sunnudagur, október 29, 2000

Stræti

Stúdentaleikhúsið


Loftkastalinn 29. október 2000

eftir Jim Cartwright
Þýðandi: Árni Ibsen
Leikstjóri: Elvar Logi Hannesson

Öngstræti tilverunnar

ÞAÐ er ekki um að villast, Stúdentaleikhúsið er komið til að vera - enn einu sinni. Eftir frábæra uppfærslu á Tartuffe síðastliðið vor ráðast þau nú í stóra, mannmarga og viðamikla sýningu og láta sig ekki muna um að innrétta leikhús í einu af ónýttum rýmum í húsakynnum Loftkastalans. Vonandi er krafturinn og vinnugleðin sem greinilega er til staðar nægileg til að gera félagið að langlífum og varanlegum pósti í leiklistarflórunni.

Minna hefur borið á Jim Cartwright undanfarið en þegar hann var ljúflingur íslenskra atvinnuleikhúsa fyrir nokkrum árum. Þó tel ég að óhætt sé að spá bæði Stræti og Bar-Pari langra lífdaga á verkefnaskrám áhugaleikfélaga. Persónur og kringumstæður dregur Cartwright einatt skýrum dráttum og hlutverkin langflest bitastæð. Og þó hann sé kannski ekki djúpvitrasti samfélagsrýnir í flokki leikskálda, né næmastur á fínhreyfingar sálartötursins þá búa verk hans yfir skáldlegum krafti og samúð með mannskepnunni, sérstaklega þegar brölt hennar er hvað óliðlegast. Þetta er áberandi í Stræti, svipmynd af örvæntingarfullum tilraunum vonleysingja úr enskri lágstétt til að gleyma hlutskipti sínu og skemmta sér, eða í það minnsta slökkva á sálinni eina kvöldstund.

Sýningin er ákaflega vel saman sett. Leikurinn var afar jafngóður þó margir eigi reyndar aðdáanlega spretti, svo margir að betra er að láta þá upptalningu eiga sig. Umfram allt var sönn „ensamble“-tilfinning í hópnum, sýningin er greinilega sameiginlegt átak sem hópurinn allur stendur með og ber fram fyrir áhorfendur með stolti og gleði. Umgjörðin er stílhrein og búningar við hæfi.

Elvar Logi og leikhópur hans velur að leggja áherslu á léttleika og húmor verksins. Þetta er skiljanlegt val, sérstaklega hvað varðar eldri persónurnar sem ungir leikararnir hafa varla tök á að ná í botninn á. Þó þótti mér sem stundum mætti sýningin reyna aðeins minna að vera skemmtileg. Grínið og fjörið setur ákveðna fjarlægð á ömurleikann og sorgina í lífi persónanna sem gerir áhorfendum kannski erfitt fyrir að lifa sig inn í hlutskipti þeirra. Hin prýðilega vel spilandi hljómsveit hafði áhrif í sömu átt, truflaði samband sviðs og salar, bæði með frammíköllum og sambandi sínu við persónurnar, en líka stundum með semmningstónlistinni, gerði sýninguna að meira „sjói“ en kannski er æskilegt. Endirinn, þegar persónurnar eygja von um fullkomnara líf með sönnum tilfinningum, ást og skilningi, missir nokkuð af áhrifamætti sínum ef ástandið sem þær vilja flýja hefur verið málað svo grallaralegum litum.

En hvað sem þessum efasemdum líður þá er sýningin sjálfri sér samkvæm og heilsteypt listaverk sem Stúdentaleikhúsið má vera stolt af. Það er óhætt að hvetja leikhúsunnendur til að leggja leið sína vestur í bæ og fylgjast með næturlífinu í Strætinu eina kvöldstund.

laugardagur, október 21, 2000

Allt í plati

Leikfélag Mosfellssveitar

Bæjarleikhúsið laugardagurinn 21. október 2000

Höfundur: Þröstur Guðbjartsson
Leikstjóri: Herdís Þorgeirsdóttir
Búningar: Harpa Svavarsdóttir
Förðun: Hrefna Vestmann

