laugardagur, apríl 29, 2023

Chicago

Eftir John Kander, Fred Ebb og Bob Foss. Íslensk þýðing: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjórn: Marta Nordal. Tónlistarstjórn: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Danshöfundur: Lee Proud. Leikmynd: Eva Signý Berger. Búningar: Björg Marta Gunnarsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóðhönnun: Sigurvald Ívar Helgason. Leikgervi: Harpa Birgisdóttir. Hljómsveitarstjóri: Vignir Þór Stefánsson. Hljómsveit: Vignir Þór Stefánsson, Emil Þorri Emilsson, Helgi Þorbjörn Svavarsson, Kjartan Ólafsson, Sóley Björk Einarsdóttir, Jóhann Stefánsson/Vilhjálmur Ingi Sigurðarson, Una Hjartardóttir, Ármann Helgason/Helga Björg Arnardóttir, Michael Weaver og Marcin Lazarz. Leikarar: Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Margrét Eir, Björgvin Franz Gíslason, Arnþór Þórsteinsson, Bjartmar Þórðarson, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Ahd Tamimi, Elma Rún Kristinsdóttir, Kata Vignisdóttir, Anita Rós Þorsteinsdóttir og Molly Carol Birna Mitchell. Leikfélag Akureyrar í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frumsýndi í Samkomuhúsinu á Akureyri föstudaginn 27. janúar 2023. Rýnir sá  6. sýningu.

