laugardagur, mars 24, 2001

Allt sem þér viljið ...

Leikfélag Dalvíkur
24. mars 2001

Höfundar: Arnar Símonarson, Dana Jóna Sveinsdóttir, Friðrik Ómar Hjörleifsson og Sólveig Rögnvaldsdóttir.
Leikstjóri: Arnar Símonarson.


Efnilegt, en...

ÞAÐ er ætíð gleðiefni þegar leikfélög hafa burði og metnað til að sýna ný verk, hvað þá þegar félagsmenn ráðast í að skrifa þau sjálfir. Þannig er nú málum háttað hjá Leikfélagi Dalvíkur, sem löngum hefur notið virðingar fyrir metnaðarfullt starf og góða leiklist. Fjórir félagsmenn skrifa saman leikrit sem einn þeirra fylgir síðan alla leið sem leikstjóri en hinir þrír leika. Að auki setur einn höfundanna saman hljóðmynd af stakri fagmennsku. Mannauður Leikfélags Dalvíkur er svo sannarlega í hróplegu ósamræmi við höfðatölu staðarins.

Allt sem þér viljið... er að forminu til sakamálaleikrit af sígildri gerð. Stórfjölskylda er veðurteppt á heimili ættmóðurinnar nýlátinnar og í erfðaskrá hennar eru óvæntar ráðstafanir. Síðan reynist auðvitað maðkur í mysu. Að sjálfsögðu verður ekkert greint hér frá ætterni maðksins né efnainnihaldi mysunnar. Það eru forréttindi áhorfenda að fræðast um slíkt. Allt sem þér viljið... er skemmtileg sýning, borin uppi af kraftmiklum leik og fyndni í texta.

Höfundakvartettinn hefur lagt upp með flókna fléttu eins og formið krefst, en það verður að segjast að þeim tekst hvorki nógu vel að nýta hana til að byggja upp spennu né að leiða alla þræði hennar til farsælla lykta. Verkið er fullt af skemmtilegum persónum og uppákomum og höfundum lætur vel að skifa lipur samtöl. Með færri persónum og einfaldari og skýrari grunnsögu sem allar persónurnar tengdust hefði Allt sem þér viljið... að mínu viti orðið bráðgott og lífvænlegt verk. Og þó svo höfundar verksins hafi hér að mínu viti ætlað sér um of þá er fyllsta ástæða til að hvetja á þá til dáða og frekari skrifa.

Það er ljóst af sýningunni að leikstjórinn Arnar Símonarson kann ágætlega til verka. Ef til vill hefði þó verið klókt af Dalvíkingum að fá utanaðkomandi leikstjóra að verkinu. Á stundum hefði ég kosið að betur væri hnykkt á mikilvægum atriðum og afstaða persónanna til atburða og hverrar annarar væri skýrari. Kannski hafa þessir hlutir legið einum of ljósir fyrir höfundinum til að leikstjórinn sæi ástæðu til að leggja áherslu á.

Það er löngu vitað mál að Dalvíkingar eiga leikara góða og þar sem hefðin og reynslan safnast fyrir hafa nýliðar eitthvað að byggja á og þekkja þær kröfur sem gerðar eru. Í þessari sýningu stíga nokkrir leikaranna sín fyrstu spor og standa sig allir með prýði. Hópurinn er agaður þannig að mannfjöldinn á sviðinu virkar aldrei óeðlilegur, allt gengur eins og smurt. Og þegar tækifæri gefast ná margir leikaranna að blómstra. Það gustaði til að mynda af Olgu Guðlaugu Albertsdóttur í hlutverki Pálínu, drepfyndin mynd af kjarnorkukonu. Önnur slík er skörungurinnn Sesselja frá Skuld, sem Dana Jóna Sveinsdóttir gerði kostuleg skil. Lárus Heiðar Sveinsson var hlægilegur útlendur kúarektor og hinn heimóttarlegi Rafn var snyrtilega teiknaður af Júlíusi G. Júlíussyni.

Þessar kostulegu persónur, og allar hinar, gefa til kynna þá möguleika til góðra verka sem höfundahópur Dalvíkinga er rétt að byrja að miðla af. Við bíðum því spennt eftir hvar þau drepa næst niður penna.