mánudagur, október 26, 2015

Mávurinn

Höfundur: Anton Tsjékov. Þýðandi: Ingibjörg Haraldsdóttir. Textayfirferð og breytingar: Krístín Eiríksdóttir, Eiríkur Örn Norðdahl og leikhópurinn. Leikstjóri: Yana Ross. Leikmynd: Zane Pihlström. Búningar: Filippía Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Myndbandshönnun: Algirdas Gradauskas. Dramatúrg: Aina Bergroth. Aðstoðarleikstjóri: Hlynur Páll Pálsson. Leikarar: Björn Stefánsson, Björn Thors, Guðrún S. Gísladóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Snær Guðnason, Jóhann Sigurðarson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Waraporn Chanse, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Borgarleikhúsið. Frumsýning 16. október 2015.

Okkar eigin Anton

Þegar klassísk verk eru tekin viðlíka róttækum tökum og gert er í þessari uppfærslu er sönnunarbyrðin alfarið á aðstandendum. Gengur staðfærslan upp? Býr útkoman yfir leikhúskrafti sem réttlætir það sem týnist í flutningunum? Og já, það er óhjákvæmilegt að eitthvað tapist. Að leikslokum gilda síðan orð fyrrum þjóðleikhússtjóra Breta, erkiíhaldsins Sir Peter Hall: Ef ekki tekst vel til stendur frumverkið óhaggað og hæðist að leikhúsfólkinu fyrir að hafa ekki treyst sér í það vegna skilningsleysis, plebbisma eða leti.

En vel heppnuð umsköpun rótar líka upp týndum verðmætum í gömlum verkum, og svo er ferskleiki auðvitað verðmætur í sjálfu sér. Í Mávi Yönu Ross, og kannski ekki síst þeirra sem hafa umskapað leiktextann, er svo sannarlega leikrænt fjörefni.

Kjarninn er þarna, þó búið sé að flytja atburðina frá Rússlandi aldamótanna 1800–1900 til Íslands nútímans. Spennuvakinn í verkum Tsékhofs er alltaf togstreita dreif- og þéttbýlis, svo hann malar áfram vandræðalaust undir atburðunum hér og á stóran þátt í töfrum sýningarinnar. Og hinn ólögulegi ferhyrningur ástar og metnaðar, sem rithöfundurinn, leikkonan, sonur hennar og kærastan hans mynda, er ekkert minna trúverðugur og frjór fyrir atburðarásina í þessu samhengi.

Fyrir innvígða aðdáendur sígildra verka er það dýrðleg nautn þegar hliðstæður verks og svona sýningar ná fullkomnum samhljómi, sem gerist æði oft hér, en líka tanngnístandi raun þegar eitthvað fer alvarlega á skjön eða áreynslan keyrir úr hófi. Hvað mig varðar gerðist það bara einu sinni – þegar stórleikkonan syngur Jolene í karíókí-brúðkaupsveislunni ógurlegu sem leysir þriðja þátt Antons af hólmi. Af lykilefni leikritsins dettur mér bara í hug þrennt sem fer þannig forgörðum að ég sakna þess: drápið á mávinum fellur klaufalega milli skips og bryggju, sjálfsmorðstilraun Konstantíns/Konna hverfur úr sögunni og þegar kemur að hinum alvöruþrungna lokakafla reynist ærustan fram að honum ekki hafa búið til næga innistæðu fyrir því drama öllu. Snjallt samt að kalla Guðrúnu S. Gísladóttur til til að sýna okkur hina lífs- og lífsreyndu/þreyttu Nínu.

Á móti fáum við síðan t.d. algerlega stórkostlega einræðu rithöfundarins, frábærlega flutta af Birni Thors sem var magnaður sem rithöfundurinn BT/Trígorín og óborganlega tilvísun í Brúðuheimilið frá stúlkunni með leikkomudraumana, einnig glæsilega gert hjá Þuríði Blæ Jóhannsdóttur sem sýndi okkur villta og sannfærandi Nínu. Já og brot úr Hamlet frá Halldóru Geirharðsdóttur sem átti örugglega fyrst og fremst að vera fyndið en var óvart bara stórkostlegt. Leikkonan Írína í sjálfhverfu sinni og fölnandi töfrum var glæsilega teiknuð hjá Halldóru.

