föstudagur, mars 31, 2006

Hárið

Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum Leikgerð Baltasars Kormáks og Davíðs Þórs Jónssonar á söngleik Geromes Ragnis og James Rados og kvikmyndahandriti Michaels Wellers. Tónlist: Galt MacDermot, þýðing: Davíð Þór Jónsson. Leikstjóri: Þórunn Sigþórsdóttir. Valaskjálf 31. mars 2006

Sveitapiltsins draumur


HÁRIÐ er sívinsælt verkefni fyrir framhaldsskólaleikfélög og það er svo sem ekkert skrítið. Kraftmikil og grípandi tónlist, persónur á líku reki og leikendurnir, nánast ótakmarkaðir möguleikar á þátttakendafjölda, en aðeins nokkur hlutverk sem gera meira en lágmarkskröfur til leiks og söngs.

Og svo eru meira að segja gallar verksins trúlega kostir fyrir marga. Yfirborðskennd glansmynd hans af hippalíferni er samsett af öllum helstu klisjunum sem gaman er að velta sér upp úr í hæfilegri blöndu af einlægni og skopstælingu.

Leikhópur Menntaskólans á Egilsstöðum er ágætlega skipaður og seint verður gert of mikið úr þeirri miklu skólun sem þátttaka í svona sýningu skilar þátttakendum til viðbótar við aðra menntun, og kannski að einhverju leyti í staðinn fyrir hana þegar kröfur leikhússins ýta námsbókunum til hliðar í aðdraganda frumsýningarinnar.

Fremstir í flokki þeir Pétur Ármannsson og Theódór Sigurðsson sem skila bæði leik, söng og persónutöfrum prýðilega í hlutverkum erkihippanna Bergers og Hud. Hákon Unnar Seljan Jóhannsson er sannfærandi mótvægi við þá í hlutverki sveitapiltsins Claude, þótt honum hafi ekki frekar en öðrum sem ég hef séð glíma við hlutverkið tekist að sýna nokkra persónuþróun í rýrt skrifuðum karakternum.

Allir syngja bara nokkuð vel. Hljómsveit vel spilandi þótt kannski hafi bæði hljómur og útsetningar verið í hrárra lagi, smá pönkkeimur kominn af mjúku reykelsismettuðu hippamúsíkinni. Og það er alltaf í sjálfu sér hrósvert þegar menntaskólarnir sjá sjálfir um undirleik stórsjóa sinna en kaupa hann ekki niðursoðinn á geisladisk af fagmönnum með tilheyrandi gerilsneyddri fágun.

Reynsluleysi leikstjórans af sviðsetningum birtist einna helst í dálítið daufri nærveru kórsins sem ekki er nýttur sem skyldi til að gefa alltumlykjandi tilfinningu fyrir tíðarandanum. Búninga á skarann hefur ekki verið neitt áhlaupaverk að útvega en samtíningurinn er auðvitað hvergi jafn viðeigandi og í þessum heimi.

Hárið á Egilsstöðum er allvel lukkuð uppfærsla á verki sem hefur augljósa kosti og skírskotun til þátttakenda og gleður vafalaust stóran hluta áhorfenda sinna ýmist með skírskotun til þekktrar fortíðar eða í það minnsta litríkri tónlist.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Hvað ef?

540 gólf, SÁÁ og Hafnarfjarðarleikhúsið Höfundar: Einar Már Guðmundsson, Valgeir Skagfjörð og hópurinn. Leikstjórn: Gunnar Sigurðsson, leikmynd Þórarinn Blöndal, búningar og förðun: Helga Rún Pálsdóttir. Leikendur: Brynja Valdís Gísladóttir, Felix Bergsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Orri Huginn Ágústson. Hafnarfjarðarleikhúsinu 29. mars 2006.

Fræðið okkur og skemmtið 

„FRÆÐIÐ okkur, skemmtið okkur og ekki skamma okkur.“ Nokkurn veginn þannig hljómuðu óskir grunnskólanemanna sem leikhópurinn á bak við Hvað ef? talaði við í upphafi vinnunnar við sýninguna. Ekki verður annað sagt en þau hafi fylgt þessum fyrirmælum samviskusamlega. Sýningin, sem er ætlað að forða ungum sálum frá fíkniefnabölinu, er fræðandi, fjörug og hreint ekki skömmótt.

Rýni skortir innsýn í þennan menningarkima til að leggja mat á hvort mikið nýjabrum er að nálgun hópsins hvað varðar viðfangsefnið sjálft. Tilfinningin segir mér að svo sé ekki. Þó ár og dagur sé síðan einhverjum þótti ómaksins vert að vara mig við fíkniefnadjöflinum man ég ekki betur en sá áróður hafi einmitt einkennst af hryllingssögum um langt leidda sprautufíkla og áherslu á hvað leiðin er stutt frá fyrsta vínsopanum í ræsið. Einnig sögur um varanlegan skaða og jafnvel dauðsföll eftir skammvinnt fikt með ólögleg fíkniefni. Nú eins og þá er ég efins um aðferðina. Vissulega áhrifaríkar sögur, en ef fókusinn er svona sterkt á verstu dæmin og alvarlegustu möguleikana þarf ekki nema eitt dæmi um einhvern sem ekki fór illa út úr viðskiptum sínum við efnin til að gera göfugan boðskapinn ótrúverðugan.

Í sýningunni er öllum leikhúsmeðulum beitt. Það er sungið og spilað, skjávarpi sýnir blaðafregnir úr fíkniefnaheiminum og skýringarmyndir af heilastarfseminni. Dramatísk eintöl, trúðleikur, persónulegar játningar leikendanna og sögur úr fórum viðmælenda þeirra. Á stundum keyrði sundurgerðin úr hófi, aðallega vegna þess að eitt atriði leiddi ekki eðlilega af öðru innihaldslega séð. Þá er mér til efs að tölfræðilegar upplýsingar hafi áhrif á viðhorf eða ákvarðanir einstaklinga. Mun auðveldara var að tengja sjálfan sig við fróðleik um efnaskipti í heilanum og áhrif eiturefna á þau. Langsterkust voru atriði sem byggðust á frásögnum fíkla, hvort sem leikararnir brugðu sér í hlutverk þeirra eða sögðu frá þeim. Sennilega hefði meira að segja mátt hnykkja enn betur á því í upphafi að um sannar sögur er að ræða.

