laugardagur, ágúst 21, 2004

Líneik og Laufey

Tjarnarbíói 21. ágúst 2004

Leikgerð á ævintýrinu um Líneik og Laufeyju.
Leikstjóri: Ólöf Ingólfsdóttir
Útlit: Elma B. Guðmundsdóttir, Katrín Þorvaldsdóttir og Kolbrún Anna Björnsdóttir

Leikendur: Aino Freyja Järvelä, Höskuldur Sæmundsson, Ingibjörg Reynisdóttir, Kolbrún Anna Björnsdóttir og Ólafur Guðmundsson.

Á ævintýramiðum

ÆVINTÝRIÐ um Líneik og Laufeyju er um margt dæmigert ævintýri með góðum og fallegum kóngsbörnum, vondri stjúpu, veiklyndum föður og góðum endi. Það er líka fullt af möguleikum sem ættu að nýtast hugmyndaríku leikhúsfólki og/eða höfundum til að búa til skemmtileg leikrit eða -sýningar. Kaflinn þar sem hinn ungi Grikklandskóngur heldur að Laufey sé Líneik kóngsdóttir er uppskrift að miklum skemmtilegheitum og flagðið og mannætan Blávör kjörið viðfangsefni fyrir kraftmikinn leikara og hugmyndaríka útlitshönnuði og leikstjóra. Sú leið sem þessi leikhópur velur er hins vegar of lítið afgerandi og útfærslan of dauf til að möguleikar efniviðarins nýtist sem skyldi.

Sérkennileg og að mínu viti misráðin er sú hugmynd að hefja sýninguna eins og um leikæfingu sé að ræða. Þessi rammi bætir engu við, og afsakanir fyrir því að segja sögur á sviði eru alger óþarfi. Hugmyndinni var heldur ekki fylgt þannig eftir að úr yrði áhugaverð hliðarsaga um tilurð leiksýningar.

Að öðru leyti er sögunni snúið í frekar venjulegt leikform, lítið byggt á að fleyta henni áfram með sögumanni, en samtöl látin koma upplýsingum til skila. Þetta tekst ekki alls staðar jafn vel. Þannig verður kynning Blávarar og Laufeyjar frekar snubbótt, og ennfremur er sú ógn sem stafar af Blávöru alltof lítið sýnd til að ævintýrið verði spennandi. Þar og annars staðar er gripið til dansins og hreyfinga án orða til að skila efninu, og tekst það ekki nógu vel, því það er eins og ekki hafi unnist tími eða vilji til að gera þessum atriðum nægilega hátt undir höfði. Sem er synd, því þarna eru möguleikar á skemmtilegheitum og frumleika býsna miklir.

Það stendur sýningunni líka nokkuð fyrir þrifum hvað lítið er gert til að skapa tengsl við áhorfendur. Aðeins einu sinni eru þeir ávarpaðir, og þá er það nánast eins og af skyldurækni, því svoleiðis á jú að gera á barnasýningum. En tengslin felast ekki bara í "gagnvirkni", heldur lifandi sambandi, tilfinningu fyrir þörf hópsins til að miðla verki sínu, og hana vantaði sárlega.

Leiklega er hópurinn hreint ekki nógu góður. Það er ekki ásættanlegt, þó að um barnasýningu sé að ræða, að textameðferð og framsögn valdi hreinlega vandræðum við að skilja það sem sagt er og lestónn er ófyrirgefanlegt lýti á framgöngu leikara. Hér þarf meiri metnað og djörfung í framsetningu efnisins.

Það er virðingarvert að skapa leiklist fyrir börn, og ekkert athugavert við að það sé gert án þess að miklu sé til kostað. En í barnaleikhúsi verður líka að vera eldmóður, hugmyndaflug og kraftur. Til hvers annars að vera að þessu?

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Beauty

Zecora Ura Theatre og Dan Kai Teatro
Lækjarskóla, Hafnarfirði 19.ágúst 2004

Höfundur: Eyrún Ósk Jónsdóttir
Leikstjórn: Eleanor Bernardes og Jorge Lopes Ramos.

