þriðjudagur, október 05, 2021

Út að borða með Ester

​​Eftir Bjarna Jónsson. Leikstjórn: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Leikarar: Guðrún S. Gísladóttir og Sigurður Sigurjónsson. Frumsýning í Leikhúskjallaranum í Þjóðleikhúsinu miðvikudaginn 22. september 2021.

Parið á næsta borði

Það er langt síðan síðast var gerð tilraun með hádegisleikhús, er það ekki? Vonandi tekst  vel til með tilraun Þjóðleikhússins í vetur. Það er í það minnsta hægt að segja að það fari vel af stað. Það lofar góðu að rýmið í kjallaranum sé sveigjanlegt, en ekki bundið við að leika á „hljómsveitarpallinum“, sem gerir engum greiða hvað varðar súlur, sjónlínur og innkomuleiðir. Að þessu sinni er leikið á stórum palli fyrir miðju með áhorfendur allt í kring og gengur vel að vinna með það form.
Efnisskráin framundan er forvitnileg, og gaman að sjá að þar ætla tvö úr leikarahópi leikhússins að spreyta sig á leikstjórn, hugsanlega í fyrsta sinn þó ég ætli nú ekki að fullyrða það hástöfum. Í þessu fyrsta hádegi er það hins vegar hinn kornungi reynslubolti Gréta Kristín Ómarsdóttir sem heldur í taumana. Tilfinningin utan frá séð er að það hafi ekki verið ýkja krefjandi verkefni, en þeim mun ánægjulegra.
Leikverk sem ekki fylla upp í heila kvöldstund eru fáséð á fjölum atvinnuleikhúsa þó formið lifi góðu lífi hjá áhugaleikfélögunum, þökk sé m.a. leikritunarnámskeiðum þar sem Bjarni Jónsson hefur ásamt fleirum leiðbeint. Absúrdleikhúsið, um og upp úr miðri síðustu öld, nýtti sér kosti stutta formsins og frelsið sem fæst í þrengri stakki, vinsæl verk af því tagi eru til að mynda að finna hjá Ionesco, Beckett og Pinter . Endurómur úr húsi fáránleikans heyrist í nánast öllum stuttverkum nútímans og svo er einnig um Út að borða með Ester. Vantraust absúrdistanna á dramatík og efasemdir um nauðsyn þess að hnýta lausa enda gengur aftur í þessari hálftíma löngu heimsókn okkar inn í líf tveggja eldri borgara í tilhugalífinu.
Eða eru þau á þeim buxunum? Kannski sum þeirra, það er einn af spennugjöfum verksins hvað Hauk langar mikið að komast upp á milli Esterar og framliðins eiginmanns hennar. Annar, sem er kannski frekar gleðigjafi en spennu-, er hvað þeim Hauki og Ester hefur gengið vel að verða gömul hjón, með öllum þeim samstillingar- og núningsáhrifum sem svoleiðis samlífi ber með sér, án þess að vera slík hjón, eða hafa endilega þekkst mjög lengi. 
Og þá má spyrja: af hverju reynist þessi mótsagnakennda staða ekki galli á verki Bjarna Jónssonar, og sýningunni í Þjóðleikhúskjallaranum þegar til kastanna kemur? Það má tefla fram tveimur skýringum. 
Önnur er arfur úr absúrdleikhúsinu; órökvísi og óræðni getur vel verið listræn ákvörðun í þeirri hefð frekar en höfundaglöp. Það sama má segja um það stílbragð að leika tveimur skjöldum um hvort fjórði veggurinn umlyki persónurnar eða ekki, eins og Bjarni leikur sér mjög skemmtilega með hér. 
Hin er aldeilis framúrskarandi frammistaða reynsluboltanna á sviðinu. Það er hreinn unaður að horfa úr návígi á þennan dans Guðrúnar Gísladóttur og Sigurðar Sigurjónssonar. Eftir á að hyggja er engin leið að tilgreina hvað kveikti hin tíðu hlátrarsköll í kjallaranum. Sýningin er ekki keyrð áfram á orðaleikjum, hnyttiyrðum eða farsabrellum svo böndin berast að algeru öryggi flytjendanna. Þetta er fyndið af því að það er satt, er stundum sagt og það er upplifunin af þessum fyrstu og einu kynnum af Ester og Hauki. Og það er einmitt áreynslulaus og afslöppuð fimi Guðrúnar og Sigurðar sem sannfæra okkur um að allt sé satt.
Gulu tónarnir í búningum Evu Signýjar Berger gerðu svo sitt til að létta brúnina á bæði leikurum og áhorfendum. Heilt yfir alveg hin prýðilegasta hádegisstund hjá gestum Þjóðleikhússkjallarans, þó allt sé í óvissu með framtíðina hjá Hauki og Ester.