laugardagur, apríl 30, 2005

Allra kvikinda líki

Leikfélag Kópavogs
Hjáleigunni, Félagsheimili Kópavogs 30. apríl 2005

Leikstjórn: Guðjón Þorsteinn Pálmason og Hrund Ólafsdóttir.

Ævintýri Jóa og Júdasar

ÞÓ svo fæstir af leikhóp Leikfélags Kópavogs að þessu sinni hafi starfað áður með félaginu var merkilegt að sjá hvað mikið af einkennum og kostum sýninga félagsins voru til staðar í sýningunni Allra kvikinda líki. Nákvæmni, skýrleiki, listræna, hugmyndaauðgi og kraftur einkenna hana og útkoman er hin besta skemmtun.

Sýningin er unnin í hópvinnu af leikstjórunum tveimur og leikhópnum upp úr bresku teiknimyndablaði, VIZ. Hér eru sagðar nokkrar sögur af Jóa litla sem býr ásamt hundinum Júdasi í þorpinu Tuðnesi hjá Möggu frænku sinni. Jói er athugull snáði og fljótur að bregðast við ef þarf að taka á samfélagsmeinum í þessu smáskrítna þorpi, hvort sem það er að grafast fyrir um uppruna dularfulls blómkálshauss, afhjúpa útsmogið eggjahlaupssvindl, eða þá að koma Möggu frænku til hjálpar þegar kynfræðslan í skólanum kippir fótunum undan fóstureyðingarbissnessnum. Húmorinn er svartur mjög á skemmtilega blátt áfram hátt að breskum sið og Kópavogsmenn halda vel utan um hann og skila firnavel.

Sögurnar sem þau hafa valið henta nokkuð misvel fyrir sviðsgerð, og svo vill til að fyrstu sögurnar tvær eru erfiðari en þær sem á eftir koma og fyrir vikið er sýningin smástund í gang. Einnig er í fyrri hluta sýningarinnar fulloft gripið til þess ráðs að "brjóta rammann", sýna leikarana sjálfa lenda í vandræðum með hlutverkin sín, hoppa út úr þeim og byrja aftur. Viðkvæm brella sem ekki má ofnota. En þegar sýningin kemst á fullt flug er hún frábærlega vel útfærð og alveg myljandi fyndin. Kemur þar bæði til efnið og það vald sem leikhópurinn hefur á aðferðinni, frásagnar- og hópvinnuleikhús sem Ágústa Skúladóttir hefur átt stærstan þátt í að innleiða í íslenskt leikhús undanfarin ár með Leikfélag Kópavogs sem nokkurs konar móðurstöð.

Leikhópurinn vinnur vel saman og skilar hinum smáskrítnu íbúum Tuðness með miklum sóma. Sigsteinn Sigurbergsson er hárréttur maður í að leika Jóa litla, hefur skemmtilega andlitstjáningu og breiðir sakleysislegt yfirbragð yfir köflótt innræti drengsins. Þá mæðir mikið á Andreu Ösp Karlsdóttur sem er bæði Magga frænka og hundurinn Júdas og skilar báðum með krafti.

Af öðrum í hópnum verður sérstaklega að geta töframannsins Bjarna, sem með frábærri líkamstjáningu, útgeislun og húmor gerir allt hlægilegt sem hann kemur nálægt.

Þá er mikil prýði af hljóðmynd þeirra bræðra Baldurs og Snæbjarnar Ragnarssona. Hún skapar hárrétta stemningu þegar á þarf að halda og svo eru sönglögin hreint afbragð og textar Snæbjörns frábærlega gerðir og drepfyndnir.

Þessi litla sýning í Kópavoginum er útfærð af listrænu öryggi sem í ljósi þess hve hópurinn er sundurleitur er meiri háttar afrek og lofar góðu um framtíð félagsins. Mestu skiptir þó fyrir áhorfandann að hún er með því skemmtilegra á fjölunum á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana.

föstudagur, apríl 29, 2005

Blessað barnalán

Leiklistarfélag Seltjarnarness
Félagsheimili Seltjarnarness 29. apríl 2005

Höfundur: Kjartan Ragnarsson
Leikstjóri. Bjarni Ingvarsson.