Hvað leikrænan búning varðar þá er sýningin harla góð. Eitursnjöll (ef svo má að orði komast) leikmyndalausn býr til möguleika á fumlausum og eldsnöggum umbreytingum sem lék í höndum þátttakenda. Öll náðu þau líka að glansa í sýningunni sjálfri þar sem formið gaf tilefni til. Orri Huginn verulega góður í mörgum smámyndum af ógæfuunglingum, Brynja best í hlutverki Jóhönnu sem tengir sýninguna saman. Guðmundur Ingi trúverðugur sem hann sjálfur og Felix líka lipur í samskiptum við salinn.

Að ofangreindum varnöglum um ágæti áróðursleikhúss gefnum er Hvað ef? harla góð sýning. Kannski er aðstandendum hennar fullmikið niðri fyrir á köflum en hún er skemmtileg þegar það á við, dramatísk og átakanleg þegar efni standa til og kveikti greinilega áhuga ungra leikhússgesta.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Emma og Ófeigur

Stoppleikhópurinn Eftir Árna Ibsen í samvinnu við Völu Þórsdóttur og leikhópinn. Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir, leikmynd, búningar og grafík: Guðrún Öyahals, hljóðmynd; Björn Thorarensen og leikhópurinn. Leikendur: Eggert Kaaber, Katrín Þorkelsdóttir og Sigurþór Albert Heimisson. 28. mars 2006

Að vera Hamlet, eða ekki 


STOPPPLEIKHÓPURINN fagnar tíu ára afmæli sínu með þessari sýningu sem á það sammerkt með flestum fyrri verkum hans að vera ætluð börnum og unglingum, en bregður út af vananum að því leyti að henni er ekki ætlað sérstakt fræðsluhlutverk eins og lengst af hefur verið helsta viðfangsefni hópsins.

Reyndar hafa síðustu verk þeirra farið meira inn á þær brautir að kynna fornsögurnar fyrir yngri kynslóðum með aðferðum leikhússins, og mögulega er Emma og Ófeigur rökrétt framhald af þeirri vinnu. Því hér er sjálfur Hamlet lagður til grundvallar. Eitthvert merkasta og margræðasta leikverk sögunnar, byggt á fornri sögu um ungan mann í erfiðri stöðu. Býsna áhugavert viðfangsefni fyrir leikhóp af þessu tagi, lýsir metnaði og vekur upp væntingar.

Því miður verður minna úr efninu en vonir stóðu til. Bæði handrit og sýning eru hálflosaraleg. Allsstaðar glittir í góðar hugmyndir sem ekki tekst að bræða saman í skýra heild. Það er snjallt hjá Árna Ibsen að snúa kynhlutverkunum við, láta Emmu glíma við tilfinningar sínar gagnvart fósturmóður sinni. Þessi umturnan gefur ýmis færi á skemmtilegheitum, ekki síst þegar kemur að þeim Rósinkrans og Gullinstjarna, sem hér eru djammbollurnar Rósa og Gulla. Þá eru spennandi möguleikar fólgnir í hugmyndinni um að nota sýndarheim verðbréfaviðskipta nútímans sem hliðstæðu við leikritið sem Hamlet setur á svið í verki Shakespeares til að svæla morðingja föður síns úr greninu.

En úrvinnsla þessara skemmtilegu hugmynda hefur ekki komist alveg nógu langt. Verkið verður það brotakennt að sagan sem sögð er verður tæpast nógu skýr til að standa ein og óstudd án innsýnar í frumverkið. Hlutverk draugsins, en þó sérstaklega Ófeigs (Ófelíu) nær til að mynda ekki að lifa sjálfstæðu lífi í sýningunni. Leiklausnin er líka ófullnægjandi. Eftir stendur tilfinning um góða hugmynd, ónýtta möguleika og ósk um að ekki verði látið staðar numið hér við að þroska hana.

Úrvinnsla Ágústu og leikhópsins hjálpar síðan ekki nægjanlega upp á sakirnar. Efnistök hópsins ýkja eiginlega miklu fremur upp brotakennt eðli handritsins. Stundum skilar slík leið skemmtilegri misklíð, en það næst ekki hér og þó það sé fánýtt að vera vitur eftir á þá vekur útkoman grun um að þveröfug leið einfaldleika og kyrrðar hefði byggt betur undir persónurnar og styrkt framvinduna.

Eins og með handritið eru tilteknar hugmyndir í uppfærslunni bráðskemmtilegar, ekki síst óvenjuleg útfærslan á föður Emmu, sem ekkiverður ljóstrað upp hér hvers eðlis er. Reyndar saknaði ég atriða þar sem samband þeirra feðgina væri sýnt, en í staðinn fáum við snjalla og táknræna mynd af hinum sterka og þögla heimilisföður sem síðar gefur kost á hroðalegum endalokum.

Katrín Þorkelsdóttir hefur myndugleika og fallega nærveru í hlutverki Emmu, gefur skýrt í skyn bæði styrk persónunnar og veikleika. Eggert Kaaber lætur vel að sýna lágan status á eðlilegan en um leið spaugilegan hátt, en nær ekki að yfirvinna óskýran tilgang Ófeigs í verkinu. Sigurþór Albert Heimisson nýtur sín greinilega sem vonda stjúpan Geirþrúður þó óöryggis hafi gætt nokkuð í þeim atriðum sem báru mest spunaeinkenni.

Umgjörð sýningarinnar er afar skrautleg, búningar sundurgerðarlegir án þess að þeir hafi skýra sögn, myndvarpar eru notaðir óspart en á óræðan hátt og það sama má segja um háværa tónlistina.

Það er mikið að sjá og skynja í Emmu og Ófeigi, fullt af misdýrum bröndurum og fyrir þá sem þekkja Hamlet er gaman að elta uppi hliðstæður og andstæður. Skýrari uppbygging frásagnarinnar, og/eða nákvæmari og hófstilltari beiting sviðsmeðala hefði gert sýninguna að heildstæðara listaverki.

föstudagur, mars 24, 2006

Sister Act

Leikfélag Vestmannaeyja og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum Byggt á kvikmyndinni Sister Act. Handrit og leikstjórn: Laufey Brá Jónsdóttir, kórstjóri Helga Jónsdóttir. Bæjarleikhúsinu í Vestmannaeyjum 24. mars 2006.

