laugardagur, janúar 26, 2002

Þið munið hann Jörund

Leikfélag Húsavíkur
Samkomuhúsinu á Húsavík laugardaginn 26. janúar 2002

Höfundur: Jónas Árnason
Leikstjóri: Sigurður Hallmarsson
Leikmynd: Sigurður Hallmarsson, Sigurður Sigurðsson og Sveinbjörn Magnússon

Skotheld skemmtun

ÞIÐ munið hann Jörund er kannski ekki dýpsta leikrit í heimi og fjarar óneitanlega dálítið út í lokin. Samt hika ég ekki við að stilla því í eitt af toppsætum yfir þau elskulegustu og skemmtilegustu. En kannski er það einmitt skorturinn á dýpt, það hvernig það rekur atburði og teiknar persónur hröðum dráttum húmoristans, sem fær áhorfanda eins og mig til að leggja út af atburðunum á eigin hátt milli hláturrokanna.

Kráin sem myndar rammann um atburðina heitir Jokers and kings, “kjánar og kóngar” gætum við kallað hana upp á íslensku. Og Jörundur er hvorttveggja, og góður kóngur er hann að svo miklu leyti sem hann er mikill kjáni. Þess vegna getur hann auðvitað ekki ríkt lengur en sem það tekur alvörugefnari yfirvöld að bregðast við. Svo má líka horfa á atburðina með hliðsjón af nútímanum. Góðviljaður en einfaldur valdhafi, kominn til valda á vafasaman hátt, elskaður af þegnum sínum og áhyggjufullur yfir málfari sínu. Sagði einhver George Bush? Og minnir fallbyssupervertinn Charlie Brown nokkuð á hinn vígreifa Donald Rumsfeld?

Þetta eru samt fánýtar vangaveltur, einungis ætlaðar til að auka á skemmtunina. Því skemmtun er það sem málið snýst um. Í stuttu máli sagt þá er sýning Leikfélags Húsavíkur nánast lýtalaus meðferð á verkinu. Sem þarf ekki að koma á óvart, því trúlega hafa fáir eins næman skilning á stíl Jónasar og leikstjórinn Sigurður Hallmarsson. Fyrir vikið er flæðið eðlilegt, allir brandarar skila sér og í leiknum eru engir veikir hlekkir, frá Jörundi Kristjáns Halldórssonar, Stúdíósusi Gunnars Jóhannsssonar og Carlies Jóhannesar G. Einarssonar yfir í nostursamlega hópmynd af langþjáðum og umlandi Íslendingunum. Tónlistarflutningur er einnig til stakrar fyrirmyndar, borinn uppi af blönduðum kvartett sem hvergi klikkar. Leikstjórinn hefur kosið að bæta einu lagi við þau sem fyrir voru, hinu gullfallega “þvílík er ástin”, sem kvartettinn flytur í orðastað Dala-Völu og undirstrikar með því tilfinningasamband hennar og Jörundar. Ágæt hugmynd, en kannski hefði farið betur á því að leyfa Völu að syngja það sjálfri, sem hefði botnað fallega eitt helsta þema verksins, hvernig Íslendingar þurfa að læra að tjá tilfinningar sínar og langanir: syngja.

Leikmyndagerð hefur lengi staðið í blóma með Húsvíkingum og fá verk hef ég séð fallegar útfærð en Jörund núna. Þeir Sigurður Sigurðsson og Sveinbjörn Magnússon láta sig ekki muna um að smíða heilt seglskip á sviðið litla í Samkomuhúsinu, og vel mátti gleyma sér við að dást að nostursamlegum smáatriðum á því fleyi. Snjöll notkun á myndvarpa flytur okkur síðan um víðan völl, yfir hafið og um landið þvert og endilangt með fallegum vatnslitamyndum sem trúlega eru runnar undan pensli leikstjórans, þó þess sé ekki sérstaklega getið í leikskrá.

Þið munið hann Jörund hjá Leikfélagi Húsavíkur er skotheld skemmtun, borin fram af ást á viðfangsefninu með næmri persónuleikstjórn í lýtalausu umhverfi. Þingeyingar gætu gert margt fávíslegra en að eyða kvöldstund á ”kóngum og kjánum”.