sunnudagur, febrúar 25, 2001

Hótelbarinn

Leikfélagið Grímnir
Sunnudagurinn 25. febrúar 2001

Höfundur: Sigríður Gísladóttir
Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson
Leikendur: Árni Valgeirsson, Vilborg Jónsdóttir, Jens Ingólfsson, Þorgrímur Vilbergsson, Jóhann Ingi Hinriksson, Margrét Ásgeirsdóttir, Erna Björg Guðmundsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Herdís Teitsdóttir, Ólafur Ingi Bergsteinsson, Guðmundur Bragi Kjartansson og Kristín Björg Jónsdóttir.

Út á lífið

HÖFUNDUR Hótelbarsins segir svo frá í leikskrá að hugmyndin að verkinu hafi kviknað þegar hún rakst á mynd, innrammaða auglýsingu fyrir þýska bjórtegund, í tiltekt í geymslum leikfélagsins. Og þessi sama mynd skipar heiðurssess í leikrýminu sem Grímnir hefur skapað í gömlu bíóhúsi í miðjum Stykkishólmsbæ. Rými sem hentar sýningunni ágætlega, en gæti reynst þröngur kostur fyrir önnur verk.

Persónur Hótelbarsins eru starfsfólk og gestir lítils bars, væntanlega á hóteli staðarins. Við fylgjumst með gleðskapnum eina kvöldstund og svo eftirköstum morguninn eftir. Verkið byggir frekar á svipmynum af ástandi en framvindu. Það er varla fyrr en í seinni hlutanum sem örlar á fléttu, lítilli sögu um víxl á ferðatöskum í gamalkunnum farsastíl. Þangað til erum við einfaldlega áhorfendur að fólki að hamast við að skemmta sér, drekka, daðra og klæmast. Kunnuglegt að sjálfsögðu, og hið nýbakaða leikskáld Grímis kann svo sannarlega að skrifa liðug og eðlileg samtöl. Og það þýðir ekkert að fitja upp á trýnið yfir linnulitlu neðanþindargríninu, til þess er það alltof kunnuglegt. Hins vegar er ekki laust við að mig gruni að Sigríður eigi eftir að skrifa betra leikrit þegar hún nær aðeins betra valdi á formi og framvindu, því hún hefur greinilega eyra fyrir talsmáta og getu til að skila honum ómenguðum á blað.

Þröstur Guðbjartsson hefur skilað ágætu verki við að koma Hótelbarnum á svið. Leikstíllinn er ýkjukenndur og óheflaður, sem á ágætlega við, en dansatriðin voru bæði heldur stirð, og dálítið utanveltu við verkið, ekki sýst undarleg uppákoman með trúðanefin í lokin. Nær hefði verið að hjálpa höfundinum að leiða verkið til lykta á hefðbundnari átt, sýnist mér. Staðsetningar og gangur leiksins er fumlaus og krafturinn helst frá upphafi til enda.

Af einstökum leikurum má nefna Jóhann Inga Hinriksson, sem var hinn sígildi sviðshommi í hlutverki bareigandans og drottningarinnar Bóbós. Stöðluð sviðsmanngerð eins og Mikki refur og Grasagudda. Sigrún Jónsdóttir var trúverðug sem partýdýrið Lára og Margrét Ásgeirsdóttir gerði margt verulega vel í hlutverki Gróu stallsystur hennar. Hjá sumum leikendum mátti sjá nokkurn byrjendabrag, sem á sér áreiðanlega náttúrulegar skýringar og verður horfinn að ári.

Ég vona að Grímni auðnist að rækta þetta nýja leikskáld. Það er ekki ónýtur liðsstyrkur og mikilvægt að halda henni við efnið, hvetja til dáða og framfara. Það eru ýmsir glampar í Hótelbarnum sem segja mér að Sigríður Gísladóttir hafi hvorki sagt sitt síðasta né besta orð á leiksviði. Áfram, stelpa!

