fimmtudagur, mars 04, 2021

Sölumaður deyr

Eftir Arthur Miller. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir. Leikmynd: Brynja Björnsdóttir. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Tónlist: Gyða Valtýsdóttir. Lýsing: Pálmi Jónsson. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir. Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson. Hljóðfæraleikur: Gyða Valtýsdóttir, Julian Sartorius, Shahzad Ismaily og Karl James Pestka. Leikarar: Jóhann Sigurðarson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Rakel Ýr Stefánsdóttir, Stefán Jónsson, Þorsteinn Bachmann, Aron Már Ólafsson, Valur Freyr Einarsson, Esther Talía Casey, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Sigurður Þór Óskarsson. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins laugardaginn 20. febrúar 2021.

Sálin hans meðaljóns míns

Ólíkt flestum skáldsystkinum sínum í deild nútímaklassíkur virðist Arthur Miller ekki þurfa að óttast að falla í gleymsku alveg strax hér uppi á Íslandi. Öll hans helstu verk; Allir synir mínir, Sölumaður deyr, Horft af brúnni og Í deiglunni/Eldraunin hafa verið tekin til meðferðar í atvinnuleikhúsum okkar á þessari öld. Sölumaðurinn núna í tvígang og það í sama húsinu. Tennessee Williams, Eugene O’Neill og Harold Pinter gnísta tönnum í sviðsvængnum.

Hvað veldur? Það er alveg hægt að færa ágæt rök fyrir því að það séu umtalsverð ellimerki á skáldskap Millers, og fleiri ágalla mætti tína til. Hann er t.d. næstum alveg húmorslaus. Á það til að styðja sig full-þungt við hækju melódramans. Formstífnin eitt af höfuðeinkennum hans. Ekki endilega meðmæli fyrir leikhús okkar tíma, með allri sinni ást á óreiðu og íróníu.

Engu að síður eru vinsældirnar staðreynd. Ætli það sé kannski vegna þess að hann komst næst því að gera það sem margir reyndu, og við erum mikið til búin að gefast upp á: að skrifa harmleiki að fornri fyrirmynd um örlög hverdagsfólks í guðlausum heimi? Einhversstaðar vitum við að þetta er það sem leikhúsið er skapað til að skoða. 

Öll hafa höfuðverk Millers sér til ágætis nokkuð, en það er freistandi að setja Sölumanninn í sérflokk. Ólíkt hinum þremur hverfist það ekki um eina tiltekna harmræna valþröng hetjunnar. Hér er meðaljóninn sem ómeðvitað sköpunarverk þjóðfélagsins til skoðunar. Og það er kostnaður Willy Loman við að láta þetta meðvitundarleysi eftir sér sem skapar honum örlög, og öllu hans fólki. 

Og svo er hitt: þetta makalausa sérsniðna form sem Miller bjó efninu; flæðið milli nútímans – síðustu klukkutímanna í lífi Willys – og fortíðarinnar eins og hún býr í höfði hans. Og síðast en ekki síst: sambræðsla þessrar „óraunsæislegu“ aðferðar og miskunnarlauss sálfræðiraunsæisins í samskiptum og tilfinningalífi persónanna, línu fyrir línu.

Það er þrautin þyngri fyrir leikstjóra að láta þetta verk lifna á sviðinu. Að finna jafnvægi milli þess að lúta ströngu og flóknu forminu og stíl textans og þess að leggja eitthvað til málanna frá eigin brjósti. Frá mínum bæjardyrum séð hefur Kristín Jóhannesdóttir gerst of eftirlátssöm við sína 
eigin frjóu hugsun, og um leið misst sjónar á mikilvægum eigindum verksins sjálfs. 

Það kemur minna að sök með hugmyndirnar sem hún vinnur út frá og getur ekki stillt sig um að bæta hráum við: bókstaflegri útleggingu á tilvistarspeki Sartres eins og hún birtist í dæmisögunni um þjóninn í Veru og neind og hvernig líf hans er óheilindunum merkt. Að leggja hana í munn þjónsins Stanleys (Valur Freyr Einarsson) í nokkurskonar forleik, með smávegis ábót eftir hlé er vissulega óþarfi og pínu vandræðalega útfært, en auðvelt að leiða það hjá sér. 