Klausturlíf

MERKILEGT hvernig hugmyndir ferðast. Allt í einu dettur tveimur leikfélögum í hug að ráðast í sviðsgerðir af bíómyndum sem eru framhald hvor af annarri. Bæði sjá í þeim skemmtilegt efni og hentuga samsetningu. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ velur Sister Act II, væntanlega vegna þess að hún gerist í skóla og fullorðnar nunnur eru þar ekki í forgrunni. Leikfélag Vestmannaeyja sér hinsvegar kærkomið tækifæri til að hleypa öflugum leikkvennahóp sínum á svið með því að vinna upp úr fyrri myndinni um söngkonuna lífsreyndu, þar sem henni er komið fyrir nauðugri viljugri í nunnuklaustri til að leyna henni fyrir glæpalýð sem vill hana feiga. Þó efnið sé svo sem ekki burðugt og sá siður að vinna leikverk upp úr kvikmyndum óðum að verða hvimleiður þá tekst báðum þessum hópum að skapa ágætisskemmtiverk.

Stóri kosturinn við sýningu Leikfélags Vestmannaeyja er nunnuskarinn. Þær eru satt að segja alveg dásamlega skemmtilegar í sínu lífsglaða sakleysi. Laufey Brá hefur unnið frábært starf við að hlúa að persónueinkennum hverrar og einnar auk þess sem þær virka afar vel sem hópur með sameiginleg einkenni. Andstæða þeirra, hin harðskrápaða kabarettsöngkona Díanna Díor er vel kominn hjá hinni þaulreyndu Ástu Steinunni Ástþórsdóttur og abbadísinni er ágætlega skilað af Guðnýju Kristjánsdóttur.

Leikfélag Vestmannaeyja er ekki frekar en mörg önnur félög jafnvel búið körlum og konum og óneitanlega eru hinir harðsvíruðu glæpamenn heldur í yngri og saklausari kantinum. Skemmtilegir samt, sem og presturinn. Á öðrum pósti er Leikfélagið í Eyjum þó betur statt en velflest önnur: þau hafa hringsvið, sem er vel og skynsamlega nýtt til að leysa þann vanda sem kvikmyndastrúktúr skapar einatt leikhúsfólki og flytur okkur hratt og fumlaust milli staða. Flugvélin var til að mynda leyst á bráðsnjallan hátt og tæknilegir hnökrar henni fylgjandi juku bara á kátínuna. Tónlistarflutningur harla góður, þó svo fagurkerar á hljómburð hefðu væntanlega kosið eilítið jafnara „sánd“.

Allur tónn sýningarinnar er afslappaður og vakti sýningin mikil og almenn fagnaðarlæti í félagsheimilinu þegar gagnrýnandi sá hana. Nunnulíf í Eyjum er lifandi og bráðskemmtileg sýning sem vermir hjartað. Ágætur árangur það.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Hárið

Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum Leikgerð Baltasars Kormáks og Davíðs Þórs Jónssonar á söngleik Gerome Ragni og James Rado og kvikmyndahandriti Michael Weller. Tónlist: Galt MacDermot, þýðing: Davíð Þór Jónsson. Leikstjóri: Þórunn Sigþórsdóttir.

Sveitapiltsins draumur 


HÁRIÐ er sívinsælt verkefni fyrir framhaldsskólaleikfélög og það er svo sem ekkert skrítið. Kraftmikil og grípandi tónlist, persónur á líku reki og leikendurnir, nánast ótakmarkaðir möguleikar á þátttakendafjölda, en aðeins nokkur hlutverk sem gera meira en lágmarkskröfur til leiks og söngs.

Og svo eru meira að segja gallar verksins trúlega kostir fyrir marga. Yfirborðskennd glansmynd hans af hippalíferni er samsett af öllum helstu klisjunum sem gaman er að velta sér upp úr í hæfilegri blöndu af einlægni og skopstælingu.

Leikhópur Menntaskólans á Egilsstöðum er ágætlega skipaður og seint verður gert of mikið úr þeirri miklu skólun sem þátttaka í svona sýningu skilar þátttakendum til viðbótar við aðra menntun, og kannski að einhverju leyti í staðinn fyrir hana þegar kröfur leikhússins ýta námsbókunum til hliðar í aðdraganda frumsýningarinnar. Fremstir í flokki eru þeir Pétur Ármannsson og Theódór Sigurðsson sem skila bæði leik, söng og persónutöfrum prýðilega í hlutverkum erkihippanna Bergers og Hud. Hákon Unnar Seljan Jóhannsson er sannfærandi mótvægi við þá í hlutverki sveitapiltsins Claude, þótt honum hafi ekki frekar en öðrum sem ég hef séð glíma við hlutverkið tekist að sýna nokkra persónuþróun í rýrt skrifuðum karakternum.

Allir syngja bara nokkuð vel. Hljómsveit vel spilandi þótt kannski hafi bæði hljómur og útsetningar verið í hrárra lagi, smá pönkkeimur kominn af mjúku reykelsismettuðu hippamúsíkinni. Og það er alltaf í sjálfu sér hrósvert þegar menntaskólarnir sjá sjálfir um undirleik stórsjóa sinna en kaupa hann ekki niðursoðinn á geisladiska af fagmönnum með tilheyrandi gerilsneyddri fágun. Reynsluleysi leikstjórans af sviðsetningum birtist einna helst í dálítið daufri nærveru kórsins sem ekki er nýttur sem skyldi til að gefa alltumlykjandi tilfinningu fyrir tíðarandanum.

Búningar á skarann hefur ekki verið neitt áhlaupaverk að útvega en samtíningurinn er auðvitað hvergi jafn viðeigandi og í þessum heimi.