Hún lifir!

HREYFIAFLIÐ í Blessuðu barnaláni er eins og löngum í gamanleikjum togstreita kynslóðanna. Unga fólkið sýnir þeim sem eldri eru enga ræktarsemi og það er ekki fyrr en hin kúgaða heimasæta lýgur upp andláti móður sinnar sem systkini hennar ómaka sig austur í fæðingarþorpið. Og gömlu samskiptamunstrin eru þarna enn þó æskuheimilinu hafi verið breytt í hótel og hver farið sína leið. Síðan gengur á með tilheyrandi veseni út af lyginni og alls kyns pínlegum uppákomum þar til tjaldið fellur.

Verkið er kannski ekki eins vinsælt verkefni nú og það var fyrir nokkrum árum, en við það að sjá hvað það verður Seltirningum efni í líflega og skemmtilega sýningu er alveg ljóst að það er hvorki úrelt né byggir vinsældir sínar á fortíðarþrá. Það er lipurlega skrifaður og áreynslulaus gamanleikur með sterku farsabragði en missir aldrei tökin á því að fjalla um fólk af holdi og blóði af hlýju og samúð. Ég hef enga trú á að þetta verk eigi nokkurn tíma eftir að falla í gleymsku. Spái því að eftir svona tuttugu ár muni fólk kalla Blessað barnalán klassík án þess að blikna.

Bjarni Ingvarsson er bæði gjörkunnugur verkum af þessum toga og þaulvanur að vinna með félögum á borð við Leiklistarfélag Seltjarnarness sem ekki státar af langri sögu og sterkri hefð þó sumir leikaranna kunni greinilega eitt og annað fyrir sér. Uppfærslan er enda hefðbundin mjög, umgjörðin með viðteknum hætti, óaðfinnanlega útfærð reyndar af leikstjóranum, og allt gengur lipurlega fyrir sig. Sýningin er heilt á litið kraftmikil og fjörug, þó einstaka leikarar ættu enn eftir að hrista af sér skrekkinn á frumsýningunni og gefa í botn. Mestu skiptir þó að kómíkinni er vel til skila haldið með góðum tímasetningum og hæfilegum hraða þegar það átti við. Fyndin tilsvör hittu í mark, framsögn öll til fyrirmyndar. Í stuttu máli sagt: þetta virkar.

Þó svo allir hafi tækifæri til að sýna skemmtilega takta, og geri það, hvílir ábyrgðin á að halda sýningunni á floti þyngst á þremur leikurum. Jóhanna Ástvaldsdóttir skilaði hlýjunni í frú Þorgerði með mikilli prýði og var aukinheldur fyndin þegar á þurfti að halda. Askur Kristjánsson er ungur að árum og greinilega efni í afbragðs gamanleikara ef marka má hinn kostulega og vandræðalega séra Benedikt sem hann skapar hér án teljandi áreynslu að sjá. Síðast en ekki síst er Guðrún Ágústsdóttir yndisleg sem hin bælda systir sem kemur öllu af stað og glímir við afleiðingarnar út verkið. Hún á samúð áhorfenda óskipta þó við hlæjum að hverjum þeim ógöngum sem höfundurinn sendir hana í af stráksskap sínum.

Þetta er fyrsta sýningin sem ég sé hjá Leiklistarfélagi Seltjarnarness. Það er óhætt að segja að þau kynni fari vel af stað. Blessað barnalán er ósvikin skemmtun af gamla skólanum, en fersk samt eins og góð leiklist er ævinlega; búin til á staðnum og því síung. Takk fyrir mig.

sunnudagur, apríl 24, 2005

Bannað að sofa hjá Maríu Mey

Agon, leikfélag Borgarholtsskóla
Iðnó 24. apríl 2005

Höfundar: Hrafnkell Stefánsson og Nói Kristinsson
Leikstjóri: Guðný María Jónsdóttir.

Af óbærilegum kostum skírlífis

AF ýmsum ástæðum dróst úr hömlu að gagnrýnandi kæmist á þessa sýningu Agons, en þar sem hún fjallar einmitt um reddingu á síðustu stundu þá reynir leiklistarrýnir að gera sitt besta þrátt fyrir það.

