laugardagur, mars 10, 2001

Bófaleikur á Broadway

Freyvangsleikhúsið
Freyvangi laugardaginn 10. mars 2001

Höfundur: Woody Allen
Þýðendur: Ármann Guðmundsson og Hannes Örn Blandon
Leikstjóri: Hákon Waage
Danshöfundur: Jóhann Arnarsson
Leikmynd: Þórarinn Blöndal

Líf, dauði og list

HIN sífellda leit áhugaleikfélaga að heppilegum viðfangsefnum hefur að undanförnu leitt nokkur þeirra á vit kvikmyndanna. Þegar svo er komið var auðvitað bara tímaspursmál hvenær við fengjum að sjá sviðsuppfærslu á þeirri ágætu ræmu Allens, Bullets over Broadway.

Sögusviðið er leikhúsheimurinn, nánar tiltekið leikhúsgatan fræga í New York, og tíminn er um 1920. Ungur og metnaðargjarn höfundur fær hátimbraðan harmleik sinn ekki fjármagnaðan nema af mafíunni og með þeim afarkostum að hæfileikasnauð fylgismey mafíuforingjans fái hlutverk. Helsta viðfangsefni verksins er hins vegar hæfileikar og verðleikar, og hvað getur gerst þegar þetta tvennt fer ekki saman. Þar teflir Allen saman leikskáldinu David Shayne sem hefur meiri metnað en hæfileika, og morðingjanum Checch sem reynist búa yfir snilligáfu sem fær útrás við að lagfæra leikritið, milli þess sem hann sinnir skyldustörfum sínum fyrir mafíuna. Bullets over Broadway er að mínu viti ein albesta mynd Allens. Djúp, aðgengileg og alveg morðfyndin.

Freyvangsleikhúsið er eitt öflugasta og vandvirkasta áhugaleikfélag á Íslandi og bera vinnubrögð þeirra við þessa sýningu þess merki, allt frá þeirri natni sem hefur verið lögð í glæsilega búninga og umgjörð yfir í nokkuð jafngóðan leik. Burðarhlutverkum er öllum vel skilað, Stefán Guðlaugsson er flinkur gamanleikari, kannski full vörpulegur maður til að verða trúverðulega rolulegt leikskáld, en gerir vel. Ragnar E. Ólafsson virkaði full unglegur sem górillan Cheech, en stóð sig samt með prýði. Helga Ágústsdóttir var hárrétt í hlutverki prímadonnunnar Helen Sinclair og Halldóra Magnúsdóttir réttilega óþolandi sem hin ástmærin með leikkonudraumana.

Þó það sé skiljanleg freisting að sækja sér viðfangsefni í kvikmyndir þá fylgja því ýmis vandkvæði. Hætt er við að leikarar og leikstjóri sæki um of fyrirmynd í myndina í stað þess að einbeita sér að handritinu; textanum og sögunni sem segja á. Sýning Freyvangsleikhússins ber þessa nokkur merki og fyrir vikið náðu sum atriði ekki að lifa til fulls.

Annað vandamál er að atriði í kvikmyndum eru oft örstutt og hægt að flytja persónur milli staða á sekúndubroti. Klippitækni leikhússins er ekki jafn langt komin. Leikstjóra Bófaleiksins tekst satt að segja lygilega að halda snerpu í sýningunni, með hjálp hugvitsamlegrar og smekklegrar leikmyndar. Þó eru skiptingar of margar og flæðið stöðvast of oft. Gaman hefði verið að sjá meiri aðlögun handritsins að hinum nýja miðli. Einnig er möguleiki að minni tryggð við raunsæi hefði hjálpað.

Þrátt fyrir þessi tæknilegu vandamál er það að vanda persónurnar og saga þeirra sem fangar hugann í leikhúsinu, og það gerir þetta makalaust skemmtilega ævintýri Allens í Eyjafjarðarsveit svikalaust. Skemmtileg og fáguð sýning sem með smávegis sjálfstæðisbaráttu gagnvart kvikmyndinni hefði orðið enn betri, til þess hafa aðstandendur hennar augljóslega alla burði.