föstudagur, júlí 27, 2001

E

Leikfélagið Ofleikur
Tjarnarbíó 27. júlí 2001

Handrit og leikstjórn: Jón Gunnar Þórðarson
Tónlistarhöfundur: Valdimar Björn Ásgeirsson
Ljósahönnuður: Sverrir Kristjánsson

Lífið er aldrei alsæla

ÞAÐ er mikið lagt undir í sýningu hins unga Ofleiks. Bæði er sýningin viðamikil og fjölmenn, um tuttugu ungmenni standa á sviðinu í Tjarnarbíói þegar mest lætur, og viðfangsefnið er frumsmíð hópsins og forsprakka hans, Jóns Gunnars Þórðarsonar. Óhætt er að segja strax í upphafi að sýningin er mikill sigur fyrir aðstandendur hennar, sem komast hreint ótrúlega langt með flesta þætti sviðslistarinnar ef mið er tekið af ungum aldri og þeim reynsluskorti sem honum óhjákvæmilega fylgir.

Kjarni sýningarinnar er hópur unglinga, fimm stúlkur og fjórir drengir og meginatburðarásin fylgir þeim eftir út á lífið eitt afdrifaríkt kvöld. Sýningin hleypur samt út undan sér í allar áttir, við sjáum samskipti unglinganna við dópsala og undirheimafólk sem tæpast virðist af þessum heimi, dansarar undirstrika sum atriðin, og í nokkrum vel heppnuðum senum fáum við smjörþefinn af „foreldravandamáli“ því sem tvær persónanna glíma við frá degi til dags.

Sterkasti þáttur sýningarinnar er persónusköpun og frammistaða aðalleikaranna. Ég tel nokkuð ljóst að hlutverk þeirra og samtöl hafa orðið til í spunavinnu, án þess að ég hafi séð þess getið (engin leikskrá er í boði, sem er óþarfa yfirsjón. Ljósritað blað með nöfnum leikenda og helstu aðstandenda er algert lágmark og lítil fyrirhöfn). Slík vinnubrögð skapa gjarnan skýrar og margflata persónur, og því er svo sannarlega til að dreifa hér. Frábær vinna hjá leikhópnum og stjórnanda hans. Höfundi sýningarinnar er mikið niðri fyrir og beitir öllu vopnabúri leikhússins, tónlist, dansi, ljósum og látbragði, af töluverðri útsjónarsemi. Nokkrir lausir endar lafa í leikritinu sjálfu og endirinn óþarflega dramatískur. Samtöl eru hins vegar mörg frábærlega lífræn og skemmtileg.

Það sem síðan dregur nokkuð úr áhrifamætti sýningarinnar eru einmitt tilraunir til að gera hana áhrifameiri og láta hana „segja“ eitthvað. Eiturlyfjaandóf verksins tekur of mikið pláss miðað við hvað eiturlyfin snerta í raun líf söguhetjanna lítið. Einn verður þeim vissulega að bráð og fremur sjálfsmorð, en við höfum á tilfinningunni að þar hafi fleira búið undir en eiturlyf. Hvað hin í hópnum varðar þá eru þau fyrst og fremst fólk sem gaman er að fylgjast með. Horfa á hvernig þau hreyfa sig, hlusta á hvernig þau tala, dást að hvernig þau dulbúa óöryggi sitt með mannalátum og sjá hvert þau sækja sjálfsvirðinguna (J-Lo tvífarinn var dásamlega fyndin). Hvort þau reykja einni jónunni meira eða minna, aða ruglast einu sinni á Smint- og E-töflum verður ekki aðalatriðið. Hvorki fyrir þau eða okkur.

Það sem E skilur eftir sig er mynd af skemmtilegum og kraftmiklum vinahópi sem öflugur leikhópur skilar með glæsilegum hætti. Ef ætlun Ofleiks var að skilja mann eftir með áhyggjur af „unglingunum í dag“ þá hefur það misheppnast hrapallega. Til hamingju með það.

föstudagur, júlí 06, 2001

Fenris V

Ragnarock frá Danmörku, Dramash frá Álandseyjum, Fívill frá Færeyjum, Alleq frá Grænlandi, Leikklúbburinn Saga frá Íslandi, Sámi Vildonat frá Noregi og Cameleonterna frá Svíþjóð.
Glerárskóli á Akureyri 6. júlí 2001

Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson
Útlit: Sigurður Keiser
Tónlist: Kristian Blak

Líkin í lestinni

FENRIS er einstakt fyrirbæri, bæði í íslensku leikhúsi og norrænni samvinnu. Frá 1985 hafa fimm sýningar verið unnar undir þessu heiti, samstarfsverkefni unglingaleikhópa víðsvegar að af Norðurlöndunum. Nú hefur sú fimmta verið frumsýnd, og við tekur leikferð um Norðurlöndin, sem væntanlega verður ógleymanlegt ævintýri fyrir þátttakendur alla. Sama má líklega segja um sköpunarferlið allt, því sýningin er greinilega samstarfsverkefni allra þátttakenda, og vel hefur tekist að mynda einn stóran hóp úr leikhópunum sjö sem að verkefninu standa.
Sýningin sver sig í ætt við aðrar fjölmennar hópvinnusýningar þar sem tungumálið verður að víkja úr fyrsta sæti sem tjáningartæki. Einföld saga, skýr tákn, tónlist, endurtekningar. Innan þessa ramma nær Fenris V að vera býsna áhrifamikil sýning, dulúðug, kraftmikil og fellur aldrei í predikunargryfjuna þó viðfangsefnið séu mannlegir brestir.
Í upphafi er lífsháski og þegar björgin berst í líki skips er ekki rúm fyrir alla. Þeir sem er hafnað eru þó ekki úr sögunni, heldur taka á sig mynd skuggahliðar mannlífsins, alls þess sem við bælum og höfnum í fari okkar sjálfra. Sá sem nær að beisla þau myrku öfl getur náð völdum um tíma, en sú leið felur í sér tortímingu og sýningin endar líkt og hún byrjar, með syndafalli.
Skipið er megintákn sýningarinnar og er auðvitað margrætt; heimur í hnotskurn mannssálin, lífsbjörgin. Fenrisfólki nær að halda þessu tákni lifandi gegnum alla sýninguna, sem byggir ekki síst á því að þau treysta efnivið sínum og leyfa mótsögnum að tala, boðskapurinn verður aldrei alveg skýr. Enda eru spurningarnar stórar og fara með áhorfendunum út að leik loknum. Þannig á það að vera.
Leiðtogar hópsins eiga heiður skilinn. Sigurður Keiser fyrir einfaldan ramma sem tekur aldrei neitt frá leikhópnum en styður allt sem fram fer, Kristian Blak fyrir að virkja tónlistina í fólkinu og beina henni í sömu átt og sýningin í heild en þó fyrst og síðast Agnar Jón Egilsson fyrir að stilla saman þessa sjö strengi. Fenris V er önnur Fenrissýningin sem ég sé og tekur þeirri fyrri langt fram, fyrst og fremst vegna þess hve vel hefur tekist að láta hópana vinna saman og hve langt hópurinn hefur komist á þeim stutta tíma sem hann hefur haft til eiginlegrar samvinnu. Það verður að stórum hluta að þakka stjórnandanum.
Ég óska þessum samstillta og kraftmikla hópi til hamingju með frumsýninguna og góðrar siglingar.