föstudagur, júní 23, 2000

Sérðu regnið?

Kellariteatteri frá Helsinki
Kompaníið á Akureyri 23. júní 2000

Tónlist: Ilppo Lukkarinen og Lissu Lehtimaja
Textar: Johanna Freundlich

Tídægra í Helsinki

ÞESSI finnski ungmennahópur býður upp á frumsköpun, leiksýningu í revíuformi, söngva tengda með spunakenndum samtengingum. Sýningin sækir form sitt og persónur nöfn sín í Tídægru Boccaccios, en undirritaðan skortir jafnt þekkingu á hinu ítalska höfuðverki og finnskri tungu til að átta sig á hvort um innihaldslegan skyldleika er að ræða. Allt um það þá eru níu persónur með tídægrunöfn samankomin í einhverskonar biðsal, sú tíunda slæst í hópinn áður en lýkur, og er trúlega fulltrúi nútímans, ungfrú x. Öll eiga þau sitt söngnúmer, líkt og ungmenni Boccaccios stytta sér stundir á fjórtándu öldinni í Flórens við að segja sögur meðan plágan gekk yfir. Og víst er um það að nægar eru plágurnar á okkar tímum. Sambandsleysi, ástleysi, ofbeldi, kynþáttahatur, allar fá þær umfjöllun í söngvum Finnanna. Niðurstaðan er samt bjartsýn, lifum og göngumst við röddunum í brjóstinu, njótum regnsins hér og nú.
Hópurinn bjó greinilega yfir góðum krafti sem á stundum nýttist til að skapa skemmtilega stemmningu. Þó voru spunaatriðin, eins og gjarnan vill verða, óþægilega á báðum áttum hvort þau voru skipulögð og hugsuð, eða líflítil endurtekning sköpunar frá í gær. Tónlistin var áheyrileg, djassskotin popplög mestanpart, og söngvarar flestir vandanum vaxnir. Nokkuð skorti stundum á kraft, bæði í raddstyrk og sannfæringu. Eftirminnilegastir verða líklega upphafssöngur ungfrú x, þar sem ekkert skorti á aflið og sorgarsaga Karinu, sem var sunginn á ensku en samt af einhverjum ástæðum eina lagið þar sem textinn var þýddur jafnóðum á íslensku með afar snjöllum hætti. Þá var símasöngur Panfílós skemmtilegur og þróttmikill. Félögum í Kellariteatteri liggur greinilega mikið á hjarta, og sumt af því komst til skila í sýningunni. Annað leið fyrir formið sem hópurinn hafði ekki allskostar á valdi sínu.
Með dómi þessum er lokið skrifum um sýningar á afmælisleiklistarhátíð Bandalags íslenskra leikfélaga, en skrifað var um þær sýningar sem ekki hafa áður birst dómar um hér. Ómögulegt er samt annað en að ljúka þessum pistli með nokkrum orðum um hátíðina í heild. Óhætt er að fullyrða að hún hafi borið því besta í áhugaleikhúsinu órækt vitni. Ómældur sköpunarkraftur og -gleði einkenndu sýningarnar og mun margt greypast í minningu gesta. Erlendir gestir vöktu mikla gleði og var ekki annað að sjá en hún væri gagnkvæm. Leiklistarsköpun áhugamanna á Íslandi hefur allt til að bera til að gleðja áhorfendur, vekja þá til umhugsunar, græta þá, hlægja og hræða, allt í krafti metnaðar og kunnáttu sem víða er til í ómældu magni sem ausið er af eins og hver vill. Hafi Bandalag íslenskra leikfélaga þökk fyrir framtakið, við bíðum spennt næstu hátíðar.