Niðjamót Egners

HANN virðist ætla að verða langlífur, samsetningur Þrastar Guðbjartssonar upp úr verkum Egners og Lindgren. Varla líður svo leikár að Allt í plati sé ekki á fjölum einhvers áhugaleikfélags. Ekki veit ég hvað veldur. Líklega er stykkið einfaldara í uppsetningu en þau verk sem það sækir efni sitt í, en sem leikhúsverk stendur það þeim, eðlilega kannski, alllangt að baki.
Grunnhugmyndin er ógalin: Að stefna saman vinsælustu persónum úr Hálsaskógi, Kardimommubæ og jöxlunum á Jens greyinu. Þær hittum við fyrir tilstilli fröken L. Langsokks sem reynist vera göldrótt ofan á aðra gamalkunna hæfileika sína. Kunningjarnir úr sagnaheimi Egners segja okkur hvernig þeim hefur reitt af síðan síðast, og eru flestir merkilega vansælir; refurinn óhress með mataræðið, ræningjarnir flúnir frá nýjum skyldustörfum. Sumt af þessum endurfundum er hnyttilega samansett og fyndið hjá Þresti, útheimtir samt að fólk þekki frumverkin. Hins vegar verður ansi þvingað hjá honum að koma að söngvunum sem allir þekkja og elska í þessu nýja samhengi, en til þess virðist þó leikurinn að miklu leyti gerður. Tæplega er hægt að segja að um söguþráð sé að ræða og endirinn rennur út í sandinn: Allt í plati.

Vel má samt skemmta sér við þessa endurfundi í Bæjarleikhúsinu. Leikhópnum tekst gegnumsneitt vel að teikna og lita hinar kunnuglegu persónur. Leikstjórinn, Herdís Þorgeirsdóttir, hefur greinilega lagt alúð við þennan þátt. Síður tekst henni upp með hreyfingu leikaranna um sviðið. Of mikið var um tilgangslítil ferðalög persónanna sem dró úr áhrifamætti sýningarinnar, þó ætlunin sé vafalaust að gera hana fjöruga og lifandi. Eins saknaði ég betri tengsla flestra persóna við áhorfendur. Bæði í söngvum og víða í töluðum texta er beinlínis gert ráð fyrir að persónurnar tali við salinn, en hér ávörpuðu söngvarar frekar hinar persónurnar eða töluðu við sjálfar sig. Hvort sem um er að ræða ákvörðun eða yfirsjón þá þótti mér leikstjórinn með þessu neita sér um eitt besta vopnið til að halda athygli áhorfenda og skila þeim verðskuldaðri skemmtan. Herdís hefur víða komið auga á skemmtilegar lausnir í sviðsetningunni, svo sem notkun handbrúða fyrir Karíus og Baktus og aldrei hef ég áður séð ullarsokka notaða jafn markvisst til að túlka hræðslu eins og þeir Hérastubbur og bakaradrengurinn gera hér.
Mikið mæðir á Rannveigu Eir Erlingsdóttur í hlutverki Línu, veislustjóranum á niðjamóti Egners. Hún stendur sig með prýði og hefur ráð allra í hendi sér á áreynslulausan hátt. Mikki refur er að vanda fyrirferðarmikill og fór Magnús Guðfinnsson frábærlega með hlutverkið, væri enn betri ef hann stæði oftar kyrr og horfði framan í áhorfendur. Lilli Klifurmús er einkennilega utanveltu í verkinu en Guðbjörg Pálsdóttir gerði vel og söng afar fallega. Ekki má gleyma hinu harmræna ljóni, Bogi Eggertsson var óborganlega sorgmæddur. Ef þetta var helsta trompið í fjölleikahúsi Jespers þá var ekki von að vel gengi. Soffía frænka var í öruggum höndum Sigríðar Kristjánsdóttur sem sýndi að það þarf hvorki hávaða né æðiber í botni til að sýna vald og kraft.

Leikmynd er einföld og falleg, búningar vel úr garði gerðir og förðun óvenju listilega hugsuð og útfærð, jafnt á dýrum og mönnum. Tónlist var vel flutt, margir ágætir söngvarar í Mosfellsbæ.

