sunnudagur, mars 25, 2001

Ávaxtakarfan

Leikfélag Seyðisfjarðar og Seyðisfjarðarskóli
Seyðisfirði sunnudaginn 25. mars 2001

Höfundur: Kristlaug María Sigurðardóttir
Tónlist: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Leikstjóri: Snorri Emilsson
Tónlistarstjóri: María Gaskell

Goggunarröðin hjá gróðri jarðar

ÁVAXTAKÖRFUNNI er ætlað að kenna umburðarlyndi, fordómaleysi og vináttu. Í því skyni sýnir höfundur okkur smáheim; samfélag ávaxta í körfu. Samfélag ávaxtanna lýtur að því er virðist sömu lögmálum og víðar gilda. Virðingarröðin er skýr, mun skýrari en rökin fyrir því að einn sé betri en annar. Þannig eru berin undirokuð af hinum stærri ávöxtum, en grænmetið “að sjálfsögðu” í enn minni metum. En með boðskap sínum um jafnrétti og gagnkvæma vináttu tekst hinum lægstu að koma á heilnæmara samfélagi. Í leikskrá segir að verkið fjalli um einelti, en eiginlega hefur það víðari skírskotun. Fordómar og ofbeldi af þeim leitt er viðfangsefnið og einelti er ein birtingarmynd þess.

Leikritið sver sig mjög í ætt boðskaparþrunginna barnaleikrita og líður nokkuð fyrir það. Það er orðmargt en tíðindalítið, sigur hins góða er nánast engum vandkvæðum bundinn og aldrei í hættu. Víða er þó komist vel að orði og persónueinkenni einstakra ávaxta vel teiknuð. Tónlist Þorvalds Bjarna er hreinræktað popp, falleg lög sem ljá verkinu skemmtigildi til mótvægis við siðalærdóminn sem leiktextinn flytur.

Það eru börn í öllum hlutverkum hjá leikfélagi Seyðisfjarðar að þessu sinni. Ávaxtakarfan er kannski ekki sérlega heppilegt viðfangsefni fyrir óreynda leikara, enda líklega ekki skrifuð með það fyrir augum. Það er hins vegar greinilegt að börnin á Seyðisfirði geta leikið og gerðu það svikalaust. Á stundum hefði leikstjóri sýningarinnar samt mátt vinna staðsetningar og umferð um sviðið betur, það hefði skerpt á sögunni og innbyrðis afstöðu persónanna. Búningar og umgjörð eru einföld en rétt. Ávextirnir hafa á sér meiri mannsbrag en í frumuppfærslunni í Íslensku Óperunni, og gera tengslin við einelti á skólalóðinni enn skýrari.

Tónlistarflutningurinn er kapítuli út af fyrir sig. Tónlistin er eins og leiktextinn, ekki sérlega barnvæn, en hinir ungu Seyðfirðingar flytja hana af fádæma öryggi og krafti. Hrein unun á að hlíða, hvort heldur í hópsöngvum eða einsöngslögum. María Gaskell hefur greinilega unnið frábært starf og hljómsveitin var stórfín undir stjórn hennar, þar voru heldur ekki allir tiltakanlega háir í loftinu.

Seyðisfjörður á hér greinilega fjársjóð hæfileika og kunnáttu sem vafalaust verður ausið af í framtíðinni ef rétt verður að hlúð.