Stóra snilldin er þessi: hvað öll nálgun sýningarinnar, og frelsið sem staðfærslan skapar, hefur leyst mikinn sköpunarkraft úr læðingi hjá leikhópnum. Sú alþekkta aukainnspýting sem fæst við það að spila á heimavelli sannast hér. Mikið varð þetta fólk allt trúverðugt og dásamlegt og hryllilegt! Og kannski fyrst og fremst – en ekki bara – fyndið af því það er satt.

Ég verð að staldra við Hilmi Snæ Guðnason. Læknirinn Dóri/Dorn er ekki aðalhlutverkið en frammistaða Hilmis fer nálægt því að færa hann þangað. Sem er skemmtilegt, þar sem eitt af því sem skilar áhrifunum er hvernig „stórleikarablærinn“ sem mér hefur þótt vera að setjast á leik hans undanfarið er hér víðsfjarri. Ætli samtal hans og Konna/Konstantíns í fyrsta þætti, þar sem nettfullur og lífsleiður læknirinn reynir að segja vonsvikinni listaspírunni hvað misheppnaði gjörningurinn snart hann djúpt, sé ekki bara mitt uppáhaldsatriði sýningarinnar? Björn Stefánsson var sömuleiðis áhrifaríkur Konni og mikið var nú gaman þegar hann fór hamförum á trommurnar.

Það er mikill kraftur, mest kómískur en ekki bara, í þeim Hilmari Guðjónssyni og Þórunni Örnu Kristjánsdóttur sem hið ólánlega par Símon/Medvedénkó og María/Masja. Og það gleður mann að sjá þroskaða leikara leysast úr læðingi í sýningum sem fyrirfram virðast ekki innan þægindarammans – Pétur er ekki stór rulla og sennilega einhverskonar sambræðsla en útkoman er eitt það fallegasta sem ég man eftir að hafa séð Jóhann Sigurðarson gera. Katla Margrét Þorgeirdóttir fær sömuleiðis lítið að moða úr sem sambrædd persóna staðarhaldara en er aldrei nema stórfín.

Waraporn Chanse á svo næstum þögult hlutverk undir lokin, þegar Dr. Dóri hefur loksins eignast konu, og skilar því vel. Nákvæmlega hvers vegna hún fær ekki klausu um sig í veglegri leikskrá sýningarinnar verða ritstjórar hennar að útskýra.

Umgjörð Zone Philström, Filippíu Elísdóttur, Björns Bergsteins Guðmundssonar, Gísla Galdurs Þorgeirssonar og fleira fólks þjónar sínu hlutverki aldrei minna en vel. Galdurinn – það sem gerir þessa brjáluðu sýningu og djörfu tilraun að svona vel heppnuðu leikhúskvöldi – er síðan ósýnilegur í loftinu milli leikaranna á sviðinu og milli orðanna sem dr. Tsjékhov setti á blað í kirsuberjagarðinum í Melíkhóvó veturinn 1895 og þess sem aðstandendur sýningarinnar sóttu í þau í Reykjavík haustið 2015.

miðvikudagur, október 14, 2015

Heimkoman

Höfundur: Harold Pinter. Þýðandi: Bragi Ólafsson. Leikstjórn: Atli Rafn Sigurðarson. Dramatúrg: Símon Birgisson. Tónlist: Einar Scheving. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Leikarar: Björn Hlynur Haraldsson, Eggert Þorleifsson, Ingvar E. Sigurðsson, Ólafur Egill Egilsson, Snorri Engilbertsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Frumsýning 10. október 2015.