Sviðsskrekkur

Leikfélagið Baldur, Bíldudal
Samkomuhúsið á Akureyri, Leiklistarhátíð Bandalags íslenskra leikfélaga 23. júní 2000

Höfundur: Alan Shearman
Þýðing: Sigurbjörn Aðalsteinsson
Leikstjóri: Þröstur Leó Gunnarsson


Innan sviðs og utan

LEIKHÚSLÍF er vinsælt viðfangsefni leikskálda nú á okkar sjálfmiðuðu tímum. Sérstaklega snúast margir gamanleikir um lífið baksviðs og jafnvel á sviðinu líka. Þá er einatt horft á það sem miður fer og gjarnan snúast slík leikrit um vinnubrögð og vandræði viðvaninga. Áhugaleikfélög hafa mörg hver dálæti á þessum leikritum, sem vonlegt er, áhugamálið er jú leiklist og allt sem að henni snýr. Hins vegar má deila um hversu heppileg viðfangsefni þessi verk eru fyrir óreynda leikara. Mörg þeirra standa og falla með skýrum greinarmun á þeim persónum sem leikararnir leika og hinum sem persónurnar reyna af veikum mætti að túlka. Þetta útheimtir töluverða færni, því leikhópurinn verður að sýna fullkomlega eðlilegan leik og þar að auki ýktan og vísvitandi slæman leik samtímis og til skiptis.
Sviðsskrekkur er farsi af þessari ætt. Hópur viðvaninga tekur sig saman og sviðsetur leikrit til fjáröflunar fyrir skóla sem á í fjárhagserfiðleikum. Stjórnandinn hefur skrifað leikrit sem við sjáum búta úr milli þess sem fólkið reynir að greiða úr þeim flækjum sem vanhæfni þess og tilfinningaflækjur koma þeim í meðan sýningin höktir áfram.
Sviðsskrekkur er ákaflega groddalegur farsi. Klaufagangur leikhópsins í leikritinu er með þvílíkum ólíkindum að á köflum víkur verkið út fyrir mörk hins skoplega. Leikstjóri Baldurs hefur fylgt þessum einkennum eftir, ýkt og eflt þennan þátt verksins. Lengi framan af vekur það mikla kátínu en þegar sígur á seinni hlutann er ekki laust við að áhorfendur fái sig metta af vandræðaganginum. Það er líka þá sem veikleikar verksins verða hvað augljósastir.
Leikritið er eftir því sem mér skilst af enskum uppruna en virðist gerast í Bandaríkjunnum, einn þráðurinn snýst um drauminn um að slá í gegn á Broadway, svo ólíkindalega sem það nú hljómar. Þetta og önnur séramerísk einkenni hljóma nokkuð ankannalega í munni Vestfirðinganna og spurning hvort það hefði ekki verið ómaksins vert að leggja vinnu í að staðfæra verkið inn í raunveruleika íslenskra áhugaleikfélaga, eða jafnvel heimfæra það algerlega upp á heimabyggðina. Ekki það að verkið skiljist ekki, svo mjög er hinn ameríski reynsluheimur kvikmynda og leiklistar orðinn inngróinn í okkur og aðra íbúa heimsþorpsins.
Eins og áður er sagt er óvíst hversu heppileg verk af þessum toga eru fyrir lítt skólaða leikara og það verður að segjast að leikhópur Baldurs var þeim vanda ekki fyllilega vaxinn að greina skýrt milli hinna tveggja heima verksins, farsans og harmleiksins sem persónur farsans voru að reyna að túlka. Sýningin er keyrð áfram af miklum krafti og hraða eins og nauðsynlegt er og gekk ágætlega að halda dampi. Margar drephlægilegar hugmyndir birtast okkur og meðan við greinum enn manneskjurnar sem glíma við lesti sína: græðgi, losta, heimsku, ofdramb og hatur, virkar farsinn fínt. Það er ekki fyrr en skopstælingin er búin að fela fyrir okkur fólkið að hláturinn dofnar.
Leikfélagið Baldur býr að efnilegum leikhóp, satt að segja óvenjulega öflugum sé horft á íbúatölur staðarins. Kemur þar vafalaust margt til, það er til að mynda ekki ónýtt að hafa aðgang að kröftum manns á borð við Þröst Leó. Þá er hundrað ára leikhefð ekki slæmt veganesti. Það er því tilhlökkunarefni að sjá fólkið glíma við verðugri verkefni, liprari farsa eða hvað annað sem hugurinn stendur til.

miðvikudagur, júní 21, 2000

Á rúmsjó

Auseklis Limbazi Theatre frá Lettlandi
Miðvikudaginn 21. júní. 2000

eftir Slawomir Mrozek.
Leikstjóri: Inta Kalnina.

