sunnudagur, apríl 30, 2006

Mike Attack

Höfundur og leikari: Kristján Ingimarsson, leikstjóri: Rolf Heim. Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu 30. apríl 2006.

Virtúós


KUNNINGI minn einn hefur dálæti á þungarokki af hörðustu gerð. Kannski ekki í frásögur færandi nema það rifjaðist upp fyrir mér á leiðinni út af Mike Attack að hann segir stundum að eiginlega eigi framgangur slíkra tónlistarmanna meira skylt við afreksíþróttir en tónlist.

Kristján Ingimarsson er að sumu leyti leiklistarleg hliðstæða við þetta. Fráleit fimi hans, áreynslulaust öryggi og ótrúleg snerpa er það sem fangar athyglina öðru fremur. Mér er til efs að Íslendingar hafi nokkurn tíma áður átt skemmtikraft sem jafnast á við Kristján. Jafn hreinræktaðan virtúós á sviði leiklistar.

Það er enda einstök unun að fylgjast með honum leika listir sínar. Í Mike Attack byrjar hann á að efna til samsæris við áhorfendur með einföldum trúðabrellum sem hafa virkað að minnsta kosti síðan á miðöldum og hafa engu glatað af áhrifamætti sínum þegar þeim er beitt af jafn mikilli snilld og hér er gert.

Eftir þann inngang hefur Kristján alræðisvald yfir gestum sínum og getur leikið þær listir sem hann langar til. Og gerir það. Stóri galdurinn er náttúrulega galdur umbreytingarinnar. Með skýru líkamsmáli og að því er virðist áreynslulausri nákvæmni getur Kristján látið ósýnilega hluti og persónur birtast, blásið lífi í dauða hluti og skapað dramatíska spennu úr engu.

Þó míkrófónninn sé miðlægur þá er hlutverk hans og staða gagnvart leikaranum sífellt að breytast, allt eftir því hvað hann langar að sýna okkur næst. Stundum er hann míkrófónn, stundum dansfélagi, ótemja, kálfur, elskhugi, loftnet, byssa, billjardkjuði. Og fyrir utan samleik við míkrófóninn þá birtast aðrar ósýnilegar persónur á sviðinu. Dvergarnir sjö kannski eftirminnilegastir.

Sýningin er að sönnu fremur sundurlaus. Svolítið eins og sýnishornamappa þar sem ólíkar brellur fimleikatrúðsins eru settar fram sjálfra þeirra vegna. Það er meira eins og hún sé ætluð sem afsökun fyrir Kristján til að leika listir sínar frekar en að hæfileikarnir og getan séu virkjuð til að miðla einhverju sérstöku. „Etýður“ væri þetta kallað ef hann væri píanóleikari. Veit ekki með þungarokkið. Það er engin framvinda, sem gerir ekkert til, en heldur engin þróun í sambandinu milli leikarans og hljóðnemans, sem væri verra ef hvert og eitt atriði væri ekki svona fáránlega vel útfært, fyndið, satt og við fyrstu sýn nokkurnveginn óframkvæmanlegt.

Samstilling Kristjáns við þriðja leikarann, hljóðrásina, er líka hnökralaus með öllu. Og auðvitað verða allar alvörugefnar efasemdir næsta hjákátlegar andspænis svona hreinræktaðri list. Það er vandalaust að gefa sig á vald virtúósinum, hlæja að og með honum. Því ómennsk tæknin er ævinlega og stöðugt gegnsýrð af einlægri leikgleði sem gefur kjánalegustu uppátækjum líf og sína eigin dýpt.

List Kristjáns Ingimarssonar er einstök og kærkomin viðbót við leikhúsið hér.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

A.L.F

Leikfélag Kópavogs Höfundar: Guðjón Þorsteinn Pálmason, Oddur Bjarni Þorkelsson og fleiri. Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson. Félagsheimili Kópavogs 26. apríl 2006.

Og fegurðin mun ríkja ein 


AF HVERJU eru sjúkrahús svona ótæmandi brunnur fyrir skemmtilegheit? Kannski af því að þar er svo skýr valdastrúktúr til að misnota og ögra, endalausir möguleikar á illri meðferð, líkamleg vanvirðing daglegt brauð, dauðinn aldrei langt undan. Enda verður grínið alltaf ansi hreint dökkgrátt þegar vettvangurinn er heilbrigðiskerfið eða einhver ímyndaður og martraðarkenndur botnlangi út úr því.

Þannig er það í þessari sýningu Leikfélags Kópavogs, sem er frábærlega útfærð sjúkrahúsrevía þegar best lætur, úttútin af klikkuðum hugmyndum. Að sönnu er aðkenning af söguþræði dálítið truflandi og heldur klénn sjálfur; sýningin stendur eiginlega ekki undir því loforði sínu að segja eitthvað beitt og áhugavert um fegurðardýrkun nútímans.