Verra er með hvernig fínlegir sálfræðilegir drættir í samskiptum, valdatafli og tilfinningaóreiðu Loman-fólksins þurrkast að stórum hluta út í leikstíl sýningarinnar. Hér er allt meira og minna á útopnu frá því Happý rekur upp sitt óútskýrða öskur í upphafi sýningar þar til systkinin, móðir þeirra og hinir góðu grannar standa yfir moldum sölumannsins í lokin. Textinn mikið til „fluttur“ en mun síður „lifaður“, mælskulist trompar tilfinningatúlkun og samleik, svo hið ósagða, undirtextinn, skilar sér of sjaldan út milli orðanna. Þetta kemur sérstaklega illa niður á Sigrúnu Eddu Björnsdóttur í hlutverki Lindu, lífsakkerinu og miðpunkti fjölskyldunnar þótt eiginmaðurinn sé fókus leikritsins. Sigrún nær undir lokin að sýna okkur inn að kviku persónunnar í áhrifamiklum eftirmálanum, en þangað til gengur of mikið á. 

Jóhann Sigurðarson er líka heftur af skorti sýningarinnar á alúð við fínleg blæbrigði í titilhlutverkinu, en á þó ýmis tól í verkfæraskúrnum sínum sem nýtast við að sýna okkur meðalmennið sem lætur ranghugmyndir dogmatískrar velgengnishugsjónar kapítalismans stýra sér fram af brúninni. Mikilfengleg nærveran og á móti þessi sérkennilegi bernski undirlægjutónn sem Jóhann á til koma í góðar þarfir. Eins og flest í sýningunni eru hans sterkustu stundir þegar óreiðan og ásókn minninganna er í algleymingi. Ég hef séð nokkrar uppfærslur Sölumannsins en aldrei fyrr hafa senurnar með hinum goðsagnakennda stóra bróður verið það áhrifaríkasta. Stefán Jónsson nýtur sín til fulls í skrítnu hlutverkinu og samleikur þeirra Jóhanns er sterkur. Jóhann er líka góður með Þorsteini Bachmann í hlutverki nágrannans Charley, og Þorsteini virðist ekki geta mistekist að skapa eftirminnilegar persónur úr litlu þessi árin. Aron Már Ólafsson fór snoturlega með lítið hlutverk Bernards sonar hans.

Öflugastan mótleikinn fær Jóhann frá Hirti Jóhanni Jónssyni, enda má segja að glíma Willys við eldri son sinn sé eldsneytið sem knýr persónulegan harmleikinn áfram. Hjörtur á stjörnuleik, nær að skapa sannfærandi og raunsæislega persónu úr Biff, sem sér – og sér ekki – gegnum tálsýnir fjölskyldu og samfélags. Það er mikið fjör í túlkun Rakelar Ýrar Stefánsdóttur á Happy, en ég held að það hafi verið misráðið að breyta syni í dóttur: of mikið af samspili bræðra, mæðgina og feðga skekkist og glatar merkingu sinni, sérstaklega í ljósi þess að ógerningur er að flytja verkið í heild sinni til í tíma, og það er ekki heldur reynt hér. Sérkennilegt líka að fara svona langt með daðurstilburði Happy(jar) við Stanley í veitingahúsaatriðinu. Sama má reyndar segja um farsakennda lögnina á viðhaldinu í meðförum Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur. Önnur kynbreyting er gerð á Howard, yfirmanni Willys og hún gengur betur upp í meðförum Esterar Thalíu Casey, þó stóllinn hennar hafi ögrað útlitsstíl sýningarinnar og bernskt táknmálið með lyftubúnaðinn hafi frekar kallað á fliss en nokkur önnur viðbrögð.