Leikendur: Agnes Brekke, Hannah Whelan, Unai Lopez de Armentia, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Kristján Óskarsson, Ichel Rubio Martinez, Laura Gonzáles Cortón og Gemma Rowan.

Fegurðin í hinu smáa


ÞEIM er mikið niðri fyrir, aðstandendum Beauty. Um er að ræða tvo alþjóðlega leikhópa með aðsetur í Englandi, og leikrit íslensks leiklistarnema, Eyrúnar Óskar Jónsdóttur, hennar fyrsta í fullri lengd. Reyndar er varla um eiginlegt leikrit að ræða, heldur einhvers konar ósamstæða texta og samtalsbrot sem sækja efni sitt að einhverju leyti í þjóðsögur, en jafnframt er efnið að miklu leyti helgað málum sem ber hátt í pólitískri umræðu nútímans: stríðsrekstri og umhverfisvernd, nánar tiltekið Íraksstríðinu og Kárahnjúkavirkjun. Brotakennt eðli textans endurspeglast í sýningunni allri, þar sem bæði ægir saman ólíkum sjónrænum þáttum, fjölbreyttum leikstíl og aðferðum, auk þess sem sýningin stekkur sífellt á milli hátíðlegrar einlægni, forseraðrar tilfinningatúlkunar og glottandi íróníu. Það er djarft teflt í þessari sýningu og gaman ef hægt væri að segja að það skilaði þeim ávinningi í áhrifum sem að er stefnt.
En sú er því miður ekki raunin. Hinir ólíku og ósamstæðu þræðir ná ekki að hljóma saman, né verður ómstreitan milli þeirra sérlega kraftmikil eða áhrifarík. Til þess vantar skýra hugsun, eða kannski öllu heldur vilja til að mynda samband við áhorfendur, taka þá með í leikinn. Í staðinn er eins og sýningin öll gangist upp í óræðninni, njóti þess að þurfa ekki að gera almennilega grein fyrir hvað hún vill segja. Vitaskuld er hún afdráttarlaus í fordæmingu sinni á stríði og náttúruspjöllum og einlæg í lofgjörð sinni um sakleysið og fegurðina í hinu einfalda og smáa. En sá búningur sem hún býr þessum boðskap ber hann ofurliði í tákngnótt sinni.

Í verkinu eru þó kaflar sem sýna ágætt skáldlegt ímyndunarafl höfundar, til dæmis í samtali móður og sonar á leið í stríðið. Gagnrýnni sýn á það hvað átti að segja og hvernig best væri að segja það hefði áreiðanlega leitt hæfileika Eyrúnar betur í ljós.

Hinir ungu leikarar sem flytja okkur sýninguna eru nokkuð markaðir reynsluleysi sínu, og ráða tæpast við það verkefni sem þau setja sér. Sum þeirra búa að sterkri líkamstjáningu en flóknar nútímadansrútínur þær sem þeim er gert að framkvæma eru greinilega á mörkunum að þau ráði við. Að öðru leyti er leikur fremur tilþrifalítill, jafnvel einkennilega daufur á köflum, eins og í að öðru leyti ágætlega heppnuðum lokakaflanum. Hópsöngvar voru skemmtilega hugsaðir en flutningur ekki nógu góður til að þeir næðu áhrifum sínum.

Leikstjórn er hreint ekki góð á þessari sýningu. Staðsetningar iðulega klúðurslegar, ýktum leikstíl ótæpilega beitt þegar hófstilling hefði skilað meiri áhrifum og einnig hefur leikstjórunum mistekist að laða fram tilfinningalega innlifun þar sem hennar var þörf. Það sem Beauty hefur helst við sig er tilfinningin fyrir þörf aðstandenda hennar til að skapa og koma efni sínu á framfæri. Gagnrýn skoðun á því hvernig meðölum leikhússins verður best beitt í þessu skyni mun auk listræns þroska án efa skila okkur öflugum listamönnum í fyllingu tímans. Listamönnum sem meina það sem þeir segja og vita hvernig þeir eiga að segja það svo skiljist.