Römm er sú taug

Byrjum á umgjörðinni. Hún er framúrskarandi. Frumleg og óvænt, en líka hárrétt og viðeigandi hjá Berki Jónssyni. Leikurinn fer fram í einhverskonar iðnaðarhúsnæði, mögulega afdrepi utan hins eiginlega starfsvettvangs. Fjölskyldufaðirinn var jú slátrari og kannski er þetta kjötvinnsla. Bróðir hans er bílstjóri, þetta gæti líka verið aðstaða fyrir hann að þrífa og dytta að. Þetta er karlaheimur, með hlandskál á vegg í allra augsýn. Nóg pláss fyrir yngsta soninn, hnefaleikakappann, til að fara í ísbað í fiskikari og föður hans að rúnta um á ellinöðru. Meira að segja rými fyrir trommusett. Allt lýst með flúorperum. Allt á sínum stað. Dauðhreinsað, kalt og miskunnarlaust. 

Þegar hrynjandi þessa heims er trufluð með heimkomu elsta sonarins og eiginkonu hans þarf að koma skikki á aftur. Hratt. Og þó þetta sé heimur karla þá er ekki að spyrja að áhrifavaldi kvennanna í lífi þeirra. Minning móðurinnar verður miðsyninum, hórumangaranum, að vopni í valdabaráttu við föðurinn snemma verks í einu eftirminnilegasta atriði þess, og svo má segja að atburðarásin hverfist um eiginkonuna nýkomnu. Óræðnin í því hversu mikill þolandi eða gerandi hún er í örlögum sínum er það sem áhorfandinn fer fyrst og fremst með út með sér.

Pinter teflir djarft í þessu verki, ögrar og ýtir við römmum trúverðugleika og hin brjálæðislegu hvörf undir lok verksins eru enn jafn hrollvekjandi og 1964. 

Eitt af því sem gerir umgjörðina svona snjalla og þénuga er einmitt hvað hún skapar sannfærandi nútímavettvang fyrir verk með jafn djúpar rætur í tíma og stað og Heimkoman. Æskuslóðir höfundar í Austur-London eftirstríðsáranna, feðraveldisheimur, hörð lífsbarátta og grimm valdatogstreita sem er mestan part háð með orðum, en líkamlegri lausnir við að skera úr um stöðu í virðingarstiganum eru aldrei djúpt undir yfirborðinu. Þannig er það hjá Max, sonum hans og bróður.

Virðing fyrir, og nákvæm vinna með, texta er grundvallarverkefni leikhóps sem færir fram verk úr smiðju Harolds Pinter. Sá þáttur hefur fengið þá alúð sem þarf hjá Atla Rafni og leikhópnum, sem inniheldur auk þess nokkra af okkar snjöllustu og næmustu textaleikurum. Að ógleymdum þýðandanum, en Bragi Ólafsson verður að teljast sérlega vel til þess fallinn að búa þessum texta, þar sem ekkert er sem sýnist, íslenskan búning. Hann hefði samt þurft að finna betri lausn fyrir orðið „tease“ en „daðurdrós“, sem virkar alls ekki í því samhengi sem þrástagast er á þegar leikslokin nálgast.

Það er vel skipað í áhöfnina í þessari sýningu og allir skila skínandi verki. Leiklega séð eru ekki veikir blettir, ögun og nákvæmni í fyrirrúmi. Ég minnist þess ekki að hafa hrifist jafn mikið af framgöngu Björns Hlyns Haraldssonar og hér í hlutverki hörkutólsins Lennys og Joey bóðir hans er vel teiknaður af Snorra Engilbertssyni. Ólafur Egill Egilsson er einn þeirra sem alltaf nýtur glímunnar við textann og er eins og fiskur í vatni sem hinn burtflogni bróðir sem er utanveltu í gamla heiminum en jafnframt með siðareglur og samskiptaform hans innprentuð í erfðaefnið. Og það andar bæði heitu og köldu frá hinni torræðu Ruth í meðförum Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur. Eggert Þorleifsson gæti sennilega leikið spaugilegar undirlægjur eins og Sam sofandi með ágætum árangri, en hann var með fullri meðvitund á frumsýningunni og teiknaði frábærlega skýra persónu.