Hárið á Egilsstöðum er allvel lukkuð uppfærsla á verki sem hefur augljósa kosti og skírskotun til þátttakenda og gleður vafalaust stóran hluta áhorfenda sinna ýmist með skírskotun til þekktrar fortíðar eða í það minnsta litríkri tónlist.

föstudagur, mars 17, 2006

Íslenski fjölskyldusirkusinn

Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð. Spunaverk unnið undir stjórn Sigrúnar Sólar Ólafsdóttur. Aðstoðarleikstjóri: Árni Grétar Jóhannsson, tónlistarhöfundur: Helgi Rafn Ingvarsson, búningar:
Anna Sigríður Skarphéðinsdóttir, Kristjana Birna Birgisdóttir og Stefanía Ósk Ómarsdóttir. Verinu í Loftkastalanum 17. mars 2006.

Heima er best

ENGIN heilög kýr nýtur annarrar eins skilyrðislausrar virðingar og fjölskyldan. Ef fá á stóran hóp af fólki til að kinka kolli er eitt besta ráðið að segja eitthvað jákvætt um fjölskylduna, fjölskyldugildi og hvað miklu skipti að standa vörð
um hana.

En „fjölskylda“ er vitaskuld siðferðilega hlutlaust fyrirbæri. Þó svo að hin fullkomna fjölskylda sé vitaskuld eftirsóknarverð þá skyldi ekki gleymast að
griðastaðurinn heimilið er því miður stundum ekkert annað en afgirt veiðisvæði fyrir illvirkja og ofbeldismenn. Og eitt af því magnaðasta við grunnhugmynd Íslenska fjölskyldusirkussins er sú staðreynd að þótt sirkusnum og og fjölskyldunni sé stillt upp sem andstæðum þá eru samkennin líka til staðar.

Sirkusinn snýst um yfirborð, þá framhlið sem snýr að áhorfendum. Og þau hryllingshús sem er sýnt inn í í sýningunni eru að sama skapi upptekin af því að varpa falsmynd af ástandinu til umhverfisins. Grunnhugmynd Íslenska fjölskyldusirkusins er hreint frábær. Í sirkusi einum fyllast skemmtikraftarnir þrá eftir venjulegu fjölskyldulífi.

Sirkusstjórinn hefur nasaþef af svoleiðis og býður þeim frelsi sem getur fundið eina hamingjusama fjölskyldu. Eftir það skiptast á svipmyndir af fimm fjölskyldum sem allar hafa sinn djöful að draga og skrautleg sirkusatriði, en við fáum einnig óvænta innsýn í fjölskyldulíf innan fjölleikahússins
sjálfs.

Þetta er bráðskemmtilegt form. Hópurinn fékk leiðsögn í sirkuslistum og á nokkra ágæta spretti í þeim, en þó verður þessi þáttur sýningarinnar óneitanlega bragðminni en hversdagsatriðin. Ræður þar mestu skiljanlegt reynsluleysi, en einnig hefði mátt stytta þau atriði og þétta. Kostir þessara atriða; litagleðin og krafturinn og snjöll notkun rýmisins, hefði notið sín enn betur með hæfilegum niðurskurði.

Sýningin er glæsileg útlits. Búningar hreint listaverk og hráslagalegt rýmið í Héðinshúsinu nýtt á magnaðan hátt. Hljóðmyndin einstaklega vel útfærð og frumsaminn hluti hennar lofar svo sannarlega góðu með framtíð Helga Rafns. Sigrún Sól hefur áður sýnt að henni lætur bæði vel að laða fram ótrúlega þroskaðan og innlifaðan leik hjá nýgræðingum á sviði, án þess að fórna kraftinum og stjórnleysinu sem í reynsluleysinu býr.

Þessir góðu eiginleikar eru áberandi í sýningunni. Svipmyndirnar úr fjölskyldulífinu eru frábærlega unnar. Spuninn skilar margflata og sönnum persónum og handrit hvers þáttar er síðan yddað þar til ekkert stendur eftir af óþarfa. Morgunverðurinn á heimili barnaníðingsins, fatlaða stúlkan að reyna að horfa á sjónvarpið með ofvirkum bróður sínum, mæðgurnar að takast á við skrópasýki dótturinnar, uppgjörssenan í fjölskyldu þingkonunnar, heimkoma dóttur lögmannsins með útlenda kærastann. Allt saman eins og best verður á kosið í leikhúsi. Fyndið, grimmt, nákvæmt, satt.

Ég ætla að stilla mig um að hrósa einstökum leikurum, þó að margir hafi skilað eftirminnilegum tilþrifum. Læt nægja að geta þess að ég hef fáar sýningar séð þar sem jafn stór hópur skilar jafn góðu jafnvægi milli stjórnlausrar orku og agaðrar nákvæmni. Að hópurinn skuli geta þetta svona ungur er ekkert minna en kraftaverk. Kannski er það fjölskyldum þeirra að þakka, það er ómögulegt að segja og skiptir ekki máli. Íslenski fjölskyldusirkusinn er einhver eftirtektarverðasta sýningin á fjölum borgarinnar í dag.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Blessað barnalán

Leikdeild Umf. Biskupstungna Höfundur: Kjartan Ragnarsson, leikstjóri: Gunnar Björn Guðmundsson, leikmynd og búningar: Gréta Gísladóttir og Guðfinna Jóhannsdóttir. Aratungu 14. mars 2006.

Fjör á fjörðum austur 

FYRIR þá sem séð hafa Blessað barnalán nokkrum sinnum, og það er næsta óhjákvæmilegt hlutskipti íslensks leiklistargagnrýnanda sem skrifar eitthvað um áhugaleikhús, er alltaf nokkur eftirvænting að sjá búningana. Nánar tiltekið skyrturnar og stuttbuxurnar sem persónurnar koma hróðugar í úr verslunarferðum sínum í kaupfélag staðarins þar sem verkið gerist. Hversu hallærislegar verða flíkurnar? Leikdeild Umf. Biskupstungna féll svo sannarlega ekki á þessu prófi í prýðilegri uppfærslu sinni á þessu ástsælasta gamanleikriti Íslandssögunnar.

Vinsældir Blessaðs barnaláns virðast hreint ekki í rénun þó verkið sé orðið hátt í þrjátíu ára gamalt. Eins og önnur klassísk verk þá eru það tímalausu eiginleikarnir sem halda í því lífinu. Elskulegar og einfaldar persónurnar, lipur og áreynslulítil fléttan. Og enn er víst áreiðanlega ástæða til að skopast að skeytingarleysi og tilætlunarsemi fólks gagnvart sér eldri kynslóðum. Svo er annað sem getur virkað annkannalegt í nútímanum eins og gengur.