Ekki er vel gott að lesa í myndmál leikmyndar Brynju Björnsdóttur. Einfaldleikinn, nánast naumhyggja, ræður ríkjum, en hvítu plastboltarnir fanga athyglina án þess að láta uppi hvað þeir vilja tákna. Vekja samt upp hugrenningatengsl við tumbleweed-runna, rótleysi og þyrrking. Búningar, lýsing, tónlist og hljóðmynd þjónar sínu hlutverki en fangar ekki athygli svo neinu nemur. Eins er að mestu með áheyrilega og munntama nýja þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar. Pínu ótraustvekjandi samt hvað hann snarar tveimur af eftirminnilegri setningum verksins flatneskjulega: „A terrible thing is happening to him“ verður „Hann á mjög bágt“ og „Attention must be paid“ verður „Sýna nærgætni“. 

Sölumaður deyr nær alltaf takinu á sálum áhorfenda. Verkið virkaði í Kína kommúnismans fyrir daga herskálakapítalismans og það virkaði í Japan þar sem einhverjir sögðu víst „sölumanni sem ekki selur ber að fyrirfara sér“. Vægðarleysi lífshátta okkar og lygin sem við þurfum að segja okkur til að trúa á tilganginn með þeim hefur ekki þróast svo mikið á sjötíu árum að við finnum ekki fyrir Willy Loman innra með okkur. Þó uppfærsla Borgarleikhússins að þessu sinni haldi sig mikið til á yfirborðinu þá heldur þessi harmleikur hversdagsmannsins áfram að tala til okkar.

miðvikudagur, mars 03, 2021

Fullorðin

Eftir Árna Beintein Árnason, Birnu Pétursdóttur, Vilhjálm B. Bragason og teymið. Leikstjórn: Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir og Marta Nordal. Danshreyfingar: Unnur Anna Árnadóttir og leikhópurinn. Leikmynd: Auður Ösp Guðmundsdóttir og Jasmina Wojtyla. Búningar: Björg Marta Gunnarsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóðmynd: Gunnar Sigurbjörnsson. Leikfélag Akureyrar frumsýndi í Samkomuhúsinu á Akureyri föstudaginn 8. janúar 2021, rýnir sá 9. sýningu, laugardaginn 13. febrúar 2021 í Hamraborg í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Seinni hálfleikur

Eru þær ekki frekar fáséðar á fjölunum, sýningarnar sem hafa augljóslega og meðvitað þann tilgang einan að skemmta áhorfendum með nýju og sérsniðnu efni um samtíma okkar? Hefur leikhúsið gefist upp á revíuforminu og eftirlátið sjónvarpinu sketsakvótann, sem það er síðan ekkert að sinna heldur? Það má alveg líta á Fullorðin hjá Leikfélagi Akureyrar sem undantekninguna sem sannar regluna, allavega meðan Veislan sem Borgarleikhúsið boðaði til fyrir að manni finnst eilífð síðan er ósýnd enn. Mengið „atvinnuleikhús á Íslandi“ er sannarlega lítið svo kannski eru tvær sýningar til marks um stefnubreytingu og blómaskeið. Þetta er allavega kærkomið og ætti að vera fastur stallur í listrænum fæðupýramída þjóðarinnar. Konfektmolinn á gamlárskvöld er ekki nóg.

Fullorðin er sem sagt sketsasýning og viðfangsefnið kemur fram í titlinum. Fullorðinsfræðsla í bókstaflegri merkingu orðsins: skýrsla um lífshætti miðaldra meðaljóna með þá rannsóknartilgátu að þó almennt sé gert ráð fyrir að fólk á þeim aldri sé komið með bæði skilning og tök á listinni að lifa þá fer því auðvitað fjarri. Ef svo væri er óvíst að mannfræðirannsókn hópsins væri svona gráthlægileg þegar best tekst til.

Því það er hún. Hugmyndirnar eru margar snjallar, sumar algerlega augljósar og standa og falla með útfærslunni. Sumar falla vissulega, en nógu margar standa til að Fullorðin sé hin besta skemmtun heilt á litið.