Það verður þó að segjast að það gengur illa upp að láta Ingvar E. Sigurðsson leika fjölskylduhöfuðið Max. Það er útilokað að trúa því að hann sé faðir Björns Hlyns eða Ólafs, hvað þá eldri bróðir Eggerts, engin leið að samþykkja að hann sé eftirlaunamaður, sérstaklega þar sem ekkert er gert til að gera hann trúverðugan í því hlutverki. Auðvitað skilar Ingvar þessu óaðfinnanlega, og auðvelt að skilja þá freistingu að fá hann til verksins. En allt skiptir máli, allt hefur sögn í leikhúsi, og þetta leikaraval ruglar óneitanlega hina nákvæmu mynd sem verkið dregur upp. 

Ég er líka efins um þá ákvörðun að hafa tónlistarhöfundinn og -flytjandann Einar Scheving sýnilegan á sviðinu með sett sitt og aðrar græjur fyrri hluta verksins. Í hinni raunsæislegu leikmynd verður þetta torkennilegt, og of oft freistandi að fylgjast með hamförum trommumeistarans þegar athyglin væri betur komin annarsstaðar. Sem áhrifstónlist er framlag Einars hinsvegar stórfínt.

Þegar á heildina er litið er hér fengist við eitt af höfuðverkum eins mikilvægasta leikritahöfundar síðari tíma með (næstum) stælalausri virðingu og listrænni alvöru. Umgjörðin er snjöll, vinna leikhópsins fyrsta flokks. Útkoman fyrirsjáanlega áhrifarík.

þriðjudagur, október 06, 2015

Sókrates

Eftir Berg Þór Ingólfsson og Kristjönu Stefánsdóttur. Tónlist: Kristjana Stefánsdóttir. Leikstjórn: Rafael Bianciotto og Bergur Þór Ingólfsson. Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson. Búningar: Stefanía Adolfsdóttir. Hljóð: Garðar Borgþórsson. Leikgervi: Elín Sigríður Gísladóttir. Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir. Frumsýning á Litla sviði Borgarleikhússins 1. október 2015.

Sælir eru fávísir

Milli trúðs og heimspekings liggja fleiri þræðir en blasir við fyrirfram. Ludwig Wittgenstein skrifar á einum stað um þá kennd að „undrast að heimurinn skuli vera til“ sem eina af lykilhvötum þess að hugsa heimspekilega, reyndar með þeim formerkjum að þesslags hugsanaháttur leiði menn óhjákvæmilega út í tóma vitleysu. En þessi þanki á nú aldeilis samhljóm í lífssýn trúðsins – og leiðir hann einatt í ógöngur. Sem betur fer.

Enginn heimspekingur er síðan eins trúðslega vaxinn og Sókrates, með þekkingarleysið sem útgangspunkt og barnalegar spurningar sem aðferð. 

En það hangir meira á þessari spýtu. Þekkingarskortur Sókratesar er nefnilega uppgerð og sjálfur er hann – í þeirri mynd sem sem við höfum af honum – sköpunarverk annars mun fágaðri og fjölhyggnari spekings, Platóns. Á hliðstæðan hátt við að trúðarnir eru tilbúningur, afrakstur strangrar vinnu þjálfaðra og hæfileikaríkra listamanna. Og svo er hitt: í sýningu eins og Sókratesi eru þeim lögð orð í munn, falin verkefni og léð hlutverk sem þeir hafa engin tök á að gera skil nema eðli þeirra sé vikið til hliðar. Leikarinn horfi fram hjá rauða nefinu. 

Þetta er vandi sýningarinnar, ef vanda skyldi kalla, og mér þykja leikstjórarnir ekki leysa hann á allskostar fullnægjandi hátt. Það á sinn þátt í gera hana jafn losaralega og raun ber vitni hvað mikið er slegið í og úr með trúðana, hvað þeir birtast og hverfa ört. Helst vildi maður auðvitað hafa þá alráða, en þá sætum við sennilega enn í salnum og ekkert gengi að miðla sögunni af dauða heimspekingsins, næstfrægasta réttarmorði mannkynssögunnar.

