararnir eiga sönn andartök sem verða fyndinn af því þau eru sönn, en varla er á nokkurn hallað þó Jón Þór Ólafsson sé nefndur sérstaklega fyrir að gera götusóparanum fyrrnefnda prýðileg skil.
Leikstjórinn, Björn Gunnlaugsson, hefur skilað góðu verki, ef undan er skilin tónlistin sem er að mínu viti aldeilis snertipunktalaus við verkið og stemmningu þess. Nýtingin á rýminu er prýðileg, leikmynd smekkleg og innskot í textann sem tengja sýninguna við nútímann og þau mál sem helst brenna á öryrkjum þessa dagana launfyndin og algerlega í anda Nóbelsskáldsins ítalska sem aldrei hefur þreyst á að nota leikhúsið sem hrossabrest til að vekja fólk til umhugsunar um þjóðfélagslegt óréttlæti af öllu tagi.