fimmtudagur, júlí 13, 2006

This Side Up

Ramesh Meyyappan Sýnt í Tjarnarbíói á vegum Döff leiklistarhátíðar Draumasmiðjunnar. Sunnudagurinn 16. júlí 2006.

Póstur frá Singapore

EF ÉG skil hugmyndina að baki Döff-leikhúsi rétt þá er hugsjón þess að skapa leiklist sem heyrandi og heyrnarlausir geta notið saman og á sömu forsendum.

Og hvað er þá einfaldara og rökréttara en látbragðsleikurinn, sú ævaforna list að segja sögu án orða með líkamstjáningunni einni?

Ramesh Meyyappan frá Singapore heimsótti Ísland sem þátttakandi í Döff-leiklistarhátíð Draumasmiðjunnar á Akureyri, en gerði einnig stuttan stans í Reykjavík og sýndi listir sínar í Tjarnarbíói fyrir óþarflega fáa áhorfendur á sunnudagskvöldið.

Eins og með dans og aðrar „líkamlegar“ sviðslistir þá dregur mímuleikurinn einatt athyglina frá innihaldinu og að forminu, en þó sérstaklega að færni og frammistöðu listamannsins á sviðinu. Viðfangsefni hans, sagan sem hann segir eða hugmyndirnar sem hann vill miðla, reynist oftast minna áhugaverð en hin framandi tækni sem beitt er við að koma henni á framfæri.

Þannig fór líka hér, enda Ramesh Meyappan einkar ásjálegur flytjandi með lipra tækni og fallegar hreyfingar. Önnur helsta gleðin við að horfa á flinkan látbragðsleikara er einfaldlega gleðin sem felst í því að sjá hvað hann er að reyna að gera, sérstaklega ef maður hefur eitt andartak misst sjónar á því. Það voru ófá slík andartök í sýningunni. Nokkrum sinnum missti ég þó þráðinn sem tengdi mig við listamanninn og skildi ekki hvað hann var að sýna, en skelli skuldinni á óþarflega snúinn söguþráð fremur en vöntun á færni hjá honum eða athygli hjá mér.

Það eru vitaskuld takmörk fyrir því hverju hægt er að miðla með látbragðinu einu. This side up segir frá ævintýralegum hversdagsraunum póstburðarmanns og samskiptum hans við hefðbundna ógnvalda póstsins, grimma hunda og illvíga byssumenn.

Atburðarásin var einatt fremur ólíkindaleg, og Ramesh gekk vel að greina á milli ólíkra persóna með örlítilli hjálp frá kaskeitinu sínu. Hann er óhræddur við að hverfa út úr raunsæinu og treystir tækni sinni og máli látbragðsleiksins greinilega fullkomlega til að draga áhorfendur með sér út úr hversdagsleikanum og á vit fantasíunnar. Þetta tókst oftast, en eins og áður sagði missti ég á nokkrum stöðum tilfinninguna fyrir því hvert var verið að fara.

Þetta var skemmtileg lítil sýning og hefði verðskuldað betri mætingu, enda ekki eins og látbragðsleikur af þessum gæðum sé stöðugt á borðum íslenskra leikhúsáhugamanna.

Eins og áður sagði er Ramesh Meyyappan hingað kominn vegna Döff-leiklistarhátíðar Draumasmiðjunnar sem fram fór á Akureyri í síðustu viku. Þar voru í boði sjö sýningar frá ýmsum löndum.

Með stuttu millibili hafa sem sagt verið haldnar hér tvær alþjóðlegar leiklistarhátíðir á vegum sjálfstæðra leikhópa, væntanlega af fjárhagslegum vanefnum en örugglega með glæsibrag að öðru leyti. Þessi framtakssemi er vitaskuld mikið gleðiefni og verður vonandi framhald á. Leiklistarþjóðin þarf leiklistarhátíðir.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

The Worst of Eric Bogosian

Flytjandi: Eric Bogosian, leikstjóri: Jo Bonney. Act Alone, leiklistarhátíð á Ísafirði fimmtudaginn 29. júní 2006.

