mánudagur, apríl 25, 2022

Fyrrverandi

Handrit og leikstjórn: Valur Freyr Einarsson. Leikmynd og búningar: Ilmur Stefánsdóttir. Tónlist og hljóðheimur: Davíð Þór Jónsson og Salka Valsdóttir. Lýsing: Ingi Bekk. Myndband: Ingi Bekk og Elmar Þórarinsson. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir og Ilmur Stefánsdóttir. Sviðshreyfingar: Anna Kolfinna Kuran. Leikendur: Árni Þór Pálsson, Halldór Gylfason, Jörundur Ragnarsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir, Þorsteinn Bachmann og Þórunn Arna Kristjánsdóttir. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhúsinu laugardaginn 9. apríl 2022, rýnir sá 2. sýningu, sunnudaginn 10. apríl. 

Fortíðavandinn 

Það eru líkin í lestinni sem knýja gamanleikina, með dyggri aðstoð frá beinagrindurnum í skápunum. Það eina sem þarf til að virkja eldsneytið er að láta eins og það sé ekki þarna, og ljúga ef einhver spyr. Svo skemmtilega vill til að þetta er ekki síður hagnýtur orkugjafi fyrir drama og harmleiki. Fyrir vikið er oft hægt að sleppa bæði og halda: láta glitta í grímu grátsins bak við fíflalæti hlátursgrímunnar. Verra auðvitað þegar það er á hinn veginn: að háalvarlegur harmleikur kveikir fliss yfir kjánagangnum sem býr að baki ógæfunni. 
Þetta snýr allt rétt í Fyrrverandi. Skopið í forgrunni, harmurinn undir, og að mestu á ábyrgð áhorfenda að koma auga á hann og velta fyrir sér. Sýningin byggir á viðtölum og annarri rannsóknarvinnu handritshöfundar og leikstjóra, Vals Freys Einarssonar, sem hverfðist um hjónaskilnaði, eftirköst þeirra og áhrif á það líf sem tekur við. Tískustraumar leikhússins hafa á undanförnum árum skilað okkur sýningum þar sem rannsóknarvinnan sjálf er í forgrunni framsetningarinnar, jafnvel hreinlega umfjöllunarefnið. Vel hefði mátt ímynda sér þannig afrakstur, sérstaklega þar sem Common Nonsense hópurinn sem stendur að baki sýningarinnar hefur frá upphafi verið leitandi og óhræddur í verkefnum sínum. En kannski ber það einmitt vott um listrænt hugrekki að synda gegn „rannsóknarstraumnum“ og nýta forvinnuna sem efnivið í handrit sem fer ansi nærri því að vera einfaldlega formfastur, hefðbundinn og jafnvel pínu gamaldags gamanleikur.
Líklega er óhjákvæmilegt að árétta að þetta meina ég sem hreinræktað hrós. Því bæði er Fyrrverandi vel heppnað dæmi um slíkan gamanleik, leikandi létt og hæfilega fléttubundið, og um leið fullt af gráthlægilegum sannleika um þetta sjálfselska og grunnhyggna, en sérkennilega sjarmerandi dýr sem nútímamanneskjan er. Og það kemur í ljós að það er hægt að segja heilmikið um þetta allt í þessu langjaskaða og hálf-fyrirlitna formi þrátt fyrir allt. Veldur hver á heldur, greinilega.
Í klassískum gamanleikjaanda gerist Fyrrverandi i partíi. Vinahópur (þrenn pör) kemur saman á heimili eins parsins, mögulega í tilefni af yfirvofandi trúlofun gestgjafanna. Þær áætlanir fara fljótlega af teinunum, og þó ætlunin sé ekki endilega að helga kvöldið vangaveltum um fyrri maka og stöðu mála hvað þá varðar hjá pörunum í partíinu kemst á endanum fátt annað að. Óhjákvæmilega leysast allskyns vandamál og núningar úr læðingi, leyndarmál eru afhjúpuð og innistæðulaus sjálfsöryggi brenna yfir. Áhorfendur hlæja og flissa. En finna líka til og hugsa sitt. Allt eins og það á að vera.