LEIKLIST - L2000 - Leiklistarhátíð Bandalags íslenskra leikfélaga á Akureyri


UNDANFARIN ár hafa menningarsamskipti Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna vaxið mjög og verið sérstaklega áberandi á leiklistarsviðinu. Ekki fer á milli mála að þessi tengsl hafa opnað okkur nýja sýn á ýmsa hluti og er það vel. Af þeim kynnum sem undirritaður hefur haft af lettnesku áhugaleikhúsi er óhætt að fullyrða að þar fer leiklist í hæsta gæðaflokki sem ævinlega er spennandi og nýstárleg. Það er því mikil ánægja að þessi lettneski hópur skuli heiðra Akureyringa með list sinni á hinni veglegu leiklistarhátíð sem haldin er í tilefni hálfrar aldar afmælis Bandalags íslenskra leikfélaga.

Á rúmsjó eftir pólska háðsádeiluskáldið Slawomir Mrozek er einþáttungur um vald og valdabaráttu en kannski samt helst um beitingu valdsins. Þrír skipbrotsmenn standa frammi fyrir því að þurfa að leggja sér einn þeirra til munns. Spurningin er: Hvern? eða réttara sagt: Hvernig á að velja? Ýmsar leiðir eru reyndar en undir yfirbragði lýðræðis og réttlætis dragast tveir fljótlega í fylkingu gegn einum þeirra. Þar með eru örlög hans ráðin. Jafnvel þótt sviksemi og lygar hinna séu þeim öllum ljósar ber allt að sama brunni. Ekkert getur bjargað honum, ekki einu sinni þegar þeir finna óvænt matarbirgðir sem myndu bjarga þeim öllum. Valdið, kerfið, hefur tekið völdin, skynsemi og mannúð löngu gleymdur munaður.

Í meðförum Auseklis Limbazi Theatre verður þetta valdatafl að einkar sterkri sjónrænni veislu. Einfaldur sviðsbúnaður býður upp á ótæmandi möguleika til að stilla upp myndum og teikna átökin. Lýsing er notuð á áhrifamikinn hátt og lokamyndin líður áhorfendum líklega seint úr minni.

Leikhópurinn samanstendur af fjórum ungum mönnum sem voru hver öðrum betri. Allir höfðu þeir kraftmikinn en agaðan leikstílinn fullkomlega á valdi sínu. Leiftursnöggar breytingar á stemmningu komast auðveldlega til skila þótt eðli málsins samkvæmt fari textinn að mestu fyrir ofan garð og neðan fyrir okkur sem ekki erum þeim mun sleipari í lettneskunni. Meira að segja fyndnin, sem er ríkulegur hluti af vopnabúri Mrozeks, kemst iðulega til skila í svipbrigðum og látæði leikaranna. Fer þar fremstur Didzis Jonovs í hlutverki þess sem étinn er, iðulega óborganlega umkomulaus í heiminum.

Það er hreint ekki sjálfgefið að stílfærsla á borð við þá sem hér er á ferð henti svona fjarstæðukenndu verki. Þvert á móti verða lærdómar þeir sem slík verk bera oft ekki ljósir nema í dulargervi raunsæisins. Stílfærsla verður að vera hugsuð ofan í grunninn, hvert smáatriði hlýtur og verður að bera merkingu. Inta Kalnina og leikarar hennar ná í þessari sýningu að leiða áhorfandann áfram að kjarna málsins með því að "eima" burt allan óþarfa. Eftir stendur manndýrið, tilbúið að éta og vera étið.