Einn síns liðs

ÁÐUR en sýningu Erics Bogosians verða gerð skil er óhjákvæmilegt annað en víkja nokkrum orðum að einleikjahátíðinni Act alone, þessu ótrúlega einkaframtaki Elvars Loga. Hann heldur nú þessa alþjóðlegu leiklistarhátíð í þriðja sinn á jafnmörgum árum, með tólf sýningum, tveimur námskeiðum og þremur erlendum gestum. Hátíðin hefur ekki farið sérlega hátt í menningarumræðunni hingað til, en núna er svo sannarlega ástæða til að blása í lúðra og hvetja leiklistaráhugafólk um allt land til að sækja Ísafjörð heim að ári, því ekkert bendir til annars en Act alone sé komin til að vera. Fjölbreytnin er mikil; barnaefni, trúðleikur, söguleg verk. Flytjendur hafa ólíkan bakgrunn, sumir hafa leiklistarmenntun, aðrir ekki, sumir flytja eigin ritsmíðar, sumir túlka verk annarra.

Opnunarsýning og skrautfjöður hátíðarinnar að þessu sinni var The worst of Eric Bogosian. Bogosian þessi er amerískur einleikari með glæstan feril að baki sem sýningin veitir ágætis yfirlit yfir, enda byggð upp af atriðum úr fyrri verkum hans. Af þessum sýnishornum að dæma er hann mikill heimsósómahöfundur, en atriðin voru öll í tóntegund kaldhæðinnar ádeilu á mannlega breyskleika, trúarbrögð, græðgi og heimsku. Reyndar átti sýningin öll meira skylt við uppistand en einleik í skilningi leikhússins, þó svo í sumum atriðum væri það sem kalla má persónusköpun var algengara að Bogosian hellti einfaldlega úr skálum hneykslunar sinnar á ástandi heimsins og innræti mannsins í eigin persónu. Og að sjálfsögðu er ekkert við þá nálgun að athuga þegar jafn flinkur maður er að verki og hér um ræðir.

Eric Bogosian, sem er einstaklega orkuríkur flytjandi og hefur frábært vald á efni sínu, brunaði í gegnum prógrammið á miklum hraða og krafti. Vera má að meiri tilbreyting í styrk og hraða hefði aukið áhrifamátt hvers atriðis fyrir sig og þannig sýningarinnar í heild, sérstaklega síðustu atriðanna þar sem linnulaus flaumurinn af orðum, hugmyndum, bröndurum og ádeilu var óneitanlega farinn að deyfa móttökutæki undirritaðs. Þarna hefði líka hjálpað ef samband leikarans við áhorfendur hefði verið örlítið skýrara og sterkara, nokkuð sem uppistandsformið eiginlega krefst ef vel á að vera.
En þrátt fyrir þessar aðfinnslur þá var megnið af kvöldinu bráðfyndið og beitt. Eftirminnileg er óvægin afgreiðsla Bogosians á kristinni trú, svo og á hugleiðsluiðnaðinum. Frá hreinræktuðu leiklistarsjónarmiði var hápunkturinn sennilega miðaldra dóphausinn sem Bogosian leyfði sér að sýna næsta hlutlaust og eftirlét áhorfendum það verkefni að dæma hann. Það var líka athyglisvert hvað þétt setinn salurinn átti auðvelt með að grípa innihaldið þrátt fyrir snerpuna í flutningnum og þrátt fyrir hvað mikið af innihaldinu var í raun sér-amerískt. Sýnir sennilega hve menningarleg áhrif vina okkar í vestrinu eru gríðarleg, þeirra raunveruleiki er okkur það nálægur að við getum notið þess að heyra honum ögrað á þennan hátt.