Borgarholtsskóli er ungur skóli og leiklistarlíf þar á byrjunarreit. Í fyrra var sleginn kraftmikill tónn með Íslandsfrumsýningu á unglingaleikriti eftir einn nafntogaðasta leikritahöfund samtímans, Mark Ravenhill. Og nýsköpunin heldur áfram, núna er boðið upp á nýtt leikrit eftir tvo pilta úr hópnum. Óhætt er að segja að sú frumraun hafi heppnast vonum framar.

Verkið segir frá honum Davíð sem deyr og fer til himna eins og lög gera ráð fyrir en er umsvifalaust snúið aftur til jarðarinnar ásamt Mikael erkiengli til að fyrirbyggja heimssögulegt stórslys. Búið er að velja Maríu fyrir næsta flekklausa getnað og tilheyrandi endurkomu Krists en nú hefur frést af áformum hennar og kærastans sem munu af tæknilegum ástæðum gera meyfæðingu óhugsandi.

Nú eru góð ráð dýr. Hvernig á að fá nútímastúlku eins og hana Maríu ofan af því að byrja að stunda kynlíf með kærastanum þegar hana lystir. Mikael stingur upp á að útmála fyrir henni kosti skírlífis en hinn veraldarvanari Davíð er ekki trúaður á að svoleiðis virki á Íslandi í dag. Raunar er það eina sem ég hef við verk höfundanna að athuga er að þeir neita okkur um senuna þar sem Davíð gerir tilraun til að prédika amerískan skírlífisboðskap yfir Maríu. Þess í stað leiðist atburðarásin yfir á öllu dramatískari brautir.

Verkið er hin prýðilegasta smíð. Ekki þarf að koma á óvart að tveir pennaglaðir spaugarar í menntaskóla geti skrifað brandara og jafnvel komið þeim til skila í sketsaformi. Hitt er verulega athyglisvert hvað þeir hafa mikið vald á formi og uppbyggingu. Verkið er spennandi, sífellt að skipta um stefnu og heldur áhorfandanum stöðugt áhugasömum. Svo er það fullt af snjöllum smáatriðum um lífið á himnum og hér niðri líka sem krydda söguna. Ef marka má leikskrána hafa þeir Hrafnkell og Nói ýmislegt á prjónunum og ég mun a.m.k. fylgjast grannt með því sem frá þeim kemur í framtíðinni.

Uppfærsla Guðnýjar Maríu einkennist af einfaldleika. Leikmynd er mjög af skornum skammti, búningar sömuleiðis mínímalískir og ekkert ber á tilhneygingu til að búa til “sjó”. Það er aðdáunarvert og sýningin skilar verkinu ágætlega. Hinsvegar hefur Guðnýju ekki tekist nægilega vel að laða fram kraftmiklar og sannfærandi sviðspersónur úr óvönum leikurum sínum. Að þessu leyti eiga strákarnir sínu lengra í land en stúlkurnar, þó þeir hafi bitastæðari hlutverkin. En þegar leikhópurinn er lítt vanur og hefðin í skólanum stutt þarf að finna upp hjólið áður en lagt er út í að sýna listir. Og þrátt fyrir þetta er sýningin hin besta skemmtun, og stærstan heiðurinn eiga tvímenningarnir á bak við handritið. Framtíðin er Agons og þeirra.

laugardagur, apríl 09, 2005

Rígurinn

Leikfélög Menntaskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri
Gryfjunni í Verkmenntaskólanum laugardaginn 9. apríl 2005

Höfundar: Andri Már Sigurðsson og Ævar Þór Benediktsson
Leikstjóri: Þorleifur Arnarsson
Hljómsveitarstjóri: Sigurður Helgi Oddsson