þetta er kostulegur mannsöfnuður. Það er mestur raunsæisblær á húsfreyjunni Unu í flottum og öruggum meðförum Kötlu Margrétar Þorgeirsdóttur, sem er settleg og mögulega langþreytt á að reyna að stilla til friðar í borgarastyrjöldinni sem geisar milli barnanna hennar og þeim sem fylgdu nýja kærastanum, hálfmislukkaða jakkafatajógagúrúnum Togga, sem Þorsteinn Bachmann gerir sannfærandi og pínu hrollvekjandi skil. Óneitanlega skilur maður að syninum Bjarti, lítið hlutverk sem Árni Þór Pálsson leysir með prýði, lítist ekki meira en svo á ráðahaginn og setji fléttuna í gang með andmælum sínum. Þorsteinn er síðan á heimavelli í smámynd af fyrrverandi eiginmanni Unu, sem er greinilega skapaður til að skilja við hann. Annars kynnumst við þessum miklu örlagavöldum, fyrrverandi mökum, aðeins í lýsingum þeirra sem við mætum á sviðinu.
Gróteskan í persónugalleríinu rís mögulega hæst hjá Karli og Gígju, krabbameinslækninum og sjúklingnum sem hann læknaði og tók síðan saman við. Halldór Gylfason og Þórunn Arna Kristjánsdóttir eru flinkir týpusmiðir, sem er nákvæmlega það sem þarf til að skapa persónur eins og þau hjónin. Vala Kristín Eiríksdóttir er löngu búin að ná meistaratökum á sjálfhverfum einfeldningum eins og sjónvarpsstjörnunni Huldu og Jörundur Ragnarsson er manna flinkastur með nett-taugaveiklaða lúða í aðstæðum sem þeir ráða ekki við, en það er nákvæmlega staðan sem Bjarni er lentur í, í sínu opna sambandi við Huldu, sem ljóst er að nýtur sín betur í þannig fyrirkomulagi. 
Eða hvað? Fyrir utan fyndnina og fáránleikann tekst Vali Frey að gefa öllum persónunum sínum sannfærandi fortíðarsár, eitthvað sem er dregið fram í dagsljósið í gangverki sýningarinnar. Sama hvað þetta er fráleitt fólk fer aldrei á milli mála að þetta er fólk. Meira segja hinir dýrðlega sundurgerðarlegu búningar Ilmar Stefánsdóttur ná ekki að gera þetta að hreinræktuðu skrípói, þó þeir ýti vissulega undir tilfinninguna fyrir að þetta sé leikhús en ekki hrár samtímaveruleiki sem hér er til sýnis. Sama með hina smekklegu en skemmtilega fortíðarlegu – og leikmyndalegu – stofu á heimili Unu og Togga. Tónlist og hljóðmynd Davíðs Þórs Jónssonar og Sölku Valsdóttur var ágæt og viðbót við stemminguna, að sjálfsögðu þarf að brjóta þetta hefðbundna drama upp með smá dansi, svona til að þetta verði ekki alveg eins og hefðbundið stofuleikrit. Besta uppbrotið er án efa dálítið groddaleg a cappella útgáfa af Mezzoforte-slagaranum Garden Party sem rímaði fullkomlega við áferð sýningarinnar. 
Fyrrverandi er þrælskemmtilegur gamanleikur. Ekki djúprist greining eða djörf tilraun heldur smekklega þaulunnin sýning þar sem vel rannsakað efni er sett fram af gamalkunnri grínaðferð með ágætum árangri. Hreyfir við huganum og kætir um leið.







Sjö ævintýri um skömm

Eftir Tyrfing Tyrfingsson. Leikstjórn: Stefán Jónsson. Leikmynd. Börkur Jónsson. Búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Lýsing: Halldór Örn  Óskarsson. Sviðshreyfingar: Sveinbjörg Þórhallsdóttir. Hljóðhönnun: Kristján Sigmundur Einarsson og Gísli Galdur Þorgeirsson. Leikendur: Edda Arnljótsdóttir, Eggert Þorleifsson, Elva Ósk Ólafsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Ilmur Kristjánsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Vincent Kári van der Valk. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins föstudaginn 1. apríl. 2022.

