miðvikudagur, apríl 25, 2007

Lífið - notkunarreglur

Leikfélag Akureyrar og Leiklistardeild LHÍ
25. mars 2007.

Skógarferð


Höfundur: Þorvaldur Þorsteinsson, tónlist: Megas, leikstjóri: Kjartan Ragnarsson. Leikmynd og búningar: Þorvaldur Þorsteinsson, tónlistarstjórn: Magga Stína, lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson, hljóðmynd: Magga Stína og Kristján Edelstein, leikgervi: Ragna Fossberg. Hljómsveit: Magga Stína, Kristján Edelstein, Unnur Birna Björnsdóttir og Sigurður Helgi Oddsson

Leikendur: Anna Svava Knútsdóttir, Bjarni Snæbjörnsson, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Magnús Guðmundsson, Ólafur Steinn Ingunnarson, Páll Sigþór Pálsson, Sara Marti Guðmundsdóttir, Sigrún Huld Skúladóttir, Tinna Lind Gunnarsdóttir,, Vignir Rafn Valþórsson og Þráinn Karlsson.

Skógarferð


MEÐ einföldun sem kalla má grófa eða gagnlega eftir því hvað hvaðan horft er má segja að Þorvaldur Þorsteinsson sé tveir höfundar, og eru þar ótaldir aðrir listamenn sem í honum búa og fást við sjónlistir af ýmsum toga. Annar höfundanna skrifar djúp og dularfull verk fyrir börn, sem gjarnan eru það innihaldsrík að fullorðnum er skemmt líka, Skilaboðaskjóðuna og bækurnar um Blíðfinn. Hinn fer í könnunarleiðangra um nútímasamfélagið og niður í undirheima sálarlífsins og flytur okkur tíðindi úr skúmaskotum sem leynast (kannski) í venjulegu fólki sem maður hittir á götu eða býr í næsta húsi. Verk eins og Sveinsstykki, And Björk of Course og Maríusögur, sem Þorvaldur skrifaði einmitt fyrir Nemendaleikhúsið eins og Lífið – notkunarreglur nú.

Svo einfölduninni sé haldið aðeins til streitu þá er það fyrrnefndi höfundurinn sem núna spreytir sig. Lífð – notkunarreglur er ævintýraverk fyrir fullorðna, tilraun til að nota form og skáldaleyfi slíkra verka til að koma erindi sínu á framfæri. Það er nokkuð vel til fundið. Grunnlíking verksins um fólkið sem er á leiðinni í gegnum skóginn er kjörin til að tjá mismunandi afstöðu okkar til vegferðarinnar og þá ekki síður til að beina athyglinni að hinum óorðuðu og óskráðu reglum og kröfum sem við þurfum að hlýta, eða teljum okkur þurfa að gangast undir.

Efnið er kunnuglegt þeim sem fylgst hafa með skrifum og Þorvaldar undanfarið eða hlýtt á fyrirlestra hans. Hér er lofsungin sú frjálsborna afstaða til lífsins að líta á allar athafnir sínar sem skapandi en messað gegn ítroðslu og brautarlagningu skólakerfisins og samfélagsins. Hér er þessum boðskap komið haganlega fyrir í stórri líkingu, sögu af hópi ungs fólks á leið gegnum skóg með ólíka afstöðu til ferðalagsins. Sumir njóta ferðarinnar, mæta því sem fyrir augu ber opnir og tilbúnir. Aðrir mæna stífir á sjóndeildarhringinn, staðráðnir í að ná leiðarenda sem þeir vita vart hver er. Sumir gleðjast yfir fegurðinni, aðrir mæla og skrásetja tré og annað sem fyrir augu ber.

Boðskapurinn er fallegur og fer vel í þessari umgjörð. Tvennt kemur þó í veg fyrir að þessi rýnir heillist algerlega upp úr skónum. Fyrir það fyrsta þá vinna þær formkröfur sem verkefni fyrir útskriftarhóp gera dálítið gegn áhrifamættinum og ævintýratöfrunum. Það þarf nefnilega að skrifa verk með átta nokkurnvegin jafnbitastæðum hlutverkum, og það hefur Þorvaldur gert. En það sem tapast við það er ein dýpsta uppspretta töframáttar ævintýrisins: sagan. Framvindan verður óhjákvæmilega í öðru sæti þegar svo margir þurfa að láta ljós sitt skína. Svo er líka snúið að finna átta áhugaverðar afstöður til ferðalagsins, og tekst ekki alveg hér.

Hitt atriðið sem togar hrifningarstigið niður er stíllinn á textanum, þ.e.a.s sá hluti hans sem er í bundnu máli. Þetta er vandmeðfarið stílbragð og nær fyrir minn smekk ekki því flugi hér sem réttlætir notkun þess. Í stað þess að efla slagkraftinn í verkinu dró mælgin úr honum, en sem betur fer er sú aðferð ekki allsráðandi í textanum. Og þegar best lætur er hann magnaður og lýsir persónunum betur en þær ætluðust kannski til sjálfar, nokkuð sem hinn höfundurinn sem býr í Þorvaldi er meistari í.

En þó rímið í leiktextanum sé stundum full-rislítið þá eru söngtextarnir glettilega góðir, og tónlistin frábær. Það er töfrablær yfir lögum Megasar sem bæði hafa skýr höfundareinkenni hans en eru jafnframt eins og sniðin fyrir leiksvið og vísa bæði í söngleikjahefð og barnaleikrit. Flutningurinn smekklegur mjög, bæði hjá hljómsveit og söngvurum.

Flæðið í sýningunni er markvisst og efnistök leikstjórans örugg. Umgjörðin er rómantísk, litir mildir, búningar með fallegum fortíðarblæ þó viðfangsefnið sé klárlega hráblautur samtíminn.

Þessi sýning er þó skömm sé frá að segja mín fyrstu kynni af útskrifarhóp Listaháskólans að þessu sinni. Eiginlega finnst mér lítið um hvern einstakan leikara að segja á grundvelli frammistöðunnar hér, sem er heilt yfir alveg skotheld. Hef reyndar grun um að sem leikverkefni séu hlutverkin hér ekki ýkja krefjandi. Það sama má segja um aðrar rullur sem leikarar Leikfélags Akureyrar skila með prýði. Ég hlakka til að fylgjast með framgangi hinna ungu listamanna næstu árin og óska þeim alls hins besta.

Lífið – notkunarreglur er óvenjuleg og áhrifamikil sýning sem skilur eftir bæði spurningar og skýra tilfinningu fyrir afstöðu höfundar síns til ýmissa gilda í nútímanum. Það er alvara á bakvið bernska útfærsluna, þungi undir rómatísku yfirborðinu. Það eru mörg vopn á lofti og kannski ekki skrítið að ekki takist að hafa styrka hönd á þeim öllum. En það sem hún hefur að segja er mikilvægt og hlátur áhorfenda á frumsýningu var aldrei hæðnishlátur þeirra sem vita betur, ævinlega hlátur þess sem hittir sjálfan sig fyrir á óvæntum stað.