Eitt af því hefur verið gróðavonin sem börnin sjá þegar æskuheimilið verður selt. En núna er allt í einu ekkert sjálfsagðara en peningaglýja leggist yfir augu fólks sem skyndilega eignast fasteign í litlum bæ fyrir austan. Sýningin er hefðbundin mjög, enda engin ástæða til að bregða fyrir sig stælum eða stílfærslu með svona náttúrulega skemmtilegt verk í höndunum.

Leikmyndin frábær í öllum smáatriðum, sviðsetningin að mestu leyti lipur og Gunnar Björn stillir sig sem betur fer um að gera of mikið úr farsaeiginleikum verksins. Þeir sjá um sig sjálfir og betra að draga fram persónurnar og einkenni þeirra en einhvern innistæðulítinn fyrirgang.

Af leikendum vekja mesta hrifningu Íris Blandon sem ættmóðirin og Guðný Rósa Magnúsdóttir sem var óborganlega gróf og kraftmikil sem Bína á löppinni. Camilla Ólafsdóttir fer lipurlega með burðarhlutverkið Ingu. Þá er Egill Jónasson alveg stórskemmtilegur sem hinn seinheppni en velmeinandi séra Benedikt.

Blessað Barnalán hjá leikdeild Umf. Biskupstungna er fjörug og fyndin sýning á skemmtilegu leikriti og hlægir gesti sína svikalaust. Til þess er leikurinn gerður.

sunnudagur, mars 12, 2006

Sódóma

Thalía, Leikfélag Menntaskólans við Sund Leiksýning byggð á kvikmynd Óskars Jónassonar. Leikstjórar: Aino Freyja Järvelä og Hrefna Hallgrímsdóttir. 12. mars 2006.

Smákrimmagrín

SKÓLALEIKFÉLÖGIN sækja í kvikmyndirnar sem aldrei fyrr. Leikfélag Menntaskólans við Sund vann út frá ástsælustu gamanmynd Íslandssögunnar í fyrra og snúa sér eðlilega núna að þeirri næstskemmtilegustu. Eða skemmtilegustu, myndu sumir segja.

Ef íslenski meikdraumurinn í Með allt á hreinu er hallærislegur þá eru undirheimar Reykjavíkur í Sódómu hálfu vesælli. Fyrir nú utan að forsendum beggja mynda hefur eiginlega verið kippt í burtu. Sífellt fleiri íslenskar hljómsveitir standa sífellt fagmannlegar að útrás sinni, og Arnaldur og félagar hafa gert íslenskar glæpabókmenntir sannfærandi. Samt eru báðar myndir ennþá fyndnar.

En flutningurinn af tjaldi á svið er ekki þrautalaus og tekst því miður ekki nógu vel hér, þrátt fyrir að leikstjórar og hópur taki sér nauðsynlegt frelsi frá myndinni hvað varðar atburðarás og einstök atriði. Sviðsetninguna skortir tilfinnanlega snerpu og þótt það hafi verið reynandi að hafa leikmyndina jafn naumhyggjulega og raun bar vitni þá gerir hún þá miskunnarlausu kröfu til leikendanna að þeir haldi athygli áhorfandans þrátt fyrir allt sjónræna áreitið og óreiðuna.

Svið Loftkastalans útheimtir hreinni bakgrunn og skipulegri notkun á rýminu en leið Aino og Hrefnu býður upp á. Mér þykja leikstýrurnar heldur ekki hafa stýrt sínu óvana liði nægilega vel. Hópurinn er greinilega lítt reyndur, en klárlega hæfileikar innan um.

Mögulega er það því að kenna að efnið er sótt í kvikmynd að leikstíllinn er almennt of tilþrifalítill, of lágt talað og of lítil meðvitund um að „senda“ út í sal það sem verið er að gera. Það næst ekki nógu hátt spennustig milli sviðs og salar.

Eins og gjarnan í menntaskólasýningum er það dans og söngur sem er fagmannlegast leystur. Hér er hljómsveit af holdi og blóði á sviðinu með þeim kostum og göllum sem því fylgir miðað við undirleik af bandi. Söngur kraftmikill og dans fallegur.

Af leikurum vekja mesta athygli Hólmgeir Reynisson sem gerir smákrimmann góðhjartaða, Ella, að stærri persónu en hlutverkið gefur tilefni til. Ingi Steinn Bachmann er einna kröftugastur sem sprúttsalinn Aggi. Einnig er miðpunktinum Axel ágætlega borgið hjá Karli Sigurðssyni. Þá er Edda Rut Þorvaldsdóttir allgóð sem hin óþolandi mamma.

Sódóma Thalíu býr að sumum kostum menntaskólasýninga. Hrá, á köflum fyndin og í tónlistaratriðum kraftmikil. Meiri skerpa og snerpa hefði gert hana ansi góða. Og hún fékk mig til að langa til að sjá myndina aftur til að athuga hvernig hún hefur staðist tímans tönn.

laugardagur, mars 04, 2006

Pétur Gautur

Höfundur: Henrik Ibsen. Þýðandi: Karl Ágúst Úlfsson. Leikmynd: Gretar Reynisson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Páll Ragnarsson. Hljóðmynd: Sigurður Bjóla og Ester Ásgeirsdóttir. Leikstjóri og höfundur leikgerðar: Baltasar Kormákur. Leikendur: Björn Hlynur Haraldsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson og Ólafur Darri Ólafsson. Frumsýnt í Kassanum, litla sviði Þjóðleikhússins, 4. mars 2006

Aaahhh …


TIL skýringar skal þess getið að „aaaahhh“ … er alþjóðlegt fræðihugtak og notað um tilfinninguna sem fer um áhorfendur, sérstaklega gagnrýnendur, þegar þeim er komið ánægjulega á óvart.

Síðustu afrek Baltasars í túlkun klassískra verka í Þjóðleikhúsinu gáfu mér satt að segja ekki tilefni til bjartsýni varðandi uppfærslu hans á Pétri Gaut. Það sama má segja um þá sérkennilegu fullyrðingu hans í viðtali í tímariti Þjóðleikhússins, Fjórða veggnum, að sýningin væri „spuni út frá verki Ibsens“. Eins hringdu aðrar yfirlýsingar hans í viðtalinu aðvörunarbjöllum, þar sem hann reynir í löngu máli að fría sig allri gagnrýni sem lýtur að því að sýningin taki ekki nægilegt mið af verki höfundarins.