þriðjudagur, febrúar 13, 2001

Wake me up before you go go

Nemendamót Verzlunarskóla Íslands
Loftkastalanum þriðjudaginn 13. febrúar 2001

Handritshöfundur: Hallgrímur Helgason
Leikstjóri: Gunnar Helgason
Tónlistarstjóri: Jón Ólafsson
Leikmynd og ljós: Sigurður Kaiser
Danshöfundur: Guðfinna Björnsdóttir

Duran eða Wham?

NEMENDAMÓTSSÝNINGAR Verzlunarskólans eru að réttu rómaðar sem fjörug og litrík skemmtun og svo verður vafalaust einnig um þessa. Nú eru það tónlist og tíðarandi níunda áratugarins sem er endurvakin. Grunnhugmyndin er snjöll, nútímadrengur ferðast aftur til ársins 1984 til að bjarga sambandi foreldra sinna, og reynir í leiðinni að bjarga því sem bjargað verður í poppmenningunni á þessu víðfræga niðurlægingartímabili. Honum verður nokkuð ágengt á báðum vígstöðvum, en að lokum fara fyrirætlanirnar út af sporinu á skrautlegan hátt.

Það má leiða að því líkum að hvergi á íslensku leiksviði er betur dansað og sungið um þessar mundir en í Loftkastalanum. Fagmennska og vald Verzlinga á þessum viðfangsefnum er einstakt. Í samanburði verður leiktúlkunin oft æði viðvaningsleg, og má vel vera að óhagstæður samanburður við fullkomnunina á hinum sviðunum geri ágallana meira áberandi en annars væri. En munurinn snýst ekki bara um gott og slæmt, fagmennsku og fúsk. Hann liggur að mér virðist líka í afstöðunni til viðfangsefnisins, og þar snýst dæmið í vissum skilningi við.

Leiktextinn er fullur af fyndni, háði og hugmyndum, eins og við er að búast frá Hallgrími og fléttan vísvitandi áreynslukennd stundum, eins og í gömlum farsa sem við hlægjum að fyrst og fremst fyrir hallærisganginn. Og það er í leiktextanum sem skopstælingin á Öld Gleðibankans birtist. Þegar kemur að tónlistaratriðunum færist hins vegar fagmannleg alvara yfir hópinn, það vottar ekki fyrir háðinu og kraftmiklu stjórnleysinu sem einkennir leikatriðin. Undantekningin er frelsissöngur föðurins, algerlega óborganlegt atriði sem sýndi hverskonar möguleikar voru fyrir hendi ef skítaglottið úr leikatriðunum hefði fengið að færast betur yfir tónlistarnúmerin.

En nóg komið af greiningu, þrátt fyrir þetta er auðvitað óhemju gaman og frammistaða margra prýðileg á öllum vígstöðvum. Fyrstan ber þá að telja Þorvald Davíð Kristjánsson sem tímaflakkarann Tomma. Þetta er „virtúósahlutverk“ sem Þorvaldur skilar eins og sá sem valdið hefur. Foreldrar hans eru þau Valdimar Kristjónsson og Rakel Sif Sigurðardóttir og eru bæði prýðileg. Af smærri hlutverkum má nefna Sigurð Hrannar Hjaltason sem er sannfærandi viðurstyggð sem Ómar ofurtöffari og grúppíurnar Jódísi og Glódísi sem Lydía Grétarsdóttir og María Þórðardóttir gerðu hárrétt skil.

Allt útlit er nógu rétt til að slá út köldum svita á okkur sem upplifðum tímabilið, og svo verða líklega jafnt Duran Duran-menn og Whamliðar að horfast í augu við það: Þetta er ekki lífvænleg tónlist.

Wake me up before you go go er prýðileg skemmtun. Leikverkið er hraðsoðið en fullt af lífi og skemmtilegheitum, leikurinn misgóður en alltaf kraftmikill. Tónlistin er frábærlega flutt, en kannski af óverðskuldaðri virðingu. Líklega er hér eitthvað fyrir alla.

föstudagur, febrúar 09, 2001

Drekinn

Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð
Tjarnarbíó föstudaginn 9. febrúar 2001

Höfundur: Jevgení Shwarts
Þýðandi: Örnólfur Árnason
Leikstjóri: Friðrik Friðriksson
Leikmynd og búningar: María Pétursdóttir
Tónlist: Guðmundur Steinn Gunnarsson

Hvenær drepur maður dreka?