Margt kemur þar til. Nefna má hvað textinn er oftast áberandi vel mótaður, bæði ræður sem beint er að áhorfendum og samtölin. Ófáar replikkur smella eins og svipuhögg. Þó Fullorðin sé afrakstur hópvinnu er búið að pússa og lakka textann víðast hvar. Það sést kannski ekki síst vegna þess að eina spunaatriðið, þar sem samtal er spunnið út frá tillögu áhorfenda, var augljósasti fallisti sýningarinnar.

Það sama má segja um söngtextana. Þar voru fingraför Vilhjálms B Bragasonar auðþekkt, en hann heldur ásamt Sesselju Ólafsdóttur úti gamanvísnasönghópnum Vandræðaskáldum, sem finna má ummerki um á samfélagsmiðlum sé vel leitað. Hér er sami blær á kveðskap og lagasmíðum, sem mætti kannski líkja við það sem gerðist ef bandaríski píanóháðfuglinn Tom Lehrer reyndi að gera barnaplötu. Það eru nú ekki öll rímorð Vilhjálms beinlínis prenthæf, og stundum eru klúrheitin heldur ódýr, en þess fyndnari í réttu samhengi og þegar best tekst til.

Viðfangsefnin spanna flest svið daglegs lífs: Tómstundir, fjárhagslega velgengni, tilhugalíf, barneignir, framgangur í vinnu. Allt skoðað með ýkjuaðferðum revíunnar, en alltaf með einhvern kjarna sem áhorfendur geta tengt eigin lífi, eða allavega samferðafólks síns.

Eftirminnilegasta stóra atriðið er hrollvekjandi grótesk mynd af endurfundapartíi gamalla bekkjarfélaga, með tilheyrandi öfgum í fjárhagslegri velgengni, hroðalegum slysförum, upprifjun á kynlífi sem betur mætti gleyma, og einelti sem það sama mætti segja um. Þar eiga þremenningarnir allir flotta spretti í týpusmíði. Vel hefði mátt hugsa sér þetta partí sem ramma utan um heila sýningu í mun hefðbundnari byggingu. Það sem síst tekst er trúlega sagan af hjónunum sem eru ekki fyrr laus við síðasta afkvæmið úr hýbílum sínum en sambandið springur í loft upp. Það er ekki gott að segja hvort samleikurinn við klaufagang hljóðeffektastjórans var ofaukið eða þá góð hugmynd sem þarfnaðist miklu meira nosturs, nákvæmni og orku til að skila tilætluðum hlátri. Synd, því hjónin voru sérlega skemmtilega útfærðar persónur hjá Vilhjálmi og Birnu Pétursdóttur. 

Birna er eftirtektarvert flink týpugerðarkona og neglir hverja staðalmyndina á fætur annarri. Ætli námskeiðshaldarinn ofurhressi standi þar ekki fremst meðal hrollvekjandi jafningja. Vilhjálmur og Árni Beinteinn náðu ekki alveg sömu raunsæisjarðtengingu með sína kalla, en snarvirka engu að síður í því sameiginlega verkefni leikhópsins að halda stuðinu gangandi og orkustiginu uppi. 

Það er lipur og fumlaus gangur í sýningunni og oft áberandi sniðuglega komist úr einum skets í annan, en leikstjórar sýningarinnar, þær Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir og Marta Nordal hafa skipulagt þetta vel. Einföld leikmynd Auðar Aspar Guðmundsdóttur og Jasminu Wojtyla þjónar gangverkinu vel og gerir búninga Bjargar Mörtu Gunnarsdóttur auðveldlega aðgengilega þegar handagangurinn er hvað mestur. 

Það er þakkarvert að bjóða upp á svona einbeitta grínsýningu á þessum döpru tímum og það verður að segjast að Covid-gisinn salurinn í Hofi eru ekki kjöraðstæður fyrir grín af þessu tagi, þar sem hlátursmit eru eitt af mikilvægustu innhaldsefnunum í vel heppnaðri kvöldstund. Stemmingin er fljót að kólna þegar einstök atriði skila ekki tilætluðum áhrifum. En þau Árni, Birna og Vilhjálmur berjast hetjulega og skila verki sem er alloft fyndið, augljóslega nostursamlega unnið og heldur lífi í hefð sem við munum alltaf þurfa á að halda.