Fléttan sem snýst í kringum baráttu fallegra og ljótra þvælist heldur fyrir því sem að formi til er algerlega hefðbundin sjúkrahúsrevía. En þetta kemur líka lítið að sök, þökk sé frábærri vinnu á ýmsum póstum. Stærsti plúsinn fæst fyrir karaktervinnuna, sem samkvæmt leikskrá er byggð á námskeiði sem Margrét Sverrisdóttir hélt fyrir hluta leikhópsins.

Skrípamyndir þær sem sumir leikaranna draga upp eru firnaskýrar og bráðskemmtilegar þótt sumar þeirra væru alveg við það að vera orðnar þreytandi. Hér verður að nefna sérstaklega Guðmund L. Þorvaldsson sem er alveg yndislegur sem hinn lánlausi klaufi dr. Keliman. Einnig má alveg ljúka lofsorði á skötuhjúin í kjallaranum, þau Sigstein Sigurbergsson og Bylgju Ægisdóttur. Og fleiri svo sem, en látum þessi þrjú standa fyrir heildina í persónugalleríinu sem er helsti styrkleiki sýningarinnar. Svo og hátt orkustig hópsins í heild og öryggi í óvenju tæknilega flóknu verki. Þá eru mörg atriðanna skrambi vel gerðir sketsar. Barnabarnið að leita að líki afa síns í endurvinnslustöð sjúkrahússins, svo og óborganleg byrjunin standa kannski upp úr í minningunni.

Annað sem á stóran þátt í áhrifamættinum er frábærlega unnin umgjörð. Leikmyndin er tæknilega þénug og skapar hárrétt andrúmsloft óhugnaðar auk þess sem útlitið er hárrétt. Hljóðmynd líka nokkuð sniðug. Lýsingin virtist mér hlaupa dálítið útundan sér í sýningunni, en það mun annaðhvort slípast eða það hefur átt að vera svona. Á þessum spítala getur allt gerst.

A.L.F. er einhver fyndnasta sýning sem er í boði á höfuðborgarsvæðinu núna á vordögum. Fáið tilvísun hjá heimilislækninum ykkar ef þið þorið.

laugardagur, apríl 01, 2006

Kraftaverk
Jesús Kristur súperstjarna
Höfundar: Andrew Lloyd Webber og Tim Rice. Stjórnandi: Erla Þórólfsdóttir. Menntaskólanum á Akureyri 1. apríl 2006

ÞEIR Webber og Rice nýta sér til fullnustu þá forgjöf að hvert mannsbarn þekkir söguna. Leitun er að jafnkæruleysislega uppbyggðri dramatískri frásögn og Jesú Kristi súperstjörnu, en það gerir næsta lítið til. Öllu verra er að kyngja því sem þeir hafa helst til málanna að leggja: samansemmerkið milli leiðtoga lífsins og frægðardýrkandi stjörnumenningar nútímans er bæði ósmekklegt og einkennilega ófrjótt. Sem betur fer kemur það heldur ekki svo að sök. Svo mikið gengur yfirleitt á í tónlistinni að fínni blæbrigði textans drukkna í tónhafinu.

Eftir standa magnaðir dramatískir viðburðir og einhver glæsilegasta tónlist sem um getur í léttari hluta tónlistarleikhúss síðustu aldar. Eftir á að hyggja er varla skrítið þótt Webber tækist aldrei að toppa þetta.

Mesta hrifningu mína á sýningu framhaldsskólanna á Akureyri vakti hljómsveitin. Mig skortir smásmygli til að hafa nokkuð út á hana að setja. Og það er eiginlega fáránlegt, því hún er eins og önnur skiprúm á þessari skútu skipuð nemendum skólanna eingöngu. Á svona nokkuð að vera hægt? Það eina sem lýtur að tónlistarflutningi sem hægt er að hafa á hornum sér er að jafnvægi milli uppmagnaðrar hljómsveitar og einsöngvara annars vegar og kórsins hins vegar er ekki til staðar. Hinn fjölskipaði kór drukknar alfarið í undirleiknum og virkar því ómaklega máttlaus. Kannski óyfirstíganlegt vandamál, en óneitanlega bagalegt því kraftur og sterk nærvera er annars höfuðeinkenni sýningarinnar.

Það verður að taka ofan fyrir hinum óreynda leikstjóra sýningarinnar fyrir hve lífræn og litrík hópatriðin eru. Og náttúrlega meðlimum hópsins, því fumleysi og áreynslulausa nærveru er ekki hægt að búa til utan frá. Reyndari leikstjóri hefði ekki gert þetta betur, en hefði hins vegar áreiðanlega stundum tekið aðrar ákvarðanir um staðsetningar og stefnu leikenda, sem of oft þurftu að beina orðum sínum uppsviðs, í öruggri vissu um að hljóðkerfið skilaði söng þeirra til áhorfenda. En í leikhúsi dugir það ekki til.