EINU sinni var þjóð í fjarlægu landi sem bjó við duttlungarfulla ógnarstjórn dreka nokkurs. Fólkið hafði að mestu sætt sig við og vanist ofbeldi og kúgun, svo mjög að þegar ung hetja gerir sig líklega til að drepa drekann og frelsa fólkið mætir hún andspyrnu og spotti íbúanna. Enginn trúir því heldur að tilræðið takist. En hvað gerist ef það tekst þrátt fyrir allt? Rennur öld Vatnsberans tafarlaust upp, eða þarf meira til að uppræta kúgun en dauða kúgarans?

Drekinn eftir Jevegní Swarts er snilldarleg táknsaga sem á heima við hliðina á Dýrabæ Orwells og Brennuvörgum Frisch. Meinfyndin og hárnákvæm lýsing á hérahjörtum mannskepnunnar andspænis valdinu og, af sýningu LMH að dæma, lífseigari en heimsveldið hrunda sem verkið lýsti upphaflega og var auðvitað bannfært fyrir vikið.
Að því ég best veit hefur Drekinn verið nokkru sinnum fluttur á íslandi, frá því Hamrahlíðarfólk flutti verkið í fyrsta sinn árið 1976. Allar þessar sýningar hafa að því ég tel verið á vegum framhaldsskólaleikfélaganna. Er það að vonum, enda verkið hentugt verkefni fyrir slíka hópa. Hlutverkin hæfilega mörg og bjóða upp á tilþrif og skapandi vinnu, en standa ekki og falla með óaðfinnanlegri frammistöðu. Leikritið er bæði vitrænt, tilfinningalegt og fyndið. Vekur til umhugsunar og skemmtir í senn.

María Pétursdóttir hefur búið sýningunni stílhreina og listræna umgjörð sem nýtist jafnt til að skapa andrúmsloft og uppfylla þarfir leiksins. Hljóðmynd Guðmundar Steins Gunnarssonar er sannfærandi og hæfilega „leikhúsleg“ fyrir utan smekklaust og óþarft innskot á söngleikjanúmeri, yfirborðskennd amerísk teiknimyndavegsömun vináttunnar algerlega óviðeigandi á þessum stað.

Drekinn er samkvæmt leikskrá frumraun Friðriks Friðrikssonar í leikstjórastóli, og ekki annað að sjá en hann passi vel í þann sess. Afbragðsvel hugsuð og útfærð sýning í alla staði, og búin þeim eiginleikum góðrar skólasýningar að standa fyrir sínu þó einstaka persóna nái ekki fullu flugi. Ætlunin alltaf skýr, þó á köflum væri framsögnin það því miður ekki. Friðrik og hans fólk ná að feta það einstigi milli einlægni og sjálfsháðs sem verkið kallar á, svo öllum verður ljós alvara málsins, líka í miðri hláturroku. Sýningin er full af meinfyndnum smáatriðum sem verða stór í minningunni, notkunin á brunninum í bardagaatriði Drekans og Lancelots óborganlegt dæmi.

Af leikurum og frammistöðu þeirra er vert að geta Daníels Arnar Hinrikssonar sem skemmti sér og áhorfendum ágætlega með geðsveiflum hins fjölgeðfatlaða borgarstjóra. Arnar Sigurðsson sem Lancelot er holdtekja hins rómantíska riddara sem er af allt öðru sauðahúsi en Shwarzeneggar og Willisar nútímans. Yrsa Þöll Gylfadóttir er eins kattalegur köttur og hægt er að fara fram á og Kristín Þóra Haraldsdóttir tilþrifamikið fyrsta drekahöfuð. Kannski nær samt Rut Guðmundsdóttir mestri dýpt í mynd sinni af móður stúlkunnar sem skal fórnað drekanum. Lengri upptalningu læt ég eiga sig en allur leikhópurinn leggur sitt að mörkum til heildaráhrifa sýningarinnar og skapa saman sterkt og eftirminnilegt verk. Drekann ættu sem flestir að sjá og horfast um leið í augu við sinn eigin. Og fá afbragðs skemmtun í kaupbæti.