Það var því áhyggjufullur aðdáandi verksins sem settist niður í nýja kassanum Þjóðleikhússins á laugardagskvöldið og beið óþreyjufullur meðan mannvirkið var vígt. Yrði þetta enn ein sýningin þar sem leikstjóri og verk fara á mis? Þar sem leikstjórinn hefur enga trú á efnivið sínum, en langar að segja eitthvað sem ekki er að finna í verkinu og útkoman er flatneskja þar sem hvorki höfundur né leikstjóri nær nokkru sambandi við áhorfendur?

Ónei. Hér gengur allt upp.

Leikritið er eitthvert það magnaðasta sem skrifað hefur verið, alveg áreiðanlega meistaraverk Ibsens. Hef aldrei skilið hvernig hann nennti að skrifa stofudrömun sín eftir þetta margslungna og risavaxna leikljóð um flóttann frá og leitina að sjálfum sér.

Þýðing Karls Ágústs er frábær. Lipurlega kveðin, snjöll og hnyttin og – frumskilyrði ljóðleikjaþýðinga – nægilega auðskilin til að hugsunina í henni megi grípa í fyrstu atrennu. Það hjálpar að hugsunin í verkinu er ekki snúin, bara djúp.

Grunnhugsun og handritsvinna leikstjórans og samstarfsfólks hans er glæsilegt verk. Leikrit eins og Pétur Gautur kallar á styttingu og umstöflun og þolir hana vel. Útkoman hér er afskaplega skýrt ferðalag í gegnum ævi lygalaupsins og smámennisins, sem hefst á dauðastund hans og sýnir í vel völdum svipmyndum hvers vegna örlög hans eru að „leysast upp í læðing“ í deiglu hnappasteyparans. Eilíft líf er ekki til, því miður, og verkefnið er að sætta sig við deigluna. Að verða sjálfum sér líkur er að deyða sjálfan sig. Pétur Gautur er fyrsta búddíska leikritið á Vesturlöndum.

Innblásin samþjöppunarhugmynd hjá Baltasar að slá saman brúðinni á Heggstað og Sólveigu, og síðar Afstyrminu og Beygnum. Gerir ekkert nema styrkja sýninguna.

Leikmynd Gretars Reynissonar er eitursnjöll og styður fullkomlega við grunnhugsun leikstjórans. Hvíta flísaumhverfið með plasttjöldunum sem opna og loka rýmum til hliðar og aftan til tekur áreynslulaust á sig mynd líkhúss, fiskvinnslu, elliheimilis, gufubaðs og geðsjúkrahúss. Og hljóðið sem heyrist í hvert skipti sem líkbörunum er rennt eftir gólfinu er eins og fjarlægar þrumur. Magnað.

Tónlistarnotkun hófstillt og hugmyndarík, lýsing Páls Ragnarssonar áhrifamikil, búningar Helgu I. Stefánsdóttur látlausir, stílhreinir og réttir.

Það sem einkennir sýninguna alla er að hún nær að vera bæði alveg raunsæ en gefa um leið undir fótinn þeim táknrænu vísunum sem búa í verkinu. Það er ótrúlega sjaldgæft að sjá sýningu á klassísku verki með heimspekilegu innihaldi tekna þannig tökum. Enginn hátíðleiki, engin mötun á innihaldinu. Bara saga af fólki sem lendir í lífinu eins og það gerist verst. Ef hópurinn nálgast verkið með opin augu og finnur samhljóm milli þess og hugmynda sinna mun boðskapurinn sjá um sig sjálfur.

Til viðbótar við skýra og sterka grunnhugsun er sýningin síðan algerlega morandi af einstökum snjöllum hugmyndum og lausnum sem freistandi er að telja upp og lýsa til að færa rök fyrir máli sínu. Það ætla ég samt ekki að gera og spilla fyrir upplifun leikhúsgesta. Verð þó að segja að nuddolían í vopnasöluatriðinu kom út á mér gæsahúð, innkoma Sólveigar eftir dofraævintýri Péturs er einhver fallegasta skyndimynd sem ég hef séð í leikhúsi og mikið var gaman að sjá fisk á íslensku leiksviði, þótt það hefði verið ómaksins vert að kenna sumum leikurunum handtökin við flökun.

Og víkur þá sögunni að leikurunum. Sá óhátíðlegi blær sem einkennir sýninguna gefur þeim færi á fínlegri og blæbrigðaríkri nálgun sem þau nýta sér af stakri snilld. Allir blómstra. Engum skilar þessi afslöppun betri forgjöf en Birni Hlyni, sem verður ákaflega trúverðugur ráðvilltur strákur með of liðugan talanda og óþarflega þróaða hæfileika til að stytta sér leið í lífinu. Ég er ekki viss um að Björn hefði notið sín í hástemmdari sýningu, og sennilega á hann eftir að ná betri tökum á ljóðmálinu sem stundum tók af honum völdin eins og illa tamið hreindýr. En í samhengi sýningarinnar skilar túlkun Björns sannfærandi Pétri sem stendur okkur nærri.

Ingvar E. Sigurðsson er magnaður í sínum tveimur hlutverkum, hnappasteyparinn kaldur og fagmannlegur, afkvæmi Gauts og dofradóttur enn eitt dæmi um magnaða líkamstjáningu Ingvars. Dofradóttirin afar eðlileg hjá Guðrúnu S. Gísladóttur og faðir hennar mergjaður eins og við mátti búast af Ólafi Darra. Þrumuraust hans ekki verið nýtt á jafn áhrifaríkan hátt síðan í Rómeó og Júlíu. Ólafur Egill Egilsson brillerar sem sá magri og enginn stendur honum á sporði í meðferð bundins máls. Edda Arnljótsdóttir skilar sínum litlu pörtum óaðfinnanlega.