Löggulíf

Eftir því sem ég kemst næst eru næstum nákvæmlega fimm ár síðan leiksýning byggð á nýju íslensku handriti rataði á stóra svið Þjóðleikhússins án þess að vera stórsjó af söngleikjakyni, leikgerð skáldsögu, eða þá hvort tveggja. Verkin sem sýnd voru með mánaðarmillibili vorið 2017, svo ágæt sem þau þó voru fyrir sinn hatt eru þó hvorugt gott dæmi um „rækt við íslenska leikritun“ sem við krefjumst jú af Þjóðleikhúsi okkar, öðrum leikhúsum fremur. Annað lausbeislað samsköpunarverk með bútum úr öðrum verkum (Álfahöllin), hitt fimmtíu ára gamalt ósýnt verk úr safni látins leikritunarjöfurs (Húsið). Ég hef ekki tíma eða þægilegt upplýsingsaðgengi til að leita uppi nýjasta dæmið um nýsamið íslensk leikrit á stóra sviðinu, en það er allavega eldra en þetta.
Hvað veldur má svo deila um, og sjálfsagt að listrænir leiðtogar hússins og fulltrúar leikskáldastéttarinnar bendi ásakandi hvorir á aðra og skiptist jafnvel á skoðunum. Vonandi eru þeir samt sammála um að þetta getur ekki verið eðlilegt ástand. Vonandi er nýjasta verk Tyrfings Tyrfingssonar til merkis um að þetta standi til bóta, ekki síst í ljósi þess að það hefði ekki þurft neina ofurmannlega hugkvæmni til að koma því fyrir í Kassanum eins og öllum hinum. Á sama hátt og bæði Auglýsing ársins og Helgi Þór rofnar hefðu farið létt með að fylla út í rými í fullri stærð, en Nýja sviðið, Kassi þeirra í Borgarleikhúsinu, látið duga.
Sjálfur segir Tyrfingur í viðtali við Morgunblaðið í aðdraganda frumsýngar Skammarævintýranna að þegar hann lærði sína leikritunariðn þótti glíman við þrönga rýmið merkilegri. Fyrir þau sem fylgst hafa með Tyrfingi springa út sem leikskáld á undanförnum árum kemur ekkert á óvart að óstýrlátt ímyndunarafl hans njóti sín í víðernunum. Og svo hitt: ef honum er sagt að eitthvað sé fínt er hann skálda líklegastur til að halda í þveröfuga átt.
Það vottar heldur ekki fyrir neinum hátíðleika eða rembingi í Sjö ævintýrum um skömm. Það er frekar að afþreyingarlágkúra streymisveitnanna svífi yfir vötnum lengi vel. Sem betur fer. Lögreglukonan Agla, sem brotið hefur brýr að baki sér, brýst inn á viðtalsherbergi geðlæknis og heimtar lyf sem slævi hana og svæfi svo hún nái stjórn á óstýrlátum huga sínum og koma megi í veg fyrir að hún drepi sambýliskonu sína. Læknirinn  á sér drauma um að brjóta blað í sínum fræðum með byltingarkenndri meðferð og tekst að fresta lyfjainntökunni meðan hann grefst fyrir um rætur vanlíðanar hennar með aðferðinni, sem felst í að rifja upp fortíðina í formi, eða undir yfirskini, „ævintýra“.
Tónninn í þessum inngangssenum er anarkískur, meinfyndinn og undirbyggður af allskyns dægurmenningarklisjum um heimskar og/eða tilfinningalega heftar löggur, drykkfellda og útbrunna geðlækna og, þegar við komumst aðeins lengra inn í ævintýrið um Öglu, samfélagsmiðlaverur með sjálfhverfu á lokastigi og tilfinningalega fjarlæga foreldra, að ógleymdum kanamellunum. Undir og innan um fáránleikann er síðan áfallasaga Öglu, kunnugleg harmsaga um arfinn sem vanræksla, svik og neysla skilar milli kynslóða. Ef þetta væri sálfræðilegt raunsæisdrama væri þetta leikritið um Eddu, dóttur kanamellunnar og móður Öglu, sem ung þurfti að brynja sig gegn tilfinningum og horfir ráðalaus á dóttur sína ganga glötunarbrautina. 