Gamlar perlur

Snúður og Snælda
Ásgarði, febrúar 2001

Atriði úr nokkrum íslenskum leikritum og einn erlendur gamanþáttur.
Leikstjóri: Bjarni Ingvarsson

Í fullu fjöri

ÞAÐ var snjallræði hjá leikhóp eldri borgara í Reykjavík að taka brot úr nokkrum bitastæðum íslenskum leikritum og raða þeim saman í eina sýningu. Verkefnaval hópsins hefur löngum verið hans helsti höfuðverkur, en hér tekst vel til. Megnið af dagskránni eru brot úr merkum íslenskum verkum og botninn svo sleginn í með einum staðfærðum dönskum gamanþætti. Herlegheitin síðan soðin saman á köntunum af skeleggum kynnum, sem einnig bregða sér í hlutverk í nokkrum þáttanna. Hér er vel að verki staðið og hentar einnig ágætlega erfiðu húsnæðinu, sem er vel nýtt af smekkvísi og útsjónarsemi af Bjarna Ingvarssyni, leikstjóra sýningarinnar.
Íslensku verkin sem um ræðir eru Maður og kona eftir Jón Thoroddsen, Dúfnaveisla Halldórs Laxness, Hart í bak eftir Jökul Jakobsson og leikgerð á smásögu Jónasar Árnasonar, Tíðindalaust í kirkjugarðinum. Ef leita á að einhverju samkenni þessara verka þá má segja að yfir þeim öllum er einhver angurvær blær, rómantískur en um leið dálítið háðskur. Öll eru þau náttúrulega safaríkar lýsingar á íslensku alþýðufólki og þjóðarsál. Og vitaskuld voru lífsreyndir leikarar Snúðs og Snældu á heimavelli í þessum atriðum og létu stöku textaþurrð og tæknióvissu ekki setja sig af spori.
Samtal Þórdísar í Hlíð og séra Sigvalda úr Manni og konu var flutt í viðteknum stíl og hárrétt af Aðalheiði Sigurjónsdóttur og Gunnari Helgasyni. Í Dúfnaveislunni var Jón Jónsson sannfærandi pressari, og féll ekki í þá gryfju að gera hann að einhverskonar taóískum spámanni; hér var á ferðinni stoltur íslenskur iðnaðarmaður. Guðlaug Hróbjartsdóttir var honum góð pressarakona og Sigurborg Hjaltadóttir sem Gvendó(lína) eins rúðustrikaður embættismaður og hægt er að óska sér.
Jónatan strandkapteinn og Ásdís í Hart í bak voru í öruggum höndum hjá Sigmari Hróbjartssyni og Vilhelmínu Magnúsdóttur, sem fór svo létt með að vera ung stúlka að það var helst að hún virkaði óþarflega ung. Og Hafsteinn Hansson, Sigrún Pétursdóttir og Aðalheiður Guðmundsdóttir höfðu stíl Jónasar Árnasonar á valdi sínu í sögunni um metnaðarfull greftrunaráform sjómannsins gamla. Hinar tvær síðarnefndu stóðu sig aukinheldur með miklum ágætum sem kynnarnir tveir.
Gamanþátturinn danski, Loksins ein, fjallar um roskin hjón sem loksins koma kolbítnum syni sínum í hnapphelduna og hyggjast hefja lífið á nýjan leik, en lenda í stríði við tilætlunarsama dóttur sína. Sem leikverk stendur hann öðrum atriðum sýningarinnar að sjálfsögðu að baki, en er þó dægileg skemmtan, og efnið stendur flytjendum augljóslega nær. Hafsteinn Hansson og Helga Guðbrandsdóttir voru tilþrifamikil sem hjónin, Aðalheiður Sigurjónsdóttir var traust og skelegg nágrannakona og Sigrún Pétursdóttir lét sig ekki muna um að leika gljátíkina dóttur hjónanna, svona eins og fjörutíu ár niður fyrir sig.
Gamlar perlur Snúðs og Snældu er ágæt skemmtun, vel valin atriði vandlega skeytt saman og leikið af innlifun og gleði.