Það var ekki annað að sjá og heyra en börn jafnt sem fullvaxnir skemmtu sér í Bæjarleikhúsinu á frumsýningu, enda er alltaf gaman að hitta gamla kunningja, rifja upp nokkur uppáhaldslög og láta galdra sig smá.

miðvikudagur, október 18, 2000

Hátíð morðingjanna

Leikskólinnn
Miðvikudagurinn 18. október 2000

Sýning byggð á tveimur verkum eftir Jean Genet, NáVígi í þýðingu leikstjóra og hóps og Vinnukonunum í þýðingu Vigdísar Finnbogadóttur.
Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson

Fagurfræði minnipokans

HÁTÍÐ morðingjanna er samsteypa leikstjórans og hópsins á tveimur fyrstu leikritum franska leikskáldsins og utangarðsmannsins Jean Genet, Vinnukonunum og NáVígi, sem hópurinn kýs að kalla svo. Þó svo að gera megi ráð fyrir að sú ákvörðun að steypa þeim saman byggist á þörfum og stærð leikhópsins fyrst og fremst, þá fer ekki hjá því að þau varpa líka ljósi hvort á annað og ekki síður hvílíkt stökk list höfundarins tekur frá því fyrra að því síðara.
Viðfangsefni þeirra eru náskyld en umbúðirnar ólíkar. Öfugsnúinn heimur tugthúslimanna í NáVígi þar sem virðing ræðst af ódæðisverkum á sér hliðstæðu í sjálfskipaðri ánauð vinnukvennanna sem fá útrás fyrir hatur sitt á húsmóðurinni með afskræmislegum hlutverkaleikjum, undirferli og svikum. Í báðum verkum skoðar Genet hlutskipti minnipokamannsins og þá skammlífu sáluhjálp sem leita má með speglun eigin eymdar í því sem gæti virst betra líf, en er oftar en ekki tálsýn, til orðin af þörfinni fyrir drauminn.
Með NáVígi sýnir Genet vissulega þá einstæðu sýn og hæfileika sem hann bjó yfir, en það er í Vinnukonunum sem leikhúsformið er orðið honum eiginlegt sem tjáningarmiðill. Þar sem tugthúslimirnir þurfa að orða hugsun höfundar til að hún komist til skila þá nægja honum aðstæður, persónur og atburðir til að ná ætlun sinni í Vinnukonunum. Það er því fróðlegt fyrir áhugamenn um leikbókmenntir að leggja leið sína til Leikskólans. Öðrum ætti að nægja sú ástæða að sýningin er sterk, áhrifarík og prýðilega leikin.
Það er ekkert púður sparað í þessari sýningu. Leikurinn er drifinn áfram með hávaða og látum, stundum á kostnað blæbrigða en alltaf af óþvinguðum sannfæringarkrafti. Fangatríóið var vel samhæft en sérstaklega vil ég minnast á Önnu Svövu Knútsdóttur sem gerði undirlægjunni Maurice góð skil, afstaða og viðbrögð æfinlega skýr. Svo er Önnu greinilega gefnir gamanleikarahæfileikar sem gaman verður að sjá hvað verður úr. Hin yfirdramatíska húsmóðir vinnukvennanna var líka góð hjá henni, þó lögnin orki kannski tvímælis, er ekki hlutskipti þernanna enn nöturlegra ef gæði og mildi frúarinnar eru afdráttarlausari? En skemmtilegt var það.
Agnar Jón hefur valið að fylgja fyrirmælum Genets og fela karlmönnum hlutverk vinnukvennanna. Mörgum hefur þótt sem þetta spenni boga verksins um of, nóg sé af hlutverkaleikjum, blekkingum og feluleik þó „dragspil“ bætist ekki ofaná, en svona vildi Genet hafa það og gaman að sjá því hlýtt. Og þó Arnar Steinn Þorsteinsson og Bjartmar Þórðarson væru ef til vill ekki fullkomlega óþvingaðir í vinnukonubúningunum sínum þá náðu þeir samt að sýna okkur inn í tættan veruleika þess sem lifir lífi sínu í skjóli og til dýrðar öðrum, af illri nauðsyn og þó af eigin hvötum.
Í heild er Hátíð morðingjanna grófslípuð sýning, yfirborðshrjúf en full af lífi og ástríðu. Þess má svo geta að í sönnum Genet-anda er eina leiðin til að nálgast miða á sýninguna að hafa samband við leikstjórann eða aðra aðstandendur hennar.