Af fornri heift

FRAMHALDSSKÓLARNIR á Akureyri hafa ekki farið varhluta af "sjóveikinni" sem stingur sér niður í hverjum menntaskólanum á fætur öðrum þessi árin. En að sjálfsögðu eru einkennin með örlítið öðrum blæ en fyrir sunnan. Tónlistin er allajafnan "live", þ.e. ekki er notast við upptekinn og aðkeyptan undirleik heldur settar saman hljómsveitir með skólafélögunum (auðvitað eru samt á þessu undantekningar í báðar áttir). Það sem tapast af fagmennsku vinnst aftur í formi ferskleika og sannfæringar, því allt snýst þetta jú um að bera á borð eigin sköpun. Með Rígnum er síðan stigið eitt skref í viðbót því handritið er eftir tvo skólapilta (eða hvort þeir eru nýútskrifaðir, skiptir ekki máli) og efnið sótt í aðstæður nemendanna sjálfra; rómaðan ríginn milli skólanna tveggja sem sameinast um sýninguna. Grindin er svo sótt í Rómeó og Júlíu, svolítið eins og ættarmótsnefndir Montags og Kapúletts sameinist um skemmtiatriði.

Handritið hefur margt gott við sig. Í fyrri hlutanum, meðan verið er að lýsa aðstæðum og hrinda atburðunum af stað, tekst þeim bæði að skjóta sannfærandi skeytum á móralinn í báðum skólum og ýkja ástandið upp úr öllu valdi. Mörg meinfyndin atriði birtast okkur, ekkert þó snilldarlegra en kórsöngur montinna MA-inga sem slær út ég elska menn hjá Versló um árið sem er best heppnaða tónlistaratriði sem ég hef séð í framhaldsskólasýningu. Og talandi um þann skóla, að gera verslóstjörnuna Þorvald Davíð að persónu í verkinu sem hliðstæðu Parísar greifa í Rómeó og Júlíu er innblásin og dýrðlega andstyggileg hugmynd.

Í síðari hlutanum þyngist nokkuð róðurinn þegar dramað hellist yfir. Þannig er það líka í Rómeó og Júlíu, en það verður að segjast eins og er að hinum ungu höfundum fatast nokkuð flugið í alvörunni. Það er eitthvað við hinar ýktu og skemmtilegu aðstæður sem þeir skapa í fyrri hlutanum sem vinnur gegn harminum og siðferðislegri alvörunni sem þeir vilja greinilega fyrir allan mun skila. Meira frelsi gagnvart frumverkinu, meiri hlýðni við aðstæðurnar sjálfar í skólunum, léttari efnistök hefðu gert sýninguna frábæra, og á endanum skilað sterkari áhrifum. Þess í stað er hún "bara" verulega eftirtektarverð frumraun og frábært þrekvirki í uppfærslu á öllum póstum.

Sviðsetningin er ansi hreint mögnuð hjá Þorleifi og orkustigið hátt. Sérstaka aðdáun mína vöktu kraftmikil og frábærlega útfærð slagsmálaatriði, aftur eitthvað sem ég hef ekki séð nálægt því svona vel gert í öðrum skólasýningum og þó víðar væri leitað. Kannski má segja að stundum verði aðstæðurnar í Gryfjunni til þess að of margar sekúndur líði milli atriða en vel má vera að það þéttist. Jafnframt má reikna með að hljóðmaðurinn, sem ekki átti góðan dag, verði öruggari á sínu eftir því sem sýningum fjölgar. Hljómsveitin var mögnuð, en söngur nokkuð misgóður.

Allir helstu leikarar skila góðu verki. Mestur er stjörnubragurinn á Guðmundi Inga Halldórssyni í hlutverki Verslingsins, eins og vera ber. Foringjar gengjanna tveggja voru vel leystir af Unni Birnu Björnsdóttur og Þorkeli Stefánssyni. Elskendurnir sömuleiðis ágætir hjá Albert Sigurðssyni og Snjólaugu Svölu Grétarsdóttur. Hópurinn var samstiga mjög þrátt fyrir mikinn hamagang á köflum, rós í hnappagat leikstjórans sem er flinkur umferðarstjóri.

Rígurinn er einstakt verk um margt. Samvinna tveggja skóla um verk sem fjallar um ósamkomulag þeirra. Grettistak ungs fólks sem er mikið niðri fyrir um eigið líf og vill miðla því sjálft á eins áhrifaríkan hátt og kostur er. Gallarnir fölna við hlið hinnar augljósu ætlunar. Svona á að gera þetta!