sunnudagur, febrúar 04, 2001

Sjö stelpur

Leiklistarhópur Umf. Eflingar
Sunnudagurinn 4. febrúar 2001

Höfundur: Erik Thorstensson
Þýðandi: Sigmundur Örn Arngrímsson
Leikstjóri: Arnór Benónýsson
Sýnt á Breiðumýri í Reykjadal


Af sporinu

UTANGARÐSFÓLK er sígilt viðfangsefni í skáldskap, hvort sem ritað er fyrir svið eða lestur. Sjálfsagt stafar það bæði af því að „venjulegt“ fólk fýsir að frétta af högum hinna „óvenjulegu“ en líka af því að töfrar listarinnar, ekki síst leiklistarinnar, eru meðal annars fólgnir í hæfileika okkar til að skilja og lifa okkur inn í kringumstæður sem eru okkur framandi, máta okkar viðhorf við önnur ókunnugleg og spyrja okkur spurninga um hverjar okkar gerðir yrðu í aðstæðum persónanna.
Sjö stelpur fjallar um nokkra daga á upptökuheimili fyrir ungar stúlkur sem af einum eða öðrum ástæðum hafa villst af leið í samfélaginu. Erik Thorstensson er að sögn dulnefni höfundar, sem byggir leikverk sitt á dagbók sem hann hélt meðan hann starfaði sem gæslumaður á heimili líku því og líst er í verkinu. Þessi forsaga leikritsins varpar nokkru ljósi á efnistök höfundar. Leikritið er ákaflega „natúralískt“ að formi, lítið fer fyrir fléttu og kynning persóna og aðstæðna lítt áhorfandavæn. Okkur er einfaldlega sýnt inn í þennan heim á ákveðnu augnabliki og boðið að kynnast því, nánast eins og Svempa, nýi gæslumaðurinn sem birtist í upphafi verks og er kastað út í glímuna við hinar óstýrilátu stúlkur að því er virðist undirbúningslaust.
Umgjörð sýningarinnar, leikmynd, búningar og förðun eru vel af hendi leyst. Notkun á grisju til að breyta leikrými er ágætlega útfærð og hljóðmynd smekklega unnin, þó stundum hafi tónlist undir leikatriðum unnið gegn stemmningunni. Söngatriði voru óaðfinnanleg, sem þarf engum að koma á óvart sem sá verðlaunasýninguna Síldin kemur og síldin fer hjá Eflingu á síðasta leikári.
Það verður ekki annað ráðið af sýningu Eflingar en að hópurinn ráði vel við verkefni af þessu tagi. Nýtur félagið þar nálægðar sinnar við Laugaskóla, þaðan sem stór hluti leikhópsins er fenginn. Og mörg hlutverkanna eru bitastæð viðfangsefni fyrir unga leikara. Hitt verður að segjast að þrátt fyrir augljósa hæfileika margra burðarleikaranna og metnað þann sem í sýninguna er lagður þá nær hún að mínu viti ekki fyllilega að blómstra. Kemur þar einna helst til sá stíll sem sýningunni er valinn og má gera ráð fyrir að skrifist á leikstjórann.
Sýninginn einkennist mjög af ofsafengnum hraða og látum sem gerir stúlkurnar að of einsleitum hóp, í stað þess að rækta einkenni hverrar um sig. Þessi stíll gerir það einnig að verkum að lokaatriði sýningarinnar, líkamlegt og tilfinningalegt skipbrot eiturlyfjasjúklingsins Barböru, nær ekki tilætluðum áhrifum, verður of keimlíkt því linnulitla áreiti sem einkennir sýninguna í heild. Sem er synd, því atriðið sem slíkt sýndi hvaða möguleikar voru fyrir hendi til að gera Sjö stelpum eftirminnileg og umhugsunarverð skil. Það er mikils að vænta af Eflingu í framtíðinni.