En Sjö ævintýri um skömm er ekki sálfræðilegt raunsæisdrama. Í síðari hlutanum reynir verkið að nálgast þá hefð, en missir um leið nokkur flugið og tak sitt á allavega þessum áhorfanda. Senurnar lengjast og það kemur í ljós að samspil Öglu og geðlæknisins sem heldur fyrri hlutanum á teinunum er mikilvægara en blasti við þar, í ofgnótt lita og dýrðlegs glóruleysis. Leiklausnirnar undir lokin verða ansi hreint klisjulegar, og jafnvægið milli háðs og einlægni sem mér hefur þótt eitt af helstu vopnum Tyrfings raskast nokkuð. Meðan allt leikur í lyndi eru ævintýrin bráðskemmtileg og ekki síður bitastæð afurð. Framan af er reyndar eins og verið sé að leggja upp með nokkuð hreinræktaðan farsa, en hann afvegaleiðist sem betur fer fljótlega.  
Allur blær úrvinnslunnar er skemmtilega hrár og kæruleysislegur. Það birtist í leikmynd Barkar Jónssonar, sem virkar ódýr og vísvitandi ósmekkleg, og ekki bara í kitsuðu sæluríki kanamellanna í Flórída. Það endurspeglast heldur betur í búningum Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur, ekki síst í hroðalegum, og hroðalega fyndnum, nektarklæðunum sem áhorfendur þurfa að sætta sig við að hafa fyrir augunum hvað eftir annað. Og það setur svip sinn á leikstílinn í vinnu Stefáns Jónssonar með leikhópnum. Það er nettur sápuóperublær á framgöngu leikhópsins og fer oftast vel á því, þó síðari hlutinn gjaldi nokkuð fyrir að þá er varla innistæða fyrir alvöru innlifun. Það þyrfti líka að tala alvarlega við hópinn um framsögn og raddbeitingu. Maður vill helst ekki missa af snjallyrðunum sem Tyrfingur er óspar á.
Ilmur Kristjánsdóttir nýtur sín vel í þessum stílheimi og bindur sýninguna saman í hlutverki Öglu og Hilmir Snær Guðnason fer á kostum sem hinn ónefndi geðlæknir. Þá er ókindin Malla amma aldeilis í öruggum höndum Ólafíu Hrannar Jónsdóttur og Kristín Þóra Haraldsdóttir lætur engum staðalmyndasteini óvelt við að búa til hina veruleikafirrtu unnustu Öglu. Foreldrar Öglu eru túlkuð af Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur og Eggert Þorleifssyni sem hafa oft fengið bitastæðari verkefni en skila sínu með sóma, og eru fyrirsjáanlega morðfyndin í fyrstu ævintýrasenunni þar sem gróteskan ríkir ein. Í fylgdarliði ömmu Möllu eru Kristbjörg Kjeld, Elva Ósk Ólafsdóttir, Edda Arnljótsdóttir og Vincent Kári van der Valk og er prýði af þeim öllum. Edda og Vincent eru síðan sérlega fyndin í litlum hlutverkum lögregluþjóna sem eiga að tjónka við Öglu en ferst það ekki nema hæfilega vel úr hendi.
Það er aldrei auðvelt að ráða í það hvert Tyrfingur Tyrfingsson er nákvæmlega að fara með verkum sínum. Til þess eru ólíkindin of mikil, hvatinn til að ögra, hneyksla og afvegaleiða of ríkur þáttur. Það er erfitt að trúa því að hin ódýru og dálítið einfeldningslegu leikslok í Sjö ævintýrum um skömm séu í fúlustu alvöru það sem hann vildi sagt hafa. Hitt er alveg ljóst, og alltaf jafn gaman að vera vitni að: eins og allir góðir skaparar horfir Tyrfingur með velþóknun á fólkið sem hann hefur komið í heiminn, sama hversu brotið, gallað og mögulega óþolandi það kemur okkur hinum fyrir sjónir. Frá þeim sjónarhóli eru Sjö ævintýri um skömm meðferð sem gæti gert hverjum gesti gott. 