Reyndar er athyglin ekki nema að hluta til á Sókratesi sjálfum, hugmyndum hans og örlögum. Höfundum sýningarinnar er mikið í mun að segja þær sögur sem fóru framhjá Platóni, fjalla um fólk sem hann gaf ekki gaum. Þannig eru Xanþippa, kona Sókratesar fyrirferðarmikil, og ekki síður sonur hans ungur. Flautustúlka, sem bregður fyrir í Samdrykkjunni, fær loksins mál og (heldur dapurleg) örlög. Á móti er ekki minnst á Díótímu og hennar lykilhlutverk í þeirri bók, sem er svolítið skrítið meðan Platón liggur undir svona háværu ámæli fyrir að leiða konur rækilega hjá sér.

Plássfrekastir eru síðan sjóarar tveir sem hafa það verkefni að sækja eitur svo hægt sé að þagga niður í heimspekingnum. Þau atriði, sá þráður verksins, er best skrifaður og bitastæðastur. Minnir sterklega á gömul absúrdleikrit, sem er viðeigandi, svo mjög sem sú hefð sótti í trúðleik og fékkst við ráðaleysi „venjulegs“ fólks í heimi sem gerir fráleitar kröfur, og bítur af þér handlegginn þá minnst varir. Svo ekki sé minnst flóttamannavandann, sem mætir þeim sæfarendum auðvitað. Þær Maríanna Clara Lúthersdóttir og Kristín Þóra Haraldsdóttir gerðu þessum kumpánum ákaflega góð skil. Fundur Sókratesar og Patróklosar (Bergur Þór Ingólfsson og Kristín Þóra) undir lok verksins nær síðan næstum að hnýta efnið saman, gefa heimspekinni hlutverk í mannlífinu og opna augu spekingsins fyrir raunveruleikanum. Patróklos er líka sú persóna sem best gekk að samþætta við trúðinn. Einstök hlutverk eru annars flest full-eintóna til að gefa leikurum færi á að glansa, það er frekar þegar trúðarnir gægjast fram sem leikurinn fer á flug. Úlfar er dásamlegri hjá Bergi en Sókrates, og þó Krítón og Platón séu skýrir hjá Kristjönu Stefánsdóttur og Maríönnu eru Bella og Ronja ólíkt skemmtilegri. Vitaskuld. Brúðan sem fer með hlutverk Sófraniskosar Sókratessonar undir stjórn Maríönnu þótti mér síðan ekki vel lukkuð sem slík, en ágætlega stýrt. Og senur föður og sonar – og móður – fallega skrifaðar hjá Bergi. Það fer aldrei á milli mála að áhugi höfundar, leikstjóra og hópsins alls er á fólkinu frekar en hugmyndunum, enda leikhúsið betur til þess fallið að fjalla um það en þær. 

Leikmynd og ljós eru falleg, snjöll og þénug hjá Agli Ingibergssyni, og hæfilega erfið meðferðar til að trúðunum fatist stundum skiptingarnar með tilheyrandi fjöri. Það tók mig smástund að sættast við tónlistina, einkum að undirleikur væri (að mestu) upptekinn og söngur (oftast) magnaður – nokkuð sem stangast á við rómantískar fyrirframhugmyndir mínar um hið fátæka og frumstæða frásagnarleikhús trúðmennskunnar. En hún vann vel á og var oft mjög áhrifamikil í lýtalausum söngflutningi, sem höfundur hennar, Kristjana, leiddi með sínum alþekkta glæsibrag. Stíllinn minnti mig einna helst á ameríska söngleikjaskáldið Stephen Sondheim, sem rímar ágætlega við hið vitsmunalega viðfangsefni, en slæst kannski aðeins við efnistök trúðsins. Ekkert að því. Trúðurinn er bestur þegar hann slæst við ofurefli.

Þó brotkennd sé er sýningin aldrei minna en áhugaverð og langoftast skemmtileg. Henni er meira í mun að þyrla upp efni og hugmyndum en að gera þeim skil, draga ályktanir, setja punkt. Ég held hún hefði grætt á grimmari ritstjórn handrits og meira vægi trúðanna sjálfra í mótun leikstjóranna. Auðvitað er ég samt ekkert viss. Ég veit það eitt að ég veit ekki neitt.