Brynhildur Guðjónsdóttir er auðvitað yndisleg Sólveig, fínleg og draumkennd en líka raunveruleg. Senan þeirra Björns þegar þau hafa ruglað reytum er ákaflega falleg, en líka algerlega raunsæ. IKEA-draumur.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir hefur ekki hreyft jafn rækilega við mér síðan í Ljósi heimsins. Hin meðvirka móðir Péturs verður algerlega heilsteypt persóna í þessum þremur senum sem hún sést í og lokasenan hennar er svo falleg, skopleg og sönn að kökkur myndast í hörðustu karlmannshálsum.

En að öllum einstaklingsafrekum slepptum er samvinna leikhópsins mikilvægasta einingin í því að gera sýninguna svona áhrifaríka. Um leið og einhver sleppir keflinu er sá næsti búinn að grípa það. Hærra, hraðar, alla leið í mark.

Pétur Gautur Baltasars og Þjóðleikhússins er besta sýning á klassísku verki sem ég hef séð.

föstudagur, mars 03, 2006

Virkjunin

Þjóðleikhúsið Virkjunin Höfundur: Elfride Jelinek. Þýðandi: Hafliði Arngrímsson, aðlögun: María Kristjánsdóttir, söngtextar: Davíð Þór Jónsson. Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir, leikmynd: Sigurjón Jóhannesson, búningar: Filippía I. Elísdóttir, tónlistarstjórn og undirleikur: Jóhann G. Jóhannsson, sviðshreyfingar: Auður Bjarnadóttir. Leikendur: Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Ármann Guðmundsson, Baldur Trausti Hreinsson, Björgvin Franz Gíslason, Elís Phillip Scobie, Gísli Pétur Hinriksson, Hjalti Stefán Kristjánsson, Ísak Eiríksson, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, María Pálsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Ólafur Steinn Ingunnarson, Páll S. Pálsson, Rúnar Freyr Gíslason, Sólveig Arnarsdóttir, Þórunn Clausen og Þórunn Lárusdóttir. Stóra sviðið 3. mars 2006.

Textaleikhúsið

HVAÐ gerir leikhús sem er óöruggt með sig? Hvernig bregst það við þegar því þykir það vera fast í hjólfari forms og hefða, grunar að heimurinn sé orðinn of flókinn og tættur til að hægt sé að segja nokkuð af viti um hann í þessum skrítna kassa sem vantar í aðra hliðina? Hvað taka listamennirnir til bragðs þegar þeim finnst þeir ekki vera afl sem eftir er tekið í umræðunni og eru kannski orðnir dálítið leiðir á hefðbundnum aðferðum og efnistökum?

Þeir búa til sýningar eins og Virkjunina. Sýningu þar sem bæði er reynt að gera form- og innihaldsbyltingu. Endursemja reglubókina um hvað leikhús er, og á sama tíma taka til umfjöllunar brýnustu viðfangsefni nútímans. Í vissum skilningi ná Þórhildur Þorleifsdóttir og hennar fólk báðum þessum markmiðum. Og í öðrum mistekst þeim á hvorum tveggja vígstöðvum.

Mikið hefur verið látið með höfund verksins og talað um þá athyglisverðu ákvörðun hennar að skrifa einfaldlega ógrynni af texta fyrir örfáar raddir og láta leikhúsfólkinu eftir að laga efniviðinn að sínum þörfum og áhuga. Taka ákvarðanir um hvaða persónur tala, og hvað mikið er nýtt af hráefninu. Ýmis ummæli aðstandenda sýningarinnar benda til að þeim þyki þetta harla athyglisvert, gott ef ekki til eftirbreytni. Upphaf sýningarinnar þar sem höfundurinn situr við vinnu sína, kynnir sig og afhendir verkið leikhópnum með „notkunarleiðbeiningum“ bendir til að þeim þyki þetta svo nýstárlegt að áhorfendur þurfi sérstakan stuðning inn í verkið, nokkuð sem hefur ekki þurft þegar verkum annarra skálda er umstaflað. Reyndar þykir mér þessi ráðstöfun bæði hallærisleg og algerlega óþörf. Elfride Jelinek skrifaði skáldverk í beinni ræðu fyrir nokkrar raddir og í stað þess að gefa það út ákvað hún að bjóða það leikhúsfólki til meðferðar. Hér er einfaldlega um leikgerð að ræða. Og þær þekkjum við íslenskir leikhúsgestir mæta vel.

Það er utanaðkomandi náttúrulega ógerningur að átta sig á hvar verkaskipti Jelinek, Maríu Kristjánsdóttur leikgerðarhöfundar og Þórhildar leikstjóra liggja. Hver ákvað að þrír leikarar skiptu milli sín texta Geitapéturs, og Heiðurnar væru líka þrjár? Það er sérstaklega snúið að leggja mat á framlag Maríu, sem býr til leikhandrit úr textahlemmi Jelinek. Mjög margt af því sem mótar sýninguna í grundvallaratriðum eru áreiðanlega leikstjórahugmyndir, afstaða persóna til þess sem þær segja, búningar jafnvel, því eiginlegri persónusköpun hefur að mestu verið ýtt til hliðar og týpur settar í þeirra stað. Þetta er allt saman mjög litríkt og fjölbreytt, og þrátt fyrir að engin saga sé sögð er nokkuð klár undirliggjandi framvinda, frá því upp vekjast verkfræðingar með drauma þar til martraðarkennd afmælisveisla virkjunarinnar er haldin í lokin.

Virkjunin er sýning vitsmunanna. Þegar persónusköpun, þróun, sögu, dramatískum samskiptum er fórnað verður það sem eftir stendur allsráðandi. Hér er það predikun. Virkjunin er sýning textans.

Hið brotakennda form sýningarinnar hefur á sér revíublæ sem enn magnast við tónlistarnotkunina. Sönglögin sem frá allsendis gamaldags sjónarhóli voru afbragðsvel útsett af Jóhanni G. og skörulega flutt, sérstaklega Schubert-kórarnir. Textar Davíðs Þórs beittir og hnyttnir en áttu sinn þátt í því að þar sem umræðuefnið eru samtímamálin þá var á stundum engu líkara en maður væri staddur við upptöku á óvenju lítið fyndnu áramótaskaupi.