The worst of Eric Bogosian var skemmtileg sýning, kraftmikil, fyndin og beitt, og gaf vonandi tóninn fyrir áframhaldið á þriðju einleikjahátíð Elvars Loga Hannessonar.

mánudagur, júlí 03, 2006

Tveir einleikir

OTOMOTO
Leikari og höfundur: Ole Brekke

HISTORY OF MY STUPIDITY
Leikari og höfundur Zeljko Vumirica

Tjarnarbíó 3. júlí 2006

Tveir vitleysingjar að vestan



TVEIR af erlendum gestum einleikjahátíðarinnar Act alone buðu þeim sem ekki áttu heimangengt á Ísafjörð um helgina upp á reykinn af réttunum í gærkvöldi. Báðir hafa þeir Ole Brekke og Zeljko Vukmirica bakgrunn í trúðleik, en að öðru leyti voru ekki mikil líkindi með sýningum þeirra.

Það er eitthvað sérkennilegt við að skrifa gagnrýni á trúða. Gott ef ekki eitthvað rangt. Ekkert afhjúpar tilraunir til að vera gáfulegur, greinandi og vitsmunalegur eins rækilega og góður trúður, sem með einlægni sinni og hreinum hug mætir fólki og fyrirbærum af fölskvalausum áhuga, vopnlaus af reynslu, bókviti eða hyggindum. Góður trúður neyðir áhorfendur - gagnrýnendur og aðra - til að hlýta fyrirmælum Halldórs Laxness, að kasta lógaritmatöflunum og “koma eins og krakki” í leikhúsið.

Samkvæmt leikskrá er Ole Brekke maðurinn á bak við The Commedia School í Kaupmannahöfn, og á þar með hluta heiðursins af skólun bæði Elvars Loga Hannessonar og Kristjáns Ingimarssonar. Framlag hans var nokkuð dæmigerð trúðasýning að forminu til, trúðurinn Otomoto glettist við áhorfendur, glímdi við óþæga leikmuni, dansaði smá og spilaði lítilsháttar á hljóðfæri.

Otomoto byrjaði ágætlega með sniðugri innkomu ofan úr ljósaklefa og áreynslulitlum samleik við áhorfendur. En síðan fór heldur að halla undan fæti. Viðfangsefni Otomotos í sýningunni leiddi ekki eðlilega hvert af öðru og skortur á rökvísri uppbyggingu gerði það að verkum að hvert atriði varð að standa fyrir sínu, sem þau gerðu misvel. Verst var þó að hafa á tilfinningu að leikarinn hvíldi ekki fyllilega í aðstæðunum hverju sinni, sem er alger forsenda þess að trúðleikur virki. Það sást of oft glitta í leikarann bak við rauða nefið í umgengni hans við hlutina á sviðinu til að galdur trúðsins héldi.

Þessi fyrstu kynni af Ole Brekke voru því nokkur vonbrigði, en vonandi átti hann einungis vondan dag að þessu sinni.

Zeljko Vukmirica er króatískur leikari með talsvert orðspor og sýni hér einleik sinn, Saga heimsku minnar, þar sem hann rekur ævi- og menntunarferil sinn frá getnaði til útskriftar úr leiklistardeild háskólans Zagreb.

Þessi sýning byrjaði einnig vel. Vukmirica er ansi hreint magnaður flytjandi, með sterka nærveru, svipbrigðaríkt andlit, mikla tækni og óhemjulega orku. Hann var því fljótur að draga áhorfendur inn í frásögn sína af samskiptum við fjölskyldu, kunningja, kennara og aðra sem vilja kenna honum ýmislegt með misjöfnum árangri.

En aftur gerðist það að sýningin fór að dala þegar á leið. Hér var það kannski fyrst og fremst óhófleg lengd miðað við innihald sem varð leikaranum fjötur um fót, auk þess sem honum dvaldist við útúrdúra sem ekki voru nógu skemmtilegir til að réttlæta sig sem hluta af sýningunni. Bjagaða enskan var framanaf bæði sniðug í sjálfri sér og stundum uppspretta kostulegra hugmynda en varð líka á endanum tafsöm og þreytandi.

Það var gaman að kynnast þessu orkubúnti frá Króatíu, en óskandi að á næsta stefnumóti verði hann búinn að virkja sig örlítið betur.