Annað sem lýtir sýninguna nokkuð er hinn háspennti, allt að móðursýkislegi leikstíll sem einkennir framgöngu aðalleikendanna. Það hefði þurft að setjast með nokkrum þunga ofan á Jesús og Júdas, sérstaklega í fyrri hlutanum, svo eitthvað væri nú eftir af örvæntingu til að sýna þegar skelfingar leikslokanna dynja yfir. Og eins hefði örlítið meiri hófstilling í útfærslu písla Krists ekki rýrt áhrifamátt sögunnar. Leið Mel Gibson er ekki eina leiðin.

Söngurinn er í heildina alveg óleyfilega flottur. Hver einasta sólóstrófa pottþétt, og helstu glansnúmer glansa. Enginn skín þó skærar en Eyþór Ingi Gunnlaugsson í hlutverki Frelsarans. Mögnuð þungarokkstilþrif af gamla skólanum þegar á þarf að halda, yfirvegun og fókus þess á milli.

Í lokin verður svo að setja aðeins ofan í við norðanmenn fyrir að geta ekki þýðenda verksins í annars vel gerðri leikskránni. Þetta er þeim mun klaufalegra en ella þar sem ég gat ekki betur heyrt en þetta væri hin ágæta eyfirska þýðing Hannesar Blandon og Emelíu Baldursdóttur. Svona gerir maður ekki.

En þetta er flott sýning þar sem fágun og fagmennska helst í hendur við ungæðislegan kraft. Grettistak. Kraftaverk.

Þorgeir Tryggvason

Tveir tvöfaldir

Leikfélag Húsavíkur Höfundur: Ray Cooney, þýðandi: Árni Ibsen, leikstjóri: María Sigurðardóttir. Samkomuhúsinu á Húsavík 1. apríl 2006.

Það er gaman þegar er gaman 


ÞEGAR sígur á seinni hlutann í góðum farsa er umhverfið allt orðið eins og jarðsprengjusvæði fyrir persónurnar. Eitt óvarlegt orð, ein gleymd lygi, og allt er farið fjandans til. Kannski að einhverju leyti sambærilegt við þá jafnvægislist sem leikstjóri þarf að tileinka sér meðan verið er að móta verkið. Það er auðvelt að klúðra försum og gerist of oft. Og ekkert er eins þungbært og að sitja undir ófyndnum farsa. Enginn hlær. Hans eini tilgangur horfinn.

Góðu heilli er þetta ekki upp á teningnum hjá Leikfélagi Húsavíkur að þessu sinni. Þvert á móti skilar misreyndur en sterkur leikhópurinn einhverri fyndnustu farsasýningu sem ég hef lengi séð. Það sem á stærstan þátt í því er þolinmæði leikstjórans við að byggja upp spennuna. Alltof oft falla leikstjórar og leikarar í þá freistni að gera of mikið úr vandræðum persónanna meðan þau eru rétt að byrja, ýkja móðursýkina í upphafi og lenda svo í stökustu vandræðum við að bæta í.

Fyrir utan að með ótrúverðugum viðbrögðum í byrjun tapa persónurnar samlíðan áhorfenda sem koma þær ekki við upp frá því. Og hláturinn kviknar af samúð. Hér er allt hárrétt stillt. Mögulega má reyndar hitastigið hækka aðeins hraðar en það gerði á frumsýningunni, smávægilegt textaóöryggi skaut stundum upp kollinum. Verður orðið fínt um næstu helgi. Útkoman er samt sú að við fylgjum þessum breysku, gröðu og gráðugu persónum fúslega inn á jarðsprengjusvæðið og ýlfrum af hlátri þar sem þær hoppa á milli þúfna.

Leikhópurinn er glæsilegur. Reynsluboltarnir Guðný Þorgeirsdóttir, Sigurður Illugason og Þorkell Björnsson stíga ekki feilspor og minna reyndir boltar eins og Helga Ragnarsdóttir, Svava Björk Ólafsdóttir, Hjálmar Ingimarsson, Judit György og Hilmar Valur Gunnarsson skoppa líka. Sólveig Skúladóttir og Sigurjón Ármannsson fín í sínum örhlutverkum. Burðarásinn er úr yngri deildinni þótt hann hafi ýmislegt reynt á sviði undanfarin ár.

Hjálmar Bogi Hafliðason er algerlega óborganlegur sem vammlausi ritarinn sem spillti stjórnmálamaðurinn og hans vergjarna frú steypa út í fenið til sín. Hjálmar hefur nýtt færin sín vel undanfarin ár, lært af hverju hlutverkinu á fætur öðru og uppsker nú ríkulega. Alltaf sannur og innlifaður, en um leið merkilega teknískur. Frábær frammistaða.

Leikmyndin er flott og lygilega rúmgóð í þrengslum Samkomuhússins. Öll sviðsetningarvinnan pottþétt hjá Maríu. Útkoman er firnaskemmtilegur farsi og rós í hnappagat hins fornfræga félags.