Hvað sem er fyrir frægðina


Söngleikir í Samkomuhúsinu á Akureyri eiga sér langa og ljómandi sögu. Þó vera megi að það færi betur um stórsjóin í Hofi þá er ekki hægt annað en að virða þrautseigjuna og hugkvæmnina sem þarf til að koma þeim fyrir á sviðinu undir brekkunni, með öllum sínum óumdeilda sjarma. Það nýjasta er Chicago, reyndar ekki í fyrsta sinn sem sá klassíski söngleikur ratar á það svið. Undirritaður sá þar prýðilega sýningu Leikfélags Menntaskólans á Akureyri og Laufeyjar Brár Jónsdóttur fyrir sléttum tuttugu árum. En nú var komið að atvinnufólkinu og Mörtu Nordal.
Þó verkið eigi sér sannsögulegar rætur með viðkomu í venjulegu sönglausu leikriti hefur þeim John Kander, Fred Ebb og Bob Fosse tekist að eima burt næstum öll ummerki um raunveruleikann í þessum söngleikjalegasta allra söngleikja. Tónlistin er augljóslega algerlega dæmigerð fyrir greinina, engin gönuhlaup inn í neinn sérstakan kúltúr eða stíl, nema ef vera skyldi systurgrein söngleiksins, Vaudeville-hefðin. Tónlistin gerir allt sem hún á að gera, en vissulega eru hér varla neinir eyrnaormar sem hafa lifað á allra vörum. 
Í einu greinir Chicago sig þó frá þeim öllum: Hér er engin ást. Persónurnar eru næstum allar holar að innan, drifkraftarnir eru tveir: sjálfsbjargarviðleitni og frægðarþrá, sem fléttast endalaust saman í tilraunum Roxýjar við að sleppa lifandi og frjáls undan morðákæru með hjálp stjörnulögfræðings, og á kostnað nokkurnvegin allra sem hægt er að nota til þess arna. Og helst fræg og dáð í leiðinni. Það markmið er ekki nema sjónarmun minna mikilvægt.
Liggur höfundunum eitthvað annað á hjarta en að gera það sem þessir miklu „sjómenn“ voru svo góðir í, og slá enn og aftur í gegn? Það má vera. Það er beiskur og ágengur ádeilutónn í sögunni, sem er sterklega undirstrikaður af rofi fjórða veggjarins og öðrum endurómi úr leikhúsi Brechts. Chicagoborg bann- og jassáranna, eins og hún birtist í verkinu getur alveg virkað eins og einhverskonar kapítalísk Túskildingsópera, með harðri kenningu um manndýrið og lífsbaráttu þess, fláræði og fals. Aðallega langar Chicago þó að vera skemmtun. Eggjandi, hnyttin. Hæfilega gróf án þess að hneyksla nein sem eru líkleg til að kaupa sér miða. 
Þetta tekst alveg ágætlega hér. Þó lítið sé reynt að tengja verkið samtímanum, eins og var svo áberandi í eftirminnilegri uppfærslu Þórhildar Þorleifsdóttur í Borgarleikhúsinu 2004, þarf enga stórkostlega hugarleikfimi til að sjá speglun samtímans í þessum spillta og yfirborðsdrifna sýndarveruleika. Og óneitanlega er eitthvað skemmtilega nútímalegt við svona sterkar og úrræðagóðar kvenpersónur, sem eru svo sannarlega gerendurnir í sínu lífi, þó með myrkum formerkjum sé. Fjarlægðin sem períóðan gefur tryggir síðan að skemmtigildið er alltaf í forgrunni á kostnað boðskapsins. 
Það þarf sérstaka list til að skapa lifandi persónur úr þeim einföldu dráttum sem efniviðurinn skaffar. Einfalda týpusmíð sem fylgt er eftir af fyllstu sannfæringu með glampa í auga. Góðu heilli hefur parið sem mest mæðir á þetta vel á valdi sínu, þau Þórdís Björk Þorfinnsdóttir og Björgvin Franz Gíslason sem glæpakvendið Roxý og stjörnulögfræðingurinn Billy. Listin að vera sönn þar sem allt er fals leikur í höndum þeirra og uppátækjagleði Björgvins nýtist vel til að halda boltum á lofti. Það sem Þórdísi vantar upp á klingjanda í söngröddinni til að skera fullkomlega í gegn um undirleikinn þegar mest gengur á bætir hún upp með sterkri nærveru og skýrt mótaðri týpu. 
Með nokkurri einföldun má segja að hið andstæða gildi um hitt stóra kvenhlutverkið, morðkvendið Velmu sem Roxý steypir af stóli sem vinsælasta stúlkan í kvennafangelsinu. Jóhanna Guðrún Jónsdóttir glansar í söngnum sem hún skilar af kunnuglegri fullkomnun, en hefur ekki alveg á valdi sínu hina frjálslegu og kröftugu sviðnærveru sem sú hlið peningsins krefst, ekki á þessu frumstigi sínu sem leikari, hvað sem síðar verður. 
Hlutverk hins smáða eiginmanns Roxýjar er hreinræktað senuþjófshlutverk og Arnþór Þórsteinsson gerir sér sannfærandi mat úr því. Það sópar hæfilega að Margréti Eir í hlutverki fangelsismatrónunnar og Bjartmar Þórðarson er alltaf góður í kvengervi, líka sem Marta Smarta, fulltrúi hins smjattandi fjórða valds. 
Hópurinn allur dansar af hæfilega eggjandi fimi undir stjórn Lee Proud. Hægt er að ímynda sér sýningu sem færi nær því að vera bönnuð börnum, en það er smekksatriði hvort það væri góð hugmynd. Marta Nordal heldur vel utan um stílinn sem hún hefur valið sýningunni og leikræna nálgun, og períóðusjarminn skilar sér vel á öllum póstum. Í tónlistarstjórn Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar og spilamennsku bandsins, í búningum Bjargar Mörtu Gunnarsdóttur og einfaldri en notadrjúgri leikmynd Evu Signýjar Berger sem lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar vinnur vel með.
Þó Chicago sé svona dæmigerður söngleikur þá hefur hann afgerandi svipmót. Mörg sérkenni hans vinna gegn honum. Grimm og alltumlykjandi kaldhæðnin. Alger skortur á mannlegri hlýju  til að tengja við og persónur með ást og hjarta til að halda með. Það er fyllsta sannfæring að baki uppfærslu Leikfélags Akureyrar að verkið muni engu að síður hafa tilætluð áhrif á áhorfendur, engar tilraunir eru gerðar til að líta á brestina sem bresti, hvað þá að berja í þá. Sem er virðingarvert og skilar að miklu leyti tilætluðum árangri. Þetta er töff sjó, hvorki meira né minna. Hvort það er nóg er fyrir hvert og eitt okkar að meta.