Textinn í Virkjuninni er margslunginn, flókinn, þvælinn. Það sem heldur í honum lífinu er ástríða höfundarins, auðheyrð þörf hennar til að skoða samtíma sinn og sögu þjóðar sinnar og gefa skýrslu úr þeirri skoðunarferð. Þórhildur og María leggja vitaskuld áherslu á að tengja verkið framkvæmdunum miklu á Kárahnjúkum og íslenskri stóriðjustefnu og það gengur að miklu leyti upp, sérstaklega í einhverju besta atriði sýningarinnar, ræðu hins pelsklædda ráðherra, sem Nanna Kristín leikur, um ágæti virkjunar og náttúru. En á köflum er samt þjóðarsálgreining höfundar of austurrísk til að hitta beint í það mark.

Þótt hið miðlæga viðfangsefni sé stórvirkjun sem reist var í Ölpunum á eftirstríðsárunum og það viðhorf til náttúrunnar sem birtist í slíkri beislun þá beinir Jelinek sjónum sínum um víðara svið. Kapítalismi, kynjapólitík, neysluþjóðfélagið, íþróttamannadýrkun. Þessir þættir eru sammannlegir, í það minnsta samvestrænir og eiga því ekki síður erindi við okkur en virkjanaræðurnar. Stundum hittir höfundur í mark, sumt kveikir sennilega hugmyndir, oftast er hún fyrst og fremst óljós. Og aldrei þótti mér sem verið væri að segja eitthvað sem ekki mætti finna með því að fletta í gegnum svo sem eins og mánaðarskammt af Mogganum, horfa á Silfur Egils og lesa nokkur vel valin blogg þar sem virkjunum, kapítalisma, neysluhyggju, sexisma og alþjóðavæðingu er lesinn pistillinn.

Virkjunin nær semsagt klárlega því markmiði að vera augljóslega um, og innblásin af, heitustu umræðuefnunum. En hún hefur fjarskalega lítið nýstárlegt, eftirminnilegt, ögrandi eða áhugavert um þau að segja.

Virkjunin nær heldur ekki að leysa það sem ég upplifi sem stærsta vanda beinskeytts pólitísks leikhúss; hún er sérsniðin fyrir þá sem eru sammála því sem kemur fram í henni. Á ensku er talað um að predika yfir kórnum. Það er í sýningunni allri yfirlætistónn besservissersins, sem er illþolandi nema maður sé sammála honum í meginatriðum og getur hlegið að þvi hvað hinir eru mikil fífl. Hvers vegna ætti einhver sem hefur aðra sýn á fyrrupptalin umræðuefni að sitja undir þessu? Hvers vegna ætti hann að borga sig inn?

Þetta yfirlætislega viðhorf er innbyggt í textann en gegnsýrir líka alla sýninguna. Leikstíllinn er háðskur, óinnlifaður, groddalegur í fyrrnefndum áramótaskaupsstíl. Nær að vera skemmtilegur á köflum en verður fljótlega þreytandi. Þegar verkfræðingarnir í fyrri hlutanum setja á sínar ógurlegu ræður um köllun sína þá segir afstaða leikaranna: „óskaplega er ég vitlaus að hafa þessar kjánalegu skoðanir.“ Auðvitað má gera svona, en mig grunar að áhrifamátturinn hefði orðið meiri ef stólpaleikararnir Arnar, Atli og Baldur Trausti hefðu staðið með sínum mönnum og látið áhorfendum eftir að koma auga á sprungurnar í viðhorfum þeirra. Það fær Ólafur Steinn að gera í litlu atriði þar sem ungur maður hreyfir andmælum. Og gerir vel. Engin skopfærsla þar, nema eigi að skilja Che Guevarabolinn sem slíkan.

Það sterkasta við frammistöðu leikhópsins verður að teljast vald hans yfir textanum og víðast hvar hugvitssamleg vinna við að kalla fram blæbrigði í flaumnum. Í svona sketsakenndri sýningu eiga flestir sín góðu hlutverk og önnur sem ekki skilja neitt eftir. Þær María, Sólveig og Þórunn Clausen eru skemmtilegar Heiður. Þórunn Lárusdóttir sannfærandi skáldkona, ekki henni að kenna hvað það er barnaleg hugmynd að hafa hana með. Konurnar í sýningunni reyndar allar flottar í ágætlega sniðugu en afar skauplegu atriði á sólarströnd. Að sama skapi var eiginlega óþægilegt að horfa á þær í lokaatriðinu þar sem mæður sona sem fórnað hefur verið á altari kapítalismans hefja upp raust sína í grískum stíl. Yfirkeyrt, klunnalega sviðsett, og átti greinilega að vera þannig. Atriðið sagði mér ekkert um móðursorg, það sagði mér bara að höfundum sýningarinnar þykir einlæg og innlifuð tjáning hennar á sviði úrelt. Ég veit það ekki.

Gísli Pétur er allt að því of hlægilegur sem austurevrópskur fyrrverandi verkamaður. Björgvin Franz kraftmikill þar sem stíflunni er lýst í stíl íþróttafréttamanns. Rúnar Freyr skrambi góður Hans, sem dó við framkvæmdirnar og er grafinn í stíflugrunninnum. Sennilega er trúðanálgun hans eina færa leiðin til að vera bæði háðskur og brjóstumkennanlega sannur.

Umgjörð sýningarinnar er einkar glæsileg hjá Sigurjóni Jóhannssyni, og þótt vatn á leiksviði sé einhver þreyttasta klisjan þá réttlæta stífluveggirnir hans þá notkun hér. Búningarnir eru stór hluti af týpusköpuninni og afar kostulegir hjá Filippíu I. Elísdóttur. Vinna Auðar Bjarnadóttur með aukaleikarana prýðileg svo langt sem hún nær og mitt vit dugir til.

Virkjunin er virðingarverð tilraun til að gera Þjóðleikhúsið gildandi í samfélagsumræðunni. Ég held að það takist ekki sem skyldi. Til þess er of lítið áhugavert eða nýtt að finna í ritgerðinni sem sýningin byggist á og hugmyndirnar of óskýrar og flóknar til að ein heimsókn í leikhúsið skili öðru en yfirborðskenndri mynd af innihaldi þeirra. Sýningin er áhættusöm ferð út fyrir hefðbundna ramma hins borgaralega leikhúss. Það er áhættunnar virði, en árangurinn að þessu sinni er ekki sú opinberun sem leikhúsþreytta virðist þyrsta í.