þriðjudagur, febrúar 13, 2001

Wake me up before you go go

Nemendamót Verzlunarskóla Íslands
Loftkastalanum þriðjudaginn 13. febrúar 2001

Handritshöfundur: Hallgrímur Helgason
Leikstjóri: Gunnar Helgason
Tónlistarstjóri: Jón Ólafsson
Leikmynd og ljós: Sigurður Kaiser
Danshöfundur: Guðfinna Björnsdóttir

Duran eða Wham?

NEMENDAMÓTSSÝNINGAR Verzlunarskólans eru að réttu rómaðar sem fjörug og litrík skemmtun og svo verður vafalaust einnig um þessa. Nú eru það tónlist og tíðarandi níunda áratugarins sem er endurvakin. Grunnhugmyndin er snjöll, nútímadrengur ferðast aftur til ársins 1984 til að bjarga sambandi foreldra sinna, og reynir í leiðinni að bjarga því sem bjargað verður í poppmenningunni á þessu víðfræga niðurlægingartímabili. Honum verður nokkuð ágengt á báðum vígstöðvum, en að lokum fara fyrirætlanirnar út af sporinu á skrautlegan hátt.

Það má leiða að því líkum að hvergi á íslensku leiksviði er betur dansað og sungið um þessar mundir en í Loftkastalanum. Fagmennska og vald Verzlinga á þessum viðfangsefnum er einstakt. Í samanburði verður leiktúlkunin oft æði viðvaningsleg, og má vel vera að óhagstæður samanburður við fullkomnunina á hinum sviðunum geri ágallana meira áberandi en annars væri. En munurinn snýst ekki bara um gott og slæmt, fagmennsku og fúsk. Hann liggur að mér virðist líka í afstöðunni til viðfangsefnisins, og þar snýst dæmið í vissum skilningi við.

Leiktextinn er fullur af fyndni, háði og hugmyndum, eins og við er að búast frá Hallgrími og fléttan vísvitandi áreynslukennd stundum, eins og í gömlum farsa sem við hlægjum að fyrst og fremst fyrir hallærisganginn. Og það er í leiktextanum sem skopstælingin á Öld Gleðibankans birtist. Þegar kemur að tónlistaratriðunum færist hins vegar fagmannleg alvara yfir hópinn, það vottar ekki fyrir háðinu og kraftmiklu stjórnleysinu sem einkennir leikatriðin. Undantekningin er frelsissöngur föðurins, algerlega óborganlegt atriði sem sýndi hverskonar möguleikar voru fyrir hendi ef skítaglottið úr leikatriðunum hefði fengið að færast betur yfir tónlistarnúmerin.

En nóg komið af greiningu, þrátt fyrir þetta er auðvitað óhemju gaman og frammistaða margra prýðileg á öllum vígstöðvum. Fyrstan ber þá að telja Þorvald Davíð Kristjánsson sem tímaflakkarann Tomma. Þetta er „virtúósahlutverk“ sem Þorvaldur skilar eins og sá sem valdið hefur. Foreldrar hans eru þau Valdimar Kristjónsson og Rakel Sif Sigurðardóttir og eru bæði prýðileg. Af smærri hlutverkum má nefna Sigurð Hrannar Hjaltason sem er sannfærandi viðurstyggð sem Ómar ofurtöffari og grúppíurnar Jódísi og Glódísi sem Lydía Grétarsdóttir og María Þórðardóttir gerðu hárrétt skil.

Allt útlit er nógu rétt til að slá út köldum svita á okkur sem upplifðum tímabilið, og svo verða líklega jafnt Duran Duran-menn og Whamliðar að horfast í augu við það: Þetta er ekki lífvænleg tónlist.

Wake me up before you go go er prýðileg skemmtun. Leikverkið er hraðsoðið en fullt af lífi og skemmtilegheitum, leikurinn misgóður en alltaf kraftmikill. Tónlistin er frábærlega flutt, en kannski af óverðskuldaðri virðingu. Líklega er hér eitthvað fyrir alla.