miðvikudagur, apríl 06, 2022

Ást og upplýsingar

Eftir Caryl Churchill. Íslensk þýðing: Auður Ava Ólafsdóttir. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd: Daniel Angermayr. Búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Hljóðhönnun: Kristinn Gauti Einarsson. Tónlist: Markéta Irglová og Sturla Mio Þórisson. Leikarar: Almar Blær Sigurjónsson, Baldur Trausti Hreinsson, Björn Thors, Ebba Katrín Finnsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Nína Dögg Filippusdóttir og Ragnheiður K. Steindórsdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 25. mars 2022.

Leikskáld ársins

Hin löngu tímabæra athygli sem stóru leikhús okkar Íslendinga sýna nú verkum Caryl Churchill hefur hingað til heppnast fullkomlega. Tvö gerólík verk frá síðasta skeiði hins langa og viðburðaríka ferils merkasta núlifandi leikskálds Breta hafa birst á fjölunum á leikárinu. Tvær gerólíkar sýningar sem báðar miðla efni sínu með listfengi og í fullu trausti á efniviðnum, og uppskera ríkulega.
Traustið er gagnkvæmt, sérstaklega í tilfelli Ástar og upplýsinga. Þar leggur hin síleitandi Churchill meiri ábyrgð á herðar leikstjóra og leikhóps en almennt tíðkast. Ábyrgð í formi frelsis. Verkið samanstendur af sjö hlutum og aukaefni sem má hafa með eða sleppa. Í hverjum hluta eru nokkur stutt, að því er virðist ótengd, atriði. „Sketsar“ er ekki óviðeigandi lýsing, þó þeim sé ekki öllum ætlað að vekja hlátur. Þá má leika í hvaða röð sem vera skal, engin nöfn eða fyrirmæli um kyn eða önnur einkenni eru gefin upp í handriti. Fjöldi leikenda er jafnframt frjáls, og höfundur gefur ekki til kynna fjölda persóna í hverju atriði, þó flest virðist þau við fyrstu sýn vera tveggja persóna tal. 
Ást og upplýsingar heitir verkið, en það er síðara orðið sem gefur til kynna þemað í innihaldi textans. Hér er samankomið ógrynni örverka sem rannsaka hinar ýmsu hliðar þess, bölvun og blessun, að vita og vita ekki, frá hinu fáfengilegasta (Hver er uppáhaldslykt átrúnaðargoðsins? Hvað heitir minnsta þorpið í Mið-Asíu?), til þess dýpsta (Er röddin sem þú heyrir innra með þér rödd Guðs?) og þess sem við þurfum öll að vita (Getur glæpamaðurinn komist að því að það var ég sem kom upp um hann?  Elskar hann/hún mig í alvörunni?). 
Hvert atriði frábærlega formað af meistara listarinnar að komast að kjarna málsins á mettíma. Sum morðfyndin, önnur harmræn, mörg sem gefa færi á að stilla af fyndni og harm, eða miðla hvorutveggja í senn. 
Úrvinnsla Unu Þorleifsdóttur og samverkafólks hennar er heilt yfir afbragð. Þýðing Auðar Övu Ólafsdóttur er lipur og hárrétt er sú ákvörðun að staðfæra þessi sammannlegu augnablik. Umgjörð Daniels Angemayrs (leikmynd), Jóhanns Bjarna Pálmasonar (lýsing) og Markétu Irglová og Sturlu Mio Þórissonar (tónlist) er stílhrein, fáguð og tranar sér hvergi fram. Búningar Evu Signýjar Berger er sá þáttur hönnunarinnar sem hefur sterkastan svip og eru sérlega smekklegir og gangverkið í fataskiptunum töfrum líkast. 
Þó atriðin séu meistaraverk er mikið verk óunnið við túlkun þeirra og ekki síður við að skapa þeim umgjörð og gangverk sem heldur utan um þau án þess að kæfa hvert og eitt. Túlkunarsvigrúmið er mikið í svona svipmyndum, þar sem ekkert tillit þarf að taka til samhengis, þess sem áður hefur gerst eða á eftir að henda. Taka má dæmi af atriðinu þar sem ein persóna segir annarri frá framhjáhaldi, sem hin segist hafa vitað um árum saman. Eru þær að segja satt? Er framhjáhaldið staðreynd, og er vitneskjan kannski bara uppdiktuð í sjálfsvarnarskyni?  Leikendur og leikstjóri hafa alla möguleika opna. Í einu áhrifamesta atriði sýningarinnar kviknar líf innra með persónu sem virðist út úr heiminum þegar hún heyrir The Long and Winding Road spilað á píanó og byrjar hægt og rólega að syngja með. Í handrit segir: „Hann sest niður og spilar af kunnáttu og JENNÝ syngur. Hann stendur upp.“ Annað er það nú ekki. 
Öll úrvinnsla einstakra atriða og flæðið í sýningunni sem heild einkennist af öryggi og sannfæringu sem skapar trausta heild úr sundurleitu efninu. Vera kann að Una velji oftast augljósu, „öruggu“ túlkunarleiðina, hægt er að ímynda sér meiri núning texta og túlkunar. En áhrifin eru engu að síður ótvíræð.
Leikhópur sýningarinnar er frábærlega skipaður. Allt saman fólk sem ræður við að komast beint að kjarna málsins, jafnvígt á skop og harm. Öll eiga þau glansnúmer. Almar Blær Sigurjónsson og Nína Dögg Filippusdóttir eru dásamlegir ástfangnir geimfarar að ráða drauma þannig að útkoman verði þeim hagfelld. Ragnheiður K. Steindórsdóttir er skemmtilega kaldhæðinn sálfræðingur að kljást við (rang)hugmyndir skjólstæðings um raddirnar í höfði hennar. Ebba Katrín Finnsdóttir og Katrín Halldóra Sigurðardóttir eiga frábæran samleik í nistandi atriði um fjölskylduleyndarmál, að ógleymdu ótrúlegu minnis-afreki Ebbu sem tryllti salinn. Björn Thors og Hilmar Guðjónsson morðfyndnir í atriði um forna minnistækni og Baldur Trausti finnur allan harminn í örlögum mannsins sem þekkir ekki lengur eiginkonu sína og hryllir við tilhugsunina um snertingu hennar.
Ást og upplýsingar er dæmasafn um merkingu, tilgang, útmörk skynjunar, minnis og möguleika á raunverulegri nánd. Tilfinningalegt, heimspekilegt, flippað og skáldlegt. Allt sett fram af léttleika, hugkvæmni og á köflum tærri snilld, sem á líka við um úrvinnslu Unu og hennar fólks. Sérlega ánægjuleg kvöldstund í leikhúsi að gera það sem það gerir best.







sunnudagur, apríl 03, 2022

Framúrskarandi vinkona



Eftir Elenu Ferrante. Leikgerð: April de Angelis. Íslensk þýðing: Salka Guðmundsdóttir. Leikstjórn: Yaël Farber. Dramatúrg: Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Valgeir Sigurðsson. Hljóðmynd: Valgeir Sigurðsson, Aron Þór Arnarsson og Valgerður Guðnadóttir. Sviðshreyfingar: Emily Terndrup og Conor Doyle. Leikarar: Unnur Ösp Stefánsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Eldey Erla Hauksdóttir, Hulda Gissurardóttir Flóvenz, Eva Jáuregui, Ronja Pétursdóttir, Harpa Arnardóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Arinbjarnardóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Hákon Jóhannesson, Elva Ósk Ólafsdóttir, Pálmi Gestsson, Atli Rafn Sigurðarson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Stefán Hallur Stefánsson, Bjarni Snæbjörnsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Hilmir Jensson, Snorri Engilbertsson, Birgitta Birgisdóttir, Valgerður Guðnadóttir, Oddur Júlíusson, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson og Sigurbjartur Sturla Atlason. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 5. mars 2022.

Aldrei fór ég norður

Loksins tókst að frumsýna hina margfrestuðu stórsýningu Þjóðleikhússins á leikgerð April de Angelis á Napólíkvartett Elenu Ferrante í leikstjórn Yaël Farber, eins af stærri erlendu nöfnunum sem hafa sviðsett verk á Íslandi hin síðari ár. 
Stórsýning er réttnefni: ég man ekki eftir jafn stórum leikhópi í sýningu sem ekki er söngleikur, bróðurpartur leikhóps Þjóðleikhússins tekur þátt, stórstjörnur í nánast þöglum smáhlutverkum. Vel á fimmta tíma líður áður en áhorfendur snúa heim úr þessari skoðunarferð um fátækrarhverfi í Napólí með stuttum innlitum á háskólaborgaraheimili á Norður-Ítalíu og tvær snöggar en afdrifaríkar heimsóknir í strandparadísina Ischia. 
Eðlilega: fjórleikur Ferrante fjallar ekki hvað síst um miskunnarlausan aðdráttarkraft upprunans. Hina römmu taug sem dregur jafnvel einörðustu rekka – og drósir – föður- og móðurtúna til. Lila og Lenù eru efnilegustu dætur fátækrahverfisins en hvorki ótemjandi snilligáfa þeirrar fyrrnefndu eða þrjósk ástundun hinnar duga til að slíta böndin og öðlast fullt frelsi. Grimmt og rótgróið feðraveldið í sinni sjúkustu mynd hjálpar auðvitað ekki til, hvað þá krabbamein glæpaveldis Comorrunnar og fasismans sem aldrei var í alvöru upprættur. 
En þrátt fyrir hina breiðu mynd, alla þættina af einkennilegum Ítölum, allan tíðarandann og sögulega bakgrunninn, er það í nærmyndinni sem bækurnar blómstra. Í nákvæmri, frumlegri og sálfræðilega sannfærandi kortlagningu Ferrante á þróunarsögu sambands Lilu og Lenù. Vináttan, samsvörunin, samkeppnin, speglunin, þroskinn, reynslan og svikin sem teygja á tengslunum en slíta þau aldrei. Það er þeirra vegna sem við héldum áfram að lesa, allar sautjánhundruð síðurnar.
Hvernig verður þessu viðamikla efni miðlað á einu leikhúskvöldi, þó langt sé? Það er nokkuð ljóst af sýningu Þjóðleikhússins að það er enginn hægðarleikur. Útkoman hefur vissulega slagkraftinn sem hlýst af því þegar leikhúsið beitir meðölum sínum, tæknilegum, mannauðslegum og listrænum, af fullu afli. En megnar þrátt fyrir það ekki að snerta djúpt, eða svara skýrt spurningunni sem alltaf á við um verkefnaval og leikgerðir skáldsagna sérstaklega: Hvað hefur leikhúsið sem miðill og listgrein til málanna að leggja um efnið?
Ekki margt, kemur í ljós. Þó alþjóðlegar vinsældir fjórleiksins séu allnokkrar þá gerir leikgerð de Angelis eðlilega ekki ráð fyrir að áhorfendur komist af án þess að söguþráðurinn sé rakinn í allnokkrum smáatriðum. Fyrir vikið er lítið svigrúm til að þrengja fókusinn eða dvelja við aðalatriðin, eða sýna djörfung í túlkun eða úrvinnslu. í samanburði við þær skáldsagnaleikgerðir sem við höfum séð undanfarin ár á stórum sviðum okkar er Framúrskarandi vinkona einkennilega gamaldags sem dramatísk smíð, og eftir því dauf. 
Það er til dæmis langt síðan sést hefur leikgerð sem er eins auðmjúk gagnvart fjórða veggnum. Við horfum á atburðina úr fjarska, og lykilatriði hverfa í allan þann sæg af atburðum, persónum, örlagasögum og smáatriðum sem þarf að halda til haga til að við höldum þræði. Þó hér sé stuðst við sögumann til að stikla yfir hluta efnisins þá er sú leiðsögukona, Lenù eldri í túlkun Guðrúnar Gísladóttur, lengst af upptekin af að tala við sjálfa sig eða tölvuskjáinn sinn. Sögumaðurinn er víst viðbót leikstjóra við leikgerð de Angelis, en erfitt er að sjá hvernig hefði mátt komast af án hennar, og jafnframt umhugsunarefni af hverju ekki var unnið markvissar með að sprengja út verkið úr því verið var að krukka í það á annað borð. Leikgerðin er líka óvenju auðmjúk gagnvart tímalínu og gangverki efniviðarins. 
Þetta stífa og stranglega raunsæislega form á sinn þátt í að halda aðalpersónunum og vegferð þeirra í óþægilega mikilli fjarlægð. En fleira kemur til. Móskuleg litapallettan í annars nytsamlega hannaðri leikmynd Ilmar Stefánsdóttur og búningum Filippíu I. Elísdóttur gerir flest sem fyrir augu ber einsleitt, og þó lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar sé dramatísk og vel virk í að móta rýmið hjálpar hún ekki við að ná sambandi við svipbrigði og þar með sálarástand og hugsanir persónanna. Annað sem truflar er að framsögn og raddbeiting hjá nánast öllum leikhópnum er óskýrari og veikari en boðlegt má teljast í Þjóðleikhúsinu. Hér hefði einhver þurft að byrsta sig og hjálpa leikstjóranum með mikilvægan þátt sem hún er illa í stakk búin að vinna með. 
Að öðru leyti er erfitt að ráða af þessari sýningu hvort hún ýti undir alþjóðlegt orðspor Yaël Farber. Það er mikill kraftur og skipulagt kaos í umferð hins þéttskipaða leikhóps um sviðið, en þegar á líður verða hópsenurnar hver annarri líkar, enda flestar með einhverskonar sameiginlegri spennulosun í formi viðbragða við einhverju dramatísku, gjarnan ofbeldi eða hótun um það, hvort sem það er byssuskot, sprenging, eða atlaga með hnefum. 
Framúrskarandi vinkona í þessum búningi er ekki vettvangur til að vinna stóra leiksigra. Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir voru sannfærandi og kröftugar sem Lila og Lenù og það sama má segja um Huldu Gissurardóttur Flóvenz og Ronju Pétursdóttur, sem léku þær á barnsaaldri á frumsýningunni, og dætur þeirra að auki. 
Nokkur náðu að glansa í smærri hlutverkum, þó í flestum þeirra dygði vel að sýna einhverja kunnuglega, takta til að ná fram tilskyldum áhrifum. Harpa Arnardóttir verður eftirminnileg sem hörkutólið móðir Lenù, og nærveran ein dugar Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur til að hafa áhrif, sem á vel við þegar illræmd okurlánadrottning er verkefnið. Atli Rafn Sigurðarson dró upp skarpa mynd af Nino, lítilmenninu sem vinkonurnar elska báðar, og Pálmi Gestsson gerir það sama fyrir jafnvel enn slepjulegri föður hans. Sveinn Ólafur Gunnarsson er góður með klaufa og létti stemminguna allnokkuð sem prófessor að reyna að sofa hjá eiginkonu sinni í fyrsta sinn.
Það er erfitt að skilja hvað dró leikhúsfólk að þessu viðfangsefni, fyrir utan kannski eilítið lítilmótlega löngun til að láta vinsælan skáldsagnabálk laða aðdáendur hans í leikhúsið. Leikgerðin og sýningin miðla af hugkvæmni og einurð ytra formi bálksins, skila söguþræði, skapa tilfinningu fyrir umhverfi, breytilegan tíðaranda og þeim aragrúa persóna sem snerta líf Lilu og Lenù þessa áratugi sem sagan spannar. Það tekst mætavel og sýningin heldur athygli allan sinn langa tíma og hreyfir kröftuglega við tilfinningunum í lokin. 
En um leið vanrækir hún það verkefni sitt að eiga gagnrýna samræðu við efnið, draga fram og setja í fókus spennandi og áhugaverða vinkla. Færa okkur nær hinum framúrskarandi og harmsögulegu vinkonum. Hún svarar ekki spurningunni um hvað leikhúsið hefur fram að færa við meðferð